
3 minute read
Íslenski fjárhundurinn
Talið er að Íslenski fjárhundurinn barst hingað til lands með landnámsmönnum. Hundarnir aðstoðuðu við smölun fjár, nautgripa og hesta. Litlar heimildir eru til um hunda frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi. Engar lýsingar eru á fjárhundum í Íslendingasögum og þar er sömuleiðis mjög lítið að finna um hunda almennt. Þó eru til lýsingar á einstökum hundum sem skáru sig frá öðrum hundum og má þar nefna Sám hans Gunnars á Hlíðarenda en talið er að hann hafi verið Írskur úlfhundur.
Áður fyrr var algengt að hafa marga hunda á hverjum bæ enda var þörfin fyrir þá mikiil þegar fé var rekið, hvort sem það var til beitar að morgni og heim að kvöldi eða til lengri smalamennsku vor og haust. Nú til dags má einungis finna einn til tvo hunda á heimili, þar að segja þeir sem eru ekki með ræktun.
Erlend hundakyn voru flutt inn á 19. öld og um aldamótin 1900 hafði íslenskum fjárhundum fækkað mikið. Hins vegar hafa vinsældir íslenska fjárhundsins aukist á síðustu árum og þó stofninn sé ekki stór þá er tegundin ekki lengur í útrýmingarhættu. Árlega fæðast um 100 hvolpar á Íslandi og er nokkur hluti þeirra fluttur út, bæði til Evrópu og Norður-Ameríku Á síðari hluta 19. aldar voru gerðar tilraunir með þjálfun íslenskra fjárhunda sem þjónustuhunda í hernum í Danmörku. Hundarnir fluttu skilaboð milli herdeilda og reyndust vel þó tilraunirnar hafi lagst af og hundarnir farið til annarra eigenda. Íslenskir fjárhundar voru fyrst sýndir á hundasýningu í Tívolí í Kaupmannahöfn árið 1897 en þrír hundar voru sýndir á sýningunni. Íslenski hundurinn var viðurkenndur sem sérstakt ræktunarkyn í Danmörku árið 1898 og enska hundaræktarfélagið (English Kennel Club) ættbókfærði íslenskan hund árið 1905.
Íslenskir hundar hafa verið þjálfaðir til snjóflóðaleitar bæði hér á landi og erlendis og íslenskir fjárhundar hafa einnig verið þjálfaðir sem meðferðarhundar með einhverfum börnum. Þar til viðbótar eru íslenskir fjárhundar að sjálfsögðu enn notaðir við smalamennsku og við leit að týndu fé í fönn. Við smalamennsku nýtist þefskyn hundsins vel og í slæmu skyggni rennur hann á lykt af fé og finnur þó maðurinn sjái það ekki. Þefskyn hundsins nýtist einnig vel til eggjaleitar og íslenskum hundum hefur verið kennt að leita einungis eftir eggjum ákveðinna tegunda fugla.
Svipur íslenska hundsins er oft brosleitur og er öruggt og fjörlegt fas einkennandi fyrir íslenska fjárhundinn. Íslenski fjárhundurinn er úthaldsgóður
smalahundur sem geltir og nýtast þeir eiginleikar við rekstur og smölun búfénaðar úr haga eða af fjalli. Þetta er glaður og vingjarnlegur hundur með ljúfa lund, forvitinn og óragur við vinnu. Kynið hentar vel til margra starfa en flestir hundarnir eru þó heimilishundar í dag.
Aðallitir íslenska hundsins eru gulur, leirhvítur, mórauður, grár og svartur. Litbrigði geta verið með ýmsu móti en þó skal einn aðallitur ávallt vera ríkjandi. Það er mjög algengt að aðalliturinn sé ljósari, jafnvel hvítur, frá hálsi undir kvið og aftur á skottenda.
Íslenski fjárhundurinn er mikil félagsvera og elskar að vera í kringum fólk. Hann elskar eigandann sinn og gengur á eftir manni eins og skuggi. Íslenski fjárhundurinn er glaður og vingjarnlegur hundur, forvitinn og fjörmikill með ljúfa lund, harðger og óragur.
Síðan ég fæddist hefur alltaf verið Íslenskur hundur á heimilinu og ég get ekki ímyndað mér yndislegri og vingjarnlegri hundategund til að umgangast. Margir segja að hundurinn sé besti vinur mannfólksins og það á alveg við Íslenska hundinn. Týri er Íslenskur fjárhundur sem ég og kærasti minn Hákon eigum. Hann er 2 ára gamall og svartur og hvítur á litinn. Hann er mjög kátur og elskar að hitta nýtt fólk.

Hákon var búinn að leita sér að hundi í langan tíma og þegar félagi hans fékk sér Íslenskan hund sagði hann honum frá því að hundar úr sama goti væru tilbúnir til afhendingar. Við skutumst á Selfoss að kíkja á hvolpana sem voru í boði en Hákon var búinn að sjá mynd af þeim og eiginlega alveg viss um hvern hann vildi taka. En þegar hann settist hjá hvolpunum kom Týri og settist hjá honum þá snerist Hákoni hugur og hætti við hundinn sem hann var búin að ákveða og vildi frekar Týra. Það má því segja að Týri hafi valið hann. Nokkrum vikum seinna fengum við að taka hann heim.
Týri elskar að fara út að leika með frísbidisk, hann er mjög athyglissjúkur og uppáhalds nammið hans eru bein.
50% afsláttur
af völdum vörum dagana 5.–11. desember
