
1 minute read
Kæru leikhúsgestir
Verið velkomin í Frumleikhúsið, höfuðstöðvar Leikfélags Keflavíkur. Framundan er tóm vitleysa með dassi af söng og vonandi hlátri af ykkar hálfu. Það er samt ekki hægt að fá endurgreitt.
Revía þessi var samin af frábæru fólki sem kom saman í vonda veðrinu í desember síðastliðnum, fékk sér snakk og bjór og skrifaði alls konar rugl niður á blað ásamt því að vera með almennann vitleysisgang. Hér í leikhúsinu má einmitt vera með vitleysisgang en við pössum okkur þó (oftast) á að fara ekki yfir strikið. Eða svona reynum það að minnsta kosti.
Advertisement
Engin ábyrgð er tekin á þessum bröndurum ekkert frekar en á yfirhöfnum ykkar á fatastandinum frammi. Þær verða að öllum líkindum farnar þegar þið ætlið heim enda leikarar með eindæmum fátækir, hvað þá leikarar í sjálfboðavinnu.
Hópurinn sem hér fer á svið hefur æft baki brotnu síðustu vikur undir dyggri leiðsögn Eyvindar Karlssonar en honum kunnum við bestu þakkir fyrir samstarfið. Vonandi kemst hann heim til sín aftur en hann er einn af þeim vitleysingum sem keyrir um á rafbíl. Hann hefur í nokkur skipti á æfingaferlinu þurft að ýta bílnum sínum frá Hvassahrauni og heim til sín í Hafnarfjörð þar sem hann vanmat akstursdrægni bílsins. Það er ekki okkur að kenna að við erum ekki með hleðslustöð hjá okkur en hann hafði nú gott af þessu blessaður.
Öllu var til sparað við gerð þessarar leikmyndar og voru leikfélagar skikkaðir í smíðaog málningarvinnu. Auk þess má geta að búningarnir voru alfarið í höndum leikfélaga að útvega og útfæra. Margir tóku sig til og grömsuðu í búningadeildinni okkar (við nefnum engin nöfn, þið sjáið alveg hverjir það eru), aðrir keyptu eitthvað á nytjamörkuðum bæjarins og enn aðrir nýttu tækifærið og áreittu vini og vandamenn og þröngvuðu upp á þá miðum á þessa sýningu í skiptum fyrir lán á fötum. Óheppin þau.
Húsið er búið að vera yfirfullt af hlátri, bröndurum og bulli en þetta ferli er búið að vera gríðarlega skemmtilegt enda einstaklega góður hópur. Við segjum þetta reyndar í hvert skipti sem við setjum upp sýningar en þetta er bara svona - leikfélagið er svo skemmtilegt.
Í ár eru 34 ár síðan fyrsta revía Leikfélags Keflavíkur “Við kynntumst fyrst í Keflavík” eftir Ómar heitinn Jóhannsson var sett upp í Félagsbíói og vonum við að þessi revía verði ekki af verri endanum.
Góða skemmtun og takk fyrir að koma í leikhúsið.
Stjórn Leikfélags Keflavíkur