Kjartan Ragnarsson Kjartan Ragnarsson hefur leikstýrt fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu í gegnum tíðina og kemur nú aftur til starfa eftir sjö ára hlé. Undanfarin ár hefur Kjartan stýrt Landnámssetrinu í Borgarfirði, en ýmsar sýningar hafa verið settar upp þar á Söguloftinu.
Kjartan tekst nú í annað sinn á við Heimsljós Halldórs Laxness sem leikgerðarhöfundur og leikstjóri, en hann samdi tvær leikgerðir byggðar á verkinu sem sýndar voru við opnun Borgarleikhússins árið 1989, Ljós heimsins og Höll sumarlandsins. Leikgerðirnar voru byggðar á fyrstu tveimur hlutum Heimsljóss. Kjartan leikstýrði sjálfur Ljósi heimsins á litla sviðinu og Gretar Reynisson, sem nú gerir leikmynd, sá um leikmynd og búninga í sýningunni. Stefán Baldursson leikstýrði Höll sumarlandsins á stóra sviðinu. Í sýningu Þjóðleikhússins á Heimsljósi nú liggur hinsvegar verkið í heild sinni til grundvallar uppfærslunni. Mörgum eru einnig minnisstæðar sýningar Kjartans byggðar á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness, Ásta Sóllilja – Lífsblómið og Bjartur – Landnámsmaður Íslands, sem frumsýndar voru í Þjóðleikhúsinu árið 1999 og var boðið á EXPO 2000 í Þýskalandi. Kjartan leikstýrði báðum sýningunum og gerði leikgerð í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur. Kjartan lauk námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og lék í mörgum sýningum á vegum LR en fór brátt einnig að leikstýra og skrifa leikrit. Kjartan hefur sjálfur leikstýrt flestum verkum sínum. Meðal þeirra má nefna Saumastofuna, Blessað barnalán, Jóa, Skilnað, Land míns föður og Íslensku
mafíuna (í samvinnu við Einar Kárason) sem sett voru á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Týndu teskeiðina, Snjó, Gleðispilið, Nönnu systur (í samvinnu við Einar Kárason) og Rauða spjaldið í Þjóðleikhúsinu og Peysufatadaginn og Dampskipið Ísland hjá Nem endaleikhúsi Leiklistarskóla Íslands. Meðal verka sem Kjartan hefur gert leikgerðir af eru Ofvitinn eftir Þórberg Þórðarson, Þar sem djöflaeyjan rís eftir Einar Kárason og Eva Luna eftir Isabell Allende fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Grandavegur 7 (í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur) eftir Vigdísi Grímsdóttur fyrir Þjóðleikhúsið. Meðal annarra leikstjórnarverkefna Kjartans má nefna Antígónu, Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Önnu Kareninu, Jón Gabríel Borkmann og Svarta mjólk í Þjóðleikhúsinu, Hamlet, Vanja frænda, Platonov, Þrúgur reiðinnar og Kontrabassann hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Kirsuberjagarðinn, Stræti, Mávinn og Þrjár systur hjá nemendaleikhúsi Leiklistarskólans í Malmö, Platonov hjá Borgarleikhúsinu í Malmö, Grandaveg 7 hjá Borgarleikhúsinu í Gautaborg, Ég er meistarinn í Gdansk í Póllandi og Pétur Gaut hjá Borås Statsteater.