23 minute read

Um trommusöng Ivitaqs og það þegar

„Herra, gef mér einnig styrk í þetta“ og svo þaut hann upp í fjall að kasta steinum í höfuðið á sér. Hann veit áreiðanlega ekkert um þetta, heldurðu það, Sam frændi?“ Ég færði mig nær honum. „Þegar ég spurði Pétur, sagði hann að þú værir einn af þeim sem allt vissu. Hann sagði að þú gætir útskýrt jómfrúarfæðingu fyrir mér, ef um slíkt væri að ræða. Hvað er eiginlega móðir?“

Sam stundi þungan. „Jæja, sagði Pétur það? Sagði hann það í raun og veru? Þá verð ég víst að reyna.“ Hann lagði handlegg um axlir mér og þrýsti mér að sér. „Sjáðu til, pjakkur litli. Við mannfólkið erum ekki eins frábrugðnir öðrum spendýrum og við sjálfir viljum vera láta. Ef út í það er farið, erum við heldur ekki nema tvö skref frá trjám frumskógarins. Þú hefur áreiðanlega séð hvernig Angut stekkur stundum á Qaqataq, ekki satt?“ Angut og Qaqataq voru tveir af sleðahundunum okkar og voru oft leidd saman vegna gæða afkvæma þeirra. „Þau eru bara að leika sér,“ sagði ég, „það segir Pétur. Aviaja segir að þau séu að hlæja saman. Það er sennilega eins og þegar ég stekk höfrung yfir Lilla Johnson.“

Sam frændi tók handlegginn af öxlum mér og tók að fægja gleraugun sín. Ég settist á hækjur fyrir framan hann og hélt áfram sigri hrósandi. „En ég er bara miklu duglegri en Angut. Hann bara stendur bakvið Qaqataq og kemst ekki yfir hana. Ég kemst yfir Lilla Johnson í hvert sinn, líka þegar hann er með bein hné.“

Sam frændi hristi höfuðið. „Það getur vissulega líkst höfrungahlaupinu þínu, en þó er það ekki fullkomlega það sama. Sjáðu til, hundarnir hafa ekki áhuga á að komast yfir og það hefur fullorðna fólkið reyndar ekki heldur, ef út í það er farið. Ef þú fylgist vel með Angut og Qaqataq næst þegar þau stökkva hvort á annað, tekur vandlega eftir því sem gerist og hvað það er í raun og veru sem þau eru að gera og ef þú telur svo dagana þar til Qaqataq gýtur hvolpum,

10 | HÚS FEÐRA MINNA I

Angut og Qaqatag Mynd: Jörn Riel

þá skilur þú hvernig á því stóð að Pétur og Jóbald eignuðust þig með móður þinni.“ „Nú, þannig,“ sagði ég lítið eitt vonsvikinn. „Það vissi ég vel. Þá hafa Pétur og Jóbald stokkið höfrung yfir sömu tíkina á þennan sérstaka hátt og stuttu síðar kom ég út úr henni þar sem hún pissar líka.“ „Á vissan hátt, drengur minn, var það einhvern veginn þannig.“ „Hvar er þá tíkin núna; þessi sem varð móðir mín?“ spurði ég. „Tja, það var þannig að hún fór í burtu með ungum manni, náunga sem hún vildi heldur … stökkva höfrung með.“ „En Sam frændi, heldurðu að hún eignist enn hvolpa?“

HÚS FEÐRA MINNA I | 11

„Örugglega, vinur minn, örugglega. Hún er ennþá ung kona.“ Sam frændi svitnaði þótt kvöldið væri fremur svalt. „Hefur þú stokkið höfrung, Sam frændi?“ „Tja, já, það hef ég vissulega. En nú eru mörg ár síðan.“ „Ég gæti líka vel hugsað mér að prófa það,“ sagði ég.

Við sátum og horfðum út á ána. Fötin börðust um í straumnum og línan var svo strekkt að ég gat náð fram tónum með því að slá á hana með fingrunum. Kvöldsólin skreið eftir fjallstoppunum og frá firðinum heyrðust snarpir hvellir frá ís sem brotnaði á flóðinu. „Sam frændi,“ hvíslaði ég. „Gat móðir mín spýtt langspýting?“ „Hún tuggði ekki skro, að mig minnir.“ „En gat hún það?“ „Það held ég ekki.“ „Það getur Aviaja,“ fullvissaði ég hann um, hamingjusamur.

Ísjakar við Fynesfjörðin Mynd: Jörn Riel

12 | HÚS FEÐRA MINNA I

II Pétur og húsið hans

Á lyngiklæddum skika, hundrað metra frá ánni og við rætur fjallsins sem kallað var Ungfrú Mollý af því enginn hafði áhuga á að komast upp á það, stóð húsið.

Þetta var gott hús. Hús með fagra rödd og angaði af einlægni. Það var hlýtt og þurrt, friðarins hús; musteri ástar og vináttu, hús sameinaðra þjóða, eða öllu heldur sameiningarhús þjóðanna; hús Bakkusar, dómshús, stjórnarsetur, hús visku og alls kyns lista, veiðihús, hús Herrans, hús Péturs og hús félaganna; en upphaflega var það þó hús Patreks sáluga McHuges.

Patrekur McHuges var þunglyndur maður frá Downty City, bænum sem á árum áður hafði verið framvörður siðmenningarinnar í norðri. Af ástæðum sem nú eru löngu komnar í glatkistuna neyddist McHuges til að yfirstíga þau mörk sem armur laganna náði til. Þegar hann, í leit sinni að veiðisvæðum, náði til dalsins við Fynesfjörðinn, gekk gegnum Gæsaskarðið og stóð loks við rætur Ungfrú Mollýar, opinberaði náttúran sig fyrir honum í skrauti sem hann skildi ekki, en sem hann fann fyrir í djúpi sálarinnar; djúpi sem hann hafði ekki tekið eftir áður. Hann kreisti aftur augun til að fá fegurðaráhrifin í smáskömmtum. Sólglitrandi vatnið með fjólubláum ísjökunum, lyngiþakin slétta mót austri, bylgjandi valmúabreiðan sem huldi landið umhverfis smávötnin fimm og áin sem hlykkjaðist í sumarleti

HÚS FEÐRA MINNA I | 13

gegnum sólbrúnt lyngið. Patrekur McHuges fann hvernig þessi yfirþyrmandi fegurð opnaði þunglyndan huga hans og vakti með honum tilfinningu sem var eins skýr og vinsamleg og ef hann hefði drukkið hálfa flösku af viskíi. Þð hlaut að vera vilji skaparans að hér yrði numið land.

McHuges sneri aftur til Downty, þar sem hann umbreytti í kyrrþey sínum fáu eigum í birgðir, verkfæri og fagurlega útbúið bruggtæki. Hann kvaddi góða vini og hélt fullur eftirvæntingar áleiðis til Ungfrú Mollýar og Fynesfjarðarins. Auk dráttarkerru með margvíslegum varningi hafði hann meðferðis fjóra áhugaverða hunda (af ólíkum kynstofni, því þeir voru fjarlægðir af götum Downty í flýti), Remington bakhlæðu með hana, ásamt konu nokkurri.

Hann átti hamingjurík ár á heimskautasvæðunum. Hann elskaði hundana sína, húsið sem hann byggði sjálfur og drykkinn sem dag og nótt draup reglubundið eins og tif í klukku niður í geymi bruggtækisins. Konan hans var sterk, brún og ástríðufull.

Patrekur McHuges dó árið 1897. Lifur hans var ekki sterk. Konan, sem erfði stórkostlegar birgðir hans af heimabrugguðu viskíi, fylgdi honum nokkrum mánuðum síðar. Það var ekkert að lifrinni í henni; hún kunni sér einfaldlega ekki hóf.

Veiðimennirnir sem bjuggu í nágrenninu gófu hina dauðu, skiptu með sér flöskubirgðum heimilisins, förguðu einstæðum hundum McHuges og negldu vandlega fyrir glugga og dyr. Þannig stóð húsið í myndrænni hrörnun þar til það var á ný tekið til íbúðar 1915.

„Mikið djöfull er þetta flott!“

Pétur kom frá Dauðsmannsflóa yfir Willsonhæðirnar og niður gegnum hið þrönga Gæsaskarð. Þegar hann stóð á litla lyngiklædda skikanum milli árinnar og hússins, fór nákvæmlega eins fyrir honum

14 | HÚS FEÐRA MINNA I

og fyrir McHuges á sínum tíma. Blóðið jók ferðina í æðunum og hann fékk tilfinningu í hálsinn sem gerði það að verkum að hann langaði bæði til að hlæja og gráta. Innra með Pétri fæddist ómótstæðileg þörf til að segja eitthvað vel viðeigandi og eftir að hann hafði hugsað sig lengi um, lýsti hann tilfinningum sínum með: „Mikið djöfull er þetta flott!“

Pétur nam sér land. Þar sem húsið hafði eftir öllum sólarmerkjum að dæma staðið ónotað í mörg ár, bjó hann þar um sig áhyggjulaus. Veiðimennirnir á svæðunum í kring, en sumir þeirra höfðu tekið þátt í að loka stöð McHuges, viðurkenndu Pétur fljótlega. Þeir komust að því, að ýmislegt var líkt með fyrrverandi og núverandi eiganda, til dæmis ást á hundum, veiðum, heimabruggi og konum. Auk þess var Pétur ævinlega reiðubúinn að verja rétt sinn til staðarins með einstaklega sannfærandi rökum.

