42 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
þriðjudagur 7. apríl 2020 // 15. tbl. // 41. árg.
VÍKURFRÉTTIR FENGU NOKKRA SUÐURNESJAMENN TIL AÐ HALDA DAGBÓK Í EINN DAG
Dagbók Sólnýjar Pálsdóttur Nú eru þrjár vikur síðan við fjölskyldan fórum nær eingöngu að ferðast innanhúss. Þessi tími hefur verið dýrmætur fyrir okkur enda vorum við oft ansi upptekin í fyrra lífi. Eftir að við vorum formlega sett í sóttkví tóku við dagar þar sem við urðum að endurskipuleggja lífið hérna heima. Yngstu strákarnir eru átta og tíu ára, orkumiklar íþróttamenn og vanir að vera á fleygiferð alla daga. Það var því mikil breyting fyrir þá að mega varla fara út úr húsi. Yngsti drengurinn er með Downs-heilkenni og átti erfitt að með skilja þetta útivistarbann en smám saman áttaði hann sig og fór að finna sér ýmislegt að gera. Það kom sér vel að hann er einstaklega hugmyndaríkur og hraustur og var því sjaldan verkefnalaus.
Það kom skemmtilega á óvart hversu stuttan tíma það tók að koma upp rútínu, heimaskóli, hádegismatur, heimaleikfimi, tölvutími og útivist seinni partinn. Á þriðja degi í sóttkví var allt komið í nokkuð fastar skorður og má segja að við höfum nokkurn veginn náð að halda þessu skipulagi dag frá degi. Heimanámið fór að miklu leyti fram við daglegar athafnir, t.d. í eldhúsinu þar sem strákarnir tóku þátt í hefðbundnum heimilisstörfum. Ég ætla þó að vera hreinskilin og viðurkenna að daglegt líf hér á heimilinu var ekki bara sól og sæla. Það reyndi á að vera saman allan sólarhringinn en einhvern veginn rúlluðum við í gegnum þetta. Við fundum fljótlega út að mikilvægast fyrir okkur var að komast út í náttúruna á hverjum degi. Við erum svo heppin að búa í Grindavík þar sem auðvelt er að finna fallega staði allt um kring og þar sem við vorum í sóttkví urðum við að velja afskekkta staði. Þeir dagar komu þegar við nenntum ekki út vegna veðurs en um leið og við vorum komin á áfangastað fundum við hvernig við fylltum
á tankinn og komum endurnærð heim. Það sem var líka gleðilegt við þessar stundir var að við tókum myndir á símann og deildum þeim á samfélagsmiðlum. Ekki eru allir svo heppnir að geta farið út í náttúruna og horft á hafið og himininn eða skroppið á strönd og út í skóg í næsta nágrenni. Það var líka notalegt að fá skilaboð og viðbrögð við myndum og finna að þótt við værum í sóttkví voru margir með okkur í anda. Þessar tvær vikur voru fljótar að líða enda vorum við