Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir (gömul kona) lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1978. Hún hefur starfað við Þjóðleikhúsið í yfir þrjá áratugi, en hún hefur einnig leikið hjá LR, LA og Alþýðuleikhúsinu. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Óhapp, Oliver, Ballið á Bessastöðum, Sögustund: Búkolla og Sögustund: Karlsson, Lítill, Trítill og fuglarnir. Hún leikur í Glerdýrunum á vegum Fátæka leikhússins í Leikhúskjallaranum í vetur. Hún lék hér í Ballinu á Bessastöðum og Bjart með köflum í haust og lék í Sögustund: Búkollu á Akureyri á vegum Þjóðleikhússins. Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Jarþrúður) útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1987. Hún hefur farið með fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR og í kvikmyndum. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Pétur Gautur, Ívanov, Skilaboðaskjóðan, Utan gátta, Brennuvargarnir, Af ástum manns og hrærivélar, Gerpla, Finnski hesturinn, Lér konungur og Bjart með köflum. Hún hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Pétri Gaut og var tilnefnd fyrir Lé konung, Utan gátta, Ívanov, Sólarferð, Stórfengleg og Þetta er allt að koma. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Brúðgumanum. Ólafur Egill Egilsson (Örn Úlfar) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og hefur starfað við fjölda sýninga hjá LR, LA, Þjóðleikhúsinu og Vesturporti. Hann gerði leikgerð af Fólkinu í kjallaranum hjá LR, var meðhöfundur að leikgerð Gerplu og handriti kvikmyndanna Brúðguminn, Brim og Sumarlandið. Hann hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Oliver og Svartri mjólk og var tilnefndur fyrir Brim og Fagnað. Hann hlaut Grímuna sem leikskáld ársins ásamt Auði Jónsdóttur fyrir leikgerðina Fólkið í kjallaranum. Í vetur leikur hann hér í Hreinsun, Leitinni að jólunum og Bjart með köflum. Pálmi Gestsson (Pétur Þríhross) lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1982. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars með Spaugstofunni. Meðal nýjustu verkefna hans hér eru Lér konungur, Hænuungarnir, Engisprettur, Hart í bak og Ríkarður þriðji. Hann lék í Svörtum fugli í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Brottnáminu úr kvennabúrinu í Íslensku óperunni. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Hænu ungunum. Hann leikur hér í vetur í Hreinsun og Bjart með köflum. Stefán Hallur Stefánsson (Just/oddviti) útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2006. Hann hefur starfað með Þjóðleikhúsinu, LR, Vesturporti, Vér Morðingjum, Sokkabandinu, ART í Bandaríkjunum og CDN Orleans. Nýjustu verkefni hans hér eru Lér konungur, Hedda Gabler, Íslandsklukkan og Gerpla. Hann leikstýrir Eftir lokin hjá SuðSuðVestur. Hann hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars í Pressu, Jóhannesi, Desember, Roklandi og Djúpinu. Hann er stundakennari við leiklistardeild LHÍ. Í vetur leikur hann hér í Hreinsun og er aðstoðarleikstjóri í Vesalingunum.