Húsfreyjan 4tbl 2024

Page 1


JÓLAVEISLA Í

GRAFARVOGSKIRKJU

LEITIN AÐ PABBA

PRJÓNAÐIR GJAFAPOKAR

GLANSANDI

GLÖS

LANDSÞING Á ÍSAFIRÐI

JÓLIN OG SORGIN

ÓVÆNTAR LESTRARPERLUR

EFNISYFIRLIT 40

Leiðari Húsfreyjunnar

Jólin – tími samveru og gleði

Jenný Jóakimsdóttir ritstjóri

Að hlusta á hjartað

5

Sköpunargleði og þrautseigja

Halldóra Eydís Jónsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

Landsþing á Ísafirði

Guðrún Þóranna Jónsdóttir og

Magðalena K. Jónsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

18

19

21

22

24

26

Nýr heiðursfélagi

Guðrún Þórðardóttir

Prjónaklúbbur og jólapeysur

Grinch stal ekki gleðinni

Jenný Jóakimsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

Ný kona í stjórn

Rósa Marinósdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

Gjöf til allra kvenna á Íslandi

Elinborg Sigurðardóttir

Sorgarmiðstöðin

Jólin og sorgin

Jenný Jóakimsdóttir

Hönnun

Sjalaseiður

Bergrós Kjartansdóttir

28

Matarþáttur Húsfreyjunnar Jólaveisla starfsfólks

Grafarvogskirkju

Albert Eiríksson

Húsfreyjan

36

38

Húsfreyjan 75 ára

Björg Baldursdóttir

Kvenfélag Ólafsvíkur

Leikur og list sameinast

Elfa E. Ármannsdóttir

Húsfreyjan Nýr ritstjóri

Björg Baldursdóttir

Hannyrðahornið Prjónaðar jólagjafir

Kristín Örnólfsdóttir

Smásagan Svín en ekki benSín

Kristín Gunnarsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna Glansandi glös og kristall

Jenný Jóakimsdóttir

List

Þórunn Franz hannyrðakona og frumkvöðull

Jenný Jóakimsdóttir

Viðtal Leitin að pabba

Kristín Sif Jónínudóttir

Jafnrétti Kvennaárið 2025

Jenný Jóakimsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna Skipulag og lykt í ísskáp

Jenný Jóakimsdóttir

Bókajól Óvæntar lestrarperlur fyrir jólin

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir

Krossgátan

Frístund

Hugvekja á jólum

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir

NORÐLENSK

HÖNNUN OG HANDVERK

AðventusýningíHlíðarbæ,604Akureyri 30. nóvember og 1. desember kl. 11-17

Vandaðar vörur milliliðalaust frá hönnuðum, handverksfólki og sælkerameisturum.

20 sýningaraðilar!

Glæsilegur kökubasar góðgerðafélaga, hnallþórur og fleira. Mannúðarborðið á sínum stað með kertum og handverki fyrir söfnun Kristínar S. Bjarnadóttur hjúkrunarfræðings, fyrir stríðshrjáð börn.

Kynning á Húsfreyjunni, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.

Ilmandi kaffi í boði Nýju kaffibrennslunnar!

Verið innilega velkomin!

Fylgist með á samfélagsmiðlum: Norðlensk hönnun og handverk

FRÍTT INN

JÓLIN tími samveru og gleði

Aðventanog jólahátíðin er fram undan og þeim tíma fylgir í huga okkar flestra gleði, hlátur og ilmur af nýbökuðum smákökum, kæstri skötu eða hangikjöti. Sá tími ársins þegar við ætlum að gefa okkur tíma til að njóta samveru með fjölskyldu og vinum. Vonandi er það þannig hjá flestum. En þetta er líka tími þar sem við eigum það til að gera óraunhæfar væntingar til okkar sjálfra og annarra. Það er því mikilvægt að muna að jólin snúast ekki um fullkomnun. Þau snúast um að njóta samverunnar, skapa hlýjar minningar og gefa af sér. Munum að jólin eru að koma, ekki heilbrigðiseftirlitið.

Í ár skulum við reyna að ganga ekki fram af okkur sjálfum í jólaundirbúningnum. Við skulum setja okkur raunhæf markmið og muna að það er í lagi að kaupa smákökurnar í búðinni, skreyta minna en venjulega eða biðja aðra um aðstoð ef það er það sem við viljum eða þurfum að gera. Hugum að umhverfinu

og nýtum vel það sem til er. Það er mikilvægara að vera til staðar fyrir sjálfan sig, fjölskylduna og vini en að hafa allt fullkomið.

Húsfreyjan fagnar

75 ára afmæli sínu á þessu ári, en hún er svo sannarlega ekki enn í fortíðinni. Hún tekur fagnandi nýjum tímum og fer út um víðan völl eins og margar jafnöldrur hennar í dag. Húsfreyjan hefur í gegnum tíð ina fangað tíðarandann nokkuð vel og stundum hefur hún verið þó nokkuð framsýn og bara nokkuð nútímaleg. Það er mikill heiður að fá að ritstýra þessari vinalegu Húsfreyju sem virðist alla gleðja þegar hún kemur inn um lúguna. Með nýju fólki

koma alltaf einhverjar breytingar en Húsfreyjan verður alltaf málgagn Kvenfélagasambands Íslands og kvenfélaganna. Á nýliðnu landsþingi KÍ skemmtu 220 konur sér saman, en ræddu líka alvarleg mál samfélagsins. Í mínum huga snýst Húsfreyjan einmitt um það. Hún mun því halda áfram að vera jákvæð og hvetjandi ásamt því að vekja lesendur til umhugsunar um málefni líðandi stundar.

Njótið jólanna, kæru lesendur!

Jenný Jóakimsdóttir ritstjóri Húsfreyjunnar

Jólakveðja frá Kvenfélagasambandi Íslands

Kvenfélagasamband Íslands óskar lesendum Húsfreyjunnar, kvenfélagskonum, samstarfsaðilum, velunnurum og landsmönnum öllum gleði og friðar um jólahátíðina.

Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 4. tölublað, 75. árgangur, nóvember 2024 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt Árgangur kostar 6.900 kr. m. vsk. í áskrift. Hvert blað kostar í lausasölu 2.250 kr. Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi og Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu. Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Jenný Jóakimsdóttir, jenny@husfreyjan.is.

Viltu gerast áskrifandi?

Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is

Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands. Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, auglysingar@husfreyjan.is Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík. Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430. Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.

Að hlusta á hjartað

Sköpunargleði og þrautseigja

Halldóra Eydís Jónsdóttir skóhönnuður er uppalin í

Mývatnssveitinni og fékk sem barn ólæknandi skódellu sem varð að hennar helstu ástríðu eftir skóhönnunarnám í London.

Pál s Halldóra Eydís er skóhönnuður og rekur sitt eigið hönnunarfyrirtæki undir sínu nafni – HALLDORA. Hún er fædd 1984 á Húsavík, uppalin á sveitabænum Vogum í Mývatnssveit. Dóttir hjónanna Ólafar Þórelfar Hallgrímsdóttur og Jóns Reynis Sigurjónssonar sem eiga og reka ferðaþjónustufyrirtækið Vogafjós í Mývatnssveit ásamt öðrum í fjölskyldunni. Halldóra á þrjú systkini á lífi, Þórhöllu Bergey Jónsdóttir sem vinnur í Vogafjósi, yngst í systkinahópnum eru svo tvíburarnir Arnþrúður Anna sem starfar sem flugfreyja og Skarphéðinn Reynir sem vinnur við bústörf og annað í rekstrinum á Vogum. Eldri hálfbróðir Halldóru, Kristinn Reynir Jónsson, lést árið 1987, þegar Halldóra var á þriðja ári.

Mosinn og hraunið Halldóra gekk í grunnskólann í Reykjahlíð. Aðspurð segir hún að það hafi verið forréttindi að fá að alast upp í þessari einstaklega fallegu og orkumiklu náttúru og sjá megi beina tengingu við mosann og hraunið í allri hennar sköpun og hönnun. „Ég hef alltaf verið þetta draumóraog náttúrubarn, við systur og frænkur bjuggum til drullukökur og skreyttum þær með blómum. Ég byrjaði mjög ung að teikna náttúruna og blómin í kringum mig, klifraði upp á kletta til að sjá fjöllin betur og búa til munstur.“ Hún ætlaði sér samt aldrei að fara neitt lengra með þessa listrænu hlið á sér. Á sama tíma og hún var að alast upp bjó móðuramma hennar í Mývatnssveitinni. Halldóra segir hún

hafi haft mikil áhrif á sig, en báðar ömmur hennar höfðu verið svo flottar og vel til hafðar. „Við stelpurnar vorum mikið hjá Ömmu Villu (Önnu Vilfríði Skarphéðinsdóttur, húsfreyju í Vogum 1) í Mývatnssveit. Við lékum okkur í herberginu hennar, fórum í fataskápinn hennar, og fórum í prinsessuleik í fallegu kjólunum og plömpuðum um á skónum hennar. Þar byrjaði þessi mikli áhugi minn á skóm. Ég var ung einfaldlega dáleidd af fallegum skóm.“ Halldóra segir að þrátt fyrir að hún hafi alist upp í sveitinni hafi bústörfin aldrei átt neitt sérstaklega vel við sig. Hún var dreymin og líklegri til að gleyma sér ein úti að týna blóm í fallegan vönd, spila á fiðlu eða hafa gaman með vinkonum sínum. Þannig hafi í raun þessi listræna hlið á henni þróast.

Myndlistar- og hönnunarbraut í Verkmenntaskólanum

Eftir grunnskóla fór Halldóra á heimavistina við Menntaskólann á Akureyri með vinkonu sinni úr Mývatnssveit. Hún valdi raungreinabraut og ætlaði sér að verða tannlæknir. Heimavistin var kærkomið frelsi frá foreldrunum og þar segist hún hafa kynnst sínum bestu vinkonum. Henni fannst þó námið í MA vera að taka frá henni það sem skipti hana mestu máli, engin tími var til að sinna sköpunarþörfinni við að mála og teikna. Hún skipti því um á öðru ári og fór á myndlistar- og hönnunarbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA). Hún segir að þar hafi hún fengið frábæran grunn fyrir listnám á háskólastigi og náð að bæta sig

og þróa á margvíslegan hátt. Hún fann þar að þetta var það sem hún vildi halda áfram með. Hún var staðráðin í að finna sig sem listamaður í framhaldinu og farið að hugsa um það hvort hún gæti virkilega verið „bara listakona“, og starfað við það í einhverri mynd.

Skór verða að vera þægilegir Á loka árinu í VMA fór Halldóra að skoða listaháskóla erlendis. En haustið eftir lenti hún í harkalegu bílslysi þegar bíll sem hún ók fór út af í Víkurskarðinu. „Ég er fegin að ég þarf ekki að keyra þessa leið lengur, eftir að göngin komu, en mér fannst bíllinn aldrei ætla að stöðva og ég sá fyrir mér að ég myndi enda í sjónum, þetta væri mögulega mín síðasta stund,“ segir Halldóra. Lítill frændi hennar var í aftursætinu og slapp ómeiddur en hún slasaðist töluvert og var borin í burtu á sjúkrabörum, kjálkabrotin, með brotnar tennur og slæma tognun auk áverka á hálsi og baki. „Það var eins og einhver hefði verið að passa uppá okkur, þetta hefði getað farið svo allt öðruvísi, þetta var áminning á það hvað lífið er dýrmætt.“

Eftir slysið varð hún enn ákveðnari í að gera það sem hana virkilega langaði til í lífinu. Hún sendi því inn umsókn í skólann sem hún hafði haft augastað á í London. En Halldóra segir slysið hafi hrint af stað verkja og sjálfsofnæmissjúkdómum og í dag glími hún við vefjagigt og rauða úlfa, (lúpus). Hún þurfi því alltaf að gæta vel að bakinu, heilsunni, þekkja sín mörk og passa upp á orkuna.

Þegar hún fór síðar að hanna skó, hafi hún strax lagt upp með að skór sem hún væri að hanna væru ekki bara fallegir heldur líka þægilegir og að hælarnir á þeim færu vel með bakið og líkamann, að hanna og þróa rétt form, ná góðum stöðugleika og nota mjúk innlegg.

Lærði handbragð gömlu skósmíðameistaranna Skólinn sem Halldóra sótti um og fékk inngöngu í heitir University of The Arts London. Háskólinn er með nokkra skóla undir sér og þar á meðal Cordwainers,London College of fashion, en „Cordwainer“ þýðir í raun skósmíðameistari sem smíðar skó frá grunni. Skólinn býður ekki bara upp á skóhönnun, en líka viðskipta- og rekstrarnám tengt list og hún var ákveðin í að útskrifast með BA gráðu, til að geta nýtt námið sem best. Skólinn er í nokkrum aldagömlum byggingum með litlum skóvinnustofum og þar fór kennslan fram. „Í náminu lærðum við að þróa og búa til skóformin út frá fótum, en skóformin kallast „lasts“ eða skóleistar. Svo hönnum við í þrívídd út frá skóleistaforminu, en nær allir skór eru smíðaðir utanum slík form. Við hönnuðum okkar eigið form með því að pússa það til út frá hinum og þessum pælingum varðandi útlit og þægindi. Hvernig við vildum hafa tána og lagið á skónum og smíðuðum svo sjálf hælana, skárum út innri sólana, unnum sniðin í þrívídd, saumuðum og allt sett svo saman og unnið í höndunum, ytri sólarnir búnir til festir á og svo loks hælarnir. Þarna í þessum eldgömlu byggingum fór fram svo mikil sköpun“. Í sama skóla lærði Jimmi Choo og margir af frægustu skóhönnuðum heims. Kennslan í skóhönnuninni var svo alger andstaða við rekstrar- og viðskiptaáfangana sem voru kenndir í nútímalegri byggingum á Oxford Street. Þarna var hún í þrjú og hálft ár.

Hörð samkeppni

Samkeppni milli nemenda var oft mjög hörð segir Halldóra, en þetta hafi verið ótrúleg reynsla og skemmtileg. Halldóra vann til verðlauna fyrir lokaverkefnið sitt frá hinu virðulega fyrirtæki The Leather Sellers Company í London og var boðið í það allra flottasta boð sem hún hafði nokkurn tíma farið í, til að taka við verðlaununum. „Mér leið eins og ég væri

stödd í einhverju ævintýri eða bíómynd, og svolítið eins og Jack í Titanic við borðhaldið“. Í lokaverkefninu notaði hún leður frá þeim en líka íslenskt lamb og íslenskt hrosshár, hraunkristalla og lax, hönnun sem var innblásin beint úr sveitinni. „Þarna var ég strax farinn að huga að því að vera eins umhverfisvæn í efnisvali og mögulegt væri. Þegar ég svo loks útskrifaðist var mér boðið starf í London, en ég var algjörlega búin á því, búin að fá nóg af kaldri íbúðinni í London og var komin með hræðilega heimþrá.“ Hún var enn að díla við meiðslin sem hún hlaut í bílslysinu í Víkurskarðinu.

Aftur heim í sveitina

Hún dreif sig því heim til Íslands og flutti aftur heim í Mývatnssveitina í Voga til foreldra sinna í stuttan tíma. „Í öllu náminu og sérstaklega á síðasta árinu þá snerist allt um það að hanna og stofna mitt eigið merki. Það var einhvern veginn alltaf eins og allt leiddi mig áfram í það. Svo ég nýtti mér allt það sem ég var að gera á lokaárinu í skólanum og fór að huga að því að láta það verða að veruleika.“ Þó svo hún hafi þurft að fara aftur

í endurhæfingu þegar heim var komið þá var hún ákveðin í að láta skódrauminn rætast.

Skófyrirtækið HALLDORA

„Ég hugsaði og hélt á tímabili að ég væri ekki að fara að gera neitt meira með þetta. En ég var með allar þessar hugmyndir og hafði svo mikla tjáningarþörf og mikið af hugmyndum. Ég hafði einnig þróað og unnið skóformin og leistana sem mig dreymdi um að nota í alvöru framleiðslu á lokaárinu mínu, þessi form eru grunnurinn að skónum sem ég er að framleiða enn í dag“.

Sem dæmi þá hannaði hún lógóið, sem hún er að nota í dag, í fyrsta verkefninu sínu á fyrsta árinu í skólanum. Þá var verið að vinna með prjónamynstur og hún notaði íslensku lopapeysuna í sína hugmynd. Það var eitthvað sem hún segist hafa tengt svo vel við að heiman og úr sveitinni. Hún notaði það lógó svo aftur á lokaárinu. Í gegnum vini úr skólanum og í starfsnáminu var hún komin með tengingu við verksmiðjur sem hún ætlaði að láta búa til litla skólínu fyrir sig. Fyrst var hún með tengingar við verk-

smiðjur á Spáni og Ítalíu sem henni leist vel á og lét búa til fyrstu prótótýpurnar sínar þar. En þær verksmiðjur vildu fá svo stórar pantanir og fannst hugmyndirnar hennar vera ansi klikkaðar. Hún var að vinna meðal annars með hrosshár úr sveitinni. En hún vann sjálf töglin eins og þau koma af skepnunni, klippti þau sjálf og hreinsaði frá grunni. Í annarri útgáfu heklaði hún blúndur úr ljósum hrosshárum sem hún svo litaði og pressaði. Halldóra segir að verksmiðjurnar í Evrópu hafi hreinlega ekki nennt þessu. Þeim hafi fundist þetta alltof mikið dútl og dúllerí.

Hún hafði þá samband við litla verksmiðju í Kína sem hún fann í gegnum vin sinn, en hann vissi að þessi verksmiðja var að vinna litlar línur með litlum breskum hönnuðum. Þar byrjaði hún af alvöru og þau voru til í að gera allt sem hún vildi. Skórnir hennar hafa síðan þá verið að miklu leyti framleiddir í þessari litlu fjölskyldureknu verksmiðju og segir þau tala sama skó tungumálið, þrátt fyrir ólíka menningarheima. Starfsfólkið í verksmiðjunni og eigandinn sem var alinn upp í Ástralíu eru orðnir góðir vinir hennar og hafa reynst henni mjög vel. Halldóra er þó enn með tengingar á Ítalíu og kaupir einnig leður þaðan og segir góðar líkur á að hún geri skó þar aftur fljótlega. Hún segir að verksmiðjan í Kína og eigandinn (Bing) séu mjög skilningsrík á íslenska markaðinn og eru stundum til í að gera jafnvel örfá pör í hverri stærð. „Skósmiðirnir hafa gaman af því þegar við förum út fyrir rammann í frumleika. En auðvitað eru svörtu og klassísku línurnar það sem selst betur og þá smíðum við það í meira magni.“

Fyrsta lína Halldóru kom á markað 2011 og var hún frumsýnd á tískuvikunni í Boston það ár. Hún fór síðan strax á eftir á stóra sýningu í New York, Fashion Footwear Association of New York – FFANY en þar segist Halldóra hafa fengið sjokk og gert sér grein fyrir hversu gríðarlega mikil samkeppni er í greininni. Mörg af stærstu skómerkjum heims voru í básunum í kringum hana og var sýningargjaldið mjög hátt og kostnaðurinn í kringum þetta allt mikill. „Ég fékk samt virkilega mikið út úr því að vera með, þetta var mikil reynsla og þó ég væri lítill hönnuður frá Íslandi fannst mér ég alveg fullkomlega eiga heima þarna.“

Umhverfisvæn hönnun

Halldóra var strax ákveðin í að nota eins mikið íslenskt og hún gæti í sinni hönnun. Vinna með íslenskt leður og endurnýtingu. Hún notar til dæmis mikið fiskileður sem er unnið hér á Íslandi á umhverfisvænan hátt. „Fiskileðrið er sterkt en líka mjúkt og það er hluti af því sem gerir skóna mína þægilega.“ Halldóra sleppir því að nota til dæmis snákaskinn eða leður af dýrum í útrýmingarhættu, heldur nýtir hráefni sem er aukaafurð frá matvælaiðnaðinum. Hún nýtir hrosshárin sem annars væru ekki nýtt í neitt annað, en það er hráefni sem annars væri hent. Hún segist þó líka nota annað leður og ítölsk skinn en leggur áherslu á að það sé unnið á umhverfisvænan hátt. Eins skiptir máli að nýta sem best allt hráefnið. Hún segist hafa prófað að vinna úr vegan leðri, til dæmis úr ananas þráðum. En „leðrið“ varð aldrei mjúkt og engan veginn eins endingargott og segir hún að þróun á góðu náttúruvænu vegan „leðri“ sé því miður ekki komin eins langt og hún vildi sjá, en mikið er um gerviefni sem eyðast einnig illa upp í náttúrunni. En það er margt í þróun og hún segir mikilvægt að vera opin fyrir öllum möguleikum og nýjungum.

