Malfridur tbl.2 2015

Page 1

2. tbl. 31. árgangur

Tímarit Samtaka tungumálakennara

Vetur 2015


© Thinkstock/Hemera

Gute Lektüre – von Anfang an! Klassiker der deutschen Literatur neu erzählt auf Niveau A2: Unsere Reihe Leichte Literatur begeistert als Leseheft oder Hörbuch und erleichtert das Leseverständnis mit farbigen Illustrationen.

Die Bremer Stadtmusikanten Die Bremer Stadtmusikanten, Rotkäppchen und Aschenputtel neu erzählt Leseheft ISBN 978–3–19––9 Leseheft und Audio-CD ISBN 978–3–19––9 Der zerbrochene Krug nach Heinrich von Kleist Leseheft ISBN 978–3–19–411673–3 Leseheft und Audio-CD ISBN 978–3–19–40–6

Hueber Verlag Baubergerstraße 30 80992 München Deutschland

Werther Goethes große Liebesgeschichte neu erzählt Leseheft ISBN 978–3–19–711673–0 Leseheft und Audio-CD ISBN 978–3–19–70–3 Die Räuber nach Friedrich Schiller Leseheft ISBN 978–3–19–611673–1 Leseheft und Audio-CD ISBN 978–3–19–60–4

Tel.: +49 (0)89 9602-9603 Fax: +49 (0)89 9602-286 kundenservice@hueber.de www.hueber.de

Weitere Titel der Reihe unter www.hueber.de

hue_Anzg_4c_A5-quer_Leichte Literatur_171115_RZ.indd 1

17.11.15 16:04

Um Málfríði Málfríður, tímarit Samtaka tungumálakennara, er sameiginlegt blað allra tungumálakennara á Íslandi. Það hefur það hlutverk að miðla fróðleik um starf tungumálakennara á öllum skólastigum og hvetja til umræðu um tungumálakennslu í skólum landsins. Framar öllu fjalla greinar í blaðinu um það sem kennarar eru að gera í starfi sínu, um kennsluaðferðir og hugmyndir og auk þess eru viðtöl við kennara. Allt félagsfólk í aðildarfélögum STÍL fær Málfríði senda rafrænt í áskrift á það netfang sem skráð er hjá aðildarfélaginu. Þá er blaðið einnig gefið út í prenti fyrir skóla og menntastofnanir og aðra áskrifendur sem þess óska. Áskrifendur geta tilkynnt um breytt net-/heimilisfang með því að senda tölvupóst til Kennarasambands Íslands, Fjóla Ósk Gunnarsdóttir, fjola@ki.is.

Í ritstjórn Málfríðar sitja hverju sinni fulltrúar fjögurra aðildarfélaga STÍL, auk fulltrúa stjórnar. Vilji fólk birta grein í blaðinu, er það beðið um að senda hana í tölvupósti til einhvers fulltrúa í ritstjórn. • Meginreglan er sú að greinar séu ein opna eða um 1.000 orð. Hverri grein fylgir mynd af höfundi, minnst 500 x 800 pt. • Ákjósanlegt er að hafa millifyrirsagnir og inngangsklausu. • Greinar eftir íslenska höfunda skulu vera á íslensku en greinar eftir erlenda höfunda mega vera á því tungumáli sem við á, en þeim þarf að fylgja greinargóður útdráttur á íslensku. • Ritstjórn reynir af fremsta megni að hafa ákveðin þemu í hverju blaði en þau fylla ekki endilega upp allt blaðið.


Ritstjórnarpistill

Efnisyfirlit

Það er mér ánægja að skrifa þennan fyrsta ritsjórapistil fyrir Málfríði, tímarit tungumálakennara. Annar nýr fulltrúi í ritstjórn er Agnes Ó. Valdimarsdóttir, enskukennari við Fjöl­ brautaskólann við Ármúla, en auk okkar sitja áfram í ritstjórn þau Svanlaug Pálsdóttir, spænskukennari við Verzlunarskóla Íslands, og Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og fulltrúi félags frönskukennara. Ritstjórn vill þakka fráfarandi fulltrúum, þeim Pétri Rasmussen og Guðnýju Ester Aðalsteinsdóttur, fyrir vel unnin störf. Fjölmenning er verkefni dagsins í íslensku samfélagi og ber þetta tölublað þess merki. Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík, kynnir spennandi árangur af markvissu starfi í lestrarkennslu og -þjálfun nemenda í Fellaskóla. Fríða B. Jónsdóttir, verkefnisstjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, og Vala S. Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími-símenntun, fjalla um þátttöku í tveimur vinnustofum á vegum Evrópska nýmálasetursins í Graz í Austurríki. Hulda Karen Daníelsdóttir hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar, segir svo frá Velkomin-verkefninu, vefsíðu þar sem fólk með önnur móðurmál en íslensku getur náð sér í hljóðsettan orðaforða til að nota við ýmsar algengar aðstæður. Margrét Helga Hjartardóttir, frönskukennari við Kvenna­ skólann í Reykjavík, fjallar um áhrif nýrrar námskrár á kennslu í erlendum málum við skólann og undirritaður, ritstjóri Málfríðar, hefur sett á blað hugleiðingar um áhrif þriggja ára náms til stúdentsprófs á vinnutíma nemenda. Í næsta tölublaði hyggst ritstjórn taka upp þennan þráð, áhrif kerfisbreytinga á tungumálakennslu í skólum landsins, og við köllum því eftir greinum og ábendingum um spennandi verkefni sem unnið er að. Tungumálakennsla í landinu stendur á tímamótum og við kennarar þurfum að standa vörð um rétt nemenda til góðrar tungumálakunnáttu. Tungumál eru lyklar að ótal tækifærum og því hvet ég kennara til að taka virkan þátt í starfi fagfélaganna og STÍL. Samtökin fögnuðu 30 ára afmæli sínu í október sl. og aftast í blaðinu er stutt umfjöllun og myndir frá hátíðarhöldunum. Til hamingju, STÍL! Nú taka verkefni fullorðinsáranna við! Góðar stundir, Reynir Þór Eggertsson, ritstjóri, dönsku- og íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi

Ritstjórnarpistill. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 3

Málfríður Tímarit Samtaka tungumálakennara 2. tbl. 31. árgangur. – Vetur 2015. Forsíðumynd: Afmælishátíð STÍL: Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Útgefandi: Samtök tungumálakennara á Íslandi, STÍL Ábyrgðarmaður: Petrína Rós Karlsdóttir

Póstfang: STÍL v/tímaritið Málfríður, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík

M

HV

E R F I S ME

R

KI

Prentun: Oddi umhverfisvottað fyrirtæki

U

Málfríður, vefútgáfa: http://malfridur.ismennt.is 141 776

PRENTGRIPUR

Frábær árangur Fellaskóla í lestri Ragnar Þorsteinsson . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 4 Vinnustofa hjá ECML í Graz Fríða Bjarney Jónsdóttir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 6 Tungumál fyrir atvinnulífið (Language for Work)

ferð til Graz í Austurríki 24. og 25. júní 2015 Vala S. Valdimarsdóttir. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 9

Frá STÍL. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 11 Velkomin

– úrræði fyrir móttöku og samskipti Hulda Karen Daníelsdóttir og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 12

Staða tungumála í Kvennaskólanum eftir styttingu náms til stúdentsprófs Margrét Helga Hjartardóttir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 15 Um vinnutíma framhaldsskólanema í nýju kerfi Reynir Þór Eggertsson. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 19 Frá Félagi dönskukennara . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 20 Afmælishátíð STÍL

Svanlaug Pálsdóttir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 21

Ritstjórn Málfríðar Í ritstjórn Málfríðar eiga sæti fjórir fulltrúar aðildarfélaga auk fulltrúa stjórnar.

Agnes Ó. Valdimarsdóttir Fjölbrautaskólanum við Ármúla frá Félagi enskukennara agnes@fa.is Eyjólfur Már Sigurðsson Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands frá Félagi frönskukennara ems@hi.is Reynir Þór Eggertsson Menntaskólanum í Kópavogi ritstjóri, frá Félagi dönskukennara reynir.thor.eggertsson@mk.is Svanlaug Pálsdóttir Verzlunarskóla Íslands Frá stjórn og Félagi spænskukennara svanlaug@verslo.is Þeir sem vilja birta grein í Málfríði eru beðnir að hafa samband við einn fulltrúanna í ritstjórn.


4

MÁLFRÍÐUR

Frábær árangur Fellaskóla í lestri

Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík

allri. Í vor mældist þetta hlutfall í Fellaskóla svo það hæsta frá upphafi, eða 67%, og er nú í fyrsta skipti yfir meðaltali í borginni.