Þegar hlerarnir höfðu verið teknir frá og reykháfurinn sendi

Wilsonhæðir Ljósmynd: Óþekkt

HÚS FEÐRA MINNA I | 15

frá sér reyk til himins á nýjan leik, fóru eskimóar og blóðblandaðir veiðimenn að streyma til hússins. Pétur tók hjartanlega á móti þeim og veitti þeim ríkulega. Þessir mörgu vinir færðu húsinu konur sem hlóðu Pétur með rausnarskap kynþáttar síns. Konurnar áttu sér samastað í húsinu samkvæmt flóknum reglum um þarfir og kringumstæður.

Fyrsti áratugurinn var einnig tími ferðalaga hjá Pétri. Með húsið sem miðpunkt flæktist hann víða um auðnina, stundum með netsilikkum, stundum með baffínum en ekki síst með Odoniarssuaq, sem síðar verður sagt frá.

Það var ekki fyrr en á þriðja áratugnum að áhugi Péturs á löngum sleðaferðum og töfrandi kvennamálum dvínaði. Það kallaði fram táraflóð hjá glaðværum stúlkunum og var slíkt áfall fyrir Odoniarssuaq að hann fluttist inn á hreindýraslóðirnar og tók á nýjan leik upp flökkulífið með ættflokki sínum.

Pétur hafði þegar þetta var eignast vini sem sest höfðu að í húsinu. Trygga vini sem hann gat deilt með margvíslegri gleði hversdagslífsins. Pétur var elstur og fyrir því báru menn enn meiri virðingu.

Vinir Péturs voru þeir Gilbert, Jóbald, Samúel og Lilli Johnson. Aðrir eins vinir fundust ekki í þessum hluta heimsins. Auk þess bættist ég við þennan litla sambýlishóp um miðjan þriðja áratuginn og stuttu síðar eskimóakonan Aviaja.

Hér á eftir mun ég gera grein fyrir frændum mínum, Gill, Lilla Johnson og Samúel.

16 | HÚS FEÐRA MINNA I

III Um Gill frænda, Lilla Johnson og Sam

Af frændum mínum þremur var Gilbert örugglega sá tilfinninganæmasti. Hann var draumóramaður og færði drauma sína í búning tónlistar og ljóða. Þegar ég til dæmis hafði einu sinni spurt hann um tilurð mína, hafði hann fest augu sín á himninum og svarað sterkum rómi:

Enn ófæddur, enn aðeins bruni í lendum, enn aðeins faðmlag, skjálfti, baugur, glóð! Enn aðeins mjöður losta. – svar sem vitanlega hljómaði vel, en sem hafði nákvæmlega enga þýðingu fyrir mig. Raunar gekk Gill frænda betur í síðrómantískum stíl og það var ekki nema sjaldan sem ljóð hans voru svo nýstárleg að formi til og það sem birt er hér að ofan.

Gill frændi fæddist í San Fransisco, sonur vinnufælins slátrara sem eyddi fullorðinsárum sínum í veitingahúsinu „Káta Albatrosnum“.

HÚS FEÐRA MINNA I | 17

Móðirin var þögul, sterkbyggð kona sem skipti tíma sínum milli hreingerninga „fyrir þá fínni“ og öldrykkju með eiginmanninum í Albatrosnum. Foreldrarnir litu á soninn Gilbert sem algjöran villigróður. Hann var ein af þessum ódrepandi villijurtum sem náttúran lætur stundum vaxa í görðum heiðarlegs fólks og maður verður að reyna að lifa með í allri auðmýkt. Faðirinn orðaði það svo meðal vina sinna, að það væri aðeins tvennt sem plagað hefði hann í lífinu: Lekandi og Gill.

Það var afar sjaldgæft að drengurinn ræddi við foreldra sína. Gerðist það, var það með orðum og setningum sem voru þeim viðlíka torskilin og hebreska eða tunga bantúnegranna. Drengurinn lifði í draumaheimi sem byggður var forynjum, góðum álfum, óraunverulegum litum og hljóðum. Jafnvel áður en hann hafði lært að skrifa skáldaði hann langar epískar ballöður sem hann tautaði upphátt fyrir sjálfan sig. Væri hann ekki upptekinn af ljóðlist, spilaði hann á heimagerðar flautur eftir nótnakerfi sem hann hafði sjálfur byggt upp með aðstoð rúðustrikaðrar reikningsbókar og talnanna frá einum upp í tólf.

