2 minute read

DRENGJA Í KÖRFU TIL VALENCIA 2022

Þann 14. júní héldu 14 drengir, 1 þjálfari og 3 fararstjórar af stað í æfingaferð til Spánar. Ferðinni var heitið til Valencia þar sem við áttum eftir að vera næstu 7 daga við æfingar og spila æfingaleiki við hin ýmsu lið á svæðinu. Hópurinn mætti galvaskur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar kl.12:30 og eftir smá hikst í innritun voru allir komnir upp og í gegn. Flogið var beint til Alicante og þegar þangað var komið beið rúta eftir okkur sem fór með okkur til Valencia, sem er í um 2 klst fjarlægð frá Alicante. Þreyttur hópur var svo kominn á áfangastað rétt fyrir miðnætti. Aðstaðan þar sem hópurinn gisti var til fyrirmyndar. Ftlott æfingasvæði og sundlaug til að kæla sig niður og ekki veitti af því þar sem hitinn var nánast alla daga yfir 30 gráður. Næsti dagur byrjaði ferðalagið rólega enda var hópurinn þreyttur eftir ferðalagið. Eftir morgunmat skelltu strákarnir sér í sólbað og slökuðu á, milli þess sem þeir kældu sig í sundlauginni. Eftir hádegismat var tekin létt æfing á staðnum þar sem við gistum. Æfingaaðstaðan var öðruvísi heldur en við eigum að venjast, æft var á steyptu gólfi í skýli.

16. júní var farið í sundlaugina eftir morgunmat enda hitinn vel yfir 30 stig. Þegar hádegismatur var svo búinn fóru strákarnir í slökun enda leikur um kvöldið. Hópurinn var svo sóttur og farið var með okkur á æfingaaðstöðu Paterna, sem er klúbbur í úthverfi Valencia. Þar spiluðu strákarnir æfingaleik og þökk sé tækninni þá gátu foreldrar fylgst með þar sem leiknum var streymt beint á Youtube.

Advertisement

17. júní var sannkölluð þjóðhátíðarveisla fyrir körfuboltastrákana. Eftir morgunmat var hópurinn sóttur og ferðinni haldið á æfingasvæði Valencia körfuboltaliðsins. Með Valencia liðinu spilar einn af betri körfuboltamönnum Íslands, Martin Hermannsson. Það var mikil upplifun að koma á æfingasvæðið hjá Valencia en svæðið samanstendur af 12 körfuboltavöllum á einum stað, sannkallaður draumur fyrir körfuboltamenn. Martin kíkti á hópinn og spjallaði við þá. Svo um kvöldið spilaði liðið við eitt af ungmennaliðum Valencia. Mikið var að gera á æfingasvæðinu þegar við vorum þar, fjöldinn allur af ungmennum að æfa ásamt því að úrtökuæfing var í gangi fyrir aðallið

Valencia. Þar gefst leikmönnum færi á að spila fyrir framan þjálfara Valencia og aðra útsendara.

18. júní var farið í dýragarðinn Bioparc í Valencia. Dýragarðurinn þekur 100.000m2 svæði og inniheldur fjöldann allan af dýrum frá Afríku. Heimsóknin var mjög skemmtileg og gaman að sjá dýr sem við erum ekki vön að sjá.

Þann 19. júní var spilaður æfingaleikur um morguninn á æfingasvæðinu þar sem við gistum. Eftir hádegi var svo haldið á ströndina í Valencia þar farið var í sólbað og buslað í sjónum til að kæla sig niður. Hitinn var yfir 30 gráður þennan dag og því gott að komast í smá kælingu.

20. júní var slakað á eftir morgunmat við sundlaugina. Eftir hádegi var farið á æfingasvæði Paterna. Þar tókum við æfingu með strákum sem æfa með Paterna. Skipt var í 3ja manna lið, blandað leikmönnum frá báðum klúbbum og spilað 3 á móti 3 þar til eitt lið stóð uppi sem sigurvegari.

21. júní var tekin styrktaræfing úti á svæðinu sem við gistum. Strákarnir tóku vel á því og einnig var teygt vel á vöðvunum því búið að vera mikið álag síðustu daga. Síðdegis var hópurinn sóttur og ferðinni heitið á æfingasvæði Paterna þar sem spilaður var æfingaleikur við ungmennalið Paterna.

22. júní hélt svo hópurinn til á gistisvæðinu. Tekin var styrktaræfing síðdegis og teygt vel á þreyttum vöðvum. Sundlaugin var að sjálfsögðu nýtt til að ná sér í smá lit áður en haldið var heim til Íslands.

23. júní, heimferð þennan dag eftir frábæra dvöl á Spáni. Við vorum sóttir og fórum með rútu á Alicante flugvöll. Allt gekk vel fyrir sig og lentum við svo aðfaranótt föstudags í Keflavík.

Drengirnir vilja þakka öllum þeim sem styrktu þá til þessar ferðar, því án þeirra væri þetta ekki hægt

Körfuboltakveðja, Elentínus G. Margeirsson