2 minute read

SCANIA CUP 2023

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur lagði á dögunum land undir fót og hélt til Svíþjóðar til keppni á Scania Cup.

Scania Cup hefur oft verið nefnt óopinbert Norðurlandamót félagsliða og er þetta boðsmót sem haldið er af Södertälje basket í samstarfi við Scania.

Advertisement

Í ár fékk Keflavík boð um að senda 5 lið á mótið en þau lið sem skara fram úr í sínu landi á Norðurlöndunum fá boð á mótið. Körfuknattleiksdeildin þáði boð um að fara með 3 lið, 7. flokk karla og kvenna sem og 10. flokk kvenna.

Lagt var af stað þann 5. apríl með 4 þjálfara, 6 fararstjóra og 46 leikmenn.

Flogið var til Stokkhólms og á flugvellinum beið eftir okkur rúta sem fór með okkur til Södertälje. Þar hreiðraði hópurinn um sig fyrst á hóteli áður en farið í Rosenborgskolan þar sem hópurinn gisti á meðan mótið fór fram. Vorum við svo heppin að fá kennslustofu til að gista í á þriðju hæð þannig að bæði þjálfarar og fararstjórar voru við það að detta í ofþjálfun að þvælast upp og niður stigana í skólanum.

Mótið hófst þann 7. apríl og var spilað stíft, 2 leikir á dag í 3 daga. Liðin okkar spiluðu sinn besta körfubolta og voru langbesta útgáfan af sjálfum sér allt mótið bæði innan sem utan vallar. Á þriðja degi mótsins voru línur farnar að skýrast og var niðurstaðan sú að 10. flokkur kvenna átti leik um 5. sætið við Horsholm Basket frá Danmörku, sá leikur endaði með sigri Keflavíkur stúlkna og 5. sætið staðreynd. 10. flokkurinn endaði á að spila 6 leiki á mótinu, vinna 4 og tapa 2. Flottur árangur þar og framtíðin björt hjá þessum stelpum.

Þá var komið að sögu 7. flokks kvenna sem hafði ekki tapað leik á mótinu þegar sunnudagurinn var allur og því komnar í úrslitaleikinn á mótinu gegn Norrköping frá Svíþjóð. Á sama tíma voru drengirnir í 7. flokki ósigraðir í fyrstu fimm leikjum mótsins og á leiðinni í úrslitaleikinn gegn Horsholm 79ers.

Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur og mannskapurinn hélt í morgunmat og síðan morgungöngu. 7. flokkur kvenna átti að spila við Norrköping 11:25, eftirvæntingin var mikil og var mikill fjöldi foreldra og forráðamanna mættur á leikinn. Stemningin var mikil og voru stelpurnar hvattar áfram af miklum eldmóð. Leikurinn var hreint út sagt frábær og okkar stúlkur sigruðu 60-43 og urðu Scania Cup meistarar 2023. Ekki nóg með það, heldur var Björk Karlsdóttir valin Scania drottning mótsins. Frábær árangur og framtíðin svo sannarlega björt hjá þessum frábæru stelpum.

Við sem vorum á hliðarlínunni vorum rétt að klára að fagna þegar strákarnir í 7. flokki karla voru mættir á gólfið til að spila úrslitaleikinn við Horsholm 79ers. Þegar maður hélt að stemningin og lætin gætu ekki orðið meiri þá gerðist einmitt það! Strákarnir spiluðu frábærlega og gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn, 59-49. Og ekki nóg með það, heldur eignuðumst Scania kóng 7. flokks karla, sem var Sigurður Karl Guðnason. Stórkostlegur árangur og þarna er framtíðin heldur betur björt.

Niðurstaða mótsins hjá liðunum okkar: 18 leikir, 16 sigrar og 2 töp. Ekki gafst mikill tími til að fagna, því eftir hópnum beið rúta sem flutti okkur á hótel í Stokkhólmi þar sem fagnaðarlætin voru tekin út og haldið var svaka partý um kvöldið. Eftir þessa ferð þá hefur maður ekki áhyggjur af framtíð krakkana okkar, ÞVÍLÍKUR HÓPUR, prúð í framkomu, frábær í körfu og kurteis með eindæmum. Áfram Keflavík!