Til mikils léttis fyrir foreldra sína var hann tekinn snemma úr skóla. Faðirinn, sem eins og svo margir feður á undan honum geðjaðist engan veginn tilhneigingar drengsins til bókmennta og tónlistar og leit á skólavist sem heimskulegt dútl, fékk í gegnum sambönd sín í Albatrosnum hið merkilega barn sitt ráðið í niðursuðuverksmiðju, sem framleiddi hádegisverði fyrir hermennina á vígvöllum Evrópu.

Gill, sem náttúran hafði gætt vingjarnlegri og meðfærilegri lund, sætti sig þolinmóður við örlög sín og hann annaðist gúllaskanónu sína með svipuðum metnaði og aðrir ungir Ameríkanar önnuðust vopn sín í ókunnugum löndum. Frístundunum eyddi hann með foreldrum sínum í Albatrosnum, þar sem hann spilaði fyrir drykki handa fjölskyldunni á vanstillt píanó kráareigandans. Á slíku kvöldi

18 | HÚS FEÐRA MINNA I

hitti hann Lilla Johnson. Styrjöldinni var lokið og nýi heimurinn jafnt sem sá gamli voru að fá timburmenn eftir vímu sigursins. Í þrjú ár hafði Gill sprautað dósir fullar af óskilgreindu hráefni, í þrjú ár hafði hann staðið á sama stað, andað að sér sama súra loftinu, unnið sömu handtökin, – þriggja ára dauði. Gill var reiðubúinn að brjótast út.

Lilli Johnson byrjaði hinum megin frá. Hann hóf ferðina á efstu rim þjóðfélagsstigans með föður af aðalsættum. Sá var á ferðalagi í Georgíuríki árið 1902. Þessi virðulegi faðir tryggði móður Lilla Johnson, svonefndri eldhúsjómfrú á Hótel Longfeather, álitlega fjárhæð sem gerði henni kleift að ala önn fyrir Lilla Johnson, vaxandi systkinahópi og einum eða tveimur elskhugum.

Tiginn uppruninn veitti Lilla Johnson vissa tign í barnaskaranum. Þegar sem drengur hafði hann þá bjargföstu skoðun að það væri umhverfið sem ætti að þjóna honum, en ekki öfugt. Þegar hann var fimmtán ára fluttu móðirin og systkinahópurinn suður á bóginn með frönskum prédíkara sem bent hafði á mexíkanska landamæraþorpið Deríó sem endurkomustað Krists. Meðan fjölskylda hans og prédíkarinn biðu þannig hins mikla dags í heilagri þolinmæði, reyndi Lilli Johnson að slá í gegn sem nautnaseggur. Hann var ekki gæddur hæfileikum föður síns. Tvisvar heimsótti hann tyftunarhús borgarinnar áður en hann að síðustu róaðist niður sem uppvaskari á upphafsstað sínum, Hótel Longfeather.

Hér hitti hann æviást sína. Hún var gangastúlka á daginn og vann sér fyrir kryddi lífsins á nóttunni. Því miður sýktist stúlkan af sjúkdómi sem hinir fjölmörgu vinir hennar ræddu ógjarnan um. Sjúkdómurinn kostaði Lilla Johnson og hálft hundrað annarra sómakærra borgara sérlega sársaukafulla meðferð og rúmlegu með miklum sótthita.

Eftir þessa sorglegu reynslu flæktist Lilli Johnson um land

HÚS FEÐRA MINNA I | 19

og ríki í tvö ár. Hann lærði út í ystu æsar hina vandasömu list heimabruggunar og þróaði á þessum tíma bragðlauka sína svo að þeir nálguðust fullkomnun. Snilli hans spannaði allt frá Agaves-spíra, Tequila og Mescal yfir Imiaq að hinu grípandi kínverska Sam-Sú. Náðargjöf hans leiddi hann til Frisco, þar sem einmitt í þá daga var rík þörf fyrir dugandi mann. Fundur hans og Gills leiddi til samkvæmis í Albatros, samkvæmis sem enn er minnst þegar sólin brennir tunguna í sandpappír í Sacramentódalnum

Gill og Lilli Johnson urðu ásáttir um að fara í langferð um hina þyrstu Ameríku. Gegnum eyðimerkur Nevada, eftir hinu lífi sneydda saltvatni, yfir fjallgarða Montana og lengra í norður lá leiðin. Gill spilaði og Lilli Johnson bruggaði. Þeir fóru yfir landamærin sunnan við Lyfjahatt og fylgdu Saskatchewanánni til Prins Albert. Þar hófu þeir hina löngu ferð upp í gegnum norðvestursvæðið.

