Víkurfréttir 15. tbl. 41. árg.

Page 36

þriðjudagur 7. apríl 2020 // 15. tbl. // 41. árg.

36 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR

VÍKURFRÉTTIR FENGU NOKKRA SUÐURNESJAMENN TIL AÐ HALDA DAGBÓK Í EINN DAG

Dagbók Palla Bjöss Þetta eru svo sannarlega skrýtnir tímar sem við lifum þessa dagana svo ekki sé nú meira sagt. Aldrei hefur maður upplifað annað eins rask á hinu daglega lífi eins og þessar síðustu vikur og manni líður eins og maður sé staddur í einhverri vísindaskáldsögu eftir Jules Verne – en svo er nú ekki og því er ekkert fyrir mann að gera nema aðlaga sig að þessum óvenjulegu aðstæðum. Þennan daginn fór ég á fætur um kukkan 7:30 en fótaaferðartíminn hefur breyst eins og allt annað, fékk mér mitt hefðbundna bulletproof kaffi, leit til veðurs og renndi yfir fréttir dagsins.

Eins og hjá öðrum framhaldskólum var hinu hefðbundna skólastarfi ýtt hliðar, nemendur sendir heim og okkur kennurum gefnar frjálsar hendur með það hvort við vildum vinna heima eða í skólanum. Ég valdi að vera meira heima og því fara morgnarnir í undirbúning fyrir verkefni dagsins og bjó ég mig undir daglegan starfsmannafund sem við starfsmenn skólans eigum ásamt skólastjóra klukkan 11. Þar förum við yfir stöðuna og leggjum línurnar en það er bráðnauðsynlegt að geta hitt vinnufélaga sína alla daga til að halda hinni daglegu rútínu. Eftir hádegi alla daga á ég svo fjarfund við nemendur mína um verkefnin sem þau eru að fást við á meðan þetta ástand varir en það er mjög mikilvægt að eiga þennan fund á hverjum degi til þess að halda öllum á tánum og halda tengslum. Horfði á hinn daglega blaðamannafund hinnar heilögu þrenningar klukkan 14:03 og gerði mig á meðan kláran í göngu- og hlaupatúr dagsins en ég setti mér það markmið að fara 8–13 km alla daga enda er ekkert betra fyrir and- og líkamlega heilsu en að fara út í náttúruna og hreyfa sig. Hér hjá okkur

Grindvíkingum eru möguleikar til útivistar óþrjótandi og þeir eru nýttir til hins ýtrasta þessa dagana. Ég sleppi því aldrei að fara með ströndinni og um höfnina sem er lífæð okkar Grindvíkinga og að sjá bátana okkar sigla örugga í höfn með fulla lest af fiski vekur alltaf hjá mér sömu gleðitilfinninguna. Eftir hreyfingu dagsins fer ég svo í kalda og heita pottinn á pallinum mínum en það er algerlega frábært og er maður alveg endurnærður á eftir.

Við hjónin fengum þær leiðinlegu fréttir í vikunni að sonur okkar og tengdadóttir væru sýkt af COVID-19 veirunni og þar sem að við höfðum hitt þau nokkrum dögum fyrr þurftum við að fara í sóttkví. Þau eru sem betur fer ekki mikið veik. Þessu tókum við af æðruleysi enda ekki annað í boði, við hlýðum Víði og þeim hinum eins og flestir aðrir og maður þakkar fyrir blessaða tæknina sem gerir okkur kleyft að vera í sambandi við okkar nánustu alla daga. Þetta ástand reynir þó á

því ekkert er verra en að fá ekki að knúsa afa- og ömmustrákana sína á hverjum degi en huggunin samt sú að þetta mun vara stutt. Svona líða nú dagarnir hjá mér og sem bæjarfulltrúi í aukastarfi hugsa ég mikið um hvernig samfélaginu muni reiða af í þessum mikla ólgusjó. Þetta er enn eitt reiðarslagið sem ríður yfir Suðurnes því ég held að ég sé ekki að halla á neinn þegar ég segi að enginn landhluti verði fyrir eins miklu höggi og Suðurnesin. Vonandi munu þessar hörmungar leiða til þess að leggjum meiri áherslu á að styrkja alla grunnþjónustu sem er okkur svo mikilvæg og eins að við leggjum enn meiri áherslu á samvinnu, samheldni og samkennd í framtíðinni. Þannig náum við að rísa sterkari upp aftur hér suður með sjó og halda áfram að byggja upp og bæta okkar góðu bæjarfélög.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Víkurfréttir 15. tbl. 41. árg. by Víkurfréttir ehf - Issuu