3 minute read

HEFUR GEFIÐ OKKUR AUKIÐ SJÁLFSTRAUST

A Takast Vi Allskonar A St Ur

Í byrjun hausts árið 2022 héldu tvær ungar Keflavíkurstúlkur þær Ragnheiður Steindórsdóttir og Fjóla Dís F. Guðjónsdóttir, af stað á vit ævintýranna. Viðkomustaðurinn var Lýðheilsuskóli í Danmörku þar sem þær áttu eftir að stunda nám og æfa körfubolta. Lýðheilsuskóli eða Efterskole eins og það heitir í Danmörku er val hjá ungmennum á aldrinum 14-18 ára, flestir skólar bjóða þó einungis uppá nám í eitt ár eftir að grunnskólagöngu lýkur. Tilgangur skólanna er að bjóða upp á kennslu og félagslega samveru þar sem áhersla er lögð á lífsleikni, almenningsfræðslu og lýðheilsu. Námið er sett upp með það í huga að þroska einstaklinginn í sínum fyrstu skrefum út í lífið. Það má segja að þetta sé eins konar millibil frá því að fara úr foreldrahúsum og að fara sjálf út í lífið. Nemendur búa á heimavist þar sem þau sjá sjálf um margar af sínum dagsdaglegu athöfnum en þó undir vökulum augum kennara við skólann sem fylgjast með því að þau fari eftir settum reglum.

Advertisement

Ragnheiður og Fjóla segjast hafa tekið þessa ákvörðun eftir að hafa heyrt frá fyrrum nemendum við skólann hversu skemmtilegt þetta væri og að þetta væri eitthvað sem þær ættu aldrei eftir að sjá eftir.

Með hugrekki í hjarta ákváðu þær að prufa eitthvað nýtt og flytja á ókunnar slóðir í Nyborg í Danmörku.

Hvað heitir skólinn sem þið eruð í og afhverju völduð þið hann ?

Skólinn heitir EVN eða Efterskolen ved Nyborg. Við höfum æft körfubolta í Keflavík frá því að við vorum litlar og vildum prufa eitthvað nýtt í körfunni og þessi skóli er með körfuboltalínu þar sem lagt er áhersla á körfuboltann sem fag.

Hvað finnst ykkur vera helsti munurinn á körfuboltanum í Keflavík og í EVN?

Það er í sjálfu sér ekki mikill munur á körfuboltanum hér og heima. Eins og heima á Íslandi þá keppum við í deildum og bikarkeppni við önnur dönsk lið ekki bara aðra Efterskola. Við ferðumst mikið á aðra staði í Danmörku bæði á Jótland og Sjáland þegar við keppum, en skólinn okkar er staðsettur á Fjóni.

Kannski finnum við mestan mun á hraðanum inni á vellinum, það er mun meiri hraði í boltanum heima.

Hvernig er lífið á heimavistinni?

Þetta er auðvitað klikkað gaman, mikið af mismunandi persónum sem maður kynnist og umgengst, þannig að maður lærir alveg helling. Lífið er líka aðeins afslappaðra hér í Danmörku og veðrið miklu betra. Getum tanað aðeins oftar.

Starfsfólkið er líka frábært og alltaf tilbúið að aðstoða okkur ef við þurfum á því að halda. Síðan eru helgar sem kallast hjemmeweekend og þá höfum við farið með nýju dönsku vinkonum okkar og gist hjá þeim. Þær búa flestar í Köben.

Þurfið þið að elda sjálfar ?

Nei það er alltaf eldað fyrir okkur en við þurfum að taka eldhúsvakt í heilan dag á ca tveggja mánaða fresti. Þá hjálpum við til við eldamennskuna og göngum frá og vöskum upp eftir matinn.

Hver sér um að þvo þvottinn og vekja ykkur á morgnanna?

Við sjáum alveg sjálfar um þvottinn okkar. Það eru þvottavélar fyrir allar brautir í skólanum sem eru þrjár, ss. Körfuboltabraut, fótboltabraut og alþjóðabraut.

Við þurfum að vakna sjálf á morgnanna og koma okkur í morgunmat, líka láta vita sjálf ef við erum veik og þess háttar.

Skólinn fer í ferðalög með ykkur, getið þið sagt okkur frá þeim?

Við fórum í fimm daga skíðaferð til Ítalíu sem var mjög skemmtileg ferð. Við ákváðum báðar að læra á bretti í þeirri ferð og það var skemmtileg upplifun. Við vorum á hóteli sem var rétt hjá fjallinu og það var skíðað frá morgni til 16:00 á daginn og eftir það var frjáls tími hjá okkur.

Við fórum líka að heimsækja aðra Eftirskóla í Danmörku en svo er skólinn líka með allskonar valmöguleika af hlutum sem við getum skráð okkur í ef við viljum.

Stóra ferðin hjá okkur var síðan ferðin til Vancoover í Kanada, sem er tveggja vikna ferð í körfuboltabúðir. Við gistum hjá fjölskyldum á svæðinu sem var mjög gaman og kynntumst fullt af nýju fólki.

Hvað hefur þessi reynsla gert fyrir ykkur körfuboltalega og mynduð þið mæla með þessu fyrir aðra krakka sem langar að víkka sjóndeildarhringinn?

Já við mælum svo sannarlega með þessu. Það var svo rosalega gott að komast í nýtt umhverfi og kynnast nýrri menningu, læra á nýjar aðstæður, læra nýtt tungumál og margt fleira. Þessi ferð mun klárlega hjálpa okkur áfram inn í lífið bæði almennt og í körfubolta. Þetta skólaár á heimavistinni hefur gefið okkur aukið sjálfstraust á að takast á við allskonar aðstæður innan sem utan vallar.

Þetta er eitt það skemmtilegasta sem við höfum upplifað og eigum eftir að sakna skólans og krakkanna mjög mikið.

Ekki hugsa ykkur tvisvar um ef ykkur gefst tækifæri á að fara í svona skóla. Þetta er það sem körfuboltinn getur gefið ykkur – ógleymanlegur vetur með fullt af skemmtilegu fólki og viðfangsefnum.