SMÁÍS, Skólablað Menntaskólans á Ísafirði.

Page 4

Ávarp Skólameistara

Þ

rítugasta og sjötta Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísfirði hefst 26. febrúar og stendur til 7. mars. Nafnið Sólrisuhátíð er tengt endurkomu sólarinnar í Skutulsfjörðinn, en hún byrjar að varpa geislum sínum inn um glugga bóknámshúss Menntaskólans 23. janúar og síðan í Sólgötu á Eyri við Skutulsfjörð 25. janúar, eftir meira en tveggja mánaða fjarveru. Reyndar sést hún fyrr í Álftafirði eða 12. janúar. Í Bjarnadal í Önundarfirði sést hún 15. janúar en það er einmitt fæðingardagur ljóðskáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar sem þar bjó. Hann orti svo 5. júlí 1993 þá 86 ára: Ljúfir voru sóldagar liðinnar tíðar og ljóminn af þeim. Breiddu þeir sinn unað um brúnir og hlíðar, til bæjanna heim. Koma munu sóldagar sælir til sögunnar enn, bregða sínum svip yfir búmannaraðir og bjartsýnismenn. Gleðin er í lofti og sumar í sveitum á sólviðratíð. Lífið reynist gjöfult í laufskógareitum og landmannahlíð.

Hápunktur í menningar- og félagslífi Menntaskólans á Ísafirði er Sólrisuhátíðin, sérstök lista- og menningarvika í umsjá nemenda skólans. Sólrisuhátíðin hefur verið haldin árlega frá 1974 og alla tíð síðan, yfirleitt í fyrstu viku marsmánaðar, hefur hátíðin skipað veglegan sess í menningarlífi bæjarfélagsins og vakið athygli. Sólrisuhátíðin skapar vettvang þar sem allir hagsmunaðilar skólans mætast og njóta afraksturs metnaðarfulls framlags nemenda. Dagana 3.-5. mars verður opinn skóli þar sem farið er á svig við formlega námskrá og námsefnið nálgast með öðrum hætti en í hefðbundnum kennslustundum. Óhefðbundnir kennsludagar við Menntaskólann á Ísafirði eiga sér langa sögu og má rekja upphafið til nýjungar sem komið var á að frumkvæði nemenda á vormisseri 1975 og hlaut nafnið gróskudagar. Voru gróskudagar fyrst haldnir um mánuði eftir Sólrisuhátíð. Þá eins og oft síðar voru þrír dagar í röð notaðir til skapandi verkefna sem nemendur völdu sér sjálfir. Löngu síðar voru óhefðbundnir kennsludagar felldir inn í Sólrisuhátíðina eins og nú er gert. Sólrisunefnd, öðrum nemendum og öllum þeim sem unnið hafa að undirbúningi Sólrisuvikunnar þakka ég kærlega fyrir þeirra framlag. Allir íbúar Ísafjarðarbæjar og nærliggjandi sveitarfélaga ættu að finna áhugaverða viðburði í dagskrá Sólrisuhátíðar MÍ og styðja við menningarstarf nemenda skólans með góðri þátttöku.

Gleðilega Sólrisuhátíð! - Jón Reynir Sigurvinsson Skólameistari

4


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.