Tilviljunin leiddi þá að húsi Péturs. Eftir því sem sagnir herma átti sér stað minniháttar ósamkomulag við lögregluþjóninn í Downty City, eftir líflega samkomu í Singapore, veitingahúsi Ernestós Whitecook. Til að friða yfirvöldin og gefa auk þess Ernestó tækifæri til að endurbyggja húsnæði sitt svo að segja frá grunni, héldu þeir lengra mót norðri, eins og svo margir mætir menn á undan þeim. Þeir heilluðust samstundis af kofa Patreks McHuges, af Pétri og þeirri undursamlegu ró sem stafaði af staðnum. Einkum virkaði hið síðarnefnda sem græðandi áburður eftir hin órólegu flækingsár. Þeir aðlöguðust fljótlega hinum daglegu háttum, sem kröfðust svo lítils en veittu allan heiminn að launum.

Sam frændi veltur niður af Meyjarbrjóstum

Um uppruna Sams frænda veit ég undarlega lítið. Hann fæddist einhvers staðar í Póllandi, tók próf í mannfræði við háskólann

20 | HÚS FEÐRA MINNA I

í Varsjá og yfirgaf föðurlandið fimmtán árum áður en ákveðinn veggfóðrari fór að bæra á sér í nágrannaríkinu.

Starf hans leiddi hann víða. Hann valdi fljótlega eskimóafræði sem sérgrein og ferðaðist um stóran hluta heimskautsins með aðstoð vinsamlegra eskimóa. Nauðsynlegur þáttur í fræðunum voru einnig heimsóknir til Suður- og Mið-Ameríku, því hann var ákafur stuðningsmaður nýrrar kenningar sem sagði að eskimóar væru varanlegur blendingskynþáttur, víxlblandaður Lagao-Santa kynþættinum og asískum mongólum. Sam frændi hafði slegið máli á sterklegar hauskúpur með háum en grönnum hvirfilfleti, frá Brasilíu yfir Mið-Ameríku og Bandaríkin alla leið upp til ísauðna heimskautsins.

Á vissan hátt má segja að Sam frændi hafi samlagast fræðum sínum og vísindastörfum. Hann er mjög vel að sér í tungu eskimóa og lifnaðarháttum og eins og eskimóarnir hefur hann miklar mætur á munnmælasögum heimskautalandsins og dularöflum. Tungutak hans smitaðist mjög af tjáningaraðferðum eskimóanna, þannig að hans daglega mál getur virst nokkuð myndrænt.

Sam frændi kom veltandi að húsinu tveimur árum áður en ég fæddist. Hann valt niður brattar hlíðar Willsonhæða, gegnum Gæsaskarðið, yfir litlu sléttuna og upp að suðurgaflinum á húsi félaganna. Í kjölfar hans kom þverbyggður dráttarsleði, vindflegið tjald og loks trékassi með kortum og handbókum um mannfræði. Sam kom fjúkandi í óveðri og það var alls ekki samkvæmt eðli hans. Hann hefði átt að koma muldrandi niður fjallið á fögru lognstilltu kvöldi, lýstu rauðgulu skini hnígandi sólar.

Pétur og Lilli Johnson heyrðu höggið þegar hann skall á gaflinum. Þeir stukku út til að kanna hvað gerst hefði. Í gegnum snjófokið sáu þeir lítinn þéttvaxinn mann sem fálmaði hálfrotaður eftir hálfgleraugunum sínum.

HÚS FEÐRA MINNA I | 21

Pétur fann gleraugun og hann hjálpaði ókunna manninum á fætur og bauð honum inn í hitann. Lilli Johnson sá um föggur mannsins og eftir að hafa rannsakað þær kom hann þeim fyrir í einum útiskúrnum.

Sam var leiddur til sætis við langborðið og hóf að hreinsa gleraugun með skyrtulafinu. „Maður tjaldaði líklega of hátt,“ flissaði hann. „Það var hressileg salibuna sem maður fékk.“ „Þú hefur sannarlega verið langt uppfrá,“ sagði Lilli Johnson og kinkaði kolli. „Hvar varstu með búðirnar?“

Sam hagræddi gleraugunum á nefinu. „Í litlu gili sem á kortinu er kallað Meyjarbrjóstin.“

