Leikhús er í mínum huga ekki vettvangur siða predikana, en það getur sýnt okkur möguleikana í lífinu, hversu slæmir hlutirnir geta orðið og hvernig það gerist. Það getur gefið okkur færi á að upplifa það hvernig það er að fara út að endimörkum mannlegrar reynslu með einhverjum hætti. Og maðurinn hefur þörf fyrir það. Við sækjumst eftir því að horfa á það sem við viljum ekki sjá, og erum heilluð af því sem skelfir okkur. Þróun Macbeths sem persónu er á vissan hátt þver öfug við þróun konu hans. Í upphafi verksins er það Macbeth sem hikar við að fremja ódæði, en kona hans sýnir meiri ófyrirleitni og tilfinningakulda. Undir lok verksins er hún orðin heltekin af samviskubiti og missir að lokum vitið, en Macbeth virðist orðinn sálarlaus morðingi. Eitt af því sem gerir leikritið Macbeth heillandi er að það lýsir harmleik sem par gengur í gegnum. Ég sé fyrir mér að þau hjónin búi við einhvern sameiginlegan harm í upphafi, sem gæti til dæmis verið barnleysi eða barnsmissir. Hver sem ástæðan er, þá er ljóst að einhver skortur, einhver þörf eða hungur í sambandi þeirra getur af sér ofbeldi sem á endanum rústar samfélaginu. Þau eru afar náin og stundum á maður erfitt með að skilja þau að í huganum. Það er mikil kynferðisleg spenna í þessu ástarsambandi og þau skiptast á að vera ráðandi. Það sem þau gera, gera þau aðeins vegna hvort annars og fyrir hvort annað. En í gegnum þá glæpi sem tengja þau, fjarlægjast þau. Það býr mikið hungur innra með þeim, og einhvers konar ást, sem gerir það að verkum að þau vilja komast nær hvort öðru, jafnvel á meðan þau eru að glata hvort öðru.
Macbeth er eitt blóðugasta verk Shakespeares, og orðið blóð kemur fjölmörgum sinnum fyrir í textanum. Það eru nokkur einsatkvæðisorð sem eru síendur tekin í leikritinu, eins og “deed, blood, milk, sleep, eat, time...”, og blóð er einna mest áberandi af þeim, enda hverfist verkið um morð sem kalla á önnur morð. Meðal þess sem rannsakað er í verkinu er morðhvötin í manninum, en möguleikinn á að morð séu framin er til staðar í hverju samfélagi, í lífi hvers manns. Spurningin hvað þarf til, til þess að gera manneskju að morðingja sækir sterkt á okkur mennina, og er meðal annars efniviður fjölmargra kvikmynda. Við teljum okkur öll vera gott fólk, en leikverk eins og Macbeth fær okkur til að spyrja okkur: En hvað ef við sjálf gerðumst morðingjar? Leikritið vekur líka upp spurningar um hið illa, hvað illska sé og hvort einstaklingur geti fæðst illur, eða hvort það séu aðstæðurnar sem spilli honum. Það er auðvitað óumdeilt að umhverfi einstaklingsins hefur áhrif á hann, en getur verið að frækorn hins illa búi innra með ákveðnum einstaklingum? Og getur illskan borist á milli manna líkt og smitsjúkdómur? Verkið hefst á því að menn eru að koma heim úr stríði og það vekur spurningar um áhrif stríðsreksturs á hugarfar í samfélagi. Leikritið lýsir samfélagi þar sem morð og hugsunarháttur morðingjans taka smám saman yfir; morðæði breiðist eins og vírus um samfélagið. Konungsmorð getur af sér fleiri morð, æ hryllilegri; vinarmorð, morð á börnum og konum og að endingu samviskulausa slátrun. Ég sé fyrir mér að atburðirnir í Macbeth eigi sér stað í menningarheimi þar sem sífellt geisar stríð.
