
1 minute read
Matgæðingur Mannlífs — Sigríður Pétursdóttir hjá Purely Sigga
Pasta Bolognese
— pjúra Sigga
Advertisement
Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur hefur ætíð verið óforbetranlegur sælkeri. Veit fátt skemmtilegra en að borða og hefur gaman af eldamennsku og bakstri. Heilsunnar vegna þurfti hún hins vegar fyrir nokkrum árum að hætta að borða margt af því sem hún var vön, en þrjóskaðist við að vera sælkeri áfram. Síðan þá hefur hún þróað vegan-, sykur- og glútenlausar uppskriftir, sem henta henni og kitla bragðlaukana. Fyrir hálfu ári opnaði hún vefsíðu með Sæluréttum Siggu, PurelySigga.com/is.
Aðspurð segist Sigríður hafa haldið að hún væri að brasa þetta fyrir lítinn hóp fólks með mataróþol og bólgur í líkamanum, þannig að vinsældirnar hafi komið henni algjörlega í opna skjöldu. Þeir sem hafa áhuga á að minnka sykur eða bæta meira grænmeti í fæðuna eru líka hrifnir af uppskriftunum, en fyrst og fremst vona ég bara að réttirnir gleðji bragðlauka fólks á öllum aldri. Uppskriftin sem hún valdi fyrir okkur er Pasta Bolognese, sem hvorki inniheldur kjöt né glúten.

400 g sojahakk 1-2 stk. laukur 4-6 hvítlauksrif 1 og 1/2 rauður chili 2 dósir saxaðir, lífrænir tómatar 2 msk. tómatþykkni, lífrænt 1 tsk. oreganó 1 tsk. ítalskt krydd frá Kryddhúsinu 1 tsk. chili-flögur 1 lúka fersk basilíka salt og svartur pipar 1/2 bolli vatn (eða rauðvín) olía til steikingar
Aðferð
Hreinsið og saxið lauk, hvítlauk, chili og basilíku. Skiljið eftir nokkur lauf af basilíkunni til að skreyta.
Steikið lauk, hvítlauk og chili um stund á heitri pönnu og þegar það hefur aðeins tekið lit er hakkinu blandað saman við og brúnað áfram. Það brúnast ekki jafn vel g kjöthakk, en það gerir ekkert til.
Kryddið sett saman við og blandan látin steikjast aðeins meira áður en tómatþykkni, tómatar og vatn fara út í.
Allt látið malla í u.þ.b. 20 mínútur.
Nú orðið eru til margar gerðir af glútenlausu pasta, þið notið bara það sem ykkur finnst best. Pasta sem er búið til úr hrísgrjónum (brown rice pasta) er líkast þessu hefðbundna. Mér finnst sumar tegundir af pasta úr kjúklingabaunamjöli gott líka, sem og úr kínóa.
Gott að rífa vegan-parmesan yfir.