Arbok 2013

Page 47

Slysavarnir ferðamanna

ÁRBÓK 2013 l SLYSAVARNAFÉLAGIÐ LANDSBJÖRG

Björgunar- og slysavarnasvið

Sú tölfræði sem er einna áhugaverðust er líklega sú sem horfir á tegundir þeirra ferðamanna sem koma við sögu í útköllum Hálendisvaktarinnar. Hún helst nokkuð jöfn á milli ára en þó eru fleiri flokkar farnir að koma við sögu. Þannig má benda á að í fyrsta sinn koma rútur við sögu í einhverju mæli eða í 4% tilfella. Leiða má líkum að því að af þeim rétt rúmlega 100 útköllum sem flokkast undir bílslys, slys og veikindi og svo leitir hefðu að minnsta kosti eitt til þrjú tilfelli endað mun verr ef Hálendisvaktar hefði ekki notið við. Viðvera björgunarsveita á hálendinu styttir viðbragðstíma umtalsvert og tryggir öryggi ferðamenna betur en ella. Það styrkir ímynd Íslands sem ferðamannalands og þess njóta allir sem hagsmuni hafa af ferðaþjónustu hér landi. En fleira en Hálendisvakt björgunarsveita þarf að koma til. Skoða þarf hvort innviðir ráði við þann fjölda ferðamanna sem hingað kemur og ekki síður sem hingað er væntanlegur. Er uppbygging ferðamannastaða hægari en fjölgun ferðamanna? Tryggja þarf að öryggi ferðamanna sé ekki stefnt í hættu með aðgerðarleysi á helstu ferðamannastöðum. Tryggja þarf að merkingar séu viðunandi og á þann hátt að ferðamenn upplifi eigin ábyrgð og að aðgæsluleysi geti reynst dýrkeypt. Ástand vega á hálendinu er ekki ásættanlegt. Það eitt og sér veldur hættu svo ekki sé talað um sífellu tjóni á farartækjum. Tryggja þarf nægilegt fjármagn til að hægt sé að halda vegum eins öruggum og hægt er. Einnig þarf að meta hvernig má ná til þeirra ferðamanna sem ferðast um víðerni og jökla landsins á vetri sem sumri. Telst eðlilegt að ferðamaður geti gengið yfir Vatnajökul og Ódáðahraun án þess að þurfa að skilja eftir ferðaáætlun? Hægt væri að setja þá skyldu á ferðalanga á leið yfir Vatnajökul á tímabilinu janúar til maí að þeir verði að skilja slíka áætlun á vefnum safetravel.is ásamt því að koma við á einni af þjónustumiðstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem farið væri yfir áætlunina og búnað. Fræðslu til ferðamanna þarf að efla enn frekar en nú er gert. Ferðaþjónar og hagsmunaðilar þurfa að taka enn fastar höndum saman og vinna saman að því markmiði að ná til sem flestra ferðamanna. Það að upplýsa um aðstæður og rétta ferðahegðan á að vera jafn sjálfsagt og að upplýsa um áhugaverða staði eða gistimöguleika. Slysavarnir ferðamanna er stærsta einstaka forvarnaverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Það verkefni þarf að efla með auknu fjármagni svo hægt sé að taka þau skref sem nauðsynleg eru til að taka á móti þeim ferðamönnum sem hingað koma. Félagið ætlar sér að vera í fararbroddi í þessum málaflokki nú sem fyrr í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Jónas Guðmundsson Verkefnastjóri slysavarna ferðamanna

47


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.