2 2.1.7. Samlagshlutafélög Í XX. kafla hlutafélagalaga er fjallað um samlagshlutafélög. Í þeim ber einn eða fleiri félagsmenn beina og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir félagsmenn, einn eða fleiri, bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli framlaga sem mynda hlutafé í félaginu. Þetta form félags er blanda af hlutafélagi og samlagsfélagi. Það gilda almennt sömu reglur við stofnun samlagshlutafélaga og við stofnun hlutafélaga, sbr. umfjöllun í kafla 2.1.3. Lágmarkshlutafé er því 4.000.000 kr. og verða stofnendur að vera tveir eða fleiri. Samþykktir félagaformanna eru þó mismunandi en eftirfarandi þarf að koma fram í samþykktum samlagshlutafélaga: 1. Nafn, kennitala, staða og heimilisfang ábyrgðaraðila. 2. Hvort ábyrgðaraðila sé skylt að leggja fram hlutafé og, ef svo er, hversu mikið. 3. Reglur um áhrif ábyrgðaraðila á málefni félagsins og þátt hans í skiptingu hagnaðar og taps. 4. Hvort einhver félagsmanna njóti sérstakra réttinda eða skyldna í félaginu. Þetta félagaform er ekki algengt hér á landi en getur komið til greina fyrir hvers konar atvinnustarfsemi í hagnaðarskyni.
2.2. Samningar milli eigenda – Hlutahafasamkomulag Hluthafasamkomulag er samkomulag milli hluthafa félags, allra eða tiltekinna hluthafa, þar sem aðilar koma sér saman um ýmis mikilvæg atriði varðandi rekstur félagsins og samstarfið. Samkomulagið getur varðað réttarstöðu þeirra innbyrðis og gagnvart félaginu. Hluthafasamkomulag er hægt að gera við stofnun félags en einnig síðar. Dæmi um efni slíks samkomulags eru meðal annars markmið rekstursins og framtíðarsýn, fjármögnun, launakjör hluthafa, forkaupsréttarreglur, ákvæði um útgöngureglur úr félaginu, innlausnarskyldu, hvað beri að gera við andlát hluthafa o.fl.
18
STOFNUN FÉLAGS