Það liðu undrunarhljóð frá mönnunum við borðið. Þeir störðu gapandi á Sam. Meyjarbrjóstin eða Rasskinnar Geltings, eins og hæðirnar voru einnig nefndar í minningu feitlagins gildruveiðimanns, voru tveir ávalir hnjúkar á toppi Willsonhæða. Allir vissu að þessir hnjúkar voru ævinlega ísilagðir og hálir á haustin og enginn veiðimaður með vitglóru lét sér koma til hugar að tjalda þar, jafnvel ekki í rjómalogni. Pétur ræskti sig vandræðalega. Það var erfitt að segja eitthvað gáfulegt í þessari stöðu. „Jahá … hm … sagðirðu Meyjarbrjóstin? Við köllum þær Rasskinnar Geltings, en ég trúi að það sé sami staðurinn. Þú slóst upp tjöldum þar uppfrá, segirðu. Hm. Varstu veikur?“ spurði hann, „eða að niðurlotum kominn af þreytu? Við þekkjum það félagi. Augun fyllast af snjó og eitthvað sem er þyngra en blý fyllir stígvélin. Ójá, þá tjaldar maður hvar í fjandanum sem vera skal … en á Rasskinnum Geltings!“

Sam virti gestgjafa sína fyrir sér alvarlegur í bragði. „Ég vil ekki halda því fram að ég hafi verið sérlega þreyttur og það var ekkert rok meðan ég tjaldaði. Sjáið þið til, ástæðan til þess að ég tjaldaði

22 | HÚS FEÐRA MINNA I

Tjald Sams frænda Mynd: Jörn Riel

einmitt þarna var að ég fann sjaldgæfa steingervinga í gilinu. Ég tjaldaði yfir þá og hefði höggvið þá lausa í nótt.“

Gill, sem ekki var viss um hvað orðið steingervingur þýddi, færði sig laumulega lítið eitt frá Samúel. Varkárni hlaut að vera dyggð undir þessum kringumstæðum. „Steingervingar?“ spurði hann. „Slíks dýrs hef ég aldrei heyrt getið áður. Er feldur þess síður eða stutthærður?“ „Það hefur engan feld,“ svaraði Sam. „Steingervingar eru forsöguleg dýr eða plöntur, sem nú finnast steinrunnin.“

Gill kinkaði kolli rólegur í bragði. „Ég skildi heldur ekki þegar þú sagðist ætla að höggva þau laus,“ sagði hann eins og til að afsaka spurningu sína. „Ég hef aldrei heyrt um neinn sem höggvið hefur veiðidýr upp úr klettunum. Þess vegna spurði ég.“

Lilli Johnson drap tittlinga til félaganna. „Sagðirðu forsöguleg,

HÚS FEÐRA MINNA I | 23

Sam?“ Sá ókunnugi var örugglega gullnáma af frásögnum. „Segðu mér; getur maður líka verið svo lánsamur að rekast á forsögulega refi og bjarndýr í steinum?“ „Auðvitað, vinur minn. Þú finnur steingerða refi og birni og mörg önnur landdýr. Það er ákaflega áhugavert og maður getur til dæmis leitt að því líkur að margar dýrategundir hafi lifað í mörgum heimsálfum. Þannig hafa menn fundið steingerða moskusuxa í evrópsku sjávarlagi og menn hafa líka fundið steingervinga af risaeðlum sem að stærð taka langt fram þeim stærstu hvölum sem við þekkjum.“

Þessi síðasti samanburður gerði félagana feimna. Menn voru vanir digurbarkalegu tali. Það var sem öll þessi mikla náttúra, þetta villta landslag með klettum og ísbreiðum, hinar endalausu freðmýrar og kílómetra há fjöllin hvettu fólk til að tvöfalda eða þrefalda allar stærðir. En að tala um dýr sem væru stærri en hvalir var nánast að stíga yfir mörk velsæmisins. Á hinn bóginn var ljóst að Samúel var einstakur sögumaður.

Lilli Johnson varð fyrstur til að rjúfa þögnina. Hann spurði lítið eitt tillitslaus: „Hvaða starf stundar þú, Sam. Kaupirðu steindýr eða þess háttar?“ „Nei, ég er eiginlega aðeins mannfræðingur,“ svaraði Sam. Gleraugun voru enn tekin af nefinu og meðhöndluð af skyrtulafinu. „Jarðfræði er aðeins smá tómstundagaman sem ég sýsla við þegar tækifæri gefst.“

Pétur lagði stórar hendurnar á borðið fyrir framan sig. Hann sneri lófunum upp. „Þannig sýslum við allir við sitt af hverju,“ sagði hann. „Við félagarnir höfum að vísu mestan áhuga á því sem lifir. Við veiðum sjávar- og landdýr, skilurðu? En svona hefur mannfólkið mismunandi áhugamál, guði sé lof. Mætti maður spyrja, til að svala forvitni Lilla Johnson, hvað það er sem fært hefur þig á þessar slóðir?“

