FRÁ AÐALFUNDI RARIK 2020
Aðalfundur RARIK 2020 Aðalfundur RARIK ohf. 2020 var haldinn við óvenjulegar aðstæður í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík 27. mars 2020. Vegna COVID-19 og samkomubanns stjórnvalda fór aðalfundurinn að þessu sinni fram í gegnum fjarfundarbúnað og var í beinni opinni útsendingu á vefslóð sem birt var á vef RARIK. Aðeins forstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru auk fundarstjóra á fundarstað í aðalstöðvum RARIK en aðrir aðalfundarfulltrúar voru í netsambandi.
11
Vegna COVID-19 faraldursins fór aðalfundur RARIK 2020 fram í beinni opinni útsendingu í gegnum fjarfundarbúnað. Aðeins forstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru á fundarstað auk fundarstjóra, en aðrir aðalfundargestir voru í netsambandi.
Í ávarpi sínu í upphafi fundarins þakkaði Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður félagsins starfsfólki RARIK fyrir markviss vinnubrögð á tímum COVID-19 og sagði að áhættustefnan sem mörkuð var hefði sannað gildi sitt í ljósi aðstæðna að undanförnu. Hann sagði almannaþjónustuhlutverk RARIK mikilvægt eins og landsmenn hefðu fengið að reyna í óveðri sem gekk yfir landið í desember 2019, en þá eins og í öðrum verkefnum hefðu starfsmenn unnið mjög gott starf við erfiðar aðstæður. Fyrir þetta bæri að þakka. Birkir Jón gerði að umtalsefni endurnýjun dreifikerfis RARIK sem nú stendur yfir og sagði það gríðarlegt verkefni sem ekki yrði lokið fyrr en árið 2035. Á árinu hefðu tæpir 350 km af háspennujarðstrengjum verið lagðir og í árslok hefði um 65% af háspennudreifikerfi RARIK verið komið í þriggja fasa jarðstrengi sem væri í samræmi við langtímaáætlun um endurnýjun kerfisins. Þetta metnaðarfulla verkefni tæki í og rekstur félagsins yrði að vera góður til að standa undir þessum framkvæmdum. Ef flýta ætti þessari endurnýjun án þess að hækka gjaldskrá í dreifbýli þyrftu stjórnvöld að koma með fjármagn inn í verkefnið. Sagði hann það nú í skoðun. Birkir Jón sagði það hafa verið áherslumál fráfarandi stjórnar að vekja máls á jöfnun raforkuverðs á milli þéttbýlis og dreifbýlis og hefði stjórnin beitt sér fyrir umræðu um þau mál. Lagðar hefðu verið fram hugmyndir um leiðir og hefðu undirtektir stjórnvalda oft og tíðum verið jákvæðar þó að enn hefðu ekki verið stigin skref til að jafna frekar raforkukostnað í landinu.
ÁRSSKÝRSLA RARIK OHF – 2020