3 minute read

Stjórnsýsla Mosfellsbæjar

Í lok síðasta árs var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar að fara í stjórnsýsluútekt í Mosfellsbæ. Bæjarfulltrúar D-lista samþykktu tillöguna, en síðast var farið í úttekt á stjórnsýslu bæjarins árið 2014. Þó svo að stjórnsýslan hafi þróast og tekið jákvæðum breytingum í gegnum árin þá er alltaf gott að fá utanaðkomandi aðila til þess að skoða hlutina, rýna til gagns og koma með nýjar hugmyndir með það að markmiði að bæta þjónustu og starfsemi bæjarins enn frekar.

Ráðgjafafyrirtækið Strategía var fengið til þess að vinna úttektina og í framhaldinu lagði bæjarstjóri fram viðamiklar breytingar á stjórnsýslu og skipuriti Mosfellsbæjar sem byggðar voru á skýrslu Strategíu. Bæjarfulltrúar D-lista komu ekki að gerð tillagna um skipulagsbreytingarnar og sátu hjá við afgreiðslu málsins meðal annars fyrir þær sakir. Breytingarnar eru sumar eðlilegar og margt jákvætt sem kemur fram, bæði í skýrslunni og tillögunum, en þar eru jafnframt ágallar sem við setjum fyrirvara við.

Advertisement

Það vekur einna helst athygli í samþykktum tillögum að það virðist eins og verið sé að innleiða skipurit Reykjavíkurborgar og færa skipulagseiningar í sama búning og gerist þar. Það er spurning hversu jákvætt það er fyrir Mosfellsbæ að færa stjórnsýsluna í átt til þess sem gert er í Reykjavík sérstaklega þegar kemur að fjármálum, stjórnun, skipulags- og starfsmannamálum.

Vonandi horfir nýr bæjarstjóri og meirihluti í Mosfellsbæ ekki of mikið til félaga sinna í Reykjavík þegar kemur að skipulagi og stjórnun í Mosfellsbæ.

Miklar og dýrar breytingar

Breytingatillögurnar sem lagðar voru fram af bæjarstjóra og meirihlutinn samþykkti eru viðamiklar og útgjöld vegna þeirra óljós, en öruggt er að kostnaðurinn verður hár.

Í tillögunum er t.d. gert ráð fyrir mikilli fjölgun starfsfólks og það skýtur skökku við í því efnahagsástandi sem nú ríkir að ætla að ráða þennan fjölda af nýju starfsfólki. Staðreyndin er sú að fram undan er niðurskurður á útgjöldum bæjarins sem felur jafnvel í sér frestun framkvæmda. Við þær aðstæður er stórfelld fjölgun starfsfólks ekki ákjósanleg.

Það hvort þær breytingar sem nú hafa verið innleiddar séu til þess fallnar að bæta þjónustuna, verklag, samhæfingu og starfsumhverfi starfsfólks Mosfellsbæjar mun tíminn einn svo leiða í ljós.

Hver er tilgangur með breytingum?

Samkvæmt skýrslunni er breytingatillögunum ætlað að endurspegla áherslur sem koma fram í málefnasamningi meirihlutans. Þetta er tiltekið á a.m.k. fjórum stöðum í skýrslu Stategíu sem og í kynningum og tillögunum byggðum á henni.

Við bæjarfulltrúar D-lista teljum að breytingar í stjórnsýslu og á skipuriti bæjarins eigi fyrst og fremst að snúast um að hámarka gæði, hagkvæmni og skilvirkni þjónustu fyrir alla bæjarbúa, en eigi ekki að snúast um málefnasamning meirihlutans, því meirihlutar koma og fara.

Markmið síðasta meirihluta D- og V-lista í Mosfellsbæ var að sýna ábyrgð í rekstri bæjarins, fara vel með skattfé og halda álögum á íbúa eins lágum og kostur var.

Það eru leiðarljós sem nýr meirihluti virðist ekki ætla að viðhalda á sinni vakt, eins og bæjarbúar hafa nú þegar fengið að finna fyrir í gríðarlegum hækkunum fasteignagjalda og hækkun á útsvari.

Áhersla okkar bæjarfulltrúa D-lista í bæjarstjórn er að íbúar Mosfellsbæjar fái áfram eins góða þjónustu og hægt er þannig að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ.

Við þurfum að muna eftir að halda í gildi Mosfellsbæjar sem hér hafa verið höfð að leiðarljósi; virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.

Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúar D-lista.

Hlégarður hefur verið lokaður undanfarin misseri vegna mikilla endurbóta innahúss og vegna takmarkana er tengdust Covid. Það er því ánægjulegt að framboð menningarviðburða hafi aukist í Hlégarði og víðar í Mosfellsbæ, jafnt og þétt undanfarin misseri.

Tillaga okkar um nýjan menningarviðburð, Menning í mars, var samþykkt og fór dagskrá tengd þeim viðburðum fram í mars síðastliðnum. Frumraunin tókst vel og gaman var að sjá hversu margir tóku þátt. Menning í mars er komin til að vera.

Nú styttist í 17. júní og þar á eftir bæjarhátíðina Í túninu heima en auk þessara viðburða er mikilvægt að vera einnig með smærri viðburði því áhugi Mosfellinga er svo sannarlega til staðar og tilefnin eru næg.

Fulltrúar D-listans vilja styðja við listsköpun og auka framboð menningar- og listviðburða í Mosfellsbæ og fagna því að ráðinn hafi verið viðburðastjóri Hlégarðs. Það er jákvætt og mun sú staða eflaust efla og auka framboð og fjölbreytni menningarog listviðburða.

Nauðsynlegt er að halda áfram að hlúa að endurnýjun Hlégarðs og eru tækjakaup, hljóðkerfi, lýsing o.fl. hlutir sem þarf að klára sem fyrst svo húsið nýtist sem best og sem flestum.

Áform eru uppi hjá nýjum meirihluta að Mosfellsbær sjái um allan veitingarekstur og áfengissölu í Hlégarði í stað þess að fela rekstraraðila/viðburðastjóra þann rekstur eins og annan rekstur í húsinu. Með þeim fyrirætlunum má segja að bærinn sé kominn í samkeppni um veitinga- og áfengissölu. Það er mat fulltrúa D-listans í bæjarstjórn að lýðheilsubærinn Mosfellsbær eigi ekki sjálfur að standa í sölu á áfengi á viðburðum í Hlégarði.

Margt er fram undan í menningu og listum í Mosfellsbæ og mun Hlégarður gegna lykilhlutverki í mörgum af þeim viðburðum.

Við munum áfram styðja við endurnýjun og þróun Menningarhússins Hlégarðs á þessu kjörtímabili, Mosfellingum öllum til heilla.

Helga Jóhannesdóttir og Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúar D-lista

This article is from: