
1 minute read
Gleðilega revíu
Revíuformið er skemmtileg áskorun fyrir allt leikhúsfólk, og þegar mér bauðst tækifæri til að vinna með Leikfélagi Keflavíkur að þessari sýningu þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar. Ekki spillti fyrir að hafa séð síðustu tvær uppfærslur leikfélagsins og séð hversu mikla hæfileika er þar að finna.
Ferlið hefur enda verið eitt það skemmtilegasta sem ég hef komið nálægt. Hver einasta æfing hefur verið eitt, langt hláturskast, meira að segja þær erfiðu. Það er mikill lúxus fyrir leikstjóra að koma inn í hóp þar sem allir brenna fyrir verkefninu og keppast um að gera hvert augnablik eins fyndið og flott og mögulegt er. Þau gerðu æfingarnar svo skemmtilegar að meira að segja þegar Reykjanesbrautin var sem leiðinlegust var alltaf tilhlökkunarefni að keyra til Keflavíkur.
Advertisement
Að mörgu leyti hefur þetta ferðalag verið óvanalegt fyrir mig. Það er sérstök upplifun að koma sem leikstjóri inn í verkefni þar sem grínið snýst um samfélag sem ég er ekki hluti af. Í gegnum handritaskrif og æfingar hef ég fengið skyndinámskeið í málefnum Reykjanesbæjar, og finnst ég orðinn miklu nær um þetta magnaða bæjarfélag, þótt ég sé líklega mjög langt frá því að teljast fullnuma. Þó standa margir staðir og manneskjur sem ég hef aldrei séð í eigin persónu mér svo ljóslifandi fyrir augum að mér finnst ég hafa þekkt þau alla ævi.
Það er þakklátur leikstjóri sem fylgir þessari revíu síðasta spottann að frumsýningu, og vonar að áhorfendur hlæi jafn mikið og hann sjálfur. Reykjanesbær er heppinn að eiga framúrskarandi leikfélag, skipað ósérhlífnu hæfileikafólki í sérflokki, sem í þokkabót er sprenghlægilegt. Ef eitthvað er til í því að hláturinn lengi lífið hlýtur þetta félag að hækka meðalaldur bæjarbúa umtalsvert. Töluvert umtalsvert. Og eftir þetta æfingaferli hefur örugglega bæst áratugur við mitt líf.
Til hamingju með þetta leikfélag og þessa revíu, og takk fyrir mig.
Eyvindur Karlsson Leikstjóri