Og þannig er í raun heimurinn sem við lifum í; það er alltaf eitthvert stríð háð, einhvers staðar, en nú á dögum á það sér stað á jaðri hins vestræna heims, ef svo má segja. Stríðsrekstur er hluti af hinu kapítalíska samfélagsformi sem er ríkjandi í heiminum í dag. Macbeth er eitt kröftugasta leikverk heimsbók menntanna. Í því býr djúpstæður, dimmur töfra máttur. Leikritið er líkt og seiður eða töfraþula, sem bíður eftir því að öðlast líf í leikhúsinu. Í mínum huga er leiksýning ávallt einhvers konar upprisa; hinir dauðu eru vaktir til lífs. Í Macbeth verður einmitt þetta kjarni sjálfs leikverksins. Leiksviðið í Macbeth er svið þar sem fólk gengur aftur, það er vettvangur áfalla, sefasýki, ofskynjana og hrárrar, naktrar mannlegrar reynslu. Macbeth er stysti harmleikur Shakespeares. Verkið er þétt, það er mikill hraði í atburðarásinni og margir telja að sú gerð verksins sem hefur varðveist hljóti að vera stytt útgáfa þess. Ég lít ekki svo á að þetta sé stytt útgáfa, heldur hafi Shakespeare skrifað verkið svona af ásettu ráði. Það hvað verkið er stutt og þétt gefur því ákveðinn sprengikraft. Og fyrir vikið virkar leikritið mjög nútímalegt. Sögunni vindur fram líkt og leiftur mæti augum okkar. Að sumu leyti er atburðarásin eins og í draumi, þar sem sumt getur skyndilega gerst mjög hratt. Og við þurfum sjálf að fylla upp í eyðurnar sem myndast á milli leiftranna. Ég hef unnið talsvert með leikrit Shakespeares og ávallt fundið mig knúinn til að stytta þau þó nokkuð. En þetta verk er einstakt í höfundarverki skáldsins, og í fyrri hlutanum get ég varla hugsað mér að stytta
nokkuð, því að allt gengur svo hratt fyrir sig. En vissulega gerum við nokkrar styttingar, meðal annars í texta nornanna og í síðari hlutanum þegar ýmsar aukapersónur eru kynntar til sögunnar. Ég vildi halda þeirri tilfinningu að verkið væri eins og þaninn strengur, allan tímann, sem aldrei slaknaði á. Maður gæti jafnvel fengið á tilfinninguna að verkið væri að gerast í huga Macbeths, eða huga lafðinnar. Allir leikararnir í sýningunni nema Macbeth-hjónin fara með fleiri en eitt hlutverk. Nornirnar, sem í þessari uppsetningu eru úr hópi hinna lægst settu í samfélaginu, - og eru hugsanlega látnar konur -, ganga aftur og ásækja fólkið í verkinu, toga í ósýnilega strengi, setja á svið leiksýningu fyrir Macbeth og sýna honum inn í framtíðina. Leikhúsið er spennandi vettvangur fyrir rannsókn á valdi og valdahlutföllum, og hér stillum við upp hinum valdlausu, olnbogabörnum samfélagsins, andspænis æðstu valdamönnum. Líkt og í Lé konungi þar sem við fylgjum aðalpersónunni frá því að vera alvaldur til algers valdleysis, sjáum við hér hvernig vald blæs út og hverfur loks í höndunum á einum manni. Þið Börkur leikmyndarhöfundur vinnið nú með mjög nakið svið, líkt og í Lé konungi. Leikmynd eins og í Macbeth getur virkað eins og rannsóknarstofa sálarinnar. Í þessu rými er hvergi hægt að fela sig, leikarinn er berskjaldaður. Vinnan með skáldskapinn verður hrárri, beinskeyttari. Mér finnst áhugavert að fá að sjá lífið í sinni einföldustu og nöktustu mynd í leikhúsinu, og svona leikmynd, þessi kassi, er leið til þess. Það eina sem raunverulega þarf í þessu blóðuga verki er vaskur til að þvo af sér blóðið!