1 minute read

Reykjavík vorra daga

Þegar ég lít um öxl 80 ár aftur í tímann með aðstoð ýmisssa hjálpargagna og heimilda, sem okkur eru opnar nú, er það kvikmynd Óskars

Gíslasonar, “Reykjavík vorra daga”, sem orkar einna sterkast á mig. Myndin er ómetanleg heimild um lífið í bænum árið 1946 og gefur glögga mynd af þróun hans sem höfuðstaðar.

Advertisement

Tökur myndarinnar hófust 1946 í borgarstjóratíð

Bjarna Bendiktssonar og stóðu alllengi yfir, enda efnið mjög fjölbreytt og víða komið við. Lýsir það stórhug og skilningi borgarstjórans á heimildargildi kvikmynda fyrir komandi kynslóðir.

Brot úr þessari mynd hafa svo sannarlega nýst afar vel í meðförum þáttagerðarfólks í sjónvarpi á síðari tímum. Með henni var minnst 160 ára afmælis Reykjavíkur sem kaupstaðar. Óskar skráði ekki aðeins sögu afmælisársins í myndinni heldur ná hlutar hennar yfir allmiklu lengra tímabil sögulega séð, því að breytingarnar gerðust ekkert mjög hratt á þessum tíma.

Um það bil þremur árum áður en þetta verkefni Óskars var hafið kom ég í heiminn á fæðingarstofu Landspítalans og get því með réttu tileinkað mér fyrir hönd minnar kynslóðar titil myndarinnar

“Reykjavík vorra daga.” Afar margt í þessari mynd vekur minningar okkar um hið daglega líf bæjarbúa, sem við urðum vitni að á ungum aldri. Þarna bregður fyrir svipmyndum af ýmsu er telst til fyrstu bernskuminninga minna á miklum umbrotatímum rétt eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og erlendrar hersetu.

Reykvíkingar voru 49.000 árið 1946 og hafði fjölgað umtalsvert frá upphafi stríðsins. Húsnæðisvandinn var gífurlegur og setti hann svip á kjör fjölskyldu minnar eins og svo margra annarra. Sama er að segja um hinar þungu búsifjar sem landsmenn máttu þola vegna sjóslysa og mannfalls í þeim. Margir íslenskir sæfarendur fórust á styrjaldarárunum. Þrátt fyrir margs kyns þrengingar á fyrstu eftirstríðsárunum vegna húsnæðisskorts, vöruskorts og alls kyns hafta, horfði þjóðin fram á veg í nýstofnuðu lýðveldi, þar sem endurreisn og nýsköpun var hafin á svo mörgum sviðum. Frá blautu barnsbeini varð ég vitni að þessu og fylgdist t.d. spenntur með byltingarkenndum breytingum í samgöngumálunum með nýjum flugvélum og skipum.

Í þessum kafla æviminninga minna sem ég skráði í tilefni áttræðisafmælis míns beini ég sjónum að tímabilinu frá því að ég man fyrst eftir mér og fram til upphafs sjötta áratugar síðustu aldar. Elsta leifturmyndin í mínu hugskoti er af brunarústunum við Amtmannsstíg í nóvember 1946. Mörg hús brunnu. Þá var ég þar á vettvangi þriggja ára gamall að skoða verksummerki. Það var margt sem drengur á forskólaaldri uppgötvaði og velti fyrir sér. Við Reykjavíkurbörn á þessum tíma deilum sameiginlegri reynslu, bjartri og þroskandi við undirspil brauðstritsins.