Skólavarðan 1. tbl. 2014

Page 33

Hinsegin kennarar undirbúa stofnun félags Undirbúningsfundur að stofnun Félags hinsegin kennara var haldinn í Austurbæjarskóla þann 7. maí síð­ astliðinn. Markmiðið með stofnun félagsins er tvíþætt að sögn Guðjóns Ragnars Jónassonar, eins þeirra er standa að stofnun félagsins; annars vegar að styðja við hinsegin kennara og hins vegar að efla og styrkja hin­ segin fólk og menningu þess innan menntakerfisins. „Það hefur lengi verið í pípunum að stofna þetta félag. Hlutverk félagsins verður meðal annars að styðja við bakið á hinsegin fólki hvort sem það er við nám eða störf innan skólakerfisins, og um leið viljum við efla sýnileika,“ segir Guðjón.

Eitt af hlutverkum félagsins verður að efla orðræðu hinsegin fólks. „Við viljum styrkja vitund fólks um sögu og menningu hinsegin fólks. Þá ætlum við að stuðla að því að hugtakið jafnrétti verði nokkurs konar regnhlífarhugtak og nái til sem flestra minnihlutahópa þegar samdar eru jafnréttisáætlanir í skólum eða hjá stéttarfélögum kennara,“ segir Guðjón. Félagið mun að sögn Guðjóns hvetja til útgáfu námsefnis þar sem fjallað er um baráttu hinsegin fólks. „Námsefni á auðvitað að endurspegla fjölbreytileika lífsins eftir því sem við verður komið. Við ætlum líka að styðja við útgáfu rita fyrir skóla og almenning, bæði á prenti og á netinu, þar sem barátta og líf hinsegin

fólks verður í forgrunni. Þá viljum við styrkja og hvetja fræðimenn innan háskólanna til að stunda fræðilegar rannsóknir á lífi og menningu hinsegin fólks,“ segir Guðjón. „Félög hinsegin kennara eru starfrækt í fjölda landa og alþjóðasamtök kennara hafa gert sitt til að efla og styrkja fjölbreytileikann og hafa því stutt vel við félög hinsegin kennara með fræðslu og ráðstefnuhaldi,“ segir Guðjón að lokum. Áhugasömum er bent á að fylgjast með vefsíðum Samtakanna 78 og Kennarasambands Íslands, en þar geta þeir fylgst með stofnun félagsins og í framhaldinu sett sig í samband við forsvarsmenn þess.

„Hlutverk félagsins verður meðal annars að styðja við bakið á hinsegin fólki hvort sem það er við nám eða störf innan skólakerfisins, og um leið viljum við efla sýnileika“

Guðjón Ragnar Jónasson, kennari í MR, er einn af stofnendum nýja félagsins. Hér sést hann í verkfallsmiðstöð framhaldsskólakennara í Fram-heimilinu en hann var forsvarsmaður miðstöðvarinnar í verkfallinu.

Skólavarðan 1. tbl 2014  /  33


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.