Grein / By: Hjalti Freyr Ragnarsson & Karítas Sigvaldadóttir
LISTAVERK Í HÁSKÓLA ÍSLANDS Á hverjum degi reka nemendur augun í listaverk sem tilheyra flest Listasafni Háskóla Íslands, án þess að verða vör um uppruna þess eða merkingu. Einhverjir nemendur hafa eflaust velt fyrir sér hvað býr að baki fallegu listaverki sem ber fyrir augu þeirra á hverjum mánudegi á leið í tíma. Eða mögulega hneykslast á einhverri ljótri vitleysu og peningasóun sem dregur athyglina frá prófalærdómnum, án þess að þekkja til verksins eða höfundar. Stúdentablaðið tók því saman nokkur verk í almennum rýmum Háskólans og fengum Auði Övu, listfræðing Háskólans og listasafnsstjóra, til að fræða okkur um þau. Við gengum um almenn rými flestra bygginga Háskólans og völdum verk sem vöktu áhuga hjá okkur, en tókum eftir því í leiðinni að í þessum opnu rýmum er mikill meirihluti verkanna eftir karla og hallar verulega á kvenkyns listamenn. Um Listasafn HÍ: Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 og á í dag tæp 2.000 listaverk. Þar af eru um 1.400 þeirra eftir einn og sama listamanninn, Þorvald Skúlason abstraktmálara, bæði málverk og stórt safn teikninga. Listasafn Háskóla Íslands kaupir einnig listaverk eftir samtímalistamenn og víða um háskólasvæðið má sjá verk þeirra.
1. Í Hámu á Háskólatorgi er verk í loftinu eftir Finn Arnar Finnsson frá árinu 2007 sem var unnið sérstaklega fyrir bygginguna og heitir Vits er þörf þeim er víða ratar. Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands fjármagnaði hluta Háskólatorgs, en sjóðurinn var stofnaður með framlagi Vestur-Íslendinga. Listaverkið sem valið var með samkeppni átti því að tengjast Vestur-Íslendingum. Oddaflug gæsa má sjá efst í verkinu, og breytist stefna oddaflugsins eftir ríkjandi vindátt, með hjálp frá vindmæli ofan á húsinu. Gæsir ferðast iðulega vestur um haf til Kanada en snúa svo aftur heim. Sömuleiðis endurspeglar tilvitnunin úr Hávamálum bæði sjónarmið Háskólans og ferðalög Vestur-Íslendinga. 2. Í Veröld - húsi Vigdísar, í stigagangi í norðurenda húss, er að finna stórt textalistaverk eftir bandaríska listamanninn Lawrence Weiner (f. 1942), einn helsta brautryðjanda konseptlistar í heiminum. Verkið var sérstaklega unnið fyrir vígslu hússins í vor. Í verkum hans er áhersla lögð á merkingu orða og þýðingu þeirra, yfirfærslu bæði milli mismunandi tungumála og milli ritmáls og myndmáls. Það er því vel við hæfi að verk hans skreyti byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 3. Í kjallara Aðalbyggingar er stór krítarteikning eftir Björgu Þorsteinsdóttur frá árinu 1989 sem hún kallar Höfuðskepnur. Þó að bakgrunnur hennar sé í grafík hefur Björg þó sterkt vald á málverkinu og einskorðar sig ekki við einn miðil í þeim efnum. Á þessum tíma vann Björg mest með akrýlmálningu en verk sem þetta voru dæmi um notkun hennar á litkrít sem hún greip stundum í ásamt kolum og vatnslitum. 4. Í Aðalbyggingu er einnig að finna akrýlmálverk eftir Vigni Jóhannsson (f. 1952) frá árinu 1982, Eldur 1. Hann notaði á þessum tíma akrýlliti blandaða við herði sem gaf af sér gljáa sem minnti á gömlu meistarana. Það passaði ekki alveg inn í neo-expressjónísma samtíma hans, og var hann gagnrýndur fyrir stílbragðið sem þótti ekki passa við innihald myndanna. En hann lét það ekki á sig fá. Hann vildi mála manneskjuna sterka en ekki veika og þjakaða eins og samtímamenn hans. Þess vegna urðu höfuðskepnurnar tvær, eldur og vatn, svona sterkar í myndum hans, og manneskjan í snertingu við þær.
64
5. Á kjallaragangi Aðalbyggingar hangir einnig stórt olíumálverk í svörtu og hvítu eftir Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur (f. 1953, d. 1991) frá árinu 1983 sem heitir Systur. Jóhanna lést úr veikindum langt fyrir aldur fram en hún skipaði mikilvægan sess í íslenskri listasögu sem fulltrúi fígúratívs expressjónisma. Í verkum sínum varpaði hún af einlægum krafti fram djúpstæðum tilfinningahræringum í formi ýmiss konar fígúra, og var hugmyndaheimurinn sem birtist manni oft erfiður og nöturlegur. 6. Í anddyri Lögbergs er stórt málverk eftir myndlistarmanninn Kristján Davíðsson (f. 1917, d. 2013) sem er í eigu Háskóla Íslands og var sýnt á Feneyjatvíæringum á áttunda áratugnum þar sem Kristján var fulltrúi Íslands. Kristján var brautryðjandi á sviði abstraktlistar á Íslandi og einn þekktasti listmálari Íslands. 7. Í ,,malargryfjunni” í Odda er tréskúlptúr eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara (f. 1908, d. 1982) frá árinu 1981 sem heitir Hvíld. Sigurjón er einn þekktustu myndhöggvara landsins og frumkvöðull innan abstrakt skúlptúrgerðar. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er til húsa í fyrrum vinnurými hans á Laugarnestanga. 8. Á stigaganginum uppi á annarri hæð í Odda er olíumálverk í svörtum- og neonlitum eftir Helga Þórsson (f. 1975) frá árinu 2013 sem ber heitið Die Katzen Muzikale. Verkið er úr sýningu listamannsins í unglistargalleríinu Kunstschlager þar sem útfjólublátt ljós og svartmálaðir veggir voru notaðir til að búa til litla neonveröld þar sem skynvilluáhrif ýttu undir andrúmsloft alkemíu, nýaldarspeki og furðulegheita. 9. Á annarri hæð í Odda er bleikt olíumálverk með gulum og svörtum reitum, eins konar samsteypa ljóðrænnar og geómetrískrar abstraktsjónar, eftir Jón B. K. Ransu sem málað er árið 2002 og heitir XGEÓ.