Skórnir bera nöfn flottra kvenna og eldfjalla

Aðspurð segir Halldóra að fyrstu skórnir hafi fengið nöfn eftir konum í fjölskyldunni. Þeir fyrstu eftir mömmu, ömmu og systrum hennar en svo hafi hún fært sig yfir í nöfn á frænkum og vinkonum. Hún gerði síðan skó þar sem eldfjöll og gígar eru innblásturinn. Þar horfði hún til Hverfjalls í Mývatnssveit og Surtseyjar. Sú lína fékk nöfn í þá áttina eins og Eldey, Surtsey, Askja og Krafla. Á síðasta ári kom Halldóra með fyrstu götuskólínu sína á markað, sem hún segir að hafi tekið mjög langan tíma að þróa. „Línan er hugsuð fyrir öll kyn, en hugmyndin fór af stað í Covid þegar salan á spariskóm dróst saman vegna samkomutakmarkana. Skórnir og samsetning er þróuð af okkur, sólarnir svokallaðir „eva sólar“ eru mjúkir og góðir, en veita í senn stuðning, eru sveigjanlegir og sterkir. Svo notum við leður, roð og fleira. Í nýjustu týpunum sem koma á markað í lok árs erum við með ofið leður sem myndar djúpar bylgjur, sem minna á vatn. Við

fengum verksmiðju sem sérhæfir sig í að vefa til að gera það fyrir okkur, en það er búið að taka yfir ár að þróa það rétt.“ Götuskórnir hafa fengið nöfn eins og Gunnhildur, Matthildur, Dómhildur ásamt nöfnunum Blær, Jón og Skarphéðinn. En flestir skórnir hennar hafa þó fengið nafn eftir flottum konum í kringum hana.

Persónuleg skósala

Halldóra selur í dag skóna sína nær eingöngu í gegnum netverslunina sína og tekur þátt í sýningum þar sem vörur eru seldar „beint frá hönnuði“. Hún rak áður hönnunarverslunina Jöklu á Laugaveginum ásamt fleiri kvenkyns hönnuðum en segir þann rekstur hafa verið töluvert erfiðan. „Reksturinn var farin að taka tíma og orku frá minni hönnun og sköpunargleði.“ Halldóra opnaði skömmu síðar litla búð á Grensásvegi með vinkonu sína sér við hlið „Þar var ég með mína eigin litlu krúttlegu búð sem gekk vel. Fyrrverandi maðurinn minn var á þessum tíma mikið með mér í þessu en við ferðuðumst líka margar ferðir í verksmiðjuna, það er alltaf jafn skemmtilegt. Í byrjun þessa árs var þó komin tími á breytingar og ég tók þá ákvörðun að loka versluninni á Grensásvegi í febrúar. Netverslunin hefur gengið ljómandi vel, ég er mjög sveigjanleg með skipti og skil.“

Margar konur eiga nokkur pör af Halldóru skóm

Margir lesendur Húsfreyjunnar hafa örugglega rekist á hana á Akureyri þar sem hún tók alltaf þátt í stóru handverkssýningunni sem var á Hrafnagili um árabil. Núna fyrir jólin verður hún víða á sýningum. Þar má nefna sýninguna Norðlensk hönnun og handverk á Akureyri fyrstu helgina í desember enda er tenging hennar við Norðurlandið mjög sterk. Hún hefur einnig verið á sýningunni Handverk og Hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur. „Núna er ég líka í samstarfi við unga konu, vinkonu mína Meredith sem er hönnuður í Bandaríkjunum. Hún er með skartgripalínu og hefur verið að selja veski og fylgihluti frá mér. En svo sel ég skóna mína út um allan heim í gegnum netverslunina. Konur sem hafa keypt skó af mér hér á Íslandi hafa oft verið svo ánægðar að þær kaupa aftur í gegnum netið. Sumar konur eiga nokkur

pör af Halldóru skóm og það er eitt mesta hrós sem ég fæ og segir mér að ég sé á réttri braut.“

Ferlið frá hönnun til sölu getur verið langt

Halldóra segir frá því að hún er núna að hanna og vinna í fyrsta sinn hnéhá stígvél, sem verða til á næsta ári. Einnig er í vinnslu lína af nýjum sandölum sem ættu að verða tilbúnir fyrir næsta sumar.

Hún segir ferlið frá hugmynd og hönnun yfir í tilbúna söluvöru geti tekið allt upp í eitt til tvö ár. En ef hún er að nota form sem hún hefur notað áður þá geta skór stundum verið tilbúnir á 2-3 mánuðum.

Halldóra gerir einnig töskur í stíl við

skóna, en hún bætti einmitt töskum við í línuna sína á miðjum ferlinum því svo margar konur töluðu um að gaman væri að eiga tösku í stíl. Hún gerir líka skart og nýtir í það leðurafganga sem falla til við framleiðsluna.

Þakklætisæfingar

Þó svo skórnir séu aðalástríða Halldóru þá á hún líka önnur áhugamál. Alveg frá því hún var lítil stelpa í Mývatnssveitinni hefur hún málað myndir af blómum og náttúrunni. Hún fer einnig mikið út að ganga með hundinn sinn, Fíónu, hittir vini, nýtur þess að elda, borða góðan mat og hafa fallegt í kringum sig. Halldóra segist elska að ferðast á nýja staði

og upplifa menninguna og fjölbreytileika á hverjum þeirra. Hún varð fertug á árinu en segir að síðastliðið ár hafi verið eitt það erfiðasta á hennar ævi, en það hafi verið sér mjög lærdómsríkt. Hún segist ekki alveg vera á þeim stað sem hún hafi séð fyrir sér. Hún segist hafa gengið í gegnum mikið áfall í byrjun árs og erfiðan skilnað eftir 10 ára langt samband og hefur þurft að hlúa að sér. „Yngsta systir mín kom mér upp á lagið með að rækta þakklætið, en það felur í sér að ég skrifa niður á næstum hverjum einasta morgni þrjá til fimm hluti sem ég er þakklát fyrir. Með því að draga athygli að því sem ég er þakklát fyrir, verð ég ómeðvitað hamingjusamari. Öll lendum við í einhverjum áföllum í lífinu. Maður verður að átta sig á að við getum ekki stjórnað því hvað aðrir gera, en við getum stjórnað því hvernig við bregðumst við. Ég á góða vinkonu sem sagði við mig setningu sem situr svo í mér, þroskinn býr í þjáningunni. Þannig er ég búin að vera að vinna í að fara í gegnum þetta erfiða tímabil sem ég hafði í raun ekki stjórn á og get í raun ekkert gert nema að læra af því. Einbeita mér frekar að því sem ég vil, sem ég er góð í og því sem mig langar til að gera í framhaldinu.“ Hún bætir við „Ég hef alltaf haft ómetanlegan stuðning frá fjölskyldunni minni og vinum, ég verð þeim ævinlega þakklát fyrir.“

Skórnir eru ástríðan

„Það eru vissulega skórnir sem eru ástríðan mín, en auðvitað langar mig að eignast mína fjölskyldu, ég kem úr stórri fjölskyldu og það var alltaf draumur. Núna er Fíóna, hundurinn minn mín litla fjölskylda, hún er svo yndisleg, algjör grallari með hérahjarta“.

Þegar Halldóra er að lokum spurð að framtíðardraumum segist hún alveg leyfa sér að dreyma stórt. Hún sé að byggja sjálfa sig upp og smátt og smátt hafi hún verið að kynnast markaðinum með því að vera beintengd við viðskiptavini sína með persónulegri þjónustu og þróa sig. „Ég sé skóna mína alveg fyrir mér í verslunum út um allan heim. Hví ekki? En góðir hlutir gerast hægt, skref fyrir skref. Ég elska að búa til góða, þægilega og fallega skó sem konur eru þakklátar fyrir og það gefur mér mjög mikið. Allir ættu að elta draumana sína“.

Landsþing á Ísafirði

VALKYRJUR MILLI FJALLS OG FJÖRU

40.landsþing

Kvenfélagasambands Íslands var haldið á Ísafirði 11.13. október 2024. Á landsþinginu komu saman margar kynslóðir kvenna, frá um 18 ára til rúmlega 90 ára. Innan KÍ starfa 4.000 félagar sem eru í 136 kvenfélögum. 17 héraðssambönd halda utan um kvenfélögin. Á þingið streymdu konur til Ísafjarðar frá kvenfélögum vítt og breitt um landið. Vestfirðirnir tóku vel á móti kvennaskaranum, þeir skörtuðu sínu fegursta, heiðskírt og glampandi sól alla dagana og hvítir fjallatoppar.

Þingsetning

Það var tilkomumikil sjón þegar 220 prúðbúnar kvenfélagskonur gengu til þingsetningar í Ísafjarðarkirkju, fjölmargar voru í íslenska þjóðbúningnum. Ísafjarðarkirkja er ákaflega falleg, vígð 1995, prýdd altarisverkinu Fuglar himinsins eftir listakonuna Ólöfu Nordal. Þetta eru um 750 leirfuglar sem fylla 90 fermetra vegg. Fuglarnir voru búnir til af bæjarbúum undir leiðsögn listakonunnar. Prestur Ísfirðinga sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir flutti hugvekju og

ávörp fluttu Gyða Björg Jónsdóttir, formaður Sambands vestfirska kvenna og Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands, sem setti landsþingið formlega. Kvennakór Ísafjarðar flutti nokkur lög. Það var sérlega gaman að heyra lagið Hraustir menn frábærlega flutt af kvennakórnum. Þetta var sannarlega eftirminnileg stund í Ísafjarðarkirkju. Að lokinni setningarathöfn var haldið í Edinborgarhúsið til móttöku í boði Sambands Vestfirskra kvenna. Þar var meðal annars afhentur formlega sá

Dagný Finnbjörnsdóttir 1. þingforseti.

Dagmar Elín Sigurðardóttir og Gyða Björg Jónsdóttir við þingsetningu í Ísafjarðarkirkju.

Kvennakór Ísafjarðar söng fyrir þinggesti með tilþrifum.

hluti gjafarinnar „Gjöf til allra kvenna“ sem staðsettur er á Ísafirði. Það var einstaklega ánægjulegt að geta komið gjöfinni í réttar hendur að viðstöddum þessum fjölda kvenfélagskvenna.

Þingfundur

Á laugardeginum voru kjörnir þingforsetar Dagný Finnbjörnsdóttir, Silja Björg Ísafoldardóttir og Eva Harðardóttir, ritarar voru kjörnir Steinunn Guðmundsdóttir og Þuríður Guðmundsdóttir. Allsherjarnefnd skipuðu Auður Kjartansdóttir, Mjöll Matthíasdóttir og Sólrún Guðjónsdóttir. Mikla athygli vakti að 1. þingforseti Dagný, skrýddist skautbúningi í upphafi þingfundar. Stórglæsilegur þingforseti þar. Dagmar Elín forseti KÍ flutti skýrslu sambandsins síðustu þriggja ára og kom hún víða við, enda er starf KÍ ansi viðamikið og fjölbreytt og of langt mál að fjölyrða um það hér. Nálgast má skýrslu KÍ til landsþings á vefnum www.kvenfelag.is

Þó er mikilvægt að hér komi fram að á undanförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugum milljóna á ári hverju, sem runnið hafa til hinna ýmsu menningar- og líknarmála auk annarra samfélagsverkefna, þar kemur fram að kvenfélög innan KÍ hafa gefið 165.017.547 kr. alls til samfélagsins á árunum 2021 –2023. Vel gert :-)

Ánægjulegt er einnig að nefna að í skýrslunni kom fram að verkefnið „Gjöf

kýrsla

Kvenfélagasambands Íslands 2021 - 2024

Skýrslu KÍ til landsþings má nálgast rafrænt á kvenfelag.is

Ályktanir frá 40. landsþingi KÍ

40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024, hvetur landsmenn til að huga vel að andlegri heilsu sem meðal annars er hægt að gera með því að njóta gæðastunda með fjölskyldu og vinum. Gott er að reyna að aðskilja vinnu og einkalíf og fjölga þeim stundum þar sem öll fjölskyldan kemur saman, talar við hvert annað, deilir áhugamálum og nýtur samvista.

40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði 11-13 október 2024, hvetur til notkunar á þjóðbúningum við sem flest tækifæri.

40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024, hvetur stjórnvöld til að efla og bæta heilbrigðisþjónustu í landinu. Efla þarf fræðslu og forvarnir fyrir landsmenn sem getur bætt lífsgæði okkar og sparað í heilbrigðiskerfinu.

40. landsþing Kvenfélagasamband Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024 vekur athygli á þeirri samfélagslegu vá sem stafar af vaxandi einsemd fólks. Þingið leggur áherslu á að unnið verði markvisst gegn einmanaleika og kallar stjórnvöld til ábyrgðar.

til allra kvenna“ er loks í höfn, en söfnun þess verkefnis hófst á 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands 1. febrúar 2020 og stóð í eitt ár. Sjá nánar um afhendingu gjafarinnar á öðrum stað í blaðinu.

Nýtt markaðsefni frá KÍ Í tilefni 40. landsþings var merki KÍ út-

búið með segli sem þægilegt er að setja á föt. Jenný Jóakimsdóttir hannaði silkislæður með merki KÍ og voru þær seldar á þinginu, þær verða einnig fáanlegar á skrifstofu KÍ. Einnig hannaði Ólöf Björk Oddsdóttir leirlistakona fallega bolla sem seldir voru á þinginu og er eitthvað til af þeim enn þá.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðar flutti ávarp og bauð konur velkomnar til Ísafjarðar í móttöku í Edinborgarhúsinu.

Þjóðbúningar

Í erindi á laugardagsmorgni sagði Margrét Skúladóttir félagskona í kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal frá íslenska þjóðbúningnum sem hún sagði að væri sitt helsta áhugamál. Margrét hefur saumað marga búninga og kallaði hún fram konur sem sýndu búningana hennar. Margrét er líka formaður Þjóðbúningafélags Íslands og félagar hennar í Þjóðbúningafélagi Vestfjarða og kvenfélagskonur sýndu nokkrar gerðir þjóðbúninga. Mikill áhugi er nú

Stór hópur kvenna mætti í þjóðbúning á þingsetninguna og í móttökuna að henni lokinni.

á íslenska þjóðbúningnum og KÍ hefur lengi hvatt til fræðslu um búninginn og hvatt til notkunar á honum. Vestfirsku konurnar hafa haldið mörg námskeið og búið er að sauma yfir 200 búninga af hinum ýmsu gerðum.

Fram að hádegi var svo unnið í vinnustofum þar sem ýmis málefni fengu umfjöllun, nefna má hugmyndir um 100 ára afmæli KÍ, Kvennaárið 2025 og notkun á þjóðbúningnum okkar. Unnið verður með afraksturinn úr vinnustofunum nánar á næstu misserum.

Húsfreyju Rapp

Björg Baldursdóttir minntist 75 ára afmælis Húsfreyjunnar, elsta kvennablaðs Íslands. Björg þakkaði Sigríði Ingvarsdóttur góð störf sem ritstjóri og bauð velkominn nýjan ritstjóra Jennýju Jóakimsdóttur. Undir ræðu Bjargar komu inn hattaskrýddar, prúðbúnar útgáfustjórnarkonur Húsfreyjunnar í „fiftísklæðnaði“ og fluttu texta með rappívafi um efni Húsfreyjunnar síðustu áratugi og hvernig hlutverk konunnar hafa þróast á

því tímabili. Björg lauk máli sínu á því að hvetja konur til að gerast áskrifendur, það er góð jólagjöf að gefa áskrift og mikilvægt að kynna okkar frábæra blað Húsfreyjuna.

Valkyrjur milli fjalls og fjöru

Dagskrá laugardagsins lauk með framsöguerindum undir yfirskrift þingsins Valkyrjur milli fjalls og fjöru.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, flutti fyrirlesturinn „Er byggðaþróun karlamál?“ Kom fram hjá henni að það væri síður en svo, enda taka konur virkan þátt í atvinnuuppbyggingu, sveitastjórnarmálum og öðrum þeim verkefnum er til heilla horfa fyrir hinar dreifðu byggðir, Nanný Arna Guðmundsdóttir rekur ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures á Vestfjörðum ásamt eiginmanni sínum, Rúnari Óla Karlssyni. Hennar boðskapur í lífinu er arfur frá langömmu hennar, „mundu að þú ert ekkert merkilegri en aðrir og aðrir eru ekkert merkilegri en þú.“ Best að vera úti að leika og

Skúladóttir í Kvenfélaginu Hvöt

var með erindi og sýningu um íslensku þjóðbúningana.

leyfa lífinu að birtast í öllum litum regnbogans.

Dóra Hlín Gísladóttir sagði frá nýsköpunarverkefni á Ísafirði. Kerecis er líftæknifyrirtæki sem fæst við þróun lækningarvara úr fiskipróteinum. Fyrirtækið var stofnað á Ísafirði árið 2009. Fyrirtækið vinnur meðal annars að þróun á nýrri tegund lækningavara sem hjálpa til við endurnýjun vefja. Kerecis hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir sárabindi gerð úr fiskroði, til lækninga á þrálátum sárum, s.s. brunasárum, sárum vegna sykursýki o.fl. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú á sjötta hundruð og starfa í þremur löndum.

Íris Ösp Heiðrúnardóttir listakona og jógakennari í Netagerðinni á Ísafirði sagði frá ferli sínum. Hún hefur komið víða við og er þessa dagana að vinna með bráðskemmtilega persónuleikabolla úr keramik. Hún hefur líka hannað og gefið út jógaspil sem eru prentuð aftur og aftur. Hún ásamt fleiri listamönnum halda úti listamiðstöð í húsnæði sem áður hýsti Netagerð Vestfjarða.

Að þingfundi loknum fengu konur kærkominn tíma til að skoða sig um í bænum en margar verslanir voru með góð tilboð, sem sannarlegu voru nýtt til fullnustu. Það var mál manna að allt væri krökkt af hlæjandi konum í bænum, gjarnan dressaðar upp í föt frá verslunum bæjarins.

Hátíðarkvöldverður í Bolungarvík Á laugardagskvöldinu var boðið til hátíðarkvöldverðar í hinu glæsilega félagsheimili Bolungarvíkur. Þar voru á borð bornir gómsætir réttir og kvenfélögin á svæðinu buðu uppá bráðskemmtilega dagskrá, eiginlega nokkurskonar Kabarett. Mátti sjá konur gráta úr hlátri yfir tilþrifum kvennanna á sviðinu. Þá var Guðrún Þórðardóttir fyrrverandi forseti KÍ heiðruð fyrir störf sín fyrir Kvenfélagasamband Íslands.

Gjöf frá Sif á Patreksfirði Kvenfélagið Sif á Patreksfirði færði hverju kvenfélagi sem mætt var á 40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands á Ísafirði fallega fundargerðarbók með útsaumaðri kápu. Kápan er saumuð og hönnuð af Sólveigu Ástu Ísafoldardóttur, mikið listaverk og engar tvær bækur eins.

Margrét
Hnífsdal

Glæsilegur hópur 220 kvenna á landsþingi, mynd tekin á móttökunni í Edinborgarhúsinu.

Sólveig Ásta Ísafoldardóttur og Silja Björg Ísafoldardóttir með fundargerðarbækurnar sem Kvenfélagið Sif færði þeim kvenfélögum sem áttu fulltrúa á þinginu.

Tala fallega um konur

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir frá Alviðru hóf þingfund Sunnudagsins með hvatningar innleggi og lagði áherslu á að konur eru konum bestar. Hún hvatti konur til að sýna hver annarri skilning, setja fókusinn á núið og hverjar við viljum vera, það skiptir máli. Mikilvægt að sýna konum í verki stuðning, hrós, þakklæti, bjóðast til að hjálpa, brosa og setja upp hvatningarsvip, tala fallega um konur þegar þær heyra ekki til og taka ekki þátt í neikvæðri samræðu, senda jákvæð skilaboð, ef vitað er um konur sem verða fyrir spjótum úr samfélaginu.

Íslenskukennsla á Suðureyri Þingið fékk því næst kynningu frá Kvenfélaginu Ársól í Súgandafirði á áhugaverðu verkefni sem þær hafa tekið að sér í samstarfi við fræðslunet Vestfjarða, þar sem þær eru með námskeið fyrir útlendinga til að auka íslenskukunnáttu, félagsfærni og að kynna umhverfi Vestfjarða fyrir þeim.

Á sunnudeginum var áframhaldandi vinnustofa og voru umræðuefnin þar tvenn. Annars vegar: Hvernig kvenfélögin geta veitt konum af erlendum

uppruna stuðning á sínum svæðum og hvað kvenfélögin geta gert til að styðja við fólk á sínum svæðum varðandi einsemd og einmanaleika. Fyrir þinginu lá líka tillaga frá fyrrverandi forsetum KÍ um að félögin sameinuðust um verkefni gegn einsemd í samfélaginu. Voru þingfulltrúar sammála um að leggja því verkefni lið næstu árin.

Kosningar

Á þinginu var kosin ný stjórnarkona, Rósa Marinósdóttir, í stað Þuríðar Guðmundsdóttur sem lokið hefur 6 árum sem meðstjórnandi. Þær eru báðar úr

Sambandi borgfirskra kvenna. Auk þess voru forseti KÍ, Dagmar Elín Sigurðardóttir og gjaldkeri KÍ, Magðalena K. Jónsdóttir, endurkjörnar en þær hafa nú báðar starfað í 3 ár.

Kvenfélagskonur láta sig ýmis málefni varða og voru andleg heilsa og heilbrigðisþjónusta meðal umræðuefna sem þingfulltrúar hafa áhyggjur af. Ályktanir tengdar því og efni þingsins voru samþykktar.

Lagabreytingar voru nokkrar en þar ber þó helst að nefna eina sem getur haft töluverð áhrif á starfsemi Kvenfélaga-

sambandsins. Hún er svohljóðandi og var samþykkt samhljóða Einstök kvenfélög geta ekki orðið beinir aðilar að KÍ. Undanskilin eru kvenfélög þar sem héraðssamband á þeirra félagssvæði er ekki aðili að KÍ, þá geta þau kvenfélög átt beina aðild meðan svo er. Þau félög njóta sömu réttinda og þurfa að uppfylla sömu skilyrði og héraðssamböndin. Það kvenfélag, sem þegar var beinn aðili samkvæmt eldri lögum þegar breytt ákvæði tók gildi, er áfram félagi á upprunalegu forsendunum og lýtur einnig sömu skilyrðum og héraðssamböndin.

Nú geta því stök kvenfélög á þessum svæðum sótt um beina aðild. Það er von stjórnar að nú muni kvenfélögum innan KÍ fjölga í kjölfarið á þessari lagabreytingu. Öll kvenfélög sem uppfylla þessi skilyrði eru boðin velkomin í starf Kvenfélagasambands Íslands.

Næsta landsþing í Vík í Mýrdal Í þinglok kvöddu sér hljóðs Erla Þórey Ólafsdóttir og Eva Björk Harðardóttir í Sambandi vestur skaftfellskra kvenna og

buðu til 41. landsþings KÍ, 2. – 3. október 2027 í Vík í Mýrdal.

Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti ávarpaði að lokum þingið. Hún þakkaði fyrir gott þing og vestfirskum konum fyrir frábærar móttökur. Dagmar Elín sleit 40. landsþingi Kvenfélagssambands Íslands.

Bent er á, að fundargerð landsþingsins verður aðgengileg á heimasíðu Kvenfélagasambandsins, kvenfelag.is innan tíðar.

Með sanni er hægt að segja að þingkonur komu glaðar og brosandi af þingi, uppfullar af fróðleik og drifkrafti, jákvæðni og fallegum hugsunum hver til annarrar eftir innihaldsrík þingstörf og frábær innlegg vestfirsku valkyrjanna.

Við erum strax farnar að hlakka til að taka þátt í næsta þingi, því hvar er betra að vera en í góðum hópi kvenna alls staðar að af landinu. Tengja saman félögin, rækta félagsandann og fá góðar hugmyndir til að fara með heim í hérað.

Sjáumst sem flestar í Vík í Mýrdal á næsta landsþingi Kvenfélagasambands Íslands í október 2027.

Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Magðalena K Jónsdóttir.

Dagmar Elín Sigurðardóttir ásamt gestgjöfunum frá Sambandi vestfirskra kvenna á hátíðarkvöldverði í Félagsheimilinu Bolungarvík. Andrea Gylfadóttir, veislustjóri, Gyða Björg Jónsdóttir, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Steinunn Guðmundsdóttir og Silja Björg Ísafoldardóttir.

Dagmar Elín forseti KÍ þakkaði Þuríði Guðmundsdóttur fyrir góð störf sem meðstjórnandi í stjórn KÍ í sex ár.

Guðbjörg Dúfa Stefánsdóttir (í hvítu fyrir miðju) var aldursforseti á þinginu, hún varð 90 ára 7. nóvember síðastliðin. Þarna í góðum hóp kvenna úr Borgarfirðinum og víðar.

Magðalena K. Jónsdóttir við söluborðið með nýju KÍ vörurnar. Mynd: Aðsend.

Vestfirðirnir skörtuðu sínu fegursta.

Magðalena K. Jónsdóttir gjaldkeri KÍ og Dagmar Elín Sigurðardóttir voru endurkjörnar til næstu þriggja ára.

Nýr heiðursfélagi Kvenfélagasambands Íslands

Á landsþinginu á Ísafirði

eignaðist KÍ nýjan heiðursfélaga er Guðrún Þórðardóttir var heiðruð fyrir störf sín fyrir

Kvenfélagasamband Íslands.

Guðrún var kosin forseti KÍ á landsþingi á Selfossi 2015 og lét af þeim störfum á landsþingi í Borgarnesi 2021. Hún var einnig formaður Nordens Kvinneforbund (NKF- Norrænu kvennasamtökin) frá árinu 2016 til 2021 þegar NKF var formlega lagt niður á Norrænu sumarþingi í Reykjanesbæ sem hún skipulagði og stýrði. Guðrún var kosin varaforseti KÍ á landsþingi í Reykjanesbæ 2012. Hún gegndi meðfram því stjórnarformennsku í hússtjórn Kvennaheimilisins Hallveigarstaða fyrir KÍ. Guðrún sat í jafnréttisráði frá 20172020, en hún var tilnefnd af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands.

Guðrún hefur sótt fjölmörg landsþing KÍ, norræn þing NKF, alþjóðlegar ráðstefnur og þing ACWW - alþjóðasambands dreifbýliskvenna, síðast sótti hún Alheimsþing ACWW sem haldið var í Malasíu 2023.

Á 90 ára afmæli KÍ árið 2020 kom Guðrún fram með hugmynd að söfnuninni Gjöf til allra kvenna þar sem kvenfélögin í sameiningu söfnuðu yfir 30 milljónum til tækjakaupa fyrir Landspítalann og fleiri heilbrigðisstofnanir.

Guðrún gekk í Kvenfélag Grímsneshrepps 1989 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, meðal annars var hún formaður þess í sex ár.

Guðrún er fædd á Akranesi 15. des-

ember 1962, dóttir Sigríðar Sigurjónsdóttur og Þórðar Árnasonar.

Guðrún er gift Ingileifi Sigurði Jónssyni frá Svínavatni. Guðrún og Ingileifur eiga saman tvo syni, Jón Örn og Þórð Inga. Hún ólst upp á Akranesi og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1982. Hún lauk svo prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1987 og viðbótarnámi í sérkennslufræðum frá sama skóla 1995. Lengst af starfaði Guðrún sem kennari við Sandvíkurskóla á Selfossi en frá árinu 2004 hefur hún starfað sem fjármálastjóri í fyrirtæki þeirra hjóna.

Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ, Helga Guðmundsdóttir heiðursfélagi, Guðrún Þórðardóttir nýr heiðursfélagi, Sigurlaug Viborg heiðursfélagi og Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ.

GRINCH STAL EKKI GLEÐINNI

Prjónaklúbbur og jólapeysur hjá Fastlandi

Á bókhaldsstofunni Fastlandi starfar hress hópur af átján

konum og tveimur körlum. Þar er mikið lagt upp úr góðum starfsanda og léttleika.

Desember er þeirra uppáhaldstími.

Þá eru þau á kafi í allskonar þemadögum tengdum jólum. Þar má t.d. nefna gull daginn, silfur daginn, rauða daginn, jólapeysu daginn, Grinch daginn og margt fleira..

Þegar ritstjóri Húsfreyjunnar leit við hjá þeim var stutt í Hrekkjavökuna og allt rýmið var skreytt þótt enn væru þó nokkrir dagar í 31. október þannig að það er greinilegt að gleðin er tekin alla leið. Silja Dögg Ósvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Fastlands, sagði þau væru með marga þemadaga á ári, sem dæmi er haldið upp á „Royalinn“ og þau eiga til hatta við öll tækifæri.

Hjá Fastland er mjög virkur prjónaklúbbur og mikill áhugi á ýmiskonar handverki. Einu sinni í viku er prjónahittingur eftir vinnu og það er prjónað í hádegis- og kaffihléum. Nokkrar þeirra sögðust mæta snemma nokkrum sinnum í viku til að geta nýtt tímann í prjónaskap áður en sest er við skrifborðið. Þær sögðu það nánast vera heilaga stund. Ekki kunnu allir starfsmenn fyrir sér í prjónaskap, né höfðu sérstakan áhuga í byrjun en hafa hrifist með og hafa lært að prjóna af samstarfsfólkinu.

Prjónaverkefnið þeirra í fyrra var jólapeysa sem nefnist Jólagleði eftir Írisi Hlín Vöggsdóttur. Þær keyptu sér allar uppskriftina og sögðust hafa skemmt sér mikið við það verkefni og skreyttu peys-

Mikill metnaður lagður í smáatriðin.

una með perlum, bjöllum og pallíettum að verki loknu. Á Grinch deginum hjá

þeim í fyrra kom ein þeirra Lára Björk

Curtis með þá hugmynd að hanna Grinch mynstur og gera aðra jólapeysu og nota grunninn frá Jólagleði peysunni.

Lára bjó til fjöldann allan af mynstrum og hver þeirra prjónaði sér svo sína eigin útgáfu eins og sést hér á myndunum. Þær sögðu að mynstrin af Grinch höfðu verið mjög krefjandi og voru nokkrar við það að gefast upp en með stuðningi voru þrjár tilbúnar þegar Húsfreyjan mætti á svæðið og fjórar við það að klárast á næstu dögum. Það var greinilegt að mikill metnaður er lagður í verkefnið og klárlega góð hugmynd fyrir aðra vinnustaði og hópa.

Þú finnur jólapeysuna hennar Írisar á Voggsknit á Instagram.

Hressar og áhugasamar í jólasamprjóni: Bára Jónsdóttir, Úlfhildur Sigursveinsdóttir, Lára Björk Curtis , Silja Dögg Ósvaldsdóttir, Lilja G. Torfadóttir, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Anna M. Kristjánsdóttir.

Anna M. Kristjánsdóttir, Úlfhildur Sigursveinsdóttir, Guðbjörg Guðmundsdóttir, Lilja G. Torfadóttir, Silja Dögg Ósvaldsdóttir, Sigrún Linda Baldvinsdóttir, Lára Björk Curtis og Bára Jónsdóttir. Fullkláraðar Grinch jólapeysur.

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Við sendum ykkur hlýjar jóla- og nýárskveðjur með óskum um gleði og farsæld á komandi ári

Ný kona í stjórn Kvenfélagasambands Íslands

Rósa Marinósdóttir í kvenfélaginu 19. júní á Hvanneyri var kosin meðstjórnandi í stjórn KÍ á landsþinginu á Ísafirði.

Rósa tók við af Þuríði Guðmundsdóttir sem verið hefur í stjórn síðastliðin sex ár.

Rósa er fædd 10. desember 1955 á Akureyri, yngst 9 systkina. Foreldrar hennar voru framan úr Eyjafirði. Rósa ólst upp á Akureyri og segist hafa verið í sveit á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd í 10 sumur. Hún kláraði gagnfræðaskólann á Akureyri og ætlaði að verða sjúkraliði en komst ekki að. Þá ákvað hún að fara í hjúkrun og þurfti þá að taka tvo bekki í framhaldsskóla, tók annan á Akureyri en hinn í Lindargötuskólanum. Rósa byrjaði í Hjúkrunarskóla Íslands haustið 1976 og útskrifaðist þaðan haustið 1979. Rósa var gift Böðvari Pálssyni úr Stykkishólmi 1979 en hann lést 1985. Þau eiga tvær dætur saman: Oddnýju Evu sem er hjúkrunarfræðingur og er yfirhjúkrunarfræðingur á Hve Borgarnesi og Særúnu Ósk sem er þroskaþjálfi og vinnur á Barna- og fjölskyldustofu. 1988 tók Rósa saman við núverandi eiginmann, Kristján Andrésson og eiga þau tvö börn saman. Aðalheiði sem er leikskólakennari í Andabæ á Hvanneyri og Andrés sem er viðskiptaverkfræðingur og vinnur hjá Dögum. Rósa flutti á Hvanneyri 1980 og hef búið þar síðan. Hún hefur starfað sem yfirhjúkrunarfræðingur að mestu á Heilsugæslustöðinni Borgarnesi en var í 2,5 ár framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Nú er Rósa hætt að vinna en er í tveimur verkefnum; Færni- og heilsumatsnefnd Vesturlands og verkefninu Gott að eldast.

Rósa segist hafa starfað mikið í sjálfboðaliðastarfi, helst þá fyrir Ungmennafélagið Íslending, UMSB, Frjálsíþróttasamband Íslands og Skallagrím. Hún er félagskona í Kvenfélaginu 19. Júní sem nær yfir Hvanneyri, Andakíl, Bæjarsveit og Skorradal. Rósa var formaður þess frá 2014 – 2022 og á þeim tíma fjölgaði konum í félaginu mikið. Sú fjölgun hefur haldið áfram. Fjáröflun þeirra er aðallega kaffisala, erfidrykkjur og svo halda þær líka bingó rétt fyrir jól. Ágóðinn af þessu fer til líknarmála. Á þessu ári hafa þær styrkt hin ýmsu félög og stofnanir um töluverðar upphæðir. Björgunarsveitina, Ungmennafélagið, Heilsugæsluna og fatlaðan dreng.

„Þegar haft var samband við mig og spurt hvort ég væri tilbúin að koma í stjórn Kvenfélagasambands Íslands þá þurfti ég aðeins að hugsa mig um en svo sá ég að ég hafði töluverðan tíma fyrst ég var að hætta að vinna og gaf því kost á mér. Ég hef mikinn áhuga á réttindum kvenna, jafnrétti, menntun og lífsgæðum almennt. Ég er tilbúin að vinna fyrir kvenfélagasambandið eins og ég get.“

Við bjóðum Rósu velkomna í stjórn KÍ og hlökkum til samstarfsins. Texti: Jenn ý JóakimsdóttirMynd: Silla

Texti: Elinborg SigurðardóttirMyndir: Silla Páls

Gjöf til allra kvenna á Íslandi

Kvenfélagskonur í Kvenfélagasambandi Íslandi hafa nú rutt braut fyrir möguleika á rafrænni tengingu milli landsbyggðar og sérfræðinga á Kvennadeild Landspítalans og nú er loksins orðinn raunhæfur möguleiki á rafrænni vistun gagna sem og fjarlækningum.

Upphafið á verkefninu má rekja til 58. formannaráðsfundar Kvenfélagasambands Íslands í febrúar árið 2019, þegar Guðrún Þórðardóttir þáverandi forseti sambandsins stóð fyrir því að stofnuð var afmælisnefnd í tilefni af væntanlegu 90 ára afmæli sambandsins árið 2020. Tvær úr nefndinni fóru síðan til fundar við yfirlækni og yfirljósmóður á Kvennadeild LSH og þar kom fram hugmynd að gjöf sem gagnast myndi öllum konum á Íslandi. Hugbúnaður og tækni að nafni Milou og Astria, til skoðunar á konum á meðgöngu og í fæðingu og til skoðunar á kvenlíffærum. Með þessari tækni geta stofnanir á landsbyggðinni tengst rafrænt við sérfræðinga á Kvennadeild LSH og öll vistun gagna er miðlæg og mun öruggari. Tækni sem getur komið í veg fyrir að senda þurfi konur oft um langan veg, til frekari skoðunar. Niðurstöður eru á rafrænu formi og hægt er að nálgast þær og skoða á öðrum stöðum þar sem meiri sérhæfing er til staðar. Á 59. formannaráðsfundinum var síðan ákveðið að efna til landssöfnunar og markmið sett um að þessi búnaður kæmi inn á sjö fæðingarstaði á Íslandi. Ekki voru allsstaðar til síritar/monitorar sem dugðu þessari tækni og var ákveðið að gefa nýja sírita/monitora líka á þá staði sem þá vantaði á, Ísafjörð og til Vestmannaeyja.

Það tókst að safna 30 milljónum Kvenfélagskonur eru stórhuga þegar

Frá afhendingu á Akranesi: Elinborg Sigurðardóttir, Guðrún Þórðardóttir, Dagmar Elín Sigurðardóttir, Björk Steindórsdóttir, Linda B. Sverrisdóttir, Þórný Jóhannsdóttir, Jenný Jóakimsdóttir og Ágústa Magnúsdóttir.

til á að taka, vitað var að það þyrfti að safna hárri fjárhæð ef þetta verkefni ætti að verða að veruleika. Markmiðið var að safna rúmlega 30 milljónum og það tókst með góðri samvinnu!

Söfnuninni var formlega hrundið af stað á Bessastöðum á Degi kvenfélagskonunnar 1. febrúar 2020 og henni lauk formlega árið eftir. Til fjáröflunar voru seld sérútbúin armbönd með einkunnarorðum kvenfélaganna Kærleikur, Samvinna, Virðing og önnur með merking-

unni Ég er kvenfélagskona. Selt var sérpakkað gæða súkkulaði frá Omnom, ásamt því að ýmis fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar styrktu söfnunina með beinum framlögum. Þá bökuðu kvenfélagskonur kökur í heilan sólarhring og seldu afraksturinn. Það verkefni var eitt maraþon en gaf okkur væna fjárhæð og er afar skemmtilegt í minningunni. Á kvenfélagssvuntunum stendur Bökum betra samfélag og því vorum við svo sannarlega að stuðla að með þessum bakstri!

Hildur Elísabet Pétursdóttir, Guðrún Oddný Kristjánsdóttir, Silja Björg Ísafoldardóttir, Steinunn Guðmundsdóttir, Tara Óðinsdóttir, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Elinborg Sigurðardóttir, Gyða Björg Jónsdóttir og Dagmar Elín Sigurðardóttir.

Á þessum tíma var Covid byrjað að stinga sér niður, ýmsar varúðarráðstafanir fóru í gang sem höfðu mikil áhrif á alla framkvæmd söfnunarinnar sem og alla eftirvinnslu. Ýmsar hindranir aðrar töfðu verkefnið svo sem ýmsar flóknar tæknilegar lausnir og að fá kerfin til að „tala” saman. Þá urðu jafnframt nokkrar mannabreytingar á tengiliðum. Á landsþinginu í Borgarnesi árið 2021 var Dagmar Elín Sigurðardóttir kosin forseti KÍ og kom það í hennar hlut ásamt undirritaðri að fylgja verkefninu eftir við Embætti Landlæknis o. fl. og á undanförnum árum hafa fram farið ótal fundir, tölvupóstar og símtöl. Við vorum harðákveðnar í því að afhenda ekki peninga, heldur vildum við sjá að verkefnið héldi örugglega áfram eins og að var stefnt í upphafi. Með þrautseigju hefur það tekist og nú er komin verkáætlun um að innleiðingu og afhendingu á alla staðina sjö verði lokið á árinu 2025.

Afhending og innleiðing

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi var valin sem tilraunastaður. Innleiðing þar og opnun á kerfinu tókst loksins þann 13. júní í sumar og það var því mjög hátíðleg stund á Akranesi þann 26. sept. s.l. þegar „Gjöf til allra kvenna á Íslandi‟ var afhent form-

lega. Björk Steindórsdóttir yfirljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók þar við gjöfinni, en hún hefur fylgt verkefninu eftir allan þennan tíma. Eins og fram kom við afhendinguna á Akranesi þá hefur verkefnið bæði vaxið og þroskast á meðgöngunni, það sat lengi í burðarliðnum! En þótt meðgangan á verkefninu hafi verið óvenju löng er vonandi að sá vöxtur og þroski hafi orðið því til góðs! Formleg afhending fór svo fram á Ísafirði í móttöku á föstudeginum í tengslum

Hildur Elísabet Pétursdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tekur við gjöfinni sem stjórn Samband vestfirskra kvenna afhenti þeim formlega.

við landsþing Kvenfélagasambandsins. Sérstaklega var gaman að geta afhent gjöfina þar með svo stórum hópi kvenfélagskvenna alls staðar af landinu.

Kvenfélagskonum öllum og þeim sem tóku þátt í söfnuninni er þakkað rausnarlegt framlag. Megi verkefnið verða okkur öllum, notendum og komandi kynslóðum til heilla.

Afmælisnefnd KÍ skipuðu: Elinborg Sigurðardóttir frá SSK, Eva Michelsen frá KSK, Ágústa Magnúsdóttir frá KSGK og Linda B. Sverrisdóttir frá SBK. Fulltrúar KÍ í nefndinni voru: Guðrún Þórðardóttir þáverandi forseti KÍ, Þórný Jóhannsdóttir þáverandi varaforseti KÍ, Sólveig Ólafsdóttir í varastjórn KÍ og Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ.

Hér að neðan er áætlun um uppsetningu á fleiri fæðingarstöðum á næstu vikum.

Vika 44 – Uppsetning á Neskaupsstað Vika 46 – Uppsetning í Vestmannaeyjum

Vika 48 – Uppsetning í Keflavík

2025 – Uppsetning á Selfossi

2025 – Uppsetning á SAK

F.h. afmælisnefndar, Elinborg Sigurðardóttir ritari

Jólin og sorgin

Sorgarmiðstöðin sem staðsett er í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð þeirra. Samtökin eru öllum opin, s.s. syrgjendum, fagfólki og þeim sem styðja ástvini í sorg, hvort sem er í nærumhverfinu eða á vinnustöðum.

Sorgarmiðstöð var í upphafi samstarfsverkefni fjögurra grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu en þau voru Ný dögun, Birta landssamtök, Ljónshjarta og Gleym mér ei styrktarfélag. Seinna rann Ný dögun inn í starfsemi Sorgarmiðstöðvar en Birta landssamtök gerðist sjálfstæð. Síðastliðið vor óskaði Samhygð, sorgarsamtök á Akureyri, eftir því að sameinast Sorgarmiðstöð og hefur í kjölfarið starfsemi Sorgarmiðstöðvar á Akureyri verið efld.

Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni. Hún er sammannleg tilfinning og eðlilegt viðbragð við missi sem felst í tilfinningalegum og líkamlegum einkennum. Sorgin getur orðið einstaklega erfið á aðventu, um jól og áramót.

Húsfreyjan ræddi við Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur fagstjóra hjá Sorgarmiðstöðinni í hlýlegri aðstöðu Sorgarmiðstöðvarinnar á 4. hæð í St. Jó. Lífsgæðasetri. Jóhanna María er djákni, hefur einnig lagt stund á nám í Uppeldis- og

menntunarfræðum og sérhæft sig í stuðningi við syrgjendur, einnig af erlendum uppruna.

Fólk upplifir sorg á mismunandi hátt tengt eftirfarandi þáttum: tengslum við hinn látna, fyrri reynslu, trúarskoðunum og svo mætti lengi telja en sorg hvers og eins er einstök. Konur eiga oft á tíðum auðveldara með að tjá sig um sorgina og sækja sér frekar stuðning s.s. í viðtöl og stuðningshópa hjá Sorgarmiðstöðinni. Jóhanna María segir að Sorgarmiðstöð in bjóði einu sinni í mánuði uppá erindi fyrir þá sem hafa misst sem fjallar um eðli sorgar, sorgarviðbrögð og sorgarferlið. Þessi erindi eru mikið sótt en aðgangur er ókeypis og skráning fer fram á heimsíðu samtakanna. Ennfremur er boðið uppá stuðningsviðtöl og hefur aðsókn í þau aukist mikið. Þau sem starfa hjá Sorgarmiðstöðinni hafa persónulega reynslu af sorginni segir Jóhanna María og vill hún meina að þar liggi sérstaðan því auk fagþekkingar þá hafi þau gengið í gegnum erfitt sorgarferli sem gefur aukinn skilning á sorginni og hjálpar við að mæta

syrgjandanum á jafningjagrundvelli. Boðið hefur verið uppá jafningjastuðning hjá Sorgarmiðstöðinni en þá er hægt að óska eftir því að fá að ræða við einhvern sem er á svipuðum aldri, af sama kyni og á álíka reynslu af ástvinamissi að baki. Misjafnt er hvernig þessi stuðningur fer fram. Sumir velja að ræða saman í síma á meðan aðrir hittast t.d. á kaffihúsi eða taka saman göngutúr. Síðan eru það stuðningshóparnir sem hafa verið þunginn í starfseminni frá upphafi. Hópunum er skipt upp eftir mismunandi missi. Þegar fólk í hópunum, sem á það sameiginlegt að hafa misst ástvin, kynnist þá skapast oft dýrmæt samkennd og traust þar sem þátttakendur fá tækifæri til að þiggja stuðning og miðla eigin reynslu í fomi jafningjastuðnings. Verkefnið er að finna sorginni stað í hjartanu – til að geta haldið áfram að lifa. Það myndast oft hlý vináttutengsl í hópunum og þar er líka stundum hlegið því húmorinn er afar mikilvægur og hjálplegur í sorginni.

Í upphafi aðventu er tendrað á Sorgartrénu í Hellisgerði í árlegri jólagöngu

Nokkur ráð til að komast í gegnum hátíðarnar:

• Mikilvægt er að fjölskyldan ræði saman um hvernig hún vill halda upp á jólin og áramótin. Gerið ekki of miklar kröfur til ykkar eða fjölskyldunnar.

• Það er í góðu lagi að gera hlutina öðruvísi en vanalega eða jafnvel að skreyta ekki neitt þessi jólin. Gott er þó að hafa í huga að kertaljós og notaleg tónlist getur aukið á vellíðan ykkar.

• Einbeitið ykkur að því sem þið treystið ykkur til. Ekki hugsa um hvað þið „ættuð að gera“. Ef þannig stendur á hjá ykkur er líka í lagi að gera ekki neitt. Látið aðra vita hvernig þið ætlið að hafa ykkar jól.

Sorgarmiðstöðvar. Jóhanna María segir Hellisgerði vera töfrandi á þessum árstíma og að Sorgartréð sé vel til þess fallið að halda utan um allar minningarnar sem sveima um huga okkar. Hugmyndin með Sorgartrénu er sú að ástvinir geti staldrað við hjá trénu og gefið sér rými til að minnast, syrgja og sakna þeirra ástvina sinna sem horfnir eru á braut.

Sorgartrénu er líka ætlað að vekja athygli samfélagsins á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs. Jólin og aðventan geta verið syrgjendum mjög erfiður og ljúfsár tími. Sorgarmiðstöðin hefur gefið út bækling með góðum ráðum við sorginni um jólin. Húsfreyjan fékk leyfi til að deila með lesendum hvernig er hægt að komast sem best í gegnum hátíðarnar þó sorgin sé nálæg. Sumir vilja helst að hátíðinni ljúki sem fyrst og að desembermánuður hverfi hreinlega af almanakinu. Hugur syrgjandans hvarflar til látins ástvinar sem ekki fær að njóta hátíðarinnar og getur því reynst erfitt að undirbúa jólahátíðina.

Hvernig getur þú veitt syrgjendum umhyggju og stuðning um jólin

Aðstoða við undirbúning

Ef þig langar að aðstoða við undirbúning er heppilegra að bjóðast til að gera eitthvað ákveðið frekar en að segja „láttu mig vita ef ég gert eitthvað“. Þú

Húsfreyjan 4. tbl. 2024

• Látið það eftir ykkur að framkvæma á aðventunni aðeins það sem ykkur finnst skemmtilegt. Leitið leiða til þess að komast hjá því að gera það sem vex ykkur í augum. Ekki hika við að biðja aðra um aðstoð.

• Engin ein leið er rétt til þess að fara í gegnum aðventuna eða hátíðisdagana. Sum vilja fylgja hefðum en önnur vilja breyta til. Látið jólaundirbúninginn og skipulag hátíðanna ráðast af því hvernig ykkur líður þá stundina.

• Verið góð við ykkur sjálf og búist ekki við of miklu. Þegar sorg er í hjarta er eðlilegt að vera sorgmæddur, einnig á jólum. Ykkur er óhætt

getur boðist til að aðstoða við innkaup, bakstur, þrif, hengja upp jólaseríur eða sjá um matseld. Önnur hugmynd er að passa börnin eða bjóða þeim á viðburð á aðventunni. Þá fær syrgjandinn hvíld eða tækifæri til að sinna sér og því sem hann treystir sér til.

Sýndu jólaskipulaginu

skilning

Hvort sem syrgjandinn

ákveður að vera erlendis yfir jólin, horfa á sjónvarpið alla hátíðina eða halda í fyrri hefðir þá skaltu sýna ákvörðuninni skilning.

Þó jólin verði öðruvísi í ár þarf ekkert að vera að það verði þannig alltaf.

að sýna tilfinningar og ef til vill hjálpar það öðrum í fjölskyldunni sem einnig eru að glíma við sorg.

• Þegar jólin nálgast getur verið gott að ræða við einhvern sem þið treystið fyrir tilfinningum ykkar, áhyggjum og þakklæti. Talið líka um það sem reynist ykkur erfitt. Þiggið alla þá hjálp sem ykkur býðst.

• Mikilvægt er að hvílast vel. Þið þurfið á allri ykkar orku að halda.

• Söknuður eftir ástvini fylgir okkur ævina á enda en reynslan hefur sýnt að flestir geta samt sem áður notið hátíðar eins og jóla, hátíðar ljóss og friðar.

að mæta í það sem hann var áður búin að afþakka. Sýndu þessu skilning.

Sorgin tekur tíma

Sum ykkar halda að þegar nokkrir mánuðir eru liðnir frá andláti ástvinar séu syrgjendur að „komast yfir missinn“ og að önnur eða þriðju jólin hljóti að vera auðveldari. Staðreyndin er að söknuðurinn eftir ástvini verður fylginautur syrgjandans alla ævina á enda. Hafðu þetta í huga og sýndu áfram hlýju og stuðning.

Vertu til staðar

Bjóddu án þess að vera ýtin/nn Bjóddu syrgjanda í jólaboðið eða á tónleika eins og venjulega en láttu vita að þú skiljir ef hann treystir sér ekki til að mæta. Það er ekki gott að búast við því að sá sem syrgir vilji ekki koma. Gott er að bjóðast til að sækja og keyra en gefa líka val um að hafna boðinu.

Vertu viðbúin - plön geta breyst Það er dagamunur á fólki í sorg. Sorgin er óútreiknanleg og erfitt er að skipuleggja fram í tímann. Syrgjandi gæti afboðað á síðustu stundu eða dottið í hug

Mundu að besta gjöfin til syrgjanda er að vera til staðar og veita umhyggju og stuðning. Hlustaðu án þess að dæma tilfinningar hans eða líðan. Þú skalt einnig forðast að gefa ráð nema um þau sé beðið. Þú þarft ekki að vera fullkomin/n. Þú þarft bara að vera til staðar.

Nánari upplýsingar á www.sorgarmidstod.is Þeir sem vilja styðja við starf Sorgarmiðstöðvarinnar get lagt inn á reikning þeirra: Kennitala: 521118-0400 - Reikningsnúmer: 0513-26-009753.

Sjalaseiður

Bergrós Kjartansdóttir prjónahönnuður og gullsmiður var með sýningu á sjölum í sal Edinborgarhússins á landsþingi

KÍ á Ísafirði. Sjölin hennar bærðust þar um sem listaverk á herðatrjám sem héngu úr loftinu.

Bergrós Kjartansdóttir er frá Ísafirði, ættuð úr Jökulfjörðum og Hornströndum. Hún útskrifaðist úr MÍ 1988, fór svo í Háskólann í Bókmenntafræði og Þjóðfræði B.A. Síðan í Hagnýta fjölmiðlun á masterstigi. Hún var lengi vel verslunarstjóri hjá Tinnu sem gaf jafnframt út prjónablað með sama nafni á sínum tíma. Síðan lá leið hennar í Iðnskólann í Hafnarfirði í listnám og þaðan í Iðnskólann í Reykjavík. Fór svo í Tækniskólann í annað listnám í Gull og silfursmíði. Bergrós tók samninginn í gull- og silfursmíði hjá Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið á Akranesi. Bergrós hefur ásamt skóla einnig unnið hjá Íslenskum Textíliðnaði (ÍSTEX) sem hönnuður við blaðið þeirra sem heitir LOPI.

Húsfreyjan hitti Bergrós á landsþinginu og fékk hana til að deila með lesendum sögunni á bakvið sjölin og bókina Sjalaseið sem hún gaf út 2022.

Hún segir að sjölin í bókinni Sjalaseið hafi öll hlotið nöfn sem tengjast fornum

fyrirbærum sem hún hafi verið að stúdera í gegnum í tíðina og í meistaranámi sínu, síðast í íslenskum bókmenntum og menningarfræði. Henni finnst gaman að segja sögur og miðla gömlum fræðum. Bæði bókmenntalegri þekkingu og handverksþekkingu, „sögurnar eru þá sagðar með hug og hönd“.

Bergrós segir að hvert sjal í bókinni hafi sitt form og lögun og eiga öll mismunandi upphaf og endi. Hverju sjali fylgir saga eða ljóð sem túlkar útlit sjalsins og hvernig það varð til. Bergrós vildi að bókin yrði ein heild. „Það er von mín

að þegar prjónari er búinn að prjóna eitt sjal langi hann til að prjóna fleiri og jafnvel allan Sjalaseiðinn, en þá gerist einmitt galdurinn.“

Bókin hennar Sjalaseiður kom út bæði á íslensku og ensku. Í henni eru myndir af 18 sjölum sem skarta sínu fegursta úti í íslenskri náttúru. Bókin er óður til íslensku ullarinnar, íslenskrar náttúru og norrænu goðafræðinnar. Hún segir að næsti seiður sé í smíðum og þar sé öruggt að í honum verða líka sögur og tengingar sem hægt er að segja frá með hug og hönd.

Jólaveisla starfsfólks Grafarvogskirkju

Starfsfólk Grafarvogskirkju er veisluglatt fólk og tók afar vel í hugmyndina að útbúa veitingar í jólablað Húsfreyjunnar - þrátt fyrir miklar annir í aðdraganda jólahátíðarinnar. Það má með sanni segja að matarilminn hafi lagt út á hlað þegar okkur Sillu ljósmyndara bar að garði. Hver starfsmaður kom með sinn uppáhalds jólatengdan-rétt sem sumir hafa fylgt fjölskyldunni í mörg ár. Allt svo gómsætt og fallega fram borið.

Grafarvogssöfnuður var stofnaður árið 1989 og kirkjan

vígð árið 2000. Núverandi prestar eru Sigurður Grétar Helgason, Arna Ýrr Sigurðardóttir og Aldís Rut Gísladóttir. Kristín Kristjánsdóttir er djákni. Öflugt starf er í Grafarvogskirkju og fjölmargir starfsmenn sem sinna því. Það er tilhlökkun í loftinu og vottar fyrir fiðringi hjá starfsfólkinu því fram undan er annasamasti en jafnframt einn skemmtilegasti tími ársins aðventan og jólahátíðin.

Albert Eiríksson

Frá vinstri: Sigrún Eggertsdóttir, Kristín Kristjánsdóttir, Aldís Rut Gísladóttir, Anna Magnúsdóttir, Þórkatla Pétursdóttir, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Ágúst Ingi Ágústsson, Guðríður Kristinsdóttir, Sigurður Grétar Helgason, Berglind Jónsdóttir, Björgúlfur Egill Pálsson, Hilda María Sigurðardóttir og Arna Ýrr Sigurðardóttir.

OBLÁTUKÖKUR

Þessar smákökur eru hefðbundnar

þýskar Lebkuchen, sem eru fastur

liður í jólahaldi og þessar eru þannig að þær eru bakaðar ofan á oblátu.

Hægt er að fá sérstakar oblátur sem eru ætlaðar til baksturs, t.d. er hægt að panta þær á tasteofgermany.com.

18 - 20 oblátur, í smákökustærð

275 g hveiti

1 1/2 tsk. lyftiduft

1 msk. kanill

1 tsk. allrahanda 1/2 tsk. múskat

270 g möndlumjöl

60 g ristaðar, hakkaðar heslihnetur

60 g súkkat

130 g ljós púðursykur

180 g hunang

2 egg rifinn sítrónubörkur og safi af einni sítrónu

Glassúr:

1 bolli flórsykur sítrónusafi

Hrærið saman púðursykur, hunang, egg, sítrónusafa og sítrónubörk.

Blandið saman þurrefnunum út í og hnoðið deigið með hnoðara

í hrærivél. Gerið rúllu úr deiginu, setjið í plast og kælið.

Klæðið ofnplötu með bökunarpappír. Setjið hæfilega kúlu af deigi á hverja oblátu, fletjið hana út þannig að hún sé þykkri í miðjunni og passið að deigið loði við oblátuna.

Bakið kökurnar við 180°C í ca. 15 mínútur, takið út úr ofni og látið kólna.

Gerið glassúr úr flórsykri og sítrónusafa og hyljið kökurnar. Annar valkostur er að hjúpa þær með súkkulaði.

EPLARÉTTUR

4 epli

1 1/2 dl hveiti

1 dl sykur

100 g smjörlíki kanilsykur

Hitið ofninn í 200°C. Hrærið saman í hrærivél smjöri, hveiti og sykri. Flysjið eplin og skerið í báta. Raðið eplum í eldfast mót. Tætið deigið í bita og dreifið yfir eplin. Dreifið kanilsykri yfir og bakið í 25-30 mín. Borið fram með ís.

JÓLALEGT

GEITAOSTASALAT

MEÐ PÚRTVÍNSLEGNUM GRÁFÍKJUM

Salatblanda eftir smekk, gott er að miða við ca. 1 bakka/poka fyrir hverja 2-3, eftir því hvort salatið er aðalréttur eða meðlæti.

100 g gráfíkjur

3/4 dl portvín eða Grand Marnier

150 g pekanhnetur með hlynsírópi

150 g geitaostur frá Chavroux jarðarber og bláber eftir smekk

Dressing:

1/2 dl góð matarolía 1 - 2 msk. balsamedik 1/2 msk. bláberjasulta eða önnur góð sulta portvínið af gráfíkjunum

Brytjið fíkjurnar og látið liggja í portvíninu, gott er að miða við 3-4 klst. Hitið pekanhneturnar við vægan hita á pönnu, hellið hlynsírópi yfir eftir smekk, ásamt svolitlu salti og látið krauma. Dreifið þeim síðan á disk og látið kólna. Salatið sett í skál

(best að nota aðra skál en á að bera salatið fram í). Dressingunni hellt yfir og blandað vel. Megnið af berjunum sett út í.

Þegar bera á fram salatið er afganginum af berjunum stráð yfir, dreifið

síðan geitaostinum yfir í litlum bitum og loks pekanhnetum.

Þetta salat er dásamlega gott með villibráð, t.d. heitreyktri gæs og hægt að nota bæði sem aðalrétt og meðlæti.

SJÁVARRÉTTARSÆLA

1/2 kg rækjur

1/2 kg hörpuskel

1 blaðlaukur í sneiðum

1 rauð paprika, niðurskorin

1/2 bolli olía

1/2 bolli hvítvín

1 msk. karrý

1/2 bolli sykur

2-3 hvítlauksrif, pressuð safi úr einni sítrónu

Blandið öllu saman í skál.

Sósa:

Ein lítil dós mæjónes

1/4 dl þeyttur rjómi

mango chutney eftir smekk

Berið fram með ristuðu brauði og sósunni.

SVEPPA WELLINGTON

2 portobello sveppir

200 g sveppir

1 sæt kartafla

1 laukur

2 hvítlauksrif

1 brauðsneið

40 g valhnetur

1 tsk. timian

1 tsk. rósmarín

1 tsk. reykt paprika

1 sveppateningur

1 tsk. Djion sinnep smá rjómi (hafrarjómi) eða venjulegur

2 smjördeigsplötur

salt og pipar eftir smekk

Skerið niður sætukartöflurnar í bita veltið upp úr smá ólífuolíu, kryddið með salti og pipar, rósmarín og timian og bakið í ofni þangað til þeir eru orðnir mjúkir í gegn.

Saxið niður lauk og hvítlauk. Steikið lauk, hvítlauk í nokkrar mínútur upp úr smá ólífuolíu.

Saxið niður sveppina og steikið á pönnu.

Þurrristið valhneturnar á pönnu.

Setjið kartöflurnar, brauðið (rifið niður), lauk og hneturnar ásamt kryddum í matvinnsluvél og maukið

Setjið rjóma, sinnep og sveppatening í pott og hitið saman svo sveppateningurinn leysist upp. Setjið þetta

svo í skál og bætið steiktu sveppunum við. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.

Þegar að þetta er blandað vel saman setur þú deigið á bökunarplötu og mótar þetta í hleif. Bakið þetta svo við 180°C í 30-40 mín. eða þar til að falleg skorpa hefur myndast.

Leyfðu sveppasteikinni að kólna áður en þú setur hana í smjördeigið.

Fletjið smjördeigið út í tvo ferhyrninga. Lokið smjördeiginu þannig að sem minnst loft sé inni í því og lokið vel. Skerið umfram deig í burtu og ef vill má skera út litlar skreytingar til að setja ofan á steikina.

FYLLT KALKÚNASKIP

MEÐ SVEPPAFYLLINGU

1 kryddað og smjörsprautað kalkúnaskip frá Reykjabúi/Ísfugl, ca. 2.4 kg

Fylling:

40 g smjör

200 g sveppir

2 meðalstórir skallottulaukar

1 sellerí stilkur

1 epli

50 g heslihnetur ristaðar á pönnu

100 g beikon

3 msk. rjómaostur tímían steinselja kalkúnakrydd

4 döðlur salt og pipar

Hitið smjör á pönnu og steikið sveppi, lauk, sellerí, epli og beikon í örfáar mínútur, ristið hneturnar. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið vel saman.

Kalkúnaskip:

Kalkúnaskipið eldar sig nánast sjálft, ég mæli með að elda það í lokuðu fati. Gott er að taka kalkúninn úr ísskápnum um morguninn. Ég passa að skafa kryddsmjörið af sem verður eftir í umbúðunum og smyr því á kalkúninn. Kalkún á að elda í 180 gráðu heitum ofni í um það bil 45 mín. pr. kíló eða þar til kjarnhiti sýnir 70 gráður inn við bringubeinið, ef notaður er kjöthitamælir.

Húðin við hálsinn er losuð varlega frá kjötinu, með fingrunum og búnir til «vasar» beggja vegna bringubeinsins. Sveppafyllingunni er skipt á milli «vasanna» og dreift úr því yfir bringurnar.

Kryddið til með salti, pipar og kalkúnakryddi. Gott er að kreista smá sítrónusafa yfir. Steikingartíminn fer eftir stærð en best er að nota kjöthitamælir og þegar hitamælirinn sýnir 70°C er bringan tilbúin. Leyfið bringunni að standa í 10 mínútur áður en hún er skorin og borin fram.

SVEPPASÓSA

250 g sveppir

Handfylli þurrkaðir sveppir 1 stk. villisveppaostur rifin niður með rifjárni

1 laukur

4 hvítlauksrif

500 ml nautasoð 250 ml rjómi

smjör til steikingar salt og pipar

Skerið niður laukinn, hvítlaukinn og sveppina og karmelliseraði við meðalhita. Setjið þurrkuðu sveppina í heitt vatn. Við það þenjast þeir út. Setjið út á pönnuna með lauknum og sveppunum.

Bætti svo nautasoði saman við og safanum af þurrkuðu sveppunum.

Sjóðið niður um tæpan helming. Bætið villisveppaostinum við sósuna og svo rjómann. Smakkaði til með salti og pipar og smá kalkúnakryddi.

SÆTAR KARTÖFLUR

MEÐ KORNFLEX

SYKURBRÁÐ

4 bollar soðnar sætar kartöflur

1 bolli sykur – (má minnka sykurinn ef hentar)

1 1/4 tsk. salt

3 stk. egg

1 tsk. lyftiduft

1 1/2 tsk. vanilludropar

1 msk. brætt smjör

Blandið öllu saman og setjið í eldfast mót. Bakið við 180°C í 20 mín.

Ofan á:

5 msk. smjör

½ bolli púðursykur

2 bollar Kornflex

½-1 bolli saxaðar hesilhnetur

Blandið saman og dreifið yfir kartöflustöppuna. Bakið í 20-30 mín. í viðbót á sama hita og áður.

JÓLABÚÐINGURINN HENNAR MÖMMU

Eftirréttur á aðfangadag fyrir 6

3 egg

75 g sykur

6 blöð matarlím

1 dl sterkt kaffi

125 g súkkulaðispænir

4 – 5 dl þeyttur rjómi (alls ekki of mikið þeyttur)

Byrjaðu á að leggja matarlímið í bleyti í köldu vatni og hella upp á sterkt og gott kaffi - einn bolla fyrir þig og 1 dl fyrir búðinginn.

Því næst seturðu hrærivélina af stað með eggjunum og sykrinum. Meðan eggjablandan verður að léttri og ljósri froðu er tilvalið að saxa gott súkkulaði. Mér finnst suðusúkkulaði langbest en nota stundum súkkulaðispæni úr pakka með. Til að vera

alveg viss um að súkkulaðið sé nógu gott skaltu fá þér einn bita með kaffibollanum. Það er líka kominn tími á að kreista vatnið úr matarlímsblöðunum og leysa þau upp í heitu kaffi.

Þegar eggjablandan er orðin vel stífþeytt og kaffi-matarlímsblandan orðin ylvolg er komið að stóra matarlímsævintýrinu. Við viljum ekki gúmmíkennda gelatíntauma í búðingnum og því þarf að vanda sig. Ég byrja alltaf á að hræra smá eggjablöndu út í kaffiblönduna áður en ég blanda öllu varlega saman með sleikju. Best er að gera það í glærri skál svo það sjáist hvort kaffiblandan safnast í botninn, en þá þarf að skafa hana varlega upp frá botninum. Geymdu skálina á köldum stað í u.þ.b. 10 mínútur meðan þú þeytir

rjómann og finnur til fallega spariskál fyrir búðinginn. Blandaðu síðan rjómanum, eggjakaffiblöndunni og súkkulaðinu varlega saman. Ég lærði af mömmu að hella blöndunni varlega milli skála (hrærivélarskálarinnar og glerskálarinnar) og hræra innihaldinu smátt og smátt saman með sleikju meðan ég helli á milli. Að lokum hellirðu blöndunni í spariskál (ég nota alltaf „Queen-Anne“-silfurfatið sem ég erfði frá ömmu) og geymir í kæli þar til búið er að taka upp jólagjafirnar. Ath. það er alveg óhætt að gera búðinginn daginn áður ef það skyldi nú vera mikið að gera á aðfangadag! P.s. uppskriftin er fyrir 6, en ég geri alltaf tvöfalda uppskrift því það er ómögulegt annað en að eiga afgang daginn eftir.

Lára Bryndís Eggertsdóttir kom með Jólabúðinginn hennar mömmu. Hinn skemmtilegi texti með uppskriftinni er beint frá Láru Bryndísi.

HUMAR OG GRÆNMETI Í HVÍTLAUKSSÓSU

800 g – 1 kg humar, skelflettur

3 lítil eða 1 stór spergilkál

2 box Flúðasveppir, sneiddir

1/3 blaðlaukur

2 paprikur, rauðar

salt

pipar

sítrónusafi

olía og smjör til steikingar

Steikið humarinn í olíu, smjöri og amk. einu söxuðu hvítlauksrifi.

Hvítlaukssósa:

6 – 8 dl fiskisoð, vatn og teningar

6 dl rjómi

400 g rjómaostur

4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir

Sítrónusafi

1 – 2 grænmetisteningar

Léttsteikið lauk og blaðlauk í smjöri og olíu. Bætið í fiskisoði, rjómaosti og rjóma.

Bragðbætið með salti, pipar og

grænmetisteningi. Léttsteikið grænmetið og bætið í sósuna.

Setjið humarinn saman við í lokin og

SÉRRÍ FRÓMAS/TRIFFLE

4 blöð matarlím

3 egg

3 msk. sykur

1 dl sérrí

50 g hesilhnetur

50 g suðusúkkulaði ¼ l þeyttur rjómi makkarónukökur – magn eftir smekk.

Skreyting:

Þeyttur rjómi, hnetukurl og rifið suðusúkkulaði.

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn.

Þeytið vel saman eggjarauður og sykur. Takið matarlímsblöðin úr vatninu og bræðið í lítilli skál yfir vatnsbaði. Blandið saman matarlíminu og sérrýinu. Hrærið þeirri blöndu saman

Húsfreyjan 4. tbl. 2024

við eggjamassann. Látið kólna þar til er hálfstíft.

Hakkið hnetur og súkkulaði. Stíf þeytið eggjahvíturnar.

Setjið þeytta rjómann, eggja hvíturnar, hneturnar og súkkulaðið saman við fró masið. Hrærið varlega.

Raðið makkarónukökunum í botn á þeirri skál sem bera á réttinn fram í. Bleytið með sérríi.

Hellið frómasinu yfir og látið síðan standa í kæli í 2-3 klst.

Skreytið eftir smekk áður en borið er fram.

kreystið sítrónu yfir.

Berið fram með ristuðu brauði. Stækkið uppskriftina að vild.

Húsfreyjan 75 ára

Björg Baldursdóttir.

„Á undanförnum þingum KÍ hafa komið fram ákveðnar óskir um, að KÍ hefði sitt eigið blað eða tímarit, er ræddi aðallega mál heimilanna. Á síðasta landsþingi KÍ, 1949 var svo kosin nefnd, er ásamt stjórninni átti að vinna að undirbúningi og útgáfu þessa rits.”

Þannig hljóðar ávarp Guðrúnar Pétursdóttur í 1. tölublaði, 1. árgangi Húsfreyjunnar.

Það má með sanni segja að þær framsýnu konur sem áttu þessa hugmynd hafi ekki látið sitja við orðin tóm. Húsfreyjan hefur nú komið út í 75 ár og hefur haft að leiðarljósi að fjalla um málefni heimilanna þótt áherslur á efnisvali hafi þróast í takt við tímann. Jafnréttismál, náttúruvernd og umhverfismál hafa einnig fengið stóran sess í blaðinu.

Húsfreyjan er eitt elsta tímarit landsins, ef ekki það elsta sinnar tegundar, sem komið hefur út samfellt í 75 ár, fjögur tölublöð á ári. Að blaðinu hefur alla tíð verið staðið með miklum myndarskap þótt efnisöflun hafi að líkindum verið mun tímafrekari og erfiðari fyrir tíma nútímatækni.

Húsfreyjan er hluti af menningu íslenskrar þjóðar frá miðri síðustu öld. Tímaritið varðveitir á síðum sínum merka sögu um þróun og framfaraskeið kvenna á miklu breytingaskeiði. „Í Húsfreyjunni var skrifað um stéttamál-

efni íslenskra húsmæðra, sem og stöðu konunnar og réttindi hennar eða réttindaleysi bæði á heimilinu og úti í þjóðfélaginu“ (Lana Kolbrún Eddudóttir, 1. tbl. 2019). Ítarlega var farið yfir sögu Húsfreyjunnar í tímaritum sem komu út á 70 ára afmælisárinu 2019. Kristín Linda Jónsdóttir tók saman sögu, útgáfu, ritstjórn og efni í tveimur greinum í 1. og 2. tbl. Þórdís Kristjánsdóttir gerði handavinnusögunni góð skil á síðum Húsfreyjunnar í 3. tbl. og Guðrún Hallgrímsdóttir sagði frá matargerð og uppskriftum í sögu þjóðar í 4. tbl. Það nýmæli var að haldin var ljóðasamkeppni 2018 og 2019 og smásagnakeppni frá 2020. Þessar samkeppnir hafa gengið afar vel og þátttaka hefur verið mjög góð. Dómnefndir hafa valið úr fjölmörgum innsendum og góðum verkum sem síðan voru birt í Húsfreyjunni. Fjölmargir höfundar og skúffuskáld hafa þar séð verk sín birt í fyrsta skipti auk þess sem vanir rithöfundar hafa einnig tekið þátt. Matarþættir húsfreyjunnar hafa verið

fjölbreyttir og oftast verið í höndum frábærra matgæðinga víðs vegar að. Frá 1. tbl. 2020 hefur ritstjórinn séð um að miðla uppskriftum og fróðleik frá nokkrum viðmælendum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið að vinna við matargerð og/eða veislur. Tilgangurinn var að koma á framfæri mismunandi hugmyndum í mat og matargerð og kynnast aðeins fólkinu sem gefur uppskriftirnar. Matarþættir víðs vegar að af landinu hafa birst í blaðinu og hafa ótal matgæðingar þar látið ljós sitt skína. Frá því í 3. tbl. 2021 hefur matgæðingurininn og matarbloggarinn Albert Eiríksson, sem getið hefur sér góðan orðstír á þessu sviði, séð um matarþáttinn.

Handavinnan hefur verið í höndum hæfra kvenna sem hafa gefið fjölbreyttar uppskriftir og leiðsögn. Prjón, hekl, útsaumur og fleira hefur verið í þættinum. Lesendur Húsfreyjunnar hafa sýnt þessum efnisþætti Húsfreyjunnar mikinn áhuga í gegnum tíðina.

Þá ber að nefna ótal viðtöl við athygl-

Linda B. Sverrisdóttir, Björg Baldursdóttir, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Magðalena K. Jónsdóttir og Jenný Jóakimsdóttir.

isverðar konur úr öllum geirum þjóðlífsins og kennir þar margra grasa.

Kristín Linda Jónsdóttir lét af störfum sem ritstjóri 2022 eftir frábært starf til 20 ára. Við keflinu tók Sigríður Ingvarsdóttir, núverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar. Hún hefur nú látið af ritstjórastörfum.

Eru þeim færðar innilegustu þakkir fyrir frábær störf.

Nýráðinn ritstjóri er Jenný Jóakimsdóttir, sem er okkur að góðu kunn sem starfsmaður Kvenfélagasambandsins.

Húsfreyjan þakkar áskrifendum sínum tryggðina við blaðið í gegnum tíðina, því grundvöllur fyrir útgáfu blaðs af þessu tagi eru margir tryggir áskrifendur.

Útgáfustjórn Húsfreyjunnar skipa:

Björg Baldursdóttir, formaður, Garða-

bæ, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi, Magðalena Jónsdóttir, gjaldkeri KÍ, Rangárþingi eystra, Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði. Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi eystra og Linda B. Sverrisdóttir, Borgarnesi.

Björg Baldursdóttir, formaður útgáfustjórnar Húsfreyjunnar

Hluti af útgáfustjórn Húsfreyjunnar ásamt nýja ritstjóranum sló á létta strengi á þingfundi á landsþinginu á Ísafirði og hreinlega slógu í gegn íklæddar fifties-fatnaði með flutningi á texta með rappívafi sem Björg Baldursdóttir formaður útgáfustjórnar samdi um efni Húsfreyjunnar síðustu áratugi og hvernig hlutverk konunnar hefur þróast á þessum 75 árum.

Húsfreyjan í 75 ár

Nú við skulum heyra hvað Húsfreyjan oss kennir, bið þig bara að hlusta, svona ef þú nennir.

Hér við erum samankomnar svaka flottar pæjur

Við núna skulum virkja alla kátu karlana okkar

Til að hugsa um börnin og kunna að stoppa í sokka

Skeleggar og skynsamar og eigum allskyns græjur.

Róbóta sem ryksugar hvert horn á heimilinu

Þvottavél sem hreinsar allt drasl af leirtauinu

Airfræer sem eldar unaðssteik á engum tíma

Bakaraofninn getur þú bara stillt á tíma meðan þú ert bara að “chilla” og tala smá í síma

Saumavélin getur saumað Faðirvorið Skreppir þú í danstíma og takir tangósporið.

Bónvélin hún sér um að halda öllu glansandi

Ofurkát þú gengur heim úr vinnunni dansandi

En þetta er nú ekki svona alveg eins og forðum Ætla að reyna lýsa því með aðeins fáum orðum.

Húsfreyjan hún vildi að við yrðum ósköp fær, í að hugsa vel um heimilið, bónda´ okkar og börnin kær.

Huga vel að hreinlætinu á heimilinu okkar, Þvottavélin Björg, sú algjörlega rokkar!!

Þurfum ekki lengur að bogra út við læk

Við að vaska þvottinn, setjum á það LIKE!!

Ræktum bráðhollt grænmeti svo krakkinn verði kátur

Borðum fisk og lambakjöt og tökum ótal slátur

Brauð og kökur gómsætar bökum við í stöflum

Verðum samt smá þreyttar á því, ó já, svona á köflum.

En konurnar þær áttu ekki bara að vera heima við skyldum hugsa um kvenréttindi, aldrei má þeim gleyma.

Smám saman það hafa lært í nokkra áratugi Þó má gera betur til að nógu vel það dugi.

Jafnréttishugsjóninni ekki mátti gleyma Í vinnunni og alls staðar ekki bara heima.

Kallinn á að sjálfsögðu að hugsa vel um frúna

Taka þriðju vaktina , stundum soldið snúna.

Krílin sækja í leikskólann og keyra þau í boltann, fimleikana, sundið eða kórinn eða hvaðeina

Finn ekkert sem rímar við boltann!!!

Stunda það sem fullnægir okkar félagsþörfum

Taka þátt í margvíslegum kvennafélagsstörfum

Kynnast öðrum konum og kosti þeirra meta

Félagsstarfa gullna meðalveginn feta.

Læra að dansa tangó eða salsa eða djæf

Fara í jóga, eða bara vera „full alæf“.

Um firnindi og fjöll að storma fimar eins og hindir

Synda í sjó og stunda hinar ýmsu heilsulindir

Húsfreyjan okkar veit sko vel hvað hentar

Sjáum bara hvar, í dag við erum lentar.

Löngu fyrir feminismann vorum við á blússi

Tókum virkan þátt í kvenréttindastússi.

Húsfreyjan hún kennir okkur hvað við skulum gera Þess vegna við glaðar skulum áskrifendur vera!!

Rappað af krafti og salurinn tók undir.

Leikur og list sameinast

Kvenfélag Ólafsvíkur vígði listaverkið Gleði-Framtíð eftir

Sigurð Guðmundsson listamann þann 22. ágúst 2024. Þetta er listaverk sem er gert fyrir börn og hugmyndin er að þau megi leika sér í verkinu.

Þegar Kvenfélag Ólafsvíkur varð 70 ára árið 2020, kom upp sú hugmynd að minnast þess á veglegan hátt. Afmælisnefnd var stofnuð og voru fimm konur sem mynduðu hana. Þegar saga félagsins var skoðuð bar hæst að félagskonur höfðu á sínum tíma stofnað gæsluvöll fyrir börn. Þær létu ekki þar við sitja heldur stofnuðu leikskóla tveimur árum seinna

og ráku hann í tvö ár en þá tók Ólafsvíkurhreppur við rekstrinum. Leikskólinn var stofnaður 7. febrúar 1972. Það var mikill velvilji fyrir þessu framtaki félagskvenna og styrkti hreppurinn verkefnið. Eiginmenn þeirra aðstoðuðu og sáu m.a. um að laga lóðina, setja upp girðingu svo börnin kæmust ekki í lækinn. Þetta var á þeim árum þegar konur voru bundnar

heima yfir börnunum og gátu ekki leitað út á vinnumarkaðinn. Því tóku þær málin í sínar hendur og stofnuðu leikskóla sem í fyrstu var rekinn á jarðhæð gamla félagsheimilisins við Gilið. Hugmyndin var að auðvelda konum að komast út á vinnumarkaðinn því oft vantaði fólk í vinnu, sérstaklega á vertíðum, og þetta var líka ákveðið jafnréttismál, að konur hefðu

val. Fyrir þennan tíma voru konur að skiptast á að passa börnin hver fyrir aðra svo þær kæmust í launaða vinnu.

Reyndar kom hugmyndin um stofnun leikskóla fram á aðalfundi félagsins 28. febrúar 1969 og var samþykkt að vinna að fjáröflun og framkvæmd þessa máls. Þremur árum síðar opna þær fullbúinn leikskóla.

Fengin var lærð fóstra, Guðrún Guðbrandsdóttir, sem tók að sér að sjá um innkaup á leikföngum og föndurvörum og móta starfsemi leikskólans ásamt Grétu Jóhannesdóttur sem var ráðin fyrsta forstöðukonan.

Þegar konur taka sig saman og sameinast um einhverja hugmynd þá verður til mjög sterkt afl. Það sést best á þessu framtaki félaganna í Kvenfélagi Ólafsvíkur og er þetta listaverk minnisvarði um samtakamátt og framsýni þeirra.

Kvenfélag Ólafsvíkur fékk fjárframlög frá ýmsum aðilum og hefði ekki tekist að koma þessu listaverki upp nema með þessum stuðningi og er félagið ákaflega þakklátt fyrir það.

Afmælisnefndin. Jenný Guðmundsdóttir, Elfa E. Ármannsdóttir, Ester Gunnarsdóttir, Kristín Vigfúsdóttir og Steiney K. Ólafsdóttir.

Vígsla listaverksins Gleði - Framtíð. Nemendur af Leikskólanum Krílakoti og Elfa E. Ármannsdóttir formaður afmælisnefndar.

Nýr ritstjóri Húsfreyjunnar

Jenný Jóakimsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Húsfreyjunnar. Jenný er flestum kvenfélagskonum landsins að góðu kunn en hún hefur verið starfsmaður á skrifstofu Kvenfélagasambandsins til fjölda ára og mun gegna því starfi áfram.

Jenný tekur við ritstjórastarfinu af Sigríði Ingvarsdóttir, sem hefur verið ritstjóri sl. þrjú ár og sinnt því af kostgæfni og áhuga. Henni eru færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

Jenný er fædd í Reykjavík 5. september 1968, alin upp af sterkum konum í vesturbænum en er nú búsett í Hafnarfirði. Hún á ættir að rekja í Hnífsdal, á Álftanes og Reykjavík.

Jenný á þrjú börn, tvo drengi, Arnar Inga f. 1994, Ellert Andra f. 1996 og Rósu Maren sem er fædd 2013. Barnabarnið Sæmey Rós er dóttir Arnars Inga og er nýorðin tveggja ára.

Jenný er iðnrekstrarfræðingur og með

BSc. próf í alþjóðamarkaðsfræði. Hún hefur í gegnum tíðina starfað víða. Hún hefur verið félagi í JCI Íslandi síðan 1998 og er senator í hreyfingunni, nú í stjórn Hins íslenska senats. Hún

sinnti mörgum trúnaðarstörfum fyrir JCI Ísland og var landsforseti 2007. Hún sinnti líka fjölbreyttum leiðbeinendastörfum.

2015 tók hún að sér að taka saman Félagsmálabók KÍ. Síðan þá hefur hún starfað fyrir Kvenfélagasamband Íslands, Húsfreyjuna og Leiðbeiningastöð heimilanna. Hún hefur skrifað greinar í Húsfreyjuna fyrir KÍ og Leiðbeiningastöð heimilanna.

Jenný er stofnfélagi í Félagi Kvenna í Kópavogi og situr nú í stjórn þessa yngsta kvenfélags landsins.

Jenný segist taka bæði spennt og auðmjúk við starfi ritstjóra Húsfreyjunnar, enda þyki henni mjög vænt um þetta 75 ára gamla blað KÍ. „Blaðið á erindi við allar konur og ætti að vera til á hverju heimili.”

Við bjóðum Jennýju hjartanlega velkomna til starfa.

Texti: Björg BaldursdóttirMynd: Silla Páls

Prjónaðarjólagjafir

Kristín Örnólfsdóttir

Hannyrðahornið býður upp á skemmtilega barnapeysu, skreytta jólasveinum neðst á bol. Í stíl við peysurnar er hægt að velja um tvær tegundir af húfum. Ef vel er að gáð er hægt að sjá lítil jólasveina augu kíkja upp fyrir stroffið á húfunum.

Fallegir, handprjónaðir gjafapokar gera jólagjafir einstaklega persónulegar. Boðið er upp á fjórar uppskriftir

af gjafapokum sem gleðja augað. Í þetta verkefni er upplagt að nota garnafganga.

Vettlingar, skreyttir blómum og fiðrildum eru hér á myndum sýndir rauðir og grænir og hafa því verið settir í jólabúning. Þeir eru líka afskaplega fallegir í ljósum vor og sumar litum.

Prjónið og njótið!

BARNAPEYSA OG HÚFA

Peysa

Stærð 6-12 mán. 1-2 ára 2-4 ára

Yfirvídd 58 cm 63 cm 68,5 cm

Lengd á bol að handvegi 20 cm 23 cm 26 cm

Ermalengd 20 cm 23 cm 26 cm

Húfa

Stærð 6-12 mán. 1-2 ára 2-4 ára

Ummál 37 cm 42 cm 47 cm

Garn

Bamboo Wool frá Icewear, 50% merino ull, 50% bamboo. 50g (100m/109 yd)

Litur 1: #9011-5130, 150 -150 - 200 g (í peysu og venjulega húfu)

Litur 1: #9011-5130, 200 - 200 - 250 g (í peysu og skotthúfu)

Litur 2: #9011-1000, 50 - 50 - 50 g

Litur 3: #9011-2026, 50 - 50 - 50 g

Litur 4: #9011-0001, 50 - 50 - 50 g

Prjónar

Hringprjónar nr 4 og 4.5, 40 cm langir (aðeins fyrir húfuna)

Hringprjónn nr 4.5, 60 cm langur

Sokkaprjónar nr 4.5

Prjónfesta 10 x 10 = 19 L og 25 umferðir í sléttu prjóni á prjóna nr 4.5.

Nauðsynlegt er að hafa rétta prjónfestu til þess að flíkin nái uppgefinni stærð. Sannreynið prjónfestu og skiptið um stærð prjóna ef þörf er á.

Skammstafanir og skýringar:

L: Lykkja/ lykkjur

Sl: Slétt/ sléttar

Br: Brugðið/ brugðnar

PM: Prjónamerki

Gatamunstur: *Prjónið 2 L sl saman, sláið upp á prjóninn*, endurtakið frá *_* út umferðina.

Aðferðir

Peysan er prjónuð neðan frá og upp. Gataprjón skreytir kant á hálsmáli og einnig neðst á bol og ermum. Peysan er að mestu einlit en munsturbekkur skreyttur jólasveinum er neðst á bol.

Bolur

Notið hringprjón nr 4.5 og lit 2. Fitjið upp 110 - 120 - 130 L og tengið í hring. Gott er að setja PM til að merkja upphaf umferðar. Prjónið 5-5-5 umferðir sl með lit 2. Í næstu umferð er prjónað gatamunstur með lit 2.

Prjónið 2-2-2 umferðir sl með lit 2.

Prjónið samkvæmt munsturmynd 1.

Prjónið munsturmynd 1 frá hægri til vinstri, neðan frá og upp.

Endurtakið lykkjur 1-10 út umferðina

Þegar búið að að prjóna samkvæmt munsturmynd 1, prjónið þá áfram sl með lit 1 þar til bolurinn mælist 2023 - 26 cm (mælt frá gatamunstri). Prjónið næstu umferð á eftirfarandi hátt: Prjónið 6 - 6 - 6 L (lykkjur undir höndum), setjið þessar 6 - 6 - 6 L á nælu eða auka þráð. Prjónið 49 - 54 - 59 L (framstykki), prjónið 6 - 6 - 6 L (lykkjur undir höndum), setjið þessar 6-6-6 L á nælu eða auka þráð, prjónið 49 - 54 - 59 L (bakstykkið).

Geymið bolinn.

Prjónið

Prjónið

Prjónið

Prjónið

Munsturmynd 1. Prjónið frá hægri til vinstri, neðan frá og upp. Endurtakið lykkjur 1-10 út umferðina

Ermar

Notið sokkaprjóna nr 4.5 og lit 2. Fitjið upp 20 - 24 - 28

L og tengið í hring. Gott er að setja PM til að merkja upphaf umferðar. Prjónið 5 - 5 - 5 umferðir sl með lit 2. Í næstu umferð er prjónað gatamunstur. Prjónið 2 - 2 - 2 umferðir sl með lit 2 og aukið út um 6 - 7 - 6 L með jöfnu millibili yfir seinni umferðina. Nú ættu að vera 26 - 31 - 34 L á prjónunum. Skiptið yfir í lit 1 og prjónið 2 - 2 - 4 cm sl.

Nú hefst útaukning á eftirfarandi hátt: Prjónið 1 L sl, aukið út um 1 L, prjónið þar til 1 L er eftir af umferðinni, aukið út um 1 L, prjónið 1 L sl.

Aukið út á þennan hátt með 2.5 - 2.5 - 2.5 cm millibili, samtals 8 - 8 - 9 sinnum. Nú ættu að vera 42 - 47 - 52 L á prjónunum. Haldið áfram að prjóna sl með lit 1 þar til ermin mælist 20 - 23 - 26 cm (mælt frá gatamunstri). Þegar síðasta umferðin er prjónuð, prjónið þá þar til 33 - 3 L eru eftir af umferðinni og setjið næstu 6 - 6 - 6 L á nælu eða auka þráð. Nú ættu að vera 36 - 41 - 46 L á prjónunum.

Prjónið seinni ermina á sama hátt.

Berustykki

Sameinið nú bol og ermar með lit 1, á hringprjón nr 4.5 á eftirfarandi hátt: Prjónið vinstri ermina (36 - 41 - 46 L), prjónið framstykkið ( 49 - 54 - 59 L), prjónið hægri ermina (36 - 42 - 46 L), prjónið bakstykkið ( 49 - 54 - 59 L). Nú ættu að vera samtals 170 - 190 - 210 L á prjóninum.

Setjið prjónamerki við upphaf umferðar, þar sem bak og vinstri ermi mætast.

ATH. Skiptið yfir í minni hringprjón eða sokkaprjóna þegar lykkjum fækkar.

Prjónið 3 - 5 - 7 umferðir sl.

Nú hefst úrtaka og er hún gerð á eftirfarandi hátt:

1. úrtökuumferð: *Prjónið 8 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (= 153 - 171 - 189 á prjóninum).

Prjónið 3 - 4 - 5 umferðir sl.

2. úrtökuumferð: *Prjónið 7 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (= 136 - 152 - 168 á prjóninum).

Prjónið 3 - 4 - 4 umferðir sl.

3. úrtökuumferð: *Prjónið 6 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (=119 - 133 - 147 á prjóninum).

Prjónið 3 - 4 - 4 umferðir sl.

4. úrtökuumferð: *Prjónið 5 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (=102 - 114 - 126 L á prjóninum).

Prjónið 3 - 4 - 4 umferðir sl.

5. úrtökuumferð: *Prjónið 4 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (= 85 - 95 - 105 L á prjóninum).

Prjónið 3 - 3 - 4 umferðir sl.

6. úrtökuumferð: *Prjónið 3 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (= 68- 76 - 84 L á prjóninum).

Prjónið 3 - 2 - 4 umferðir sl.

7. úrtökuumferð: *Prjónið 2 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið út umferðina (= 51 - 57- 63 L á prjóninum).

Hálsmál

Prjónið 3 - 4 - 4 umferðir sl með lit 1 og aukið út um 1 - 1 - 1 L í fyrstu umferðinni. (=52-58-64 L á prjóninum).

Skiptið yfir í lit 2 og prjónið 2 - 2 - 2 umferðir sl. Í næstu umferð er prjónað gatamunstur með lit 2. Prjónið 4 - 5 - 5 umferðir sl með lit 2.

Fellið af.

Frágangur

Gangið frá lausum endum.

Lykkið saman undir höndum. Brjótið upp á kantinn á hálsmáli, neðan á bol og ermum og saumið hann niður frá röngunni. Passið að gatamunstrið sé í brotinu, þá myndast fallegur kantur.

Hand þvoið peysuna í mildu sápuvatni. Leggið til þerris í rétt mál.

Munsturmynd 2. Prjónið frá hægri til vinstri, neðan frá og upp. Endurtakið lykkjur 1-10 út umferðina

Húfa, venjuleg og skotthúfa

Fitjið upp 68 - 80 - 88 L með lit 2 á prjóna nr 4. Prjónið 45 - 5 cm stroff; 2 L sl, 2 L br.

Skiptið yfir í prjóna nr 4.5 og prjónið samkvæmt munsturmynd 2. Aukið út um 2-0-2 L í fyrstu umferð munsturs. Nú ættu að vera 70-80-90 L á prjóninum.

Prjónið munsturmynd 2 frá hægri til vinstri, neðan frá og upp.

Endurtakið lykkjur 1-10 út umferðina

Þegar búið er að prjóna samkvæmt munsturmynd 2 prjónið þá áfram með lit 1 þar til húfan mælist 14-18-20 cm frá uppfitjun.

Aðeins fyrir venjulega húfu.

Nú hefst úrtaka og er hún gerð á eftirfarandi hátt:

1. úrtökuumferð: *Prjónið 8 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=63 - 72 - 81 L)

2. úrtökuumferð: *Prjónið 7 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=56 - 64 - 72 L).

3. úrtökuumferð: *Prjónið 6 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=49 - 56 - 63 L).

4. úrtökuumferð: *Prjónið 5 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=42 - 48 - 54 L).

5. úrtökuumferð: *Prjónið 4 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=35 - 40 - 45 L).

6. úrtökuumferð: *Prjónið 3 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=28 - 32 - 36 L)

7. úrtökuumferð: *Prjónið 2 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=21 - 24 - 27 L)

8. úrtökuumferð: *Prjónið 1 L sl, prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina (=14 - 16 - 18 L).

9. úrtökuumferð: *Prjónið 2 L sl saman*, endurtakið frá *-* út umferðina.

Nú ættu að vera 7 - 8 - 9 L eftir á prjónunum. Slítið bandið og þræðið það í gegnum þessar 7 - 8 - 9 L og í gegnum toppinn.

Skotthúfa

Nú hefst úrtaka.

Prjónið 1 umferð sl og setjið PM á eftirfarandi staði: Setjið PM við upphaf umferðar, prjónið 20 L sl, setjið PM, prjónið 40 L sl, setjið PM, prjónið 20 L sl að upphafs PM.

Skref 1: Prjónið þar til 2 L eru eftir að fyrsta PM, takið 1 L óprjónaða, prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, færið PM, prjónið 2 L sl saman. Prjónið að næsta PM, takið 1 L óprjónaða, prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, færið PM, prjónið 2 L sl saman. Prjónið sl að upphafs PM (fækkun um 4 L).

Skref 2: Prjónið 4 umferðir sl. Endurtakið skref 1 og skref 2 þar til 18 - 20 - 18 L eru eftir á prjónunum (samtals 13 - 15 - 18 sinnum) og skiptið yfir í sokkaprjóna þegar lykkjum fækkar.

Prjónið 4 umferðir sl. Prjónið 2 L sl saman út umferðina. Nú ættu að vera 910 - 9 L eftir á prjóninum. Slítið bandið og dragið það í gegnum þessar 9 - 10 - 9 L og í gegnum toppinn.

Frágangur

Gangið frá lausum endum og saumið dúsk á toppinn.

Handþvoið húfuna í mildu sápu vatni.

Leggið til þerris í rétt mál.

Módelið heitir

Nathan Steindór.

GJAFAPOKAR

Skemmtilegir og fljótprjónaðir gjafapokar sem gera litlar gjafir einstaklega persónulegar.

Þetta verkefni er upplagt fyrir afgangaprjón og er skrifað fyrir prjóna nr 3 til 3.5 en svo er auðveldlega hægt að stækka eða minnka pokana með því að nota fínni eða grófari prjóna og fínna eða grófara garn.

Hér fylgja uppskriftir af fjórum mismunandi gjafapokum.

Gjafapoki með snjókornum

Skammstafanir og skýringar

L - lykkja/ lykkjur sl - slétt prjón

Gatamunstur: *Prjónið 2 L sl saman, sláið upp á prjóninn*, endurtakið frá *-* út umferðina.

Munsturmyndir: Prjónið munsturmyndir frá hægri til vinstri, neðan frá og upp.

Gjafapoki með jólatrjám

Grænn og rauður gjafapoki

Gjafapoki með snjókornum

(blár og hvítur poki)

Stærð

Breidd: Um það bil 11 cm

Hæð: Um það bil 16 cm.

Garn

Kambgarn frá Ístex eða álíka gróft garn

Litur 1: #0968

Litur 2: #0051

Fitjið upp 60 L á prjóna nr 3.5 með lit 1. Tengið í hring og prjónið samkvæmt munsturmynd. Slítið lit

1 frá (blátt) og prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Prjónið 8 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Endurtakið lykkjur 1-15 fjórum sinnum Í hverri umferð.

Rauður gjafapoki

Stærð

Breidd: Um það bil 10 cm

Hæð: Um það bil 15 cm

Garn

Litur 1: Mohair mix frá Icewear Garn #2026 og Brillino frá Lana Grossa #017, prjónað saman í neðri hlutanum.

Litur 2: Artic frá Icewear Garn #1000 og Brillino frá

Lana grossa #017, prjónað saman í efri hlutanum.

Fitjið upp 40 L á prjóna nr 3.5, með lit 1.

Tengið í hring og prjónið 11 cm sl með lit 1.

Prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Prjónið 4 umferðir sl með lit 2. Fellið af.

Frágangur (á við um alla pokana)

Saumið botninn á pokunum saman.

Gangið frá lausum endum.

Brjótið upp á kantinn efst á pokunum og saumið niður frá röngunni. Passið að gatamunstrið sé í brotinu, þá myndast fallegur kantur.

Gjafapoki með jólatrjám

(grænn og hvítur poki)

Stærð

Breidd: Um það bil 10 cm

Hæð: Um það bil 13 cm

Garn

Litur 1: Jamieson´s Shetland Spindrift #790

Litur 2: Artic frá Icewear garn #1000

Fitjið upp 48 L á prjóna nr 3.5. Tengið í hring og prjónið samkvæmt munsturmynd. Slítið lit 1 frá og prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gatamunstur með lit 2.

Prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið gatamunstur með lit 2.

Prjónið 4 umferðir sl með lit 2.

Fellið af.

Endurtakið lykkjur 1-12 fjórum sinnum í hverri umferð.

Grænn og rauður gjafapoki

Stærð

Breidd: Um það bil 10 cm.

Hæð: Um það bil 15 cm.

Garn

Litur 1: Jamieson´s Shetland Spindrift #790

Litur 2: Jamieson´s Shetland Spindrift #525

Fitjið upp 48 L á prjóna nr 3.5. Tengið í hring og prjónið samkvæmt munsturmynd þar til pokinn

mælist um það bil 11 cm.

Slítið lit 1 frá.

Prjónið 6 umferðir sl með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Prjónið 8 umferðir með lit 2.

Prjónið 1 umferð gataprjón með lit 2.

Fellið af.

Endurtakið lykkjur 1-4 út umferðina

Pressið pokana með straujárni og blautum klút.

Heklið 40 - 50 cm langa snúru og þræðið hana í gegnum götin á neðra gatamunstrinu. Einnig er hægt að nota fallega borða til að draga pokana saman.

VETTLINGAR

sem skreyttir eru með blómum og fiðrildum, faðma hendur og halda þeim heitum.

Dömustærð M.

Auðvelt er að gera vettlingana aðeins stærri eða aðeins minni með því að nota örlítið stærri eða minni prjóna stærð.

Garn: Baby wool frá Icewear Garn eða álíka gróft garn. Ein dokka er 50 g (175m/191yd).

Litur 1: #9005-5094

Litur 2: #9005-2026

Prjónar: Sokkaprjónar nr. 2.5 og 2.75.

Prjónfesta: 10x10 cm = 34 L og 36 umferðir í tvíbanda prjóni á prjóna nr. 2.75.

Skammstafanir og skýringar

L - lykkjur

Prj. 2L saman - prjónið 2 lykkjur sl saman s1kp - takið 1 L af óprjónaða, prj. næstu L, steypið ópr jónuðu L yfir prjónuðu L.

M - aukið út um 1 L með því að prjóna framan og aftan í sömu lykkjuna.

HHV - hægri handar vettlingur

VHV - vinstri handar vettlingur

Svört lína - prjónið 13 lykkjur með auka bandi og prjónið síðan aftur yfir þær lykkjur samkvæmt munstri.

Gatamunstur: *prj. 2L sl saman, sláið upp á prjóninn * endurtakið frá * - * út umferðina með lit 1.

Lykill

- Prjónið sl með lit 1

- Prjónið sl með lit 2

Prjónið 3 umferðir sl með lit 1.

Næsta skref er að prjóna lettneska fléttu

Lettnesk flétta

1. umferð: *prjónið 1 L sl með lit 1 og 1 L sl með lit 2.* Endurtakið frá *-* út umferðina.

- Prjónið ekki M

- Aukið út um 1 L

- S1kp þegar HHV er prjónaður, prj. 2L sl saman þegar VHV er prjónaður með lit 1

- Prj. 2L sl saman þegar HHV er prjónaður, s1kp þegar VHV er prjónaður með lit 2

- Prj. 2L sl saman þegar HHV er prjónaður, s1kp þegar vinstri vettlingur er prjónaður með lit 2

- S1kp þegar HHV er prjónaður, prj. 2L sl saman þegar VHV er prjónaður með lit 2

Upphaf

Fitjið upp 60 lykkjur með lit 1 á prjóna nr. 2.5. Tengið í hring og prjónið kant.

2. umferð er prjónuð brugðin: Hafið báða liti af garni fyrir framan vinstri prjón. Prjónið 1 L br með lit 1, *snúið garninu þannig að litur 2 komi fyrir framan lit 1 og prjónið þá brugðna lykkju með lit 2. Snúið garninu þannig að litur 1 komi fyrir framan lit 2 og prjónið brugðna lykkju með lit 1.* Endurtakið frá * - * út umferðina. Þegar þessari aðferð er beitt kemur snúningur á garnið. Hafið ekki áhyggjur af því, það mun lagast í umferð 3.

3. umferð er einnig prjónuð brugðin: Hafið báða liti af garni fyrir aftan vinstri prjón. Prjónið 1 L br með lit 1,* snúið garninu þannig að litur 1 fer fyrir aftan lit 2, prjónið 1 L br með lit 2. Snúið garninu þannig að litur 2 fari fyrir aftan lit 1, prjónið 1 L br með lit 1. * Endurtakið frá * - * út umferðina.

Hægt er að finna góð myndbönd á internetinu þar

sem þessari aðferð er lýst. Einnig er hægt að sleppa fléttunni og byrja á munsturmynd 1 þegar búið er að prjóna upphafs kantinn.

Prjónið samkvæmt munsturmynd

Munsturmyndir eru prjónaðar frá hægri til vinstri fyrir hægri handar vettling og frá vinstri til hægri fyrir vinstri handar vettling.

Þegar umferð 24 er prjónuð skiptið þá yfir á prjóna nr. 2.75 og aukið út um tvær lykkjur, með því að prjóna framan og aftan í sömu lykkjuna, á sitthvorum enda innri handar, þar sem M er merkt inn á munsturmyndina. Nú ættu að vera 62 L á prjónunum.

Merkt fyrir þumli

Þegar umferð 35 er prjónuð, prjónið þá þær 13 L sem merktar eru með svartri línu í munsturmynd, með auka bandi úr öðrum lit. Færið lykkjurnar aftur yfir á vinstri prjón og prjónið áfram samkvæmt munsturmynd og takið úr þar sem við á, þar til 10 L eru eftir á prjónunum. Slítið bandið og þræðið það í gegnum lykkjurnar 10 og svo í gegnum toppinn.

Þumall

Fjarlægið auka bandið og setjið L upp á 3 prjóna nr. 2.75. Takið einnig upp L við sitt hvorn enda opsins þar til 30 L eru á prjónunum.

Munsturbekkur fyrir þumal er prjónaður frá hægri til vinstri fyrir hægri handar vettling og frá vinstri til hægri fyrir vinstri handar vettling. Byrjið á þumlinum innan handar.

Prjónið þar til 10 L eru eftir á prjónunum, slítið bandið og þræðið það í gegnum lykkjurnar 10 og svo í gegnum toppinn.

Frágangur

Gangið frá lausum endum. Brjótið upp á kantinn og saumið hann niður frá röngunni.

Pressið vettlingana varlega með straujárni og blautum klút.

Gangi ykkur vel, leikið ykkur með liti og njótið.

Umsjón: Jenn ý JóakimsdóttirMynd: Úr einkasafni

Frumkvöðullinn og kvenfélagskonan

Kristín Gunnarsdóttir segir sögur

Kristín Gunnarsdóttir lenti í þriðja sæti í Smásögusamkeppni Húsfreyjunnar með söguna sína Svín og benSín. Kristín er búsett á sauðfjárbúi í Öxarfirði og tekur þátt í störfunum þar fyrst og fremst á álagstímum. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og vinnur oftast utan heimilis, núna starfar hún við minjasafnið að Snartarstöðum.

Kristín segist alltaf hafa verið hugmyndarík og hefur tekið þátt í nokkrum frumkvöðlakeppnum, bæði unnið til verðlauna og fengið ágæta styrki í verkefni. Hún er að vinna í einu slíku núna, sem snýst um nýtingu á snoði, en það er ull sem rúin er af kindum að vetrarlagi eða snemma vors og er venjulega hent.

„Ég hef lítið skrifað undanfarin ár

Svín

fyrir utan vinnu en ég er einnig menntuð sem landvörður og starfaði í allmörg ár sem slík og í því starfi ertu oft að segja sögur. Svo er ég amma sex barna og hef gaman af að segja þeim sögur.“

Kristín er einnig formaður Kvenfélagasambands Norður- Þingeyinga og hefur verið það í 10 ár. Hún starfar í KÖ sem er kvenfélag Öxfirðinga og er núverandi gjaldkeri .

„Þessi saga sem hér birtist var skrifuð fyrir um tuttugu árum og er í raun minning úr æsku. En ég ólst upp í Háaleitishverfinu í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þá var umhverfið í Stóragerðinu, uppeldisstöðvum mínum, móar, tún og nýbyggingar. Nóg af pollum og drullu til að sulla í. Einn-

og benSín

Einn fallegan dag þegar vorið bar með sér bjarta sólargeisla en svalan blæ, vaknaði ég við bank á útidyrahurðina. Ég heyrði að mamma svaraði og talaði eitthvað við þann sem bankaði. Ég vissi strax hvað var í gangi og áður en mamma kom í gættina til að vekja mig var ég stokkin á fætur og stóð fyrir framan fataskápinn, – „nú nú , bara komin á ról , krakkarnir bíða úti“ sagði mamma , hallaði hurðinni og fór fram í eldhús. Hún var að ganga frá veisluborði frá kvöldinu áður. Gestirnir sem komið höfðu til að spila fóru ekki heim fyrr en eftir miðnætti, það var oft svo mikið fjör þegar hin hláturmildu hjón Gunna frænka og Guðmundur komu í heimsókn. Við systur höfðum líka vakað, bakað vöfflur, þeytt rjóma og hitað kaffi á meðan fullorðna fólkið sagði grand og nóló og skellti uppúr öðru hvoru.

Það var ekki um margt að velja í fataskápnum. Í efstu hillunni voru nokkrar

peysur, í næstu voru nærföt og náttföt og í þeirri þriðju voru buxur, einar buxur. En þær voru líka splunkunýjar. Köflóttar strets buxur með teygju undir ilina. Ég smellti mér í þær og gula stuttermapeysu sem amma fyrir vestan hafði gefið mér. Hún var líka eina amman sem ég átti, hún amma fyrir vestan. Peysan var með gatamynstri og glitti því í hvítan nærbolinn undir. Ég sleppti ullarbolnum svona yfir sumarið en sleppti því aldrei að signa mig áður en ég fór í nærbol. Ég flýtti mér fram á ganginn og reimaði á mig hvíta strigaskóna, það var ennþá svo góð gúmmílykt af þeim og þeir voru líka ennþá nokkuð hvítir, bara komnar örfáar grænar rákir eftir hlaup í grasinu og nokkrar rispur framan á tána eftir að ég hafði leikið mér að því að bremsa á hjólinu mínu með því að reka tærnar niður í nýtt malbikið í götunni okkar. Mamma hafði skammað mig fyrir það. Ég hljóp niður stigann hrædd um að

ig voru enn leifar af bóndabýlum og því auðvelt að nálgast dýr eins og hross, hænur og svín.“

krakkarnir væru þegar farnir. En það var óþarfi, þarna stóðu þau í hnapp og spjölluðu. Öll athygli hvíldi á kettinum Samma sem Svenni hélt á í fanginu. Sammi var vænsti köttur og var fastagestur bæði á mínu heimili sem og flestum heimilum sem hleyptu honum inn. Hann bjó samt hjá góðri fjölskyldu sem hafði skírt hann Sammy Davis eftir frægum söngvara í Ameríku. Sammi var stundum í hlutverkaleik hjá mér, þá klæddi ég hann í dúkkukjól og lét hann sofa í bastkörfu sem systir mín átti. En svona körfur voru búnar til af blindu fólki og mér fannst það furðulegt hvernig hægt væri að gera körfur án þess að sjá neitt. Það voru hjól undir körfunni og kötturinn fékk að rúlla á milli herbergja þar til hann mótmælti og stökk sjálfur alklæddur uppúr körfunni, kannski orðið flökurt af öllum akstrinum, hver veit, aldrei sagði hann neitt. Hann laumaði sér fimlega úr flíkinni og gerði mér það

ljóst hvað hann vildi. Ég hlýddi, virti alltaf óskir hans og hleypti honum út.

Það var ekki laust við að ég væri svolítið afbrýðisöm þegar ég sá hann þarna liggjandi í notalegheitum í fangi Svenna. En auðvitað átti ég ekki einkarétt á þessum ketti, þetta var ekki einu sinni minn köttur.

Ég tók stjórnina á hópnum – „drífum okkur, Svenni slepptu kettinum, við göngum fremst“. Mér fannst það eðlilegast, þar sem við vorum elst og stærst á velli, að við færum fyrir hópnum. Það virtust allir vera sammála þessu og við örkuðum af stað með hrópum og köllum – „við viljum svín ekki bensín“ með ofuráherslu á benSÍN.

Við byrjuðum frekar lágróma en okkur óx ásmegin eftir því sem við kölluðum þetta oftar og Kalli litli með sína hljómfögru rödd steytti hnefa og varð ákafur í framan. Mér fannst hann fyndinn en hló ekki. Við gengum nokkuð hratt niður götuna þar sem hún lá nýlega malbikuð svo stirndi á kolsvart bikið eins og svart stórfljót sem fleytti okkur niður brekkuna að móunum og litlum grasbala sem við þekktum svo vel og var okkar. Það voru ekki margir sem urðu varir við þessi mótmæli, kallinn á númer þrjú sem vann vaktavinnu held ég að hafi verið eini karlmaðurinn sem sá okkur, hann hristi bara hausinn og brosti útí annað. Nokkrar konur kíktu út um eldhúsglugga eða gættu að þessum óhljóðum, faldar á bak við mjallhvíta stórisana í stofugluggunum. Þegar malbikinu lauk kom smá fát á okkur og Svenni leit á mig með spurn í augum. Ég hélt samt áfram að kalla mótmælaorðin , fannst að þessum skilaboðum yrði að koma á framfæri alla leið að girðingu svínabúsins hjá Böveskov bónda. Sá gamli, eins og við kölluðum hann, var að sýsla við svínin eins og venjulega. Með derhúfuna og í gráköflóttum og slitnum ullarjakka. Gúmmístígvélin hans voru þakin svínaskít, bæði gömlum og nýjum. Tvær gyltur og einn stór og mikill göltur voru innan girðingarinnar að háma í sig úr matartroginu. Augljóst að sá gamli hafði fært þeim góðgæti. Gölturinn var þó ekki í alltof góðu skapi frekar en fyrridaginn, en það þótti okkur krökkunum einmitt svo skemmtilega spennandi. Hver gæti æst hann mest upp? Hver þyrði inní girðinguna

til hans? Böveskov gamli hafði margsagt okkur að gölturinn sá gæti hæglega meitt okkur illilega og jafnvel étið okkur ef hann næði til okkar. Ég hafði nokkrum sinnum vogað mér inní girðinguna og labbað þvert yfir flötina, bakvið göltinn, en bara þegar hann stóð við jötuna og reif í sig fóðrið. Litlu krökkunum þótti það samt mikið afrek og litu á mig með lotningu. Hræðslan við göltinn og spennan yfir því hvort hann yrði mín var vék samt fyrir viðbjóðnum sem ég upplifði þegar ég sá risastóra og hvíta maðka iða í svínaskítnum. Ég var ekki ein um að finnast maðkarnir það ógeðslegasta sem hægt var að hugsa sér og gat ómögulega komið nærri þeim eins og Mæja litla gerði. Hún hikaði ekki við að taka þá upp úr skítnum, fara með þá heim í þvottahús , skola af þeim skítinn með vatni og safna þeim í kassa með mosa og grasi. Pabbi hennar var mjög hreykinn af þessu starfi dóttur sinnar, gaf henni laun fyrir og notaði maðkana til að lokka til sín laxa í veiðiferðum sínum.

Þegar Böveskov gamli varð okkar var brosti hann til okkar og sagði að það þýddi nú lítið að mótmæla breytingum. Svínin færu í dag og húsgarmurinn á morgun. Við þögnuðum við þessa tilkynningu og horfðum stóreygð á þann gamla sem bjástraði eitthvað með skóflunni, stóran göltinn sem gleypti í sig síðustu máltíðina með dömunum sínum, húsgarminn með flagnandi málningu og tylltum okkur á langþreytta girðinguna. Svo þetta var að gerast í alvöru? Jamm og já heyrðist í bóndanum, drífið ykkur aftur heim krakkar, bíllinn fer að koma til að sækja svínin og þið megið ekki vera fyrir sagði hann höstugum rómi. Við snerum við svolítið sneypt að fá engu ráðið um breytingar, svolítið sorgmædd yfir að missa svínin sem nágranna þó að þau lyktuðu ekki vel. Við vissum um marga sem kvörtuðu stöðugt yfir lyktinni og drullunni sem fylgdi oft krökkunum þeirra inná gólf. Húsmæður sem vildu ekki svínafýlu í nýþveginn þvott á snúrum, húsbændur sem kærðu sig ekki um fnykinn og ljótleikann sem þeir upplifðu frá svölunum sínum þegar þeir horfðu útá Fossvoginn og suður til Keilis á stilltum og fallegum sumarkvöldum. Svínabú passaði ekki inní myndina.

En bensínstöð, það var allt annað

mál. Það yrði byggt fallegt rautt hús. Dælurnar stæðu í smekklegri röð og biðu eftir að þjóna bílum af öllum gerðum. Þvottaplan með rauðum slöngum og kústum á endunum, sem allir mættu nota til að þrífa farartækin. Pabbi hafði sagt að það yrði miklu snyrtilegra að hafa bensinstöð en svínabú og þar gæti ég meira að segja þvegið hjólið mitt sem ég hafði fengið í sjö ára afmælisgjöf haustið áður. Við gengum þegjandi tilbaka. Ég var dálítið spennt fyrir að fá þessa bensinstöð en líka sorgmædd í hjartanu. Kannski yfir svínunum sem við höfðum haft sem nágranna svo lengi sem ég mundi og heimsótti svo oft. Kannski var ég sorgmædd vegna bóndans sem þurfti að hætta að eiga svín eða kannski vegna þess að ég vissi innst inni að þegar byrjað er að breyta er stundum eins og fólk geti ekki hætt því. Hvað yrði tekið frá okkur næst? móarnir? lautin okkar? Kæmi kannski glitrandi malbik í staðinn, kannski alla leið að hitaveitustokknum þar sem nokkrar kattargrafir voru, sem við sinntum á sumrin, skreyttum þær með túttublómum og smásteinum. Við settumst í tröppurnar á bakvið hús eins og svo oft áður, sólin skein og það var alltaf logn í tröppunum. Við þögðum um stund og allir hugsuðu sitt. Mæja litla, þessi fjögurra ára písl dæsti alvöruþrungið og sagði um leið og hún hrukkaði ennið gáfulega – „ en hvað verður um alla ormana?“

Hvort það var umhyggja fyrir heimilislausum möðkum eða missir af viðskiptum við föður sinn sem fékk Mæju til að hafa þessar áhyggjur vissum við ekki. Við gerðum okkur heldur enga grein fyrir öllum þeim hröðu breytingum sem áttu eftir að eiga sér stað í hverfinu okkar. En við vorum heppnir krakkar í vaxandi borg, heppin með að malbikið náði ekki til hitaveitustokksins fyrr en mörgum árum seinna.

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og velfarnaðar á komandi ári. Þökkum samskiptin á árinu sem er að líða.

Húsfreyjan 4. tbl. 2024

Texti: Jenný Jóakimsdóttir

GLANSANDI GLÖS OG KRISTALL

Það er gaman að leggja fallega á borð þegar gesti ber að garði. Reyndar líka gaman þegar gera á vel við heimilisfólkið.

Þá er skemmtilegra að fínu glösin og kristallinn glansi fallega.

Enhvað á að gera þegar glösin eru orðin skýjuð og mött?

Þetta er algengt vandamál þegar glös og annað gler er þvegið endurtekið í uppþvottavél.

Við endurtekinn þvott í uppvottavélinni myndast litlar rispur á glerinu og í rispurnar safnast kalk og önnur efni sem síðan fara að mynda ský á glösunum.

Ef rispurnar eru ekki orðnar of miklar er hægt að nota borðedikið góða til að fá þau til að glansa á ný. Glösin eru einfaldlega látin liggja í borðediki, blandað til helminga við vatn, yfir nótt. Það ætti að ná í burtu því sem hefur safnast saman í rispurnar. Glösin eru svo þvegin í köldu vatni.

Betra er að venja sig á að þvo spariglösin, þá sérstaklega kristalinn eingöngu í höndunum í volgu sápuvatni.

Muna að skola vel á eftir í hreinu vatni.

Ef settir eru nokkrir dropar af borðediki í skolvatnið, er nokkuð öruggt að þú fáir glösin þín glansandi hrein og fín.

Ef þú hinsvegar vilt frekar nota uppþvottavélina, vertu þá viss um að vélin sé

full af gljáa, (eftir skolefni), veldu þvottakerfi með lágu hitastigi og fjarlægðu glösin áður en vélin byrjar að þurrka. Það er háa hitastigið sem veldur rispum og ætingu á glösunum.

Athugið að nota ekki edik á glös með möttum skreytingum, munið edik er líka ætandi.

Svo er auðvitað sniðugt að eiga frekar ódýrari glös fyrir daglega notkun. Njótið hátíðanna.

Þú finnur fleiri góð ráð á vef Leiðbeiningastöðvarinnar á leidbeiningastod.is

Þórunn Franz hannyrðakona og frumkvöðull

Síðastliðið sumar setti Safnasafnið upp sýninguna Fjallasýn þar sem flosuð landslagsverk Þórunnar Franz voru sýnd, en í ársbyrjun fékk safnið fjölda verka Þórunnar að gjöf frá dætrum hennar og er nú útsaumur hennar, mynstur og myndflos hluti af viðamikilli safneign Safnasafnsins.

Safnasafnið, var stofnað 17. febrúar árið 1995, af hjónunum Níelsi Hafstein myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur geðhjúkrunarfræðingi. Hafa þau byggt upp myndarlega sýningaraðstöðu sem samanstendur af gamla barnaskólanum, sem jafnframt var þinghús Svalbarðshrepps, og kaupfélagshúsinu Gömlu-Búð sem reist var árið 1900 á Svalbarðseyri en flutt á safnlóðina 2006 og endurgert. Þeir sem heimsótt hafa safnið sjá, að stofnendum Safnasafnsins hefur tekist það sem ólíklegt þótti, að færa alþýðulistina af jaðrinum inn að miðju og lokka jafnframt skólaða nútímalistamenn til samstarfs. Safnasafnið er höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar og hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna jöfnum höndum list eftir leika sem lærða, þó að meginstofni verkum sjálfmenntaðra listamanna. Markmiðið er að kynna til leiks þessa sjálfmenntuðu listamenn, sem hafa löngum ekki hlotið verðskuldaða viðurkenningu. Hafa verk þeirra jafnvel oft verið geymd áratugum saman í geymslum listasafna og aldrei sýnd, þar sem þau falla ekki að söfnunar- og sýningarstefnu viðkomandi safna. Einn af þessum sjálfmenntuðu listamönnum er Sigríður Þórunn Fransdóttir(1931-2018), alltaf þekkt sem Þórunn Franz.

Handavinnubúðin

Þórunn Franz var þekkt hannyrðakona og frumkvöðull á sínu sviði. Á tíma danskra handavinnublaða tók hún eftir því að hér á landi vantaði sér íslensk mynstur fyrir útsaum og flos og hófst því handa við að útbúa þau og varðveita þannig sögu okkar. Þórunn Franz var fædd í Reykjavík 1931 og lést á heimili sínu árið 2018. Foreldrar hennar voru hjónin Frans Ágúst Arason sjómaður og Sveinbjörg Guðmundsdóttir verkakona. Þórunn var yngst systkina sinna og

eina barn móður sinnar. Þórunn gekk í Landakotskóla sem barn og síðar í Ingimarsskóla, að honum loknum fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur.

Hún stofnaði og rak hannyrðaverslunina Handavinnubúðin á Laugarvegi 63 í Reykjavík sem margir muna eftir og seldi þar m.a. mynstur fyrir klukkustrengi, púða og veggmyndir. Þórunn útbjó einnig tilbúnar pakkningar sem voru seldar í búðinni og voru vinsæl. Á stuttum tíma var varla til það heimili sem ekki innihélt útsaum með mynstri frá Þórunni Franz. Þórunn var mjög listræn og bar heimili hennar og eiginmanns hennar, Hallgríms Jónssonar frá Laxamýri þess merki.

Þórunn rak Handavinnubúðina frá ársbyrjun 1966 til ársloka 1976. Vinnudagurinn var langur og oft á tíðum lauk honum ekki fyrr en langt eftir miðnætti. Eftir lokun á daginn færðist starfið yfir á efri hæð verslunarinnar þar sem Þórunn kenndi hannyrða- og myndflos námskeið og fór um helgar yfir vetrartímann um land allt og bauð upp á námskeið í flosi og hannyrðum. Þórunn og Hallgrímur áttu samanlagt 7 börn og voru börnin oft virkjuð til að hjálpa til við fyrirtækið og heimilið. Mikið var að gera á heimilinu og má segja að þau hjónin hafi verið á undan sinni samtíð, því Hallgrímur

Texti: Jenný JóakimsdóttirMyndir: Aðsendar

Jónsson eiginmaður Þórunnar, var auk þess ávallt í fullri vinnu og var mikill afreksmaður í íþróttum. Fjölskyldu hennar er minnisstætt þegar hún var föst í Ólafsfjarðarmúla í snjókomu og byl á þeim tíma sem ekki voru þar göng og hvað þá farsímar. En Þórunn lét ekkert stoppa sig og átti góða vini um allt land sem fylgdust með ferðum hennar og réttu henni hjálparhönd. Eftir að hún hætti rekstri verslunarinnar hélt hún áfram að ferðast og fór með námskeið á sviði handverks og hannyrða um allt land en síðustu starfsárin starfaði hún í skjalasafni Reykjavíkurborgar.

Dægurlagahöfundur

Þórunn var einnig vel þekkt sem dægurlagahöfundur, en hún lærði ung á píanó. Hún fékk t.d. verðlaun fyrir lagið sitt Bergmál vorið 1955, en það var flutt af sönghópnum Tónasystur. Fleiri lög urðu vinsæl eftir hana og ber helst að nefna Vökudraumur á hafinu, Ég sakna þín, Ástarkveðja, Mamma, Farmaður hugsar heim, Hafskipið og Föðurbæn sjómannsins. Lítil hljómplata kom út með nokkrum laga hennar þar sem Raggi Bjarna og Ellý Vilhjálms sungu lög hennar og gerðu vinsæl. Björgvin Halldórsson söng og gaf einnig út lög eftir Þórunni. Hún sat í stjórn Félags íslenskra dægurlagahöfunda í nokkur ár.

Fjallasýn og flos Þórgunnur Þórsdóttir sem starfar á Safnasafni sagði Húsfreyjunni að margir gesta Safnasafnsins sem komu á sýninguna Fjallasýn höfðu orð á því að þeir könnuðust við verk úr fórum fjölskyldu sinnar sem unnið hafði verið undir leiðsögn Þórunnar eða höfðu sjálfir

jafnvel sótt námskeið hjá henni. Verk sýningarinnar vöktu mikla hrifningu en flosverkin sem unnin eru með flosnál eftir ljósmyndum og póstkortum bera vel listrænu yfirbragði hennar fagurt vitni. Ullargarnið virðist bylgjast eftir yfirborðinu. Litirnir eru blandaðir eftir

minni og verða aðeins ýktir eða ef til vill örlítið safaríkari fyrir vikið.

Safnasafnið deilir hér með lesendum með leyfi dætra Þórunnar, mynstri af Þingvalla löber eftir Þórunni sem tilvalið er að sauma eftir á aðventunni. Smá nostalgía á jólum.

Leitin að pabba

Kristín Sif Jónínudóttir

Húsfreyjan frétti að Kristín Sif Jónínudóttir hefði nýlega, eftir flókna og tilfinningaþrungna leit, fundið út hver væri líffræðilegur faðir hennar. Ritstjóri Húsfreyjunnar settist niður með henni og fékk hana til að segja frá einstakri sögu sinni í leit að pabba sínum.

Kristín Sif Jónínudóttir er fædd 1968. Hún býr í Reykjavík en móðurættin er frá Siglufirði og nýlega komst hún að því að föðurættin er úr Keflavík. Hún er náttúrufræðingur og kennari að mennt og kennir náttúrufræði á unglingastigi. Hún er einhleyp og býr með dóttur sinni sem er 23 ára. Hún á líka son sem er þrjátíu og tveggja og ömmustelpu sem er fjögurra ára.

Kristín Sif ólst upp hjá móður sinni og fósturföður frá tveggja ára aldri ásamt systur sinni, sem er þremur árum yngri. Hún segir að það hafi verið um 7 - 8 ára aldur sem hún hafi fyrst farið að spá í faðerni sitt. Það höfðu verið gestir heima hjá henni sem sátu að spjalli við eldhúsborðið og þar heyrir hún að mamma hennar og fósturfaðir hefðu kynnst 1970. Hún hafi verið orðin það gömul að hún hafi strax áttað sig á að þarna var eitthvað sem stemmdi ekki. Sjálf er hún fædd 1968. „Það var þá sem fyrsta hugsunin og spurningin um faðerni mitt kemur upp í hugann, ég var bara krakki en það er þarna sem ég man að ég fór fyrst að setja spurningamerki við hver væri pabbi minn. Systir mín er fædd 1971 og við ólumst upp saman.“

Hún segir að þær systur séu mjög ólíkar bæði í útliti og háttum. Hún sé mjög ljós yfirlitum, en systir mín og fósturfaðir eru dökk yfirlitum. Kristín Sif segist ekki hafa spurt neitt út í þetta þá. Þetta hafi eingöngu verið vangaveltur og spurningar í kollinum á henni sem krakka. Hún

hafi alltaf verið skráð sem dóttir fósturföður síns í skóla.

Þú átt annan pabba Síðan liðu árin og þegar fór að líða að fermingu fóru að koma bréf þar sem var verið að spyrja um væntanlega fermingarfræðslu og slíkt. Hún segir að á þeim bréfum hafi staðið Kristín Sif Jónínudóttir. Á þessum tíma sótti hún sér líka nafnskírteini og það var sama þar. Það var fyrst þá sem hún fór að spyrja móður sína um þetta. Þá hafi mamma hennar fyrst sagt henni að fósturfaðir hennar sé ekki pabbi hennar.

„Hún sagði mér að hann hefði aldrei viljað viðurkenna faðernið. Hún hefði talað við hann og fjölskyldu hans og beðið um blóðprufu en hann hefði verið alveg ákveðinn í því að segjast ekki eiga þetta barn.“

Móðir hennar segir henni að foreldrar hans væru látnir, hann ætti tvo bræður en engin önnur börn. Þarna ákvað Kristín Sif að fyrst að hann hefði afneitað henni, þá ætlaði hún líka að afneita honum. Þarna fannst henni, og trúði því, að móðir hennar hefði verið að vernda hana gegn þeirri höfnunartilfinningu sem hún fann fyrir. „Þarna er ég tólf- þrettán ára og ég ákvað að hugsa ekkert meira út í þetta, ég ætti allavega minn fósturföður.“

Málið sem ekki mátti ræða „Ég fann það líka á andrúmsloftinu

heima að þetta faðernismál mitt væri ekki til umræðu. Þetta var svona mál sem var bara sópað undir teppið og mátti ekki ræða. En svo líða árin og þegar ég er sautján ára kemur mamma til mín og segir mér að faðir minn sé látinn og að hann hafi verið samkynhneigður. Mér brá mikið við þessar fréttir og hugsaði að það hefði þá kannski verið kynhneigð hans sem hefði valdið einhverri skömm hjá mömmu og þess vegna hefði ekki mátt ræða þetta neitt. Ég ákvað þá, að fyrst hann væri látinn og foreldrar hans og ég ætti engin hálfsystkini að hugsa ekkert meira um þetta. Ég gróf þetta bara niður.“

Það er ekki fyrr en Kristín Sif fer að eignast sín eigin börn að hún segist hafa farið að finna fyrir þörfinni á að vita meira. Það var margt í hennar fari sem hana langaði að kanna hvaðan kæmi. „Það var eins og það væri gardína dregin fyrir helminginn á sjálfri mér, það var risa púsl sem mér fannst vanta og þetta fór að angra mig verulega.“

Sálfræðingur kemur til hjálpar Hún hafi þá sótt sér hjálp hjá sálfræðingi til að ræða þessar tilfinningar, því hún hafi alltaf átt mjög erfitt með að brydda upp á þessum samræðum við móður sína. Sálfræðingurinn hafi hjálpaði henni mjög mikið. Hún hafi verið alveg stórkostleg og hafi ekki bara hjálpað henni með sálartetrið, hún hafi líka fundið fyrir hana hverra manna hann hefði verið og

fann nöfn úr fjölskyldunni hans. Að auki fann hún vin hans sem hún kom Kristínu Sif í samband við. Sem hún hafi seinna hitt og boðið heim í kaffi. Vinurinn hefði sagt henni heilmikið um hvernig persónuleiki hann hefði verið og hvað hann hefði verið að gera sín síðustu ár.

„Mér fannst svo gott að vita þetta allt. Þetta var bara alveg „breakthrough“ fyrir mig. Eftir þetta þá hafði ég það loks í mér að ræða þetta við mömmu. Sagði við hana að nú yrðum við bara að setjast niður og ræða þetta. Hún tók því vel og skildi það alveg. Hún sagðist hafa kynnst honum þegar hún var að vinna á hóteli á Seyðisfirði 1967. Það var mikill léttir að geta loks rætt þetta opinskátt við mömmu. Ég var alveg sátt, allavega í bili. Ég vissi að einn bróðir hans var á lífi og að hann ætti tvö hálfsystkini. Ég hugsaði lengi um hvort ég ætti að hafa samband við þau en ákvað síðan á þessum tímapunkti að gera það ekki. Þá er ég um þrítugt.“

Ég er til Það var svo fyrir um tíu árum síðan að hún segist hafa mikið farið að hugsa um þetta aftur. Hún hefði rætt þetta við dóttur sína á ákveðnum tímapunkti og spurt sjálfa sig hvort fjölskyldan hans ætti ekki bara rétt á því að vita að hann hefði átt barn og að hún væri yfirhöfuð til. Hún fann hálfsystur hans á Facebook og skoðaði myndir af þeim með dóttur sinni og þær voru sammála um að þarna væri jafnvel einhver svipur. Hún sendir síðan systur hans stutt skilaboð, þó hún hafi verið mjög stressuð. Fimmtán mínútum síðar fær hún ánægjulegt svar. Konan tók þessu bara mjög vel og sagði að þetta væru mjög góðar fréttir, þau hefðu ekki vitað til þess að hann ætti barn. Kristín Sif segist hafa verið alveg í skýjunum yfir móttökunum og spurt hana hvort hún væri ekki til í að fara í DNA-próf til að sannreyna þetta. Konan var alveg til í að fara í DNA-próf og þær fóru saman niður í Íslenska erfðagreiningu og eftir nokkra bið eftir niðurstöðum kemur í ljós að niðurstaðan er neikvæð, þær væru alls ekkert skyldar. Kristín Sif segir að það hafi verið henni mikið áfall og henni hafi fundist þetta mjög vandræðalegt gagnvart þessari konu sem hélt að þarna væri komin ný frænka í fjölskylduna. Hún hefði reyndar tekið því mjög vel og þótti þetta bara leitt

Já, ef það er nú hann?

Stuttu áður en niðurstaðan kom hafði hún rætt við mömmu sína og sagt henni að hún hefði haft samband við föðurfjölskylduna. Þá hafi mamma hennar orðið hissa og sagt: „Já, ef það er nú hann?“ Mamma hennar var þá komin með Alzheimer og skammtímaminnið var orðið lélegt.

Kristín Sif hafi þá verið alveg steinhissa: „Ég bara ha? Hvað ertu að segja? Ertu þá að segja að það komi einhver annar til greina?“ Móðir hennar hafi þá sagt að hún hafi í raun alltaf haldið að það væri annar maður, en sá maður var á sínum tíma giftur og átti börn. Kristín Sif las á milli orðanna hjá henni að hún hefði greinilega ekki viljað eyðileggja fyrir honum og viðurkenna að hún hafi verið með giftum manni. Mamma hennar nefndi nafnið hans og hún hafi strax skrifað það niður því hún var ekkert viss um að mamma hennar gæti rætt þetta aftur vegna sinna veikinda. Hún hafi spurt hana hvers vegna hún segði þetta núna en fékk engin svör. Hún hefði orðið gífurlega sár og svekkt út í mömmu sína. Eftir að niðurstaðan úr DNA-próf-

við dætur þessa manns, að við hefðum farið í DNA-prufur og hann geti ekki heldur verið faðirinn. Mamma hennar hafi þá brotnað niður og greinilega brugðið sjálfri og segir þá „ég bara var aldrei viss. Það var svo mikið að gerast á þessum tíma, þetta var djammtíminn minn.“ Kristín Sif heldur áfram: „Á þessum tíma gátu konur ekkert vitað dag getnaðar eins nákvæmlega og hægt er að reikna út í dag. Það gat kannski verið sex til átta vikna tímabil þar sem getnaður hefði getað átt sér stað. Mamma vissi í raun ekki hver var faðir minn. Það var bara staðreynd málsins. Þarna var ég enn þá meira týnd og það kom uppgjöf í mig.“

DNA - gagnabanki

Hún frétti síðar af DNA-gagnabanka „MyHeritage“ sem henni var sagt að margir Íslendingar væru búnir að setja sitt DNA í. „Ég ákvað að freista gæfunnar þar. Þarna gat ég séð alla sem tengdust mér í gegnum móðurfjölskylduna og þá sem hugsanlega gætu tengst mér í föðurfjölskyldu. Það voru einungis tvær manneskjur, kona og maður sem

„Kristín Sif las á milli orðanna hjá henni að hún

hefði greinilega ekki viljað eyðileggja fyrir honum og viðurkenna að hún hafi verið með giftum manni.“

inu kom neikvæð hafi hún leitað að nafni þessa manns og fundið minningargrein um hann. Þar komst hún að því að sá maður ætti þrjár dætur. Hún hafi verið komin í ham, nú skyldi hún komast að þessu, sama hvað. Hún útskýrði sögu sína í bréfi til systranna og sendi þeim ásamt óskum um DNA-próf. Það liðu tvær vikur þar til hún fékk svar frá þeim. Þær vildu líka vita sannleikann í þessu máli. Enn líða svo þrír mánuðir í bið eftir niðurstöðu og hún kemur líka neikvæð.

Ég var bara aldrei viss

„Nú var ég algjörlega týnd og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Það var of seint að treysta á upplýsingarnar frá mömmu vegna veikinda hennar en ég prófa að segja henni að ég hafi haft samband

tengdust mér að mjög litlu leyti ekki í gegnum móðurætt. Ég hafði samband við þau bæði því nú var ég alveg kominn í gírinn, alveg sama hvað fólki fannst. Ég var orðin alveg ákveðin í að finna föður minn. Það vildi svo til að konan reyndist vera æskuvinkona kennara sem vinnur með mér. Við töluðum heilmikið saman og hún sagði mér frá sinni leit að föður sínum og fjölskyldu. Ég reyndi að hella mér í ættfræðina í þeirri von að finna tengsl milli mín og hennar fjölskyldu. En ég kann bara ekki neitt í ættfræði, þannig að það gekk mjög illa. Þetta voru svo veikar tengingar.“

Hjálp berst „Hinn maðurinn sem ég tengdist með einungis 2,5 % af DNA sagðist þekkja mann sem hefur mjög mikinn áhuga á

svona málum og hafi hjálpað mörgum að finna uppruna sinn. Hann kom mér í samband við hann og þá fór allt að gerast. Honum fannst saga mín mjög áhugaverð og vildi endilega fá að hjálpa mér. Þetta var fyrir einu og hálfu ári síðan.“

Þá voru liðin um þrjú ár síðan hún hafði fyrst sett DNA sitt í þennan gagnabanka. Þessi maður fer síðan á fullt að garfa í málinu og reyna að finna eitthvað í þessum veiku tengingum sem hún hafði þarna við föðurfjölskylduna. Honum tekst svo að finna hver langafi hennar var.

Hún heldur áfram frásögninni: „Þá var búið að þrengja leitina og alla vega vita af hvaða ætt ég er. Hann finnur svo út að það eru ellefu afkomendur langafa míns sem gætu komið til greina sem faðirinn. Þá var þetta eiginlega bara úllen dúllen doff. Hann finnur fyrir mig allt þetta fólk, afkomendur þeirra og gerir fyrir mig ættartré, ótrúlegur snillingur í þessu. Þá var bara spurningin hvar ég ætti að byrja. Þó að Ísland sé nú ekki stórt þá vildi svo ótrúlega til að ég þekkti engan af þessum afkomendum sem leitin snerist að. Þetta voru í raun þrír ættleggir út frá langafa mínum. Við byrjuðum á að grisja, sigta út frá aldri og slíku. Þá fær sá sem var að hjálpa mér konu sem er líka mikið í ættfræðigrúski til að hjálpa í þessu máli og athuga hvort hún sjái eitthvað meira en hann. Hún fer líka að vinna í þessu og þá finnum við minningargrein eins hugsanlegs föður þar sem segir að sá hafi unnið á Seyðisfirði fyrir síldarfyrirtæki. Þá læddist grunurinn að honum.“

Fann líkindi með öllum hugsanlegum ættingjum Í millitíðinni segist hún hafa verið að skoða fólk með hugsanlegar tengingar á Facebook, til að reyna að finna einhver líkindi með sér. Hún sá líkindi í nánast hverjum sem var. Hún var farin að þrá svo mikið að komast að þessu að um tíma hafi nánast ekkert annað komist að hjá henni. Hún hefði skoðað myndir af dætrum mannsins sem hafi unnið á Seyðisfirði og séð að ein þeirra var með sama sveip og hún í hárinu. En hún hefði að lokum verið orðin svo niðurbrotin af allri þessari höfnun og fundið að hún bara gat ekki tekið við meiru

í bili. Þannig að þau tvö, sem voru að hjálpa henni í leitinni, höfðu samband við börn þessa manns. Hann átti fjögur börn, tvo syni og tvær dætur. Þrjú þeirra búa í Danmörku. Þau hafa samband við dætur hans og spyrja hvort möguleiki sé að pabbi þeirra hafi verið að vinna á Seyðisfirði 1967? Þær segjast ekki vera alveg vissar en að það væri alveg möguleiki og samþykkja að fara í DNA-próf. Það líða síðan átta vikur þar til niðurstöður berast núna í apríl á þessu ári.

Þú átt náinn ættingja

Kristín Sif segir svo og er greinilega mikið niðri fyrir. Tár læðast niður kinn

bæði hjá henni og ritstjóranum sem fær gæsahúð. „Ég var búin að bíða í ofvæni eftir niðurstöðum og það er þannig að allir fá niðurstöðurnar á sama tíma. Ég sé þegar ég er komin í vinnuna þennan dag að það er kominn tölvupóstur frá My Heritage DNA-gagnabankanum og sé að þar stendur í fyrirsögn „You have a close relative“ (á íslensku „þú átt náinn ættingja“ ). Það var alveg furðuleg tilfinning, ég byrjaði að tárast áður en ég opnaði tölvupóstinn. Ég var þarna komin í vinnuna og sem betur fer átti ég bara að kenna tvær kennslustundir þennan dag. Tilfinningarnar voru alveg að fara með mig. En mér tókst einhvern veginn að

hemja mig. En svo eftir það þá bara gat ég ekki meir og tárin byrja að streyma fram. Þetta var svo ofboðslega mikill léttir. Skólastjórinn sá ástandið á mér og hann sendi mig bara heim. Þessi dagur var þvílíkur tilfinningarússíbani. Ég vissi náttúrlega að systkini mín hefðu fengið sömu fréttir á sama tíma. Á einum degi hafði ég eignast fjögur hálfsystkin og vissi nú allt í einu hver faðir minn var. Þarna var bara allt, sem ég hafði þráð svo lengi að vita, komið upp á yfirborðið, mjög skrýtnar tilfinningar, mikill feginleiki.“

Kristín Sif segir að hún hafi í senn verið glöð en líka mjög stressuð yfir því hvernig þau myndu taka þessu. Hún segist hafa velt því fyrir sér allan daginn hvernig ætti að byrja svona samtal því hún hafði ekki verið í neinum samskiptum við þau fram að þessu. Hún byrjaði svo spjall við systur sínar á „messenger“ þarna strax um kvöldið þegar allir voru búnir að sjá niðurstöðurnar. Systur hennar sögðu að þetta hefðu náttúrlega verið mjög óvæntar fréttir en var farið að gruna að þetta gæti verið rétt, bæði út af tengingunni við Seyðisfjörð og eftir að hafa skoðað myndir af henni á Facebook. Þær segja henni jafnframt að fyrir þau séu þetta bara mjög ánægjulegar fréttir og að þær langi til að kynnast henni. Þær ákváðu svo eftir smá spjall að taka myndsímtal kvöldið eftir. Þær hafi svo þrjár systurnar spjallað í myndsímtali í þrjá klukkutíma. „Þetta var bara mjög þægilegt símtal, bara alveg yndislegt. Þær vildu endilega fá að kynnast mér og að hitta mig sem fyrst. Þau tóku þessu öll alveg rosalega vel. Sögðu mér að þau hefðu misst mömmu sína mjög ung, sögðu mér aðeins frá pabba og að þau hefðu flust eitt af öðru til Danmerkur, elsta systir mín fyrst og svo sú næsta. Svo flytur bróðir minn út eftir að faðir okkar deyr, en hann dó 2002. Það byrjar strax mjög gott og kærleiksríkt samband okkar á milli í skilaboðum og í myndsímtölum og ég finn að systkinin eru mjög samrýmd. Hinn bróðir okkar er með Downs syndrome og býr á sambýli í Keflavík.“

Öll systkinin hittast í fyrsta sinn

„Við ákváðum svo að hittast í fyrsta sinn í Billund í júní, sem hentaði vel, þar sem ég var að fara í vinnuferð til Serbíu á þeim tíma og upplagt að enda þá ferð

með fyrstu heimsókn til þeirra í Danmörku. Jafnframt vildi svo ótrúlega vel til að bróðir okkar með Downs syndrome var í ferðalagi þar með sambýlinu sínu og frábært tækifæri til að hitta hann með þeim í fyrsta sinn, sem var mjög mikilvægt.“ Systkinin leigja hús í Billund og hún flýgur þangað frá Serbíu með millilendingu í Munchen.

„Ég var í fimm daga í Serbíu áður en ég hitti þau. Þegar þetta fór að færast nær og dagurinn rann upp þá fóru tilfinningarnar að taka yfir. Ég flýg þarna fyrst til Munchen og þaðan til Billund og ég var alltaf að berjast við tárin á

segja þau við hann að hún sé nýja systir þeirra. „Hann segir hæ og tekur í höndina á mér. Síðan sest hann niður og ég gef honum smá tíma áður en ég sest hjá honum. Þá knúsar hann mig og leggur sitt höfuð að mínu og þá fór ég að gráta og systkini mín fóru að gráta. Þetta var bara svo hjartnæmt, þau sáu og ég fann að hann vissi að ég var eitthvað meira tengd honum en einhver ókunnug kona. Við fórum nokkrum sinnum til hans og hann tók mér alveg ótrúlega vel. Ég hef svo heimsótt hann reglulega í Keflavík