Grafarvogsbladid 4.tbl 2011

Page 2

2

GV

Fréttir

Graf­ar­vogs­blað­ið Útgefandi: Skrautás ehf. Netfang: gv@skrautas.is Ritstjóri og ábm.: Stefán Kristjánsson. Netfang Grafarvogsblaðsins: gv@skrautas.is Ritstjórn og auglýsingar: Höfðabakki 3 - Sími 587-9500 / 698-2844. Útlit og hönnun: Skrautás ehf. Auglýsingastjóri: Sólveig J. Ögmundsdóttir - solveig@skrautas.is Prentun: Landsprent ehf. Ljósmyndari: Pjetur Sigurðsson. Dreifing: Íslandspóstur. Grafarvogsblaðinu er dreift ókeypis í öll hús og fyrirtæki í Grafarvogi. Einnig í Bryggjuhverfi og öll fyrirtæki í póstnúmeri 110 og 112.

Til hamingju Vigfús Séra Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur Grafarvogssóknar frá upphafi, fagnaði 65 ára afmæli sínu á dögunum. Það var strax ljóst að það var mikil blessun fyrir söfnuð okkar Grafarvogsbúa að fá Vigfús Þór til starfa. Ótrúlegur dugnaður hans og eljusemi hefur með hverju árinu sem líður eflt starfið í söfnuðinum og kirkjunni. Er svo komið í dag að litið er til Grafarvogskirkju með mikilli virðingu og þökk fyrir frábært starf. Vissulega er Vigfús Þór ekki einn á ferð. Hann og við íbúarnir í Grafarvogi höfum notið þess ríkulega að til starfa í kirkjunni hefur valist úrvalsfólk. Jafnt prestar sem annað starfsfólk. Vigfús Þór hefur síðan stjórnað starfinu af miklum skörungsskap og unnið stórkostlegt starf í gegnum árin. Það var um áramótin 1992-93 að leiðir okkar Vigfúsar Þórs lágu fyrst saman. Kom fljótt í ljós að við áttum sameiginlegt áhugamál sem var að gera hverfisblað okkar, Grafarvogsblaðið, sem best úr garði. Ég setti mig fljótlega í samband við Vigfús Þór eftir að við hjónin höfðum tekið við ritstjórn blaðsins. Skrifstofa hans var á heimili þeirra hjóna enda kirkjan án húsnæðis á þessum tíma og óbyggð. Án afláts mokaði Vigfús í mig efni og hafði ég vart undan. Auk þess að vera ótrúlega ötull að útvega mér efni í blaðið kom strax í ljós að hann bar hag blaðsins og nýja ritstjórans fyrir brjósti. Hefur hann æ síðan verið blaðinu afar hjálplegur og á engan hallað þegar sagt er að hann sé stuðningsmaður Grafarvogsblaðsins númer eitt. Við útgefendur Grafarvogsblaðsins viljum á þessum tímamótum í lífi Vigfúsar Þórs færa honum innilegar hamingjuóskir með afmælið. Og um leið þökkum við af alhug allan stuðninginn og hlýjuna í gegnum árin. Eins og sjá má hér til hliðar eru menn í knattspyrnudeild Fjölnis í startholunum með afar skemmtilegt og gott átak. Meiningin er að fá sem allra flesta Grafarvogsbúa til að mæta á völlinn og styðja sitt lið. Til að auðvelda fólki aðgengi að leikjum Fjölnis geta Grafarvogsbúar nú keypt ársmiða á alla heimaleikina fyrr aðeins 4.900,- krónur. Þúsund krónur af hverjum ársmiða renna síðan til unglingastarfs. Hér er um kærkomið tækifæri að ræða fyrir knattspyrnuunnendur í Grafarvogi. Lið Fjölnis var hársbreidd frá því að tryggja sér þátttökurétt í efstu deild í fyrra og að því er stefnt í sumar. Lið Fjölnis er afar skemmktilegt lið sem leikur mikinn sóknarbolta og skorar jafnan mikið af mörkum. Þeir sem leggja leið sína á Fjölnisleiki í sumar eiga því von á góðri skemmtun. Knattspyrnudeild Fjölnis hefur tekið upp mjög gáfulega stefnu í leikmannamálum. Ekki er lengur stefnt að því að fylla liðið af útlendingum og aðkeyptum mönnum heldur er byggt á sönnum Fjölnisstrákum sem flestir hverjir eru stórefnilegir. Er það stefna deildarinnar að gefa þessum strákum öll þau tækifæri sem þeir eiga skilið og verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður. Knattspyrnudeildir á Íslandi hafa ekki alltaf verið skynsamar og oftar en ekki spilað rassinn úr buxunum fjárhagslega. Keypt lélega leikmenn dýrum dómum og greitt þeim síðan ofurlaun ofan í kaupið þrátt fyrir að innistæðan á getureikningnum væri ekki alltaf mikil. Eru til fjölmörg dæmi um að miðlungsgutlarar í knattspyrnu væru að mergsjúga félög fjárhagslega en sem betur fer er knattspyrnudeild Fjölnis ekki á þeirri braut. Laun íslenskra knattspyrnumanna, ef á annað borð á að greiða þeim laun, eiga að miðast við getu þeirra og árangur. Þeir eiga að fá einhverja aura fyrir 1 og 3 stig og einhverja aura fyrir hvert sæti fyrir sig í deildinni. Þá munu allir leggja sig 100% fram í öllum leikjum.