24 | HÚS FEÐRA MINNA I

Sam andaði á gleraugun og fægði kunnáttusamlega. „Það eru mannfræðirannsóknir, sem fært hafa mig hingað. Nú er um að ræða rannsókn á netsilik eskimóum. Auk þess hefur maður áætlanir um að leita ummerkja eftir sadlermiutana, sem dóu út um aldamótin. Ætlan mín er að ná til norðurhluta Baffin, áður en vetur gengur í garð.“

Pétur leit hugsandi á lófa sína. „Einmitt það, já. Jahá, það er ýmislegt sem við skiljum hér í húsinu. Mannfræðirannsóknir. Vissulega hefur maður oft heyrt um slíkt, en maður er að verða of gamall til að muna merkingu allra þessara erfiðu orða.“

Sam svaraði tillitssamur: „Mannfræði snýst eins og þú veist, um uppruna mannsins og mismunandi kynþætti.“ „Þarna kom það,“ gall í Pétri. „Mér fannst ég líka hafa heyrt eitthvað um þetta áður. Bíddu nú við, þá ert þú það sem kallað er mannvísindamaður?“

Sam kinkaði kolli og brosti til viðstaddra. „Andlega séð og dálítið ýkt er ég það sjálfsagt, en daglega nefnist ég aðeins mannfræðingur.“

Lilli Johnson laut yfir borðið og lagði fingur á öxl Sams. „Heyrðu Sam, þetta veit ég töluvert um,“ sagði hann. „Það hefur eitthvað með hauskúpur að gera, er það ekki?“ „Rétt.“ Sam kom gleraugunum fyrir á neðri helmingi nefsins. „Höfuðskeljar eru ómissandi í mínu fagi.“ „Ég þekkti einu sinni braskara frá Brasilíu,“ hélt Lilli Johnson áfram. „Hann var í sömu grein og þú. Alveg vitlaus í hausa af Tucano indíánum. Þú hefðir átt að sjá þá, Sam. Það var vinna. Nánast listiðn. Svo voru þeir ósviknir. Það er mikið um pretti í þessu starfi, Sam, þú verður að viðurkenna það; þú veist, með apahöfuð, lélega suðu og þess háttar.“ „Það er sjálfsagt rétt,“ samþykkti Sam, „en ég er á þeirri skoðun að vísindi vinar þíns hafi verið af öðrum toga en mín.“

HÚS FEÐRA MINNA I | 25

Lilli Johnson kreppti hnefann og hélt honum við andlit Sams. „Þeir voru um það bil svona stórir,“ útskýrði hann, „og verulega vel saumaðir saman við bæði augu og varir. Það er enginn vafi á að þetta voru sömu vísindi og þín, Sam. Ég þekki þennan náunga mjög vel, verð ég að segja, því við stóðum í ýmsum viðskiptum saman. Og,“ bætti hann við, eins og til endanlegrar sönnunar, „hann var með nákvæmlega sams konar gleraugu og þú.“ „Ekki skyldi maður neita því að vinur þinn hafi viss mannfræðileg áhugamál,“ sagði Sam vingjarnlega, „en maður verður þó að reikna með því að hans höfuðáhugamál hafi verið viðskipti.“ „Þar hittirði naglann á höfuðið, Sam. Hann smyglaði hausunum í gegnum Kúbu og seldi þá ríkum túristum í Flórída.“

Einingu var náð og nú seig þægilegt andrúmsloft yfir mennina við borðið. Gill sauð selkjöt og Lilli Johnson bar fram Sam-Sú. Sam var neyddur til að borða svo mikið að tunga hans, eins og hann orðaði það sjálfur, stóð næstum upp á endann. Þegar menn sátu við kvölddrykkinn eftir máltíðina, spurði Gill: „Segðu mér, Sam, ætlarðu raunverulega að fara alla leið upp til norðurenda eyjarinnar í ár?“

Sam lagði glasið varlega á borðið og hallaði sér aftur á bak í stólnum. „Maður vill vita eitthvað um sadlermiutana, sem eftir því sem sagt er voru hreint stórkostlegt fólk. Þeir voru yfirmáta sóðalegir, líklega mestu svínin á heimskautasvæðunum. Húsin þeirra voru svört af sóti, vegna þess að konurnar þeirra hugsuðu ekkert um lampana og veggir þeirra og rúmstæði voru klístrug og angandi af spiki. Furðulegt fólk með furðulega siði. Mér hefur verið sagt að þeir hafi borið spikið frá veiðistöðvunum þannig, að þeir skáru stórt gat í miðjuna og smeygðu spikstykkjunum yfir höfuðið eins og kraga. Jafnvel þótt fólkið sé nú horfið, hljóta að finnast einhverjir Baffínlendingar sem muna ennþá eftir þeim.“

Pétur horfði aðdáunaraugum á þennan litla, þéttvaxna náunga.

