Aðalnámskrá grunnskóla

Page 145

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

21.3 Listgreinar Listgreinum er skipt í sviðslistir, þ.e. dans og leiklist, sjónlistir og tónmennt. Eins og áður segir skipuleggur hver skóli kennslu listgreina og ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt, aðgreind námskeið í styttri tíma þannig að þær hafi meira vægi í stundaskrá nemenda ákveðið tímabil eða dreift jafnt yfir allan veturinn. Að jafnaði skal miða við að sviðslistir, sjónlistir og tónmennt séu kennd á öllum aldursstigum eins og viðmiðunarstundaskrá segir til um. Hafa skal í huga að í kafla 8.5 er kveðið á um að listgreinar og verkgreinar skuli hafa jafnt vægi innan heildartímans sem gefinn er upp í viðmiðunarstundaskrá og að við skipulagningu tíma sem skilgreindur er í viðmiðunarstundaskrá til ráðstöfunar/vals á unglingastigi skuli þess gætt að ekki halli á verklegt nám. Það á einnig við um skipulag valnámskeiða. Gert er ráð fyrir að allt að helmingur valstunda á unglingastigi sé bundinn list- og verktengdu námi. Hæfniviðmið einstakra listgreina skulu höfð til hliðsjónar við skipulagningu þeirra ásamt sameiginlegum hæfniviðmiðum list- og verkgreina. Matsviðmið taka mið af hæfni í listgreinum sem heild.

21.4

Menntagildi listgreina

Með listum getur maðurinn tjáð og dýpkað tilfinningar sínar og öðlast skilning og reynslu sem ekki verður færð í orð. Listsköpun opnar einstaklingum fjölbreyttar leiðir til að vinna með hugmyndir, varpa fram spurningum, endurspegla og túlka eigin reynslu og annarra. Þannig þroska nemendur hæfileika sinn og getu til að vega og meta gjörðir sínar og umhverfi með gagnrýnum hætti. Við listsköpun opnast oft ný og óvænt sjónarhorn á hugmyndir og hluti, það losnar um hömlur og kímnigáfa nemenda fær gjarnan notið sín í óvenjulegum og ögrandi verkefnum. Við slíkar aðstæður koma leyndir hæfileikar gjarnan fram og nemendur tengjast innbyrðis á annan hátt en í öðrum greinum. Listir í sinni fjölbreyttustu mynd í fortíð og nútíð fást við hugtök, hugmyndir og hluti sem tengjast manneskjunni og nánasta umhverfi hennar. Þær hreyfa við okkur á margvíslegan hátt, næra ímyndunarafl og efla fegurðarskyn. Listupplifun opnar farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Í listum geta nemendur rýnt í gildi samfélagsins á ólíkum tímum og mismunandi menningarsvæðum og einnig persónuleg gildi, s.s. gagnvart einstaklingum, fjölskyldu, samfélaginu, vinnu og leik, náttúru og umhverfi, fegurð, ljótleika, ofbeldi og ást.

143


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.