Árangur af markvissu starfi

Í Fellaskóla í Breiðholti eiga sjö af hverjum tíu nemendum annað móðurmál en íslensku. Fjöldi tví- og margtyngdra barna í skólanum endurspeglar íbúasamsetningu í Fellahverfi þar sem fjölmargir eru af erlendum uppruna. Árangur nemenda í lestri og lesskilningi hefur að vonum verið lakari en í öðrum skólum þar sem hlutfall barna með íslensku að móðurmáli er til muna hærra. En nú hefur orðið á þessu merkilegur viðsnúningur sem vert er að vekja athygli á.

Stökk upp á við í lestrarfærni Lesskimunin Læsi hefur verið lögð fyrir nemendur í 2. bekk í Fellaskóla frá árinu 2003. Á tímabilinu 2003–2013 var hlutfall nemenda sem gat lesið sér til gagns á bilinu 22–49% og var það hlutfall jafnan undir meðaltali annarra skóla borgarinnar. Á undanförnum tveimur árum hefur hins vegar hlutfall þeirra barna sem geta lesið sér til gagns tekið mikið stökk upp á við í Fellaskóla. Í fyrra gátu 65% nemenda lesið sér til gagns og var það aðeins einu prósentustigi undir meðaltali í borginni

Starfsfólk, nemendur og foreldrar í Fellaskóla hafa ríka ástæðu til að fagna þessum árangri en að honum hefur verið unnið markvisst undanfarin ár með samstilltu átaki. Í þessum fjölmenningarlega skóla hefur verið lögð aukin áhersla á markvissa málörvun, læsi og lestur og nýjar kennsluaðferðir hafa verið innleiddar. Skólinn hefur lengi verið þátttakandi í verkefninu Byrjendalæsi, en einnig var innleidd lestrarkennsluaðferðin PALS sem byggir á samvinnunámi. Stóraukin áhersla var jafnframt lögð á að bæta orðaforða, meðal annars í gegnum spil og leiki. Kennarar unnu vel saman, höfðu mikla trú á getu nemenda, lögðu sig fram um að hrósa þeim og hvetja og gera til þeirra hæfilegar kröfur. Nám er flókið ferli og til þess að ná góðum námsárangri þarf margt til. Árangur næst þegar áhugi og skuldbinding nemenda, jákvæður stuðningur og leiðandi uppeldi foreldra og samstarf og fagmennska kennara fara saman. Á undanförnum árum hefur skólasamfélagið í Fellaskóla stefnt í þessa átt með góðum árangri.

Góðar kennslustundir og nemendum líður vel Í vor tók Fellaskóli í þriðja sinn þátt í ytra mati á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar en slíkt mat fer fram reglulega í grunnskólum borgarinnar.


MÁLFRÍÐUR

Niðurstöðurnar voru afar góðar og ljóst að markvisst hefur verið unnið að því að bæta nám og kennslu í skólanum. Um 80% kennslustunda voru metnar góðar eða frábærar og jafnframt mátti greina að fjölmörg þróunarverkefni, s.s. 1, 2 og Fellaskóli – samþætt skólaog frístundastarf í 1. og 2. bekk og Okkar mál, hafi skilað nemendum betri og heildstæðari þjónustu. Í matinu kom einnig fram að nemendur voru bæði ánægðir með

5

kennarana sína og þann góða anda sem þeim fannst ríkja í skólanum. Skólasamfélag Fellaskóla má svo sannarlega vera stolt og ánægt af þessum árangri. Þessi viðsnúningur sýnir vel hvernig fagleg forysta, samhent átak og uppbyggilegt foreldrasamstarf getur skapað betri grundvöll til náms. Nú er verkefnið að viðhalda og bæta enn frekar þennan góða árangur til framtíðar.


6

MÁLFRÍÐUR

Plurilingual Whole School Curriculum:

Vinnustofa hjá ECML í Graz Fríða Bjarney Jónsdóttir, ­Verkefnastjóri – fjölmenning í leikskóla, Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Á nýliðnu vori gafst mér tækifæri til að sitja vinnustofu á vegum ECML (Europian Center of Modern Languages eða Evrópska nýmálasetrið) í Graz í Austurríki. Eins og margir lesendur Málfríðar kannast við hefur setrið að markmiði að styðja við tungumálanám og -kennslu í Evrópu og víðar, bæði í tengslum við kennslu erlendra tungumála og með því að styðja við fjölmenningu, fjöltyngi og móðurmál þeirra sem flytja á milli landa.

Fjöltyngis og fjölmenningarleg skólastefna Vinnustofan var hluti af lokafundi Evrópuverkefnisins Plur-Cur (Plurilingual Whole School Curriculum) sem unnið hefur verið að frá árinu 2012. Markmið þess er að finna leiðir til að þróa og meta fjöltyngis og fjölmenningarlega skólastefnu og skólanámskrá með heildræna sýn á tungumálanám. Með heildrænni sýn á tungumálanám er lögð áhersla á að gera öllum tungumálum allra nemenda hátt undir höfði, meirihlutamálinu, öðrum móðurmálum nemenda, upprunatungumálum, erlendum tungumálum og svæðisbundnum tungumálum í þeim löndum þar sem töluð eru fleiri en eitt tungumál. Vinnustofuna sóttu 38 fulltrúar frá 27 löndum en meðal þátttakenda voru kennarar og kennsluráðgjafar, auk sérfræðinga í tungumálakennslu frá háskólum og opinberum stofnunum. Meginefni fundarins var að kynna fyrir þátttakendum þau fjölmörgu verkefni sem hafa verið innleidd í anda Plur-Cur hugmyndafræðinnar víða um lönd og skapa umræðu um með hvaða hætti væri hægt að skapa þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að ná markmiðum um heildræna tungumálakennslu. Britta Hufeisen, prófessor við tækniháskólann í Darmstadt hefur leitt verkefnið frá upphafi og hóf fyrsta morgun vinnustofunnar með fyrirlestri þar sem hún fjallaði um upphaf og framgang Plur-Cur verkefn-

isins. Meginástæða þess að farið var af stað með verkefnið var aukin þörf fyrir stuðning við fjöltyngda nemendur, enda hefur nemendum með annað móðurmál en ríkjandi skólamál á hverjum stað fjölgað í flestum löndum Evrópu á liðnum árum. Þessir nemendur koma með mikilvæga tungumálakunnáttu inn í skólastarfið og er nauðsynlegt að byggja á henni í námi þeirra. Með verkefninu er leitast við að meta öll tungumál að verðleikum og komið í veg fyrir að nemendum sé bannað að tala önnur tungumál en skólamálið í daglegu skólastarfi. Þá lagði Hufeisen áherslu á að markmiðið væri einnig að auka vægi kennslu erlendra tungumála og vinna gegn þeirri þróun að skólar leggi ofuráherslu á enskukennslu.

Skapandi og fjölbreytt tungumálaverkefni þvert á námsgreinar Mörkin á milli faggreinakennslu og kennslu tungumála renna á ákveðinn hátt saman með Plur-Curaðferðarfræðinni þar sem tungumálakennsla verður markviss hluti af faggreinakennslu. Þannig verður til fjölmála námskrá þar sem unnið er út frá þematengdum viðfangsefnum þvert á tungumál og faggreinar. Hufeisen lagði áherslu á að þeir nemendur sem hefðu náð tökum á tjáskiptamáli og samskiptum á móðurmálinu eða öðru erlendu máli fengju tækifæri til að virkja þá kunnáttu í eins mörgum viðfangsefnum og mögulegt væri í náminu hverju sinni. Þannig væri stuðlað að virku tvítyngi/fjöltyngi þeirra. Eitt af því sem Hufeisen sagði frá var verkefni í sögukennslu þar sem nemendur unnu saman í hópum þvert á þrjú tungumál, þýsku, frönsku og ensku. Nemendur notuðu þýsku í samskiptum til að skipuleggja verkefnið, undirbúa það og leita að upplýsingum. Síðan hélt hver hópur kynningu á sínu verkefni þar sem glærurnar voru unnar á frönsku en fyrirlesturinn var fluttur á ensku. Á þennan hátt þurftu nemendur að virkja orðaforða þriggja tungumála þvert á það þema sem þeir voru að vinna með í sögukennslunni. Hufeisen benti á að til þess að ná markmiðum PlurCur nægði ekki starf einstakra kennara eða skóla heldur þyrfti einnig að verða breyting á ytri umgjörð skólastarfs. Hún taldi mikilvægt að háskólar byðu upp á kennaramenntun sem miðaði að fjöltyngiskennslu auk þess sem menntamálayfirvöld á hverjum stað þyrftu að setja stefnu um tungumálakennslu þar sem fjöl-


7

MÁLFRÍÐUR

breytt tungumálaþekking væri talin mikilvæg og þar sem tungumálakennarar og faggreinakennarar ynnu náið saman. Ýmis fleiri verkefni voru kynnt á vinnustofunni. Eitt þeirra sem ég heillaðist af var leiklistarverkefni Gisele Fasse leiklistarkennara í Heinrich Heine framhaldskólanum í Köln í Þýskalandi. Verkefnið kallar hún „In the Sea of Languages“, en með því að stofna fjöltyngdan leikhóp hefur Fasse tekist að finna farveg fyrir kunnáttu allra nemenda í eigin móðurmálum. Henni hefur með því móti tekist að vekja athygli á og auka virðingu skólasamfélagsins fyrir fjölbreyttum tungumálum þeirra sem taka þátt í leiklistartímum. Í samvinnu við leikhópinn setur Fasse upp leikverk með aðferðum spunaleikhúss þar sem tungumál nemenda fá að heyrast. Auk hefðbundinna leiklistaræfinga og uppsetninga á verkum vinnur Fasse verkefni með nemendum í tjáningu, ritun, lestri og endursköpun texta. Fyrsta skrefið á hverju námskeiði felst í að nemendur vinni eigið „tungumálaportrett“ þar sem þeir hugleiða spurningar eins og: „Hver er litur uppáhaldstungumálanna minna?“ og „Hvar er þetta tungumál staðsett í líkama mínum?“. Einn nemandi skilgreindi „tungumálaportrett“ sitt á eftirfarandi hátt: Ég tala ensku heima þannig að stærsti hluti líkama míns er blár. Ég tala svolitla þýsku þannig að ég lita höfuð mitt rautt. Afi minn er velskur þannig að ég lita fætur mína græna. Mig langar til að læra ítölsku þannig að ég lita eina hönd gula. Á þennan hátt fá nemendur tækifæri til að gera sér grein fyrir tungumálaþekkingu sinni og þróa með sér jákvæða fjöltyngda sjálfsmynd. Vinnan í leikhópnum styður síðan við þýskunám nemenda þar sem leiklistin býður upp á endalaus tækifæri til tjáningar, ritunar, endursköpunar og hlustunar á þýsku. Sagt var frá verkefnum sem unnin voru í skólum í Frakklandi, Litháen, Póllandi og Hollandi sem ýmist voru hluti af faggreinakennslu og kennslu erlendra tungumála eða gengu út á að virkja móðurmál nemenda í náminu. Dæmi um slík verkefni voru fjöltyngd námskeið þar sem nemendur unnu með orðaforða og skilning í töluðu og rituðu máli þvert á tungumál; æfðu ritun og lestur á öllum tungumálum, líka móðurmálinu, og sköpuðu tungumálaættartré þar sem uppruni og einkenni tungumála voru borin saman. Þá var sagt frá verkefni þar sem markmiðið var að skapa jákvæðar fjöltyngdar fyrirmyndir í hópi ungmenna þar sem þau heimsóttu börn í yngstu bekkjum grunnskóla og leikskóla, lásu fyrir börnin á eigin móðurmáli og unnu með þeim verkefni. Það fylgdi sögunni að yngri börnin hafi verið algerlega heilluð af kunnáttu eldri nemendanna í þeirra eigin tungumálum enda höfðu fá þeirra fengið tækifæri til að eiga í samskiptum á þennan hátt innan skólans.

Þátttakendur í vinnustofunni.

Móðurmál nemenda, vannýtt auðlind í íslensku skólastarfi? Einn af þátttakendunum á vinnustofunni var Déirdre Kirwan, skólastjóri við Scoil Bhríde Cailíní í Dublin á Írlandi. Kirwan hefur verið þátttakandi í Plur-Curverkefninu og er ein af þeim sem hefur þróað leiðir til að innleiða aðferðarfræðina í eigin skóla. Móðurmál, samtök um tvítyngi, höfðu frumkvæði að því að bjóða Kirwan til Íslands í ágúst síðastliðnum og í samvinnu við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar var boðið upp á námskeið og fundi fyrir kennara í móðurmálssamtökunum, sem og leik- og grunnskólakennara í Reykjavík. Á námskeiðinu sagði Kirwan frá því hvernig tekist hefði að byggja upp fjöltyngda skólastefnu og námskrá í skóla sem telur yfir þrjúhundruð nemendur með yfir fimmtíu tungumál. Stefna skólans er að virkja öll tungumál nemenda á markvissan hátt í námi þeirra og í nánu samstarfi við foreldra en foreldrana hittir Kirwan alltaf í upphafi skólagöngu barnanna og útskýrir fyrir þeim hlutverk skólans annarsvegar og hlutverk þeirra hinsvegar. Skólinn stendur mjög vel í samanburði við aðra skóla og hafa nemendur á undanförnum árum fengið einkunnir yfir meðallagi í írsku og stærðfræði en rík áhersla er lögð á gæðakennslu í írsku og fá nemendur stuðning við írskunámið. Kirwan benti á að virðing og jákvætt viðhorf skólans gagnvart móðurmálum nemenda mótaði grunn að sjálfsmynd nemenda sem fjöltyngdra einstaklinga og þegar móðurmálskunnáttan væri tengd við skólamálið öðluðust nemendur ákveðið forskot sem yki áhuga þeirra og virkni. Kirwan gaf fjölmörg dæmi um það hvaða leiðir væru farnar í náminu til að virkja móðurmál nemenda. Til dæmis má nefna að í sögugerð barna á yngsta stigi skrifi þau sögur heima, fái foreldra til að aðstoða sig við skrifin á móðurmálinu og þýði yfir á írsku eftir bestu getu. Þegar í skólann er komið eru börnin aðstoðuð við að koma sögunni yfir á írsku og síðan velja þau hvort þau lesa hana fyrir hópinn á móðurmálinu eða írsku. Þegar mörg börn með sama móðurmál eru saman í bekk og geta þeirra í írsku og móðurmáli er misjöfn fá þau tækifæri til að vinna verkefni saman á móðurmálinu en þurfa síðan


8 að hjálpast að við að yfirfæra niðurstöðurnar á írsku og flytja verkefnið á írsku. Þetta átti t.d. við um lausn á stærðfræðidæmum. Íslenskt samfélag hefur breyst mikið á undanförnum árum og ljóst er að samsetning nemendahópa með tilliti til menningar og móðurmáls mun halda áfram að þróast, hér sem annars staðar. Einstaklingar sem hafa gott vald á íslensku og öðrum tungumálum munu án nokkurs vafa eiga fleiri möguleika í framtíðinni en þeir sem einungis hafa vald á íslensku, óháð því hvort um

MÁLFRÍÐUR

er að ræða þá sem alast upp við íslensku eða önnur tungumál heimavið. Sú þekking sem hefur skapast í verkefnum á vegum nýmálasetursins í Graz er án nokkurs vafa gagnleg fyrir okkur hér á Íslandi. Ég hvet kennara til að skoða þessi verkefni en þau geta stutt okkur við að þróa námskrár og skólastefnur sem mæta þörfum fjöltyngdra barna fyrir framúrskarandi tungumálanám. Vefsíða verkefnisins: http://www.ecml.at/F1/tabid/ 756/language/en-GB/Default.aspx


9

MÁLFRÍÐUR

Tungumál fyrir atvinnulífið

(Language for Work) ferð til Graz í Austurríki 24. og 25. júní 2015

Vala S. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri í Tungumála- og fjölmenningardeild hjá Mími-Símenntun

er staðreynd. Farandverkamenn eru fjölmargir á ferð í álfunni og nú þegar flóttamenn og hælisleitendur streyma til Evrópu er brýnna en nokkru sinni áður að flýta og bæta aðlögun þeirra. Fjölmenning auðgar samfélög og áríðandi er að minnka fordóma og greiða götu innflytjenda. Tungumálaþekking stuðlar að velgengni í námi, starfi og einkalífi, varðveitir menningu og lýðræði. Segja má að hún gagnist þjóðfélögum á margan hátt, sem svo skilar sér í hagvexti. Við sem þarna hittumst eigum margt sameiginlegt en lönd

Síðastliðið vor hafði Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar HÍ, samband við Mími-símenntun. Það vantaði fulltrúa á vinnustofuna „Language for Work“ sem halda átti í Graz í Austurríki. Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Mími og hef einkum umsjón með kennslu íslensku sem annars máls. Einnig kem ég að því að skipuleggja starfsþjálfun erlendra nemenda Mímis þar sem slíkt býðst stundum í kjölfar íslenskunámskeiðs. Þá kenni ég fagtengdan orðaforða í svokallaðri Félagsliðabrú. Brúin er einingabært nám sem býðst nemendum 25 ára og eldri sem hafa starfað í þrjú ár eða lengur á hjúkrunarheimilum. Talsvert margir útlendingar eru þeirra á meðal en námið fer fram á íslensku. Málefni vinnustofunnar var mér skylt og var ég spennt fyrir ferðinni. Vinnustofan var haldin á vegum ECML (European Centre for Modern Languages) og þema hennar var starfstengt tungumálanám innflytjenda. ECML er stofnun á vegum Evrópuráðsins og eiga nú 32 Evrópulönd aðild að því. Alls sóttu rúmlega 40 sérfræðingar í kennslu annars tungumáls (L2) vinnustofuna sem var einkar áhugaverð.

Til hvers að viðhalda tungumálum? Yfirlýst markmið ECML-miðstöðvarinnar er að stuðla að áframhaldandi fjölbreytileika tungumála og menningar í Evrópu; að halda sem flestum tungumálum sem best við. Í því skyni er reynt að gera sem flestum íbúum álfunnar kleift að ná sem auðveldustum tökum á nýjum tungumálum með því að auka gæði og nýjungar í kennslu evrópskra tungumála. Í þessum anda er líka boðið upp á sem besta túlkaþjónustu (eins og gert var þarna; allt var túlkað á ensku og frönsku). Þetta er metnaðarfullt markmið og dýrt í framkvæmd en réttlætanlegt að mínu mati. Hnattvæðing nútímans

Svipmyndir frá Graz.


10

okkar eru vitan­lega mislangt komin varðandi aðlögun og þjónustu við innflytjendur. Margir vildu sjá betra starf af hálfu yfirvalda. Má þar nefna fulltrúa Kýpur og Grikklands þar sem flóttamannastraumur veldur nú hrikalegum vanda og ástandið var slæmt fyrir.

Verkefni vinnustofunnar Verkefnið Tungumál á vinnumarkaði hefur heimasíðuna http://languageforwork.ecml.at/ en vinnustofan í Graz var sú síðasta í fjögurra ára verkefni. Verkefnið var sett á laggirnar í þeim tilgangi að efla evrópskt tengslanet rannsakenda, fulltrúa kennslustofnana, verkalýðsfélaga og stefnumótenda. Tengslanetinu er ætlað að aðstoða meðlimi þess við að deila starfsaðferðum og þróa þær. Fluttar voru áhugaverðar kynningar um máltöku og aðlögun innflytjenda á vinnumarkaði og opnar umræður fylgdu. Einnig var hópavinna þar sem umræðuefnum var útdeilt og tók hver og einn þátt í þremur vinnustofum. Þá hófu þátttakendur að skrifa á sameiginlega samskiptavefsíðu verkefnisins; svonefnt „Padlet board“ http://padlet.com/alex76/LFW. Mér fannst mjög áhugavert að sjá hversu merkilegar rannsóknir eiga sér stað á sviði tungumálakennslu fyrir innflytjendur á vinnumarkaði og á heimasíðu ECML má finna heilmikið efni sem kennarar og skipuleggjendur kennslu annars tungumáls geta nýtt sér.

MÁLFRÍÐUR

Tvær áhugaverðar kynningar Það sem stendur upp úr eftir þátttökuna er aðdáun vegna þess góða starfs sem víða er unnið í þágu málaflokksins. Laurent Filliettaz hélt til dæmis mjög áhugavert erindi, þar sem sálfræðileg nálgun er mikilvæg. Svissnesk rannsókn á vinnustaðaþátttöku útlendinga, þar sem notast var við upptökur á samtölum á vinnustað, sýnir að erlendur starfsmaður þarf oft að rökstyðja mál sitt á nýja málinu. Það reynist oft torvelt og verður jafnvel til þess að hann verði fyrir einelti, sé skilinn útundan og verði mögulega að athlægi. Þá skilur hann oft ekki húmor og annað sem varðar aðlögun og vinnustaðamenningu. Þetta sýnir nauðsyn þess að tungumálakennarar sem undirbúa starfsþjálfun útlendinga, yfirmenn og starfsmenn fyrirtækja sem taka við þeim fái góða fræðslu um móttöku útlendinga á vinnustað. Í Þýskalandi og Sviss eru t.d. haldin 3–5 daga námskeið fyrir yfirmenn til að stuðla að bættri móttöku, máltöku og aðlögun innflytjenda á vinnumarkaði. Kersten Sjosvard,frá Svíþjóð, kynnti mjög áhugavert verkefni sem kallast Arbetsam (http://www.aldrecentrum.se/Utbildning1/TDAR/). Það byggir á mikilli örvun frá vinnuumhverfinu við notkun nýja tungumálsins. Yfirmenn öldrunarheimila vinna markvisst að því að virkja erlent starfsfólk í umönnun svo það geti talað sem mest við vistmenn. Tungumálanámskeið


11

MÁLFRÍÐUR

Verkefnið hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð og náð talsverðri útbreiðslu. Þessi dæmi sýna að ávallt má gera betur á þessu sviði. Þrátt fyrir að kostnaður fylgi slíkri „lúxusmeðferð“ má læra af henni og reyna a.m.k. að bæta samskiptin sem er öllum til góðs. Mímir-símenntun er ekki enn farin að fá vinnuveitendur á stutt námskeið en vinnustaðir eru heimsóttir áður en þjálfun hefst og tvisvar til þrisvar meðan á þjálfun stendur. Þannig auðveldum við erlendum starfsmönnum, og móttakendum þeirra, aðlögun og stuðlum að bættri líðan þeirra. Vera kann að örnámskeið fyrir vinnuveitendur þyki sjálfsögð í náinni framtíð. Það er góð tilfinning að víkka sjóndeildarhringinn, fá tækifæri til endurmenntunar erlendis og stuðla að breytingum. Skrefin kunna að vera lítil en þau skipta máli. Við erum afar þakklát þeim sem taka fólk í starfsþjálfun en atvinnulífið hérlendis mætti almennt vera móttækilegra gagnvart þeim sem tala ekki fullkomna íslensku. Æskilegt er að starfsþjálfun útlendinga sé viðurkennd og njóti virðingar. Vekja þarf athygli á mannauði sem þarf atvinnutækifæri þrátt fyrir litla færni í íslensku. Rannsóknir sýna að notkun tungumáls snemma í námi geti bætt námsárangur og að notkun sé forsenda þess að mál lærist. Samþætting notkunar, náms og vinnu/þjálfunar er því ávinningur fyrir einstaklinga og samfélagið.

Frá STÍL

eru haldin á vinnustaðnum, með sérþjálfuðum kennurum til að stuðla að bættum samskiptum sem eru rædd reglulega. Talað er um hvernig starfsfólki hafi liðið þegar það var hjálparvana og þegar vel gekk.

Dagana 9.–11. júní verður haldin ráðstefna á vegum NBR (FIPLV NORIDC-BALTIC REGION) í Tallinn í Eistlandi undir yfirskriftinni „Tungumálakennarar og tungumálakennsla á krossgötum“ (e. The Language Teacher and Teaching at Crossroads). Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu STÍL (www.stil.is).


12

MÁLFRÍÐUR

Velkomin – úrræði fyrir móttöku og samskipti

Hulda Karen Daníelsdóttir

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir

Hulda Karen Daníelsdóttir, verkefnastjóri á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

Það var mikill heiður fyrir okkur aðstandendur verkefnisins Velkomin – úrræði fyrir móttöku og samskipti að fá afhent Evrópumerkið fyrir fyrirmyndarverkefni á sviði tungumála á Evrópska tungumáladeginum, þann 26. september sl. Verðlaun Evrópusambandsins eru mikil hvatning og erum við þakklátar mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir að hafa ákveðið að veita verkefninu sérstakan styrk til þróunar og kynningar. Styrkurinn verður notaður til að kynna Velkominverkefnið og bæta við það nýju tungumáli. Nú þegar er hægt að nota Velkomin á íslensku, arabísku, ensku, litháísku, pólsku og spænsku. Ekki er búið að ákveða hvaða tungumál verður sjöunda málið, en tælenska, portúgalska og tagalog koma til greina.

Samskipti án tafar Velkomin er aðgengilegt verkfæri sem er öllum opið á vef Tungumálatorgsins www.tungumalatorg.is/velkomin. Það byggir á breskri fyrirmynd sem var þróuð af Brian Huxley, sem gaf verkefnisstjórum Velkomin leyfi til að nota fyrirmyndina og útfæra. Velkomin er samskiptatæki sem inniheldur hljóðsettan orðaforða. Upphaflega var það ætlað til að auðvelda skólum móttöku, aðlögun og samskipti við nemendur og foreldra með annað móðurmál en íslensku. Við þróun verkefnisins kom í ljós að efnið hentar einnig vel til tungumálanáms og styður markvisst við félagsleg tengsl nýju nemendanna við samnemendur sína. Jafnframt gerir það móðurmál nemenda sem það tala sýnilegra í skólunum og þannig geta notendur

Velkomin orðið meðvitaðri um hvernig tungumálin hljóma og hvernig ritháttur þeirra er og geta því lært orð og setningar í nýjum tungumálum. Efnið skiptist í 13 flokka. Þeir eru: Skrifstofa, Samtal kennara og foreldra, Fyrsti dagurinn – velkomin, Fyrstu dagarnir – rýmið, Stundatafla, Skoðunarferð, Samskipti kennara og nemenda, Hrós, Betri vinnubrögð, Hegðun, Nesti – hádegismatur, Líðan og Samskipti nemenda. Setningarnar í hverjum flokki miða að því að hefja samskipti við nemendur og foreldra með annað móðurmál en íslensku eins fljótt og auðið er í skólum eða á öðrum vettvangi. Eins og fram kemur í kynningarmyndbandi á leiðbeiningarsíðu vefsins er lögð áhersla á þá reglu í Velkomin að segja alltaf setninguna á íslensku áður en smellt er á hnappinn sem spilar setninguna á viðkomandi tungumáli. Undir flokknum Skrifstofa má t.d. finna þessar setningar á 6 tungumálum: • Mig langar að hjálpa þér en ég tala ekki tungumálið þitt. • Barnið á að koma með nesti í skólann. • Flest börn koma með brauð, jógúrt eða ávexti. • Getur þú/þið komið í móttökuviðtal í skólanum þennan dag? • Móttökuviðtalið er fundur með túlki, umsjónarkennara barnsins og fleirum í skólanum. Undir flokknum Samtal kennara og foreldra eru m.a. þessar setningar: • Góð móðurmálskunnátta er góð undirstaða fyrir lærdóm á öðru máli. • Það er mikilvægt að barnið fái sem flest tækifæri til að læra íslensku. • Til að verða betri í íslensku ættu nemendur að nota íslenskuna eins mikið og oft og hægt er. Horfa á íslenskt sjónvarpsefni. Nota íslensku á netinu. Eignast íslenska vini. Taka þátt í tómstundum (íþróttum, tónlist o.fl.). • Verið endilega í góðu sambandi við skólann. Undir þessum flokki er einnig stuttur, hagnýtur bæklingur fyrir foreldra sem prenta má út og afhenda aðstandendum. Í bæklingnum er fjallað um hvar og hvernig börn læra íslensku, hver einkenni og eiginleikar góðra skólaforeldra eru, hvernig foreldrar geta stutt við móðurmál barnanna sinna og hvernig þeir


13

MÁLFRÍÐUR

Útlit samskiptatækisins Velkomin

geta aðstoðað þau við heimanámið jafnvel þótt þeir skilji litla sem enga íslensku. Flokkurinn Hrós gefur kennurum og öðrum kost á að hrósa nemendum á fjölbreyttan hátt fyrir góðan árangur og það sem vel er gert. Hér eru örfá dæmi: • Gott hjá þér! • Þú hefur fylgt fyrirmælunum mjög vel. • Ég sé að þú hefur skilið verkefnið. • Verkefnið þitt er til fyrirmyndar! Flokkurinn Samskipti nemenda hvetur til félagslegra tengsla og jákvæðra samskipta nemenda og gefur þeim tækifæri til að bjóða nýjum nemendum vináttu og inn í hópinn á sex tungumálum: • Viltu leika? • Viltu koma með okkur? • Ég ætla að sýna þér skólalóðina. • Viltu vera samferða heim? • Ég ætla að kenna þér íslensku.

sem annað tungumál og einnig aðlögun þeirra og hinna sem fyrir eru að breyttu skólasamfélagi. Eins má finna grafíska útfærslu á leiðum til að læra og kenna tungumál og hvernig megi nota þjónustu túlka. Efnið má prenta út og nýta sem veggspjald, músar- eða diskamottu og það er einnig spil sem nemendur geta skemmt sér við að spila. Ítarefnið er aðgengilegt hér: http://tungumalatorg. is/velkomin/um-verkefnid/

Kynningar og samstarf Velkomin-verkefnið hefur nokkrum sinnum verið kynnt óformlega á sl. tveimur árum, en var fyrst kynnt form-

Velkomin er snjalltækjavænn vefur sem hægt er að nota í borðtölvum, fartölvum og snjalltækjum. Áhersla er lögð á að hafa á öllum síðum tengingu við þýðingarvél Google Translate og vert er að hafa í huga að vefurinn getur líka nýst skólum sem fyrirmynd að góðri móttöku, sama hvert móðurmálið er.

Ítarefni Auk samskiptaorðaforðans má nálgast margvíslegt ítarefni á vef verkefnisins. Þar eru til dæmis 12 gátlistar sem unnir voru upp úr könnun á upplifun fagfólks af stöðu nemenda með íslensku sem annað tungumál í grunnskólum á Íslandi árið 2009. Gátlistana má nota til að meta hvernig skólinn stendur sig í skipulagningu á móttöku, námi og kennslu nemenda sem læra íslensku

Evrópumerkinu veittu viðtöku verkefnisstjórar Velkomin, þær Hulda Karen Daníelsdóttir hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Þorbjörg Þorsteinsdóttir hjá skóla- og frístundasviði og Tungumálatorgi. Hér eru þær með frú Vigdísi Finnbogadóttur við það tækifæri.


14 lega í Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða þann 14. janúar 2015. Þá gafst tækifæri til að þakka Sprotasjóði sem studdi verkefnið í upphafi og öllum þeim sem komu að gerð Velkomin fyrir óeigingjarnt og faglegt starf. Á meðal þeirra eru starfandi kennarar, kennsluráðgjafar, þýðendur, hönnuðir og tölvufólk. Á kynninguna mættu fulltrúar stofnana sem hafa í kjölfarið sótt um sérstaka styrki til að vinna verkefni sem byggja á Velkomin-fyrirmyndinni. Tvö þeirra hlutu nýlega styrki úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Þau eru Velkomin – frístundir á vegum Frístundamiðstöðvarinnar Kamps, Þjónustumiðstöðvar

MÁLFRÍÐUR

Miðborgar og Hlíða og Fjölskyldusviðs Hafnarfjarðar og Félagsþjónusta og barnavernd – upplýsingar til innflytjenda á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Það er mikil viðurkenning að aðrir vilji nýta sér Velkomin verkefnið sem fyrirmynd að hagnýtum samskiptaverkfærum. Það er undir kennurum og stjórnendum skóla komið hve vel og mikið Velkomin verkfærið er notað á vettvangi skóla og viljum við hvetja sem flesta til að nota það á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt með nemendum og fjölskyldum þeirra.


15

MÁLFRÍÐUR

Staða tungumála í Kvennaskólanum eftir styttingu náms til stúdentsprófs Margrét Helga Hjartardóttir, frönskukennari við ­Kvennaskólann í Reykjavík

rækilega endurskoðuðum brautum og stúdentsprófi upp á 200 nýjar framhaldsskólaeiningar (feiningar). Niðurstaðan varð töluverð breyting frá því sem áður var, en hér verður sjónum beint að því hvaða breytingar og afleiðingar þetta hefur haft í för með sér fyrir þau erlendu tungumál sem kennd eru við skólann.

Breytingar á námsskipulagi Haustið 2009 tók Kvennaskólinn í Reykjavík upp nýja námskrá byggða á lögum um framhaldsskóla frá 2008. Skólinn hafði sótt um að vera þróunarskóli fyrir nýja námskrá og styttingu náms til stúdentsprófs og tókst ótrauður á við þetta ögrandi verkefni. Að þessu var að sjálfsögðu nokkur aðdragandi. Á vorönn 2009 var settur fullur kraftur í að móta nýja skólanámskrá með

Frönskunemendur úr Kvennó í París.

Í Kvennaskólanum var ákveðið að lengja námsárið í samræmi við ný lög; endurskipuleggja brautir skólans og breyta heitum þeirra. Þeim skyldi að jafnaði raðað á þrjú námsár með „örlítið auknu námsálagi á allar annirnar“ (sjá www.kvenno.is). Samhliða því var, og er enn, boðið upp á fjórða námsárið fyrir þá nemendur sem vilja eða þurfa að fara aðeins hægar yfir og einnig þá sem kjósa að taka fleiri einingar en skyldan býður, t.d. til að búa sig betur undir sérstakt framhaldsnám.


16

MÁLFRÍÐUR

Frá Kvennaskólanum í Reykavík.

Skilaboðin til kennara í þessari vinnu voru í sinni einföldustu mynd þessi: Endurskoða – þjappa saman – forðast endurtekningu á námi úr grunnskóla. Allar greinar gátu átt von á einhverjum niðurskurði eða fórnum, samt átti ekki að draga úr kröfum. Ekki var verið að gengisfella stúdentspróf skólans, gæta þurfti að hæfilegu svigrúmi fyrir val nemenda svo kjarninn mátti ekki verða of stór og svona mætti lengi telja. Þetta kostaði gífurlega vinnu, samstarf, samningaviðræður og ekki síst málamiðlanir – og tungumálin voru þar ekki undanskilin.

Danskan

Enskan Enska Náttúruvísindabraut Félagsvísindabraut Hugvísindabraut

fanginn sé horfinn, a.m.k. að einhverju leyti. Í öllum tilvikum, nema á náttúruvísindabraut, er námið samþjappaðra og teygir sig yfir minni rauntíma. Val er vissulega til staðar og töluvert vinsælt meðal nemenda og er það gleðiefni. Það kemur þó aldrei í staðinn fyrir kjarnaáfanga, margir nemendur, og oftast þeir sem síst skyldi, kjósa að velja eitthvað annað. Þessi niðurstaða lítur í sjálfu sér ekki svo illa út við fyrstu sýn en samt er það almennt álit enskukennara skólans að ákjósanlegast væri að bæta við einum kjarnaáfanga á hverja braut, sérstaklega félags- og náttúruvísindabrautirnar. Mikilvægi enskukunnáttu á háskólastigi er gífurlegt þar sem margar greinar eru kenndar að miklu og stundum öllu leyti á ensku, bæði hérlendis og erlendis. Auk þess er algengt að íslenskir nemendur haldi til náms á Norðurlöndunum en þar er þess krafist að þau hafi a.m.k. fjóra áfanga í ensku á framhaldsskólastigi. Sá áfangi þyrfti því að vera í kjarna á öllum brautum ef vel ætti að vera. Skólanum ber að gera nemendum kleift að ráða við akademískan orðaforða og geta skráð sig í háskólanám án vandkvæða. Enskunni í Kvennaskólanum hefur reyndar borist liðsauki frá öðrum greinum, t.d. frá félagsgreinum, sögu, efna- og stærðfræði, þar sem ýmist er unnið með grunnbækur á ensku eða annað enskt námsefni sem vissulega styrkir nemendur fyrir glímuna við ensku á háskólastigi. En betur má ef duga skal.

Eldri námskrá – kjarni 9 ein (3 áfangar) 15 ein (5 áfangar) 21 ein (7 áfangar)

Ný námskrá – kjarni 15 fein (3 áfangar) 15 fein (3 áfangar) 25 fein (5 áfangar)

Í ensku fór fram mikil endurskoðun og samþjöppun. Efni sem flokkast gat sem upprifjun var allt skorið niður og í raun var neðsta áfanganum, ENS103, meira og minna sleppt sem og stórum hluta af efni úr ENS203. Allir áfangar fóru á 2. og 3. hæfniþrep. Niðurröðun námsefnis í kjarnaáföngum var breytt og sumu af því efni sem skorið var burt var komið fyrir í valáföngum. Kennsluháttum var breytt að töluverðu leyti, kennsla fer mikið fram í hópavinnu, sérstaklega á fyrsta ári þar sem nemendur vinna meira sjálfstætt en áður og bera aukna ábyrgð á eigin námi. Þetta hefur gengið vel í heildina og nemendur virðast sáttir við auknar kröfur og breytta kennsluhætti sé miðað við það sem þeir eiga flestir að venjast úr grunnskóla. Ef horft er á brautirnar sjáum við að á náttúruvísindabraut eru sem fyrr kenndir þrír áfangar en þar sem búið er að klippa út „grunnskólakennsluna“ komast nemendur nokkuð lengra í enskunáminu en fyrr, en lengi hafði verið mikil óánægja með litla ensku á þessari braut. Á félagsvísindabraut er aðeins minni kjarni og á hugvísindabrautinni má segja að efsti kjörsviðsá-

Danska Náttúruvísindabraut Félagsvísindabraut Hugvísindabraut

Eldri námskrá – kjarni 6 ein (2 áfangar) 6 ein (2 áfangar) 9 ein (3 áfangar)

Ný námskrá – kjarni 7 fein (1 vetraráfangi) 7 fein (1 vetraráfangi) 12 fein (2 áfangar)

Í dönskunni var, eins og í hinum tungumálunum, umtalsverður niðurskurður í fjölda áfanga sem kenndir eru til stúdentsprófs. Samkvæmt núverandi kerfi eru 7 feiningar skylda á öllum brautum, ráðstöfun sem dönskukennarar skólans töldu algjörlega nauðsynlegt lágmark, en fyrirhugað hafði verið að einungis yrði kennd danska til 5 feininga á öllum brautum í kjarna. Þessi fjöldi kenndra feininga gerir kleift að teygja dönskunámið yfir tvær annir, sem gefur nemendum betra tækifæri til að tileinka sér og þjálfa leikni í tungumálinu út frá námsefninu og er í samræmi við undirstöðuatriði í kennslufræði tungumála. Hins vegar er það staðreynd að mun færri kennslustundir eru til ráðstöfunar fyrir dönskukennslu í kjarna samkvæmt nýju námsskránni og einungis nemendur á Hugvísindabraut fá kennslu í dönsku á öðru ári. Í því samhengi er rétt að hafa hugfast hversu mikið þroskaferli árin og aldursskeiðið í framhaldsskóla er og að oft á sér stað mikil breyting hjá ungmennum á einu ári. Í upphafi vegar var gert ráð fyrir að verulegur hluti af námsefni úr fögum í fyrsta áfanga í framhaldsskóla, í tilfelli dönskunnar þáverandi DAN103, yrði fluttur niður í efstu bekki grunnskólans. Úr þessu varð þó aldrei, a.m.k.


17

MÁLFRÍÐUR

Frönskunemendur úr Kvennó í París.

ekki að öllu leyti, og því miður bitnar umrædd fækkun kennslustunda mest á þeim sem hafa slökustu undirstöðuna. Þeir nemendur sem ekki hafa undirstöðuatriði danskrar málfræði svo á valdi sínu að þeir geti sæmilega áreynslulaust beitt henni, eiga við ramman reip að draga í þessum fyrsta áfanga sem staðsettur er á 2. hæfniþrepi. Hjá þeim má segja að sé gap á milli þeirrar þekkingar og leikni sem þeir útskrifast með í dönsku úr grunnskóla og þess sem krafist er við upphaf grunnáfanga fagsins í framhaldsskóla. Við þetta er svo að bæta að eftir að kennsla hófst samkvæmt nýju námsskránni og flestir nemendur Kvennaskólans útskrifast eftir þrjú ár, hefur aldrei verið kenndur valáfangi í dönsku. Áður höfðu oftar en ekki verið kenndir tveir valáfangar; danskar bókmenntir og danskar kvikmyndir. Sú staða er í samræmi við reynslu tungumálakennara skólans í þriðja máli sem nú verður einmitt vikið að.

Franska og þýska, 3. og 4. mál 3. og 4. mál Eldri námskrá - kjarni Náttúruvísindabraut 12 ein (4 áfangar) Félagsvísindabraut 12 ein. (4 áfangar) Hugvísindabraut 1 Við

Ný námskrá – kjarni 15 fein (3 áfangar) 15 fein (3 áfangar) 25 fein (5 áfangar) 21 ein (7 áfangar) 15 fein (3 áfangar sem 9 ein (3 áfangar í 4. máli) eru valkvæðir)1

þetta má bæta að spænska er nú sem fyrr kennd sem valfag og hefur staða hennar haldist svipuð, að jafnaði er kenndur einn byrjendaáfangi á vetri, stundum líka framhaldssáfangi ef hann velst (semsagt 5–10 feiningar).

Í þriðja máli, frönsku og þýsku, voru tvímælalaust afdrifaríkustu breytingarnar. Þar var erfiðara um vik að skera niður. Þar var ekki hægt að komast lengra í námi með því að draga úr endurtekningu á því sem áður hefur verið kennt því ekki var hægt að gera ráð fyrir grunnskólakennslu þó vissulega komi nokkrir nemendur árlega með smá grunn í þessum málum. Hér þarf nú sem fyrr að byrja á núlli. Það er því dapurlegt að greina frá því að á langfjölmennustu brautum skólans, félags- og náttúruvísindabrautum, hvarf fjórði áfanginn. Þriðja mál er nú kennt á þremur önnum, á fyrsta og öðru námsári. Þetta er mjög stuttur tími til að meðtaka og melta nýtt tungumál og nemendur ná því miður ekki þeirri leikni sem fjórði áfanginn veitti þeim áður. Fjórði áfanginn stendur vissulega til boða sem val en kennurum málanna til mikilla vonbrigða hefur reynslan sýnt að sárafáir nemendur velja hann. Þriggja ára nám til stúdentsprófs er svo þétt að nemendur velja síður framhald í þriðja máli en framhaldsáfanga í öðrum greinum sem þeir telja nauðsynlegar forkröfur fyrir það háskólanám sem þeir stefna á. Þetta heyrist oft hjá áhugasömum og duglegum tungumálanemendum sem verða að forgangsraða vali sínu á þennan hátt. Eina valið sem hefur gengið nokkuð vel eru ferðaáfangar til Berlínar og Parísar en að jafnaði fer einn hópur á ári til hvorrar borgar fyrir sig. Einnig hefur þverfaglegur kvikmyndaáfangi fimm tungumála verið kenndur síðustu ár (erlendu málin ásamt íslensku) og notið nokkurra vinsælda. Í honum


18 fer ekki fram bein tungumálakennsla en menningarlæsi er gert hátt undir höfði. Á hugvísindabrautinni, arftaka gömlu málabrautarinnar, var nokkuð dregið úr áherslu á tungumálin. Þróun þessarar brautar var framhald af margra ára umræðu innan skólans um að breyta inntaki málabrautarinnar sem lengi hefur verið minnsta braut skólans. Ákveðið var að minnka kjarna á svipaðan hátt og á hinum brautunum. Hér var farið úr sjö kjarnaáföngum í þriðja máli niður í fimm og fjórða mál gert valkvætt. Bundnar voru vonir við að þessar breytingar yrðu til góðs, þ.e.a.s. að brautin höfðaði til stærri hóps, og vonandi gerir hún það. Hún hefur þó ekki náð hærra flugi en gamla málabrautin. Hingað til hefur einn bekkur á ári innritast á brautina eins og raunin hafði verið með málabrautina í mörg ár. Nokkrir nemendur á ári velja sér fjórða mál en ívið fleiri fara hina leiðina, velja svokallaða menningarlæsislínu. En hverju breyttu frönsku- og þýskukennarar í inntaki námsins í nýrri námskrá? Þeir reyndu af fremsta megni að þétta námið, breyta áherslum og færa viðráðanlegt efni úr þeim áföngum sem hurfu niður um áfanga. Þeir notuðu tækifærið og miðuðu meira en fyrr við Evrópurammann enda byggja meira og minna öll kennslugögn sem berast frá Evrópu á honum. Eins og allar aðrar deildir skólans tóku þeir tillit til hæfniþrepa ráðuneytisins og þeirra grunnþátta og þeirrar lykilhæfni sem kveðið er á um í aðalnámskrá (læsi, sjálfbærni, jafnrétti o.s.frv.). Hvað þrepaskiptingu varðar röðuðust fyrstu þrír áfangarnir á fyrsta þrep og framhaldið á annað þrep. Þriðja mál er fjarri því að ná þriðja þrepi. Örlítið meiri tími gefst í hverjum áfanga með lengra skólaári svo þessar breytingar hafa gengið ágætlega í einhverjum tilvikum en þó er um töluverðan niðurskurð á kostnað kunnáttu nemenda að ræða. Í frönsku og þýsku eru kennarar sammála um að í lok þriðja áfanga séu nemendur komnir aðeins inn í gamla 403 áfangann og í þeim fimmta aðeins inn í gamla 603 áfangann. Sárast og í raun óforsvaranlegt finnst kennurunum að komast ekki upp á annað hæfniþrep með þorra nemenda skólans! Þetta verður m.a. til þess að þeim nemendum fækkar stöðugt sem hafa grunn til að skrá sig til náms í umræddum tungumálum á háskólastigi. Ef litið er til forkrafna HÍ verða nemendur að hafa náð B1 í Evrópurammanum sem að mati kennara samsvarar 25 feiningum að lágmarki (bestu nemendur geta kannski marið það með 20).

Hvað er til ráða? Það gæti strax orðið til einhverra bóta að teygja aðeins úr þeim feiningum sem eru til umráða, dreifa t.d.

MÁLFRÍÐUR

þremur áföngum á fjórar annir. Þannig hefðu nemendur aðeins meira andrými, aukinn meltingartíma fyrir málanámið. Langskynsamlegast væri þó að fá fleiri einingar í kjarna og ættum við málakennarar að setja það baráttumál á oddinn. Ef vel ætti að vera þyrfti að fjölga kennsludögum enn frekar en orðið er svo ekki sé dregið úr inntaki námsins með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. En fjölgun kennsludaga er viðkvæmt og erfitt mál sem kemur inn á kaup og kjör og því ólíklegt að af því verði í bráð. Þó margt megi gott um styttingu náms til stúdentsprófs segja er ljóst að hún var ekki nógu vel ígrunduð og tungumálakennslu í Kvennaskólanum dýrkeypt. Það sem verra er, nú stefnir í að flestir framhaldsskólar fylgi í kjölfarið hvað fækkun tungumálaeininga varðar. Það er mjög miður að á sama tíma og alþjóðasamfélagið eflist og ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í landinu með síaukna þörf fyrir fólk með tungumálakunnáttu, skuli verið skorið niður í kennslu tungumála í framhaldsskólum. Skólayfirvöldum hefur verið legið á hálsi fyrir að vinna ekki í takt við þjóðfélagið og má segja að í þessu tilfelli sé það augljóst. Ensku- og dönskukunnátta nemenda við útskrift þyrfti að vera betri - eins og fram hefur komið. Þá eru líkur á að nemendur fari síður í háskólanám til frönsku- og þýskumælandi landa. Í þessum löndum er fjölbreytt úrval náms í háskólum sem ekki innheimta há skólagjöld og eru því mjög góður kostur fyrir ungt fólk sem hefur náð nokkuð góðu valdi á frönsku og þýsku. Fimmtán framhaldsskólaeiningar nægja ekki til að veita fólki þá tilfinningu að það geti numið grein í háskóla, enda myndi það líklega reynast þeim mjög erfitt án frekari undirbúnings til að brúa bilið. Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla er fjallað um lykilhæfnina „Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum“. Þar segir m.a. að tungumálakunnátta leggi grunn að skilningi, víðsýni og virðingu fyrir öðrum þjóðum og menningarheimum, að nemendur eigi að geta tjáð sig á skiljanlegan hátt á erlendum tungumálum, tekið þátt í samræðum, notað fjölbreyttan orðaforða og lesið sér til fróðleiks og ánægju (sjá bls. 36). Vonandi ná framhaldsskólar landsins nokkuð vel að efla víðsýni og menningarlæsi með kennslu tungumála en stefnir í að þeir uppfylli upp til hópa alla fyrrnefnda lykilhæfni á komandi árum ef svo fer sem horfir? Félögum mínum í röðum málakennara Kvenna­skól­ ans þakka ég einlæglega samvinnuna við undirbúning og samningu þessarar greinar og þeim og öðrum tungumálakennurum óska ég ekki síður góðs gengis í baráttunni fyrir fjölgun kjarnaeininga í tungumálum.


19

MÁLFRÍÐUR

Um vinnutíma framhaldsskólanema í nýju kerfi Reynir Þór Eggertsson, ritstjóri, dönsku- og íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi

dögum á önn, t.d. vegna frágangs einkunna fyrir staðfestingu á áfangavali og útskrift, þannig að í raun er munurinn 14–17 dagar.

Vinnuvika nemans

Miklar breytingar ganga yfir íslenska framhaldsskóla og starfsfólk þeirra, nemendur sem kennara, þessi misserin. Ný framhaldsskólalög, ný námskrá, ný vinnutímaákvæði í kjarasamningi, auknar kröfur um menntun kennara... og nýtt einingakerfi. Gamla einingakerfið sem notast hefur verið við í áratugi var tengt kennslustundafjölda, þannig að fyrir hverja einingu fengu nemendur tvær 40 mínútna kennslustundir á viku yfir önnina. Nýja einingakerfið byggir aftur á móti ekki á fjölda vikulegra kennslustunda heldur áætluðum vinnutíma nemenda. Þar er gert ráð fyrir að nemendur þurfi að vinna í þrjá vinnudaga fyrir hverri nýrri framhaldsskólaeiningu, „feiningu“. Forsendur lokaprófa hafa að sama skapi breyst til að taka mið af nýja einingakerfinu og nú hafa skólar t.a.m. fengið ákveðið frelsi til að skipuleggja eigin leiðir til stúdentsprófs. Þó verður stúdentsprófið að innihalda að lágmarki 200 feiningar. Til að ljúka lágmarks stúdentsprófi á þremur árum, eins og menntamálayfirvöld hafa ákveðið, þarf nemandi því að ljúka að meðaltali 33–34 feiningum á önn. En hvað þýðir þetta í raun fyrir vinnutíma nemenda í íslenskum framhaldsskólum?

Vinnutími nemans á önn Eins og áður sagði þarf nemandi að vinna í þrjá vinnudaga fyrir hverri feiningu og hann þarf að skila 33–34 feiningum á önn til að ljúka stúdentsprófi á þremur árum. Þetta þýðir að hann þarf að vinna í 99 daga í fjórar annir (33 * 3 daga), en í 102 daga í tvær annir (34 * 3 daga). Í íslenskum framhaldsskólum eru aftur á móti bara 180 kennslu- og prófadagar á ári, eða 90 á önn. Íslenskur framhaldskólanemi þarf því að vinna 9–12 daga á önn umfram þá daga sem honum standa til boða í skólanum. Að auki er raunveruleikinn sá að vinnu nemandans í hverju fagi þarf að vera lokið á 85

Vinnudagur framhaldsskólanema á að vera 6–8 klukkustundir, og hér ætti ekki að þurfa að taka fram að þetta á við um nemendur sem hafa viðunandi grunn til að hefja nám í þeim áföngum sem um ræðir. Taflan hér að neðan sýnir meðalvinnuviku nema sem ætlar sér að ljúka 33 feiningum á önn. Vinnutími nemenda miðað við 33 fein á önn í 4 annir Áætlaður meðalvinnudagur nemenda Fljótur

Miðlungs

Hægur

6 klst/dag

7 klst/dag

8 klst/dag

Fjöldi klukkustunda á bak við hverja feiningu (3 dagar á feiningu)

18 klst

21 klst

24 klst

Heildarfjöldi vinnustunda á önn

594 klst

693 klst

792 klst

Vinnuvika framhaldsskólanema m.v. 18 vikur

33 klst

38,5 klst

44 klst

34,9 klst

40,8 klst

46,6

Raunveruleg vinnuvika m.v. 17 vikur

Þarna sjáum við að meðalnemandinn, þessi sem ætti að geta látið sér duga að vinna 7 klst. á dag, nær rétt svo að haldast innan 40 klukkustunda vinnuviku, nái hann að dreifa vinnunni á 18 vikur, en um leið og tíminn styttist í 17 vikur fer hann upp fyrir. Nemandanum sem ættu að duga 8 klst. nægir nú ekki að vinna undir 44 klst. á viku til að sinna námi sínu. Og þá á eftir að horfa til vinnuviku þeirra nemenda sem þurfa enn lengri tíma til að tileinka sér námsefni einstakra áfanga. Þær tvær annir sem neminn þarf að ljúka 34 einingum lengist vinnuvikan enn, eins og sést hér: Vinnutími nemenda miðað við 34 fein á önn í 2 annir Áætlaður meðalvinnudagur nemenda

Fjöldi klukkustunda á bak við hverja feiningu (3 dagar á feiningu) Heildarfjöldi vinnustunda á önn Vinnuvika framhaldsskólanema m.v. 18 vikur Raunveruleg vinnuvika m.v. 17 vikur

Fljótur

Miðlungs

Hægur

6 klst/dag

7 klst/dag

8 klst/dag

18 klst

21 klst

24 klst

612 klst

714 klst

816 klst

34 klst

39,7 klst

45,3 klst

36 klst

42 klst

48


20 Nú fer meðalneminn rétt undir 40 klst. miðað við 18 vikur og sá sem lengri tíma þarf upp fyrir 45 klst. á viku. Þessi langa vinnuvika sem ætlast til er af framhaldsskólanemum stæðist ekki vinnulöggjöfina en samkvæmt henni mega ungmenni á aldrinum 15–17 ára að hámarki vinna 40 klst. vinnuviku, og aldrei vinna næturvinnu.1 Og er nám ekki vinna?

Vinna með námi Hérlendis er námsefni í framhaldsskólum ekki niðurgreitt af hinu opinbera og kostnaður nemenda við kaup á námsefni og búnaði getur hlaupið á tugum þúsunda á önn, og enn hærri upphæðum sé litið til kaupa á tölvum og tæknibúnaði. Það þýðir að fjölmargir framhaldsskólanemar þurfa að vinna með námi til að standa straum af þessum kostnaði og í nýrri skýrslu OECD um stöðu menntunar 2015 kom fram að 45% 15–19 ára ungmenna á Íslandi vinni með námi. 9% þeirra vinna m.a.s. meira en 35 klukkustundir á viku.2 Sé horft til þess að nær helmingur íslenskra framhaldsskólanema vinnur með námi og sumir jafnvel fulla vinnuviku er ljóst að erfitt getur reynst fyrir marga að ljúka námi á þeim þremur árum sem stefnt er að. Til 1 Sjá

t.d. http://attavitinn.is/vinna/vinnumarkadurinn/rettindi/ vinnutimar-og-laun-unglinga. 2 Sjá http://www.oecd-ilibrary.org/education/education-at-a-glance2015_eag-2015-en og frétt RÚV frá 26. nóv. sl., http://www.ruv.is/ frett/islenskir-skolakrakkar-vinna-mest-allra.

MÁLFRÍÐUR

þess eru einfaldlega ekki nógu margir tímar í sólarhringnum. Ekki nema bara að við slökum bara á kröfum. Erum við tilbúin til þess?

Áhrif á líðan nemenda Nemandi sem hefur ekki tíma til að sinna námi sínu sem skyldi hlýtur að dragast aftur úr. Það eru engin ný sannindi. Við tungumálakennarar finnum t.a.m. fyrir þessu í formi þess að nemendur okkar stytti sér leið með hjálp þýðingarforrita, lesi ekki skáldsögur og skili verkefnum sem aðrir hafa unnið. Það skýtur aftur á móti skökku við að loksins þegar tekið hefur verið í notkun einingakerfi sem miðast við áætlaðan vinnutíma nemenda skuli vinnuálag þeirra aukið með kerfisbundinni styttingu náms til stúdentsprófs. Nú ætla ég ekki að þykjast vera sálfræðingur en það er í mínum huga skýrt að nemendur sem þurfa að vinna svo langan vinnudag að þeir nái ekki að fylgja yfirferð á námsefni og dragist stöðugt aftur úr finni fyrir sífelldri streitu og auknum kvíða. Hvorugt leiðir til bætts námsárangurs heldur mun að líkindum hafa þveröfug áhrif á það markmið yfirvalda að minnka brotthvarf úr framhaldsskólum. Nema raunverulegt markmið sé að fækka þeim sem ljúka námi.

Frá Félagi dönskukennara Endurmenntunarnámskeið fyrir dönskukennara í framhaldsskólum verður haldið á Schæffergården 31. júlí- 6. ágúst 2016. Þema námskeiðsins er „Nye metoder i undervisning og evaluering“. Reynir Þór Eggertsson og Sigurlaug Rúnarsdóttir, dönskukennarar í MK, sjá um að skipuleggja námskeiðið.

Skráning hefst kl. 12 á hádegi 11. janúar og lýkur kl. 12 á hádegi 18. janúar. Sigurlaug tekur á móti skráningu á netfangið sr@mk.is. Við hvetjum fólk til að skrá sig í tíma, Félag dönskukennara


21

MÁLFRÍÐUR

Afmælishátíð STÍL

Svanlaug Pálsdóttir, spænskukennari við Verzlunarskóla Íslands.

Laugardaginn 31. október héldu samtökin upp á 30 ára afmæli sitt í Litla sal á Háskólatorgi. Petrína Rós Karlsdóttir, formaður STÍL, hélt opnunarræðu en Sigurborg Jónsdóttir var kynnir. Hafdís Ingvarsdóttir og Auður Hauksdóttir fóru yfir sögu STÍL, allt frá því að samtökin voru stofnuð þann 17. október 1985 í Rúgbrauðsgerðinni. Formaður samtaka tungumálakennara í Svíþjóð, Helena von Schantz, hélt fyrirlestur um jákvæð áhrif tungumálakunnáttu á minnið og tengdi við niðurstöður Pisa-könnunarinnar margfrægu. Merkilegt er að þau lönd sem skora hæst í könnuninni hafa öll fleiri

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

en eitt opinbert mál eða leggja mikið upp úr tungumálanámi. Í lokin kom kór Menntaskólans við Hamrahlíð og söng á ýmsum tungum fyrir viðstadda. Dagskráin var skipulögð af afmælisnefnd skipaðri einum meðlimi frá hverju aðildarfélagi STÍL ásamt stjórn STÍL. Í afmælisnefnd sátu Anna Jeeves fyrir félag enskukennara, Auður Lorenzo fyrir félag spænskukennara, Sigrún Halla Halldórsdóttir fyrir félag frönskukennara, Sveindís Valdimarsdóttir fyrir Ísbrú, Lovísa Kristjánsdóttir fyrir félag dönskukennara, Jón Bjarni Atlason fyrir félag þýskukennara og Barbro Elisabeth Lundberg fyrir félag norsku-og sænskukennara. Afmælishátíðin þykir hafa heppnast vel í alla staði og voru skipuleggjendur ánægðir með þátttöku. Ljósmyndir eru eftir: Sigrúnu Höllu Halldórsdóttur og Jón Bjarna Atlason.


22

MÁLFRÍÐUR

Sigurborg Jónsdóttir og Eva Leplat.

Helena von Schantz.

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð

Þórhildur Oddsdóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Helena von Schantz


23

MÁLFRÍÐUR

Stjórn STÍL. Talið frá vinstri: Petrína Rós Karlsdóttir, Svanlaug Pálsdóttir, Brynja Stefánsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Elna Katrín Jónsdóttir og Hrefna Clausen.

Halla Thorlacius og Margrét Helga Hjartardóttir.

Kristín Guðmundsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir

Þórdís T. Þórarinsdóttir, Pétur Rasmussen, Þórhildur Oddsdóttir og og Ósa Knútsdóttir

Jón Bjarni Atlason og Veska Jónsdóttir.

Petrína Rós Karlsdóttir og Hrefna Clausen.


24

Stuttir og skemmtilegir bókmenntatextar úr dönskum samtíma. Fallega myndskreytt bók fyrir nemendur á framhaldsskólastigi.

randi benedikte brodersen, brynja stefánsdóttir og jens monrad

GNIST

GNIST – ny litteratur på dansk

NÝ BÓK

Brautarholti 8 | 105 Reykjavík | sími 517 7200 | idnu.is OPIÐ mán–fim 9–17, fös 9–16

1 5 -2 9 3 7 -HVÍTA HÚ SIÐ / SÍA

MÁLFRÍÐUR


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.