26 | HÚS FEÐRA MINNA I

„Þú veist sjálfsagt heil ósköp, Sam og hefur ferðast mikið. Ég myndi aldrei láta mig dreyma um að fara svo langt norðureftir að hausti til. Er það ekki töluverð áhætta að ferðast einn um þessar breiddargráður með þann útbúnað sem þú hefur?“ „Hjá mér er spurningin um farangur ekki eins mikilvæg og um ferðafélaga,“ svaraði Sam. „Ég hef, eins og þið hafið tekið eftir, lítinn útbúnað og er á allan hátt lítilmótlegur ferðamaður. En maður talar fjórar eskimóamállískur og hefur friðsamlegt hugarfar.“ „Ferðist maður með eskimóum gegnir allt öðru máli,“ sagði Pétur og kinkaði kolli. „Betri ferðafélagar finnast ekki. Málið er bara að finna þá, Sam. Mér er næst að halda að þú hefðir átt að hefja ferðina fyrr. Það eru margar dagleiðir til næstu útstöðvar

Fjallstindar á Baffineyju Mynd: Jörn Riel

HÚS FEÐRA MINNA I | 27

og Herrann einn veit hvar hirðingjarnir halda sig á þessum tíma árs. Nú er haust, Sam, eins og þú fékkst að reyna þegar þú faukst niður af Rasskinnum Geltings.“ Pétur teiknaði með vísifingri á borðplötuna. Lilli Johnson sá að hann var í klemmu, að hann átti erfitt með að finna réttu orðin. Loks komu þau. „Það er ekki lengur sérstaklega mikið pláss hér í húsinu og ég get vel skilið að þú skulir vilja komast sem fyrst til að sinna verkefnum þínum. Sjálfsagt erum við ekki mjög vísindalegir í okkur, þótt við vitum ýmislegt um sitt af hverju. En hafir þú löngun til að hvílast um stundarsakir og skoða steingervingana hér í kring í ró og næði, hýsum við þig með ánægju. Síðan getum við flutt þig á fyrstu ísalögum til Ukusik, sem er næsta mannabyggð.“

Sam hristi höfuðið. „Þetta er mjög vingjarnlegt af ykkur, en maður myndi aðeins verða til aukinnar fyrirhafnar. Þið mynduð fljótlega verða þreyttir á að hafa miðaldra ónothæft flón í húsinu. Ég get hvorki veitt né verkað skinn.“ „Þú myndir gera okkur greiða með því að dveljast hjá okkur,“ sagði Pétur nánast biðjandi. Hann var að hugsa um hve skemmtilegur ávinningur Sam myndi verða og hve skelfilegt það yrði ef einhver nágrannanna tryggði sér hann til langframa. Hann horfði spenntur á gestinn.

Breitt bros breiddist yfir hrukkótt andlit Samúels. „Það gerist stundum að maður fyllist gleðilegri tilfinningu og situr því bara og skortir orð,“ sagði hann. „Þakka ykkur fyrir. Maður verður þá kyrr.“

Sam komst aldrei á norðurenda Baffíneyjar. Til þess þó að hafa reglu á hlutunum og til að gróa ekki fastur við Ungfrú Mollý, ræddi hann um það á hverju ári að hafa sig af stað. Þó gætti hann þess vandlega að koma fram með þessar fararóskir sínar á þeim árstíma

28 | HÚS FEÐRA MINNA I

er komandi vetur hafði þegar komið í veg fyrir sérhverja tilraun til ferðalaga. Samúel eignaðist góða vini, stað þar sem hann gat iðkað fræði sín í ró og næði og loks – þegar ég kom í heiminn – fjölskyldu.

Hér á eftir ætla ég að segja frá Jóbald og fundum hans og Péturs á Allansléttunni sumarið 1933.

HÚS FEÐRA MINNA I | 29

Jörn Riel er margverlaunaður danskur rithöfundur, að mestu þekktur fyrir skrif sín um Grænland þar sem hann bjó í 16 ár.

Frásögn sem gerir andlitið fagurt er fyrsta bók hans af alls 44 bókum. Hún er nú endurútgefin í þýðingu Helgu Svanhvítar Brynjónsdóttur.. Í bókinni er rakin óvenjuleg saga ungs drengs sem elst upp í húsi feðra sinna. Feðurnir eru tveir, frændurnir þrír, en engin móðir, nema gömul vinnukona sem sér um hann. Hér er á ferðinni stórkostleg saga sem gerist í veröld sem fæst okkar þekkja, í fimbulkulda á heimskautasvæði.

„Frábær lesning! Bók sem allir verða að lesa, óháð andlitsfegurð.“ Kolbrún Bergþórsdóttir, mbl.

This article is from: