3 minute read

Magnús Berg Magnússon og Þorsteinn Kári Jónsson

MEISTARAMÁNUÐUR SAMKAUPA

Skorum okkur á hólm!

Meistaramánuður varð upphaflega til árið 2008 þegar tveir háskólanemar í Kaupmannahöfn ákváðu að taka sig rækilega á fyrir prófin og lifa eins og meistarar í heilan mánuð.

Flestir hafa heyrt um Meistaramánuð. Þegar hann rennur upp í október ár hvert ákveða margir að grípa tækifærið, setja sér markmið og temja sér betri lífsvenjur. Upphafsmenn Meistaramánaðar eru Magnús Berg Magnússon og Þorsteinn Kári Jónsson. Árið 2008 voru þeir háskólanemar í Kaupmannahöfn sem ákváðu að segja sukkinu stríð á hendur.

„Markmiðin voru einföld: Drekka ekkert áfengi, borða eins og hellisbúar (Paleo Diet), fara út á strönd að hlaupa alla virka morgna og vera mættir á lesstofuna í skólanum fyrir klukkan 8,“ segja Magnús og Þorsteinn. Hvatinn að þessari lífsstílsbreytingu var fyrst og fremst að undirbúa sig vel fyrir prófin – sem þeir stóðust síðan með glans – en ávinningurinn var líka annar og meiri. „Það var einhver meistaraleg tilfinning að vera búinn að koma svona miklu í verk snemma morguns og horfa á grútsyfjaða skólafélagana tínast inn með stírur í augunum,“ útskýra þeir. „Upp frá því var talað um að taka Meistaramánuð og fleiri slógust í lið með okkur.“

Með árunum hefur Meistaramánuður þróast úr því að snúast um afmörkuð markmið fárra einstaklinga yfir í þjóðarátak. „Við erum ekki lengur bara tveir og núna snýst Meistaramánuður um miklu meira en bara mataræði og hreyfingu. Meistaramánuður snýst um það hvernig við getum skilið sjálf okkur betur, skorað okkur á hólm, orðið betri útgáfa af sjálfum okkur og hvað við getum gert til þess að láta okkur og fólkinu í kringum okkur líða betur alla aðra daga. Við getum öll bætt eitthvað, svo mikið er víst.“ Magnús og Þorsteinn segja Meistaramánuð vera tilvalinn til þess líta í eigin barm, skoða hvað við getum bætt í fari okkar og gera áætlun að breyttum lífsstíl til frambúðar. „Það sem gerir Meistaramánuðinn betri en aðra mánuði til þess að tækla þessa hluti er það að í honum höfum við stuðningsnet frá þúsundum annarra þátttakenda.“

Magnús og Þorsteinn taka fram að þeir eru ekki sálfræðingar, markþjálfar, næringarfræðingar eða líkamsræktarfrömuðir. „Við gætum ekki verið lengra frá því að vera eða vilja vera fullkomnir,“ segja þeir. „Okkur finnst gaman að reyna bæta okkur og takast á við áskoranir og ef fólk er tilbúið til þess að gera það með okkur þá er það frábært. Hvort sem þig langar að nota Meistaramánuð til þess að hreyfa þig meira, taka mataræðið í gegn, hætta að taka í vörina, lesa bók, kenna barninu þínu að lesa, hætta að naga neglurnar, vera jákvæðari eða að læra að njóta þess að taka til heima hjá þér, þá vonum við að þú njótir hans og hugsir fyrst og fremst um að láta þér líða vel.“

Okkur finnst gaman að reyna bæta okkur og takast á við áskoranir og ef fólk er tilbúið til þess að gera það með okkur þá er það frábært. 10 hugmyndir Magnúsar og Þorsteins að markmiðum fyrir Meistaramánuð

1. Gefðu blóð í Meistaramánuðinum. 2. Vertu góður við alla í kringum þig. Líka þá sem eru leiðinlegir við þig. 3. Lestu að minnsta kosti 10 blaðsíður á dag í góðri bók. 4. Eldaðu nýja rétti á ákveðnum dögum vikunnar út mánuðinn. 5. Búðu um rúmið þitt á hverjum degi. 6. Kauptu plöntu og hlúðu að henni. 7. Finndu þér gott málefni til þess að styrkja í

Meistaramánuðinum. 8. Leggðu bílnum og hjólaðu í vinnuna eða skólann. 9. Hringdu í og peppaðu góðan vin. 10. Gefðu þér ákveðinn tíma á dag sem þú getur skoðað samfélagsmiðla.

Samkaup, sem eiga og reka Nettó, eru nýr bakhjarl Meistaramánaðar. Á meistaramanudur.is er hægt að skrá sig til leiks, sækja dagatal, lagalista, æfingaáætlun og fleira sem getur nýst þátttakendum við markmiðasetningu.