Ársskýrsla Umf. Selfoss 2015

Page 9

Fimleikadeild

Sextán ungmenni frá Fimleikadeild Selfoss æfðu með landsliðsúrtökuhópi Íslands í fimleikum fyrir Evrópumótið sem haldið var í október. Skemmst er frá að segja að níu ungmenni alin upp hjá Fimleikadeild Umf Selfoss voru valin í landslið Íslands og komu þau heim með samtals 7 verðlaunapeninga. Kvennalið Íslands hlaut silfurverðlaun en þær Eva Grímsdóttir og Rakel Nathali Kristinsdóttir voru báðar í liðinu. Blandað lið unglinga hlaut bronsverðlaun og í því liði voru fimm ungmenni frá Selfossi, þau Alma Rún Baldursdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Nadia Björt Hafsteinsdóttir og Rikharð Atli Oddsson. Blandað lið fullorðinna stóð sig einnig mjög vel og varð liðið í fimmta sæti. Í því liði voru Selfyssingarnir Aron Bragason og Hugrún Hlín Gunnarsdóttir. Þá var einn þjálfari Fimleikadeildar Selfoss, Tanja Birgisdóttir, landsliðsþjálfari og er reynslan sem hún kemur með til deildarinnar mjög verðmæt fyrir deildina. Deildin bindur sem fyrr segir miklar vonir við að eiga lið á Norðurlandameistaramóti fullorðinna sem haldið verður í nóvember 2015 en það ræðst af árangri liðsins á Íslandsmeistaramóti sem haldið verður 17.-18. apríl 2015.

Fimleikaakademía

Fimleikaakademía hefur verið starfrækt við Fjölbrautaskóla Suðurlands frá árinu 2008. Mikil aukning var í aðsókn að deildinni í haust og á haustönn stunduðu 37 nemendur nám við akademíuna, sem þýðir að þar eru tveir hópar við æfingar. Akademían gengur vel, nemendur leggja kapp á einstaklingsmiðaða þjálfun og fá sérhæfða styrktarþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara. Fimleikaakademían hefur jafnframt skilað nemendum betri árangri í bóklegu námi þar sem fylgst er náið með ástundun nemenda og þeim fylgt vel eftir. Fimleikaakademían er eitt af trompum deildarinnar og sveitarfélagsins alls. Þar eru einbeittir íþróttamenn við nám sem eru sönn fyrirmynd og öllum til sóma.

10

Áhaldakaup

Undanfarin ár voru lítil sem engin áhaldakaup hjá deildinni, enda yfirlýst stefna að halda að sér höndum í fjármálum. Á síðasta ári var ljóst að ráðast þurfti í kostnaðarsamar lagfæringar á gryfjum og endurnýjun á stórum áhöldum. Þó að kappkostað sé að halda öllum tækjum og áhöldum heilum og í lagi verður mikið slit og hnjask bæði vegna notkunar en ekki síður vegna óhjákvæmilegra flutninga milli húsa í hvert sinn sem efnt er til móta eða sýninga. Þá er einnig ljóst að röng notkun utanaðkomandi aðila á áhöldum deildarinnar hefur einnig sitt að segja en deildin samnýtir salinn með Sunnulækjarskóla. Lendingadýnur deildarinnar voru orðnar það slitnar að ekki var forsvaranlegt að nota þær áfram vegna slysahættu. Deildinni bauðst að kaupa lendingarsett sem flutt var nýtt til landsins og notað á Evrópumeistaramótinu. Settið fékkst á mjög góðum kjörum þar sem bæði var veittur afsláttur af fullu verði og ekki þurfti að greiða flutning til landsins. Sveitarfélagið sýndi málinu góðan skilning og brást skjótt við og tókst að kaupa settið, en til fróðleiks má geta þess að slíkt sett kostar tæpar 4 milljónir. Einnig var ráðist í að kaupa nýtt loftgólf og er mikil ánægja með það. Bæta þessi áhöld aðstöðu iðkenda til muna. Ljóst er að sífellt þarf að endurnýja tæki og áhöld og má reikna með að endurnýja þurfi á komandi ári dansgólf deildarinnar og fleiri áhöld. Þá má geta þess að lögð er áhersla á að koma áhöldum sem deildin hættir að nota í verð. Eðlileg endurnýjun smærri tækja á sér stað á hverju ári og eru til dæmis keyptar teygjur, lóð, jafnvægispúðar, hljómtæki og fleira smádót sem gengur jafnhratt úr sér

Jólasýning

Frozen var þema jólasýningar ársins 2014. Húsfyllir var á öllum þremur sýningum og voru gestir mjög ánægðir með sýinguna enda fjölbreytt sýning þar sem allir aldurshópar deildarinnar tóku þátt. Litríkir búningar, skemmtileg sviðsmynd og fjörug tónlist hafa mikil áhrif.

Ungmennafélag Selfoss - Ársskýrsla starfsárið 2014


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.