Stefán Kristjánsson, ritstjóri Grafarvogsblaðsins

gv@skrautas.is

Séra Vigfús Þór Árnason tekur við fyrsta ársmiðanum úr hendi Kristjáns Einarssonar formanns knattspyrnudeildar Fjölnis á dögunum. GV-mynd PS

Allir heimaleikir Fjölnis á 4.900,- og 1000 krónur renna í unglingastarfið

Allt frá stofnun Fjölnis árið 1988 hefur það verið markmið félagsins að veita börnum, unglingum og fullorðnum möguleika á að stunda íþróttir og taka þátt í keppni og ná góðum árangri í öllum þeim keppnum sem félagið tekur þátt í. Hjá knattspyrnudeild Fjölnis stendur metnaður þeirra sem fyrir deildina starfa að halda bæði úti öflugu yngri flokka starfi þar sem allir iðkendur fá tækifæri við sitt hæfi og eiga knattspyrnulið sem á fast sæti í efstu deild sem keppir alltaf meðal þeirra bestu. Í sumar mun meistaraflokkur karla keppa í næst efstu deild og ætla strákarnir sér stóra hluti þar. Leikmannahópurinn í sumar er að mestu leyti skipaður ungum drengjum sem byrjuðu að æfa og keppa fyrir Fjölni 5-6 ára gamlir en eru nú komnir á þann stað að vera helstu fulltrúar knattspyrnudeildarinnar. Þetta unga metnaðarfulla lið okkar undir styrkri stjórn þeirra Ásmundar Arnarssonar og Ágústar Gylfasonar er í góðri stöðu til að sækja fram á komandi árum. Með því að byggja liðið að mestu á uppöldum Fjölnismönnum leggjum við grunninn að langtímaárangri sem hangir saman við öflugt yngri flokka starf. Fjölnisliðið tók þátt í efstu deild Íslandsmótsins árin 2008 og 2009 og er ef til vill eftirminnilegast þegar KR kom í heimsókn á Fjölnisvöllinn ásamt 2.800 áhorfendum. Fjölnir hefur einnig náð þeim einstæða árangri að vinna sér rétt til

að leika til úrslita í Bikarkeppni KSÍ tvö ár í röð. Þessi tími sýndi okkur Grafarvogsbúum að við getum og eigum að eiga lið í fremstu röð sem við getum öll verið stolt af og höfum áhuga á að fylgjast með. Eitt af því mikilvægasta sem hvert knattspyrnulið á er öflugir stuðningsmenn. Því miður er staðreyndin sú að alltof fáir mættu á heimaleiki liðsins síðastliðið sumar þó liðið hefði spilað stórskemmtilegan fótbolta og verið í hörkubaráttu um að komast í efstu deild. Strákarnir hafa sýnt það á undirbúningstímabilinu að þeir eru til alls líklegir í sumar og lönduðu þeir m.a. fyrsta alvöru titli meistarflokks þegar þeir urðu Íslandsmeistarar í Futsal í desember. Það er því ljóst að margir stórskemmtilegir leikir eiga eftir að fara fram við Dalhúsin þetta sumarið. Til þess að ýta undir sem besta aðsókn á heimaleiki liðsins í sumar hefur knattspyrnudeildin ákveðið að bjóða ársmiða á völlinn sem gildir á alla 11 heimaleiki liðsins í deildinni á aðeins 4.900 kr. Af hverjum seldum miða munu 1.000 kr. renna í ferðasjóð Barna og unglingaráðs deildarinnar en rekstur yngri flokka félagsins líkt og meistaraflokkanna er í járnum. Með því að nýta sér þetta frábæra tilboð geta Grafarvogsbúar því slegið tvær flugur í einu höggi þ.e. komist ódýrt á leiki á meistarflokks og horft á gæða fótbolta og styrkt starf yngri flokka deildarinnar. Á sama tíma og þetta tilboð fer í gang

er verið að blása meira lífi í Stuðningsmannaklúbb meistaraflokks karla í knattspyrnu. Meðlimir stuðningmannaklúbbsins munu í sumar hittast fyrir alla heimaleiki á n.k. upphitunarfundum þar sem Ásmundur eða Ágúst þjálfari munu fara yfir leik dagsins. Félagar í stuðningsmannaklúbbnum munu auk þess að fá ársmiða á völlinn hafa aðgang inn í hátíðarsalinn í Dalhúsum í hálfleik auk annarra fríðinda sem smátt og smátt munu bætast í klúbbinn. Aðildargjald að stuðningsmannaklúbbnum er 12.000 kr. á ári sem hægt er að dreifa á allt að 12 mánuði á greiðslukorti. Af hverju árgjaldi á árinu 2011 munu 1.000 kr. renna í ferðasjóð Barnaog unglingaráðs Þeir sem vilja nýta sér þetta tilboð á ársmiðanum eða ganga í stuðningsmannaklúbbinn eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Fjölnis í síma 594-9640 eða með því að senda tölvupóst á fjolnir@fjolnir.is Leikmenn meistaraflokks munu keyra ársmiða heim til þeirra sem nýta sér tilboðið. Það er síðan einlæg von Fjölnismanna að sem flestir mæti á heimaleiki Fjölnis í sumar og taki með sér fjölskyldumeðlimi og vini og taki þannig þátt í því að gera hvern leik að skemmtilegum viðburði í hverfinu okkar. Hverfið í heild getur ekki annað en hagnast á bættum árangri liðsins.

Góð þátttaka í félagsmiðstöðvum Gufunesbæjar

Fjörugir krakkar í Gufunesbæ.

Í nóvember sl. lagði rannsóknamiðstöðin Rannsóknir & greining könnun fyrir alla unglinga í 8. – 10. bekk í Reykjavík. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að í borginni allri stunda um 62% unglinga félagsmiðstöðvar Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur (ÍTR) og einnig kom í ljós að kynjamunur var óverulegur þegar þátttakan var skoðuð. Þegar Grafarvogur er skoðaður sérstaklega kemur í ljós að um 75% unglinga í 8. – 10. bekk stunda félagsmiðstöðvar Gufunesbæjar í Grafarvogi reglulega og er það talsvert yfir Reykjavíkurmeðaltalinu. Unglingar í 8. bekk eru samkvæmt niðurstöðunum dugleg-

astir að stunda félagsmiðstöðvar (79%), þar á eftir koma 9. bekkingar (72%) en 10. bekkingar er sá árgangur sem síst stundar félagsmiðstöðvar (71%) þó að munurinn sé reyndar lítill á milli 9. og 10. bekkinga. Unglingarnir virðast ánægðir með samskipti sín við starfsfólkið en 92% allra unglinga í Grafarvogi segjast mjög eða frekar ánægðir með samskiptin hvort sem þeir stunda félagsmiðstöðvar reglubundið eða ekki. Unglingunum virðist almennt líða vel í félagsmiðstöðvunum en 92% unglinga í Grafarvogi eru mjög eða frekar sammála því að þeim líði yfirleitt vel þegar þeir eru í félagsmiðstöðinni hvort sem þeir stunda hana reglubundið eða ekki.

Það er ánægjulegt að sjá hversu virkir unglingarnir í Grafarvogi eru í félagsmiðstöðvastarfinu en rannsóknir hafa sýnt að sjálfsmynd unglinga mótast að miklu leyti í gegnum þátttöku í frístundum og tómstundastarfi. Rannsóknir sýna einnig að starfsemi sem er skipulögð og í umsjá ábyrgra aðila er líklegri til að hafa uppbyggileg áhrif í lífi unglinga frekar en starfsemi sem ekki hefur þessa þætti til að bera. Síðast en ekki síst hafa rannsóknir sýnt fram á að skipulagt tómstundastarf dregur úr líkum á að unglingar tileinki sér lífsstíl sem einkennist af áhættuhegðun, svo sem notkun vímuefna.

Grafarvogsblaðið -Ritstjórn og auglýsingar - Sími: 587-9500


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.