1 minute read

FERÐASAGA SCANIA CUP 2022

Dagana 14. – 20. apríl 2022 hélt 10. flokkur kvenna í langþráða keppnisferð til Svíþjóðar. Heimsfaraldur kom í veg fyrir að stelpurnar kæmust árið áður svo gleðin var því mikil að komast saman erlendis á mót. Scania Cup er sterkt mót þar sem öllum fremstu unglingaliðum Norðurlanda, U13-U19, er boðið að taka þátt. Á mótinu voru nokkur íslensk lið en aðeins eitt stúlknalið auk okkar. Mótið var haldið í Södertalje sem er smábær rétt utan við Stokkhólm. Snemma morguns á Skírdag lögðu 11 hressar stelpur, þálfarar og fararstjóri af stað og vorum við komin til Södertalje um miðjan dag í sól og blíðu en frekar köldu veðri. Gist var í Taljegymnasiet sem var staðsett við hliðina á aðal íþróttahúsinu og mötuneytinu. Þegar við komum í stofuna sem okkur hafði verið úthlutað kom í ljós að stofan var enn full af borðum og stólum og gert var ráð fyrir að við gestir tæmdu hana sjálfir. Hópurinn gekk vasklega til verksins og ekki tók langa stund að tæma stofuna og gera huggulega fyrir gistingu. Nágrannar okkar í næstu stofu voru 9. flokkur drengja frá Breiðablik og stóðu strákarnir sig vel í að styðja stelpurnar þegar færi gafst. Það sem eftir lifði dagsins notuðum við til að skoða íþróttasvæðið og næsta nágrenni, finna mötuneytið og fá okkur að borða. Fyrsti leikur var svo snemma morguns á föstudaginn langa. Stelpurnar lentu í riðli með dönsku liði og tveimur sterkum sænskum liðum. Þær enduðu í 3ja sæti riðilsins en annað sænska liðið, Alvik Basket, endaði sem sigurvegari mótsins í þessum aldurflokki. Spilaðir voru tveir leikir á dag og tíminn á milli leikja var nýttur til að fá sér að borða, hvílast, fylgjast með öðrum liðum spila og kynnast nýju fólki. Stelpurnar enduðu mótið á góðum sigri á mánudagsmorgni og lentu í 11. sæti á mótinu eftir góða frammistöðu þar sem allir lögðu sitt af mörkum. Okkar kona Erna Ósk Snorradóttir var stigahæsti leikmaðurinn í þessum aldursflokki. Seinni part mánudagsins héldum við svo inn í miðborg Stokkhólms þar sem gist var á góðu hóteli og stelpurnar fengu loksins eitthvað „almennilegt“ að borða. Við áttum svo heilan dag í Stokkhólmi sem skartaði sínu besta, bauð upp á fallegt veður og hita og nóg af verslunum til að kíkja í. Stelpurnar voru liði sínu og þjálfurum til mikils sóma alla ferðin bæði innan vallar sem utan og gaman var að fá að fylgja þeim á þessu ferðalagi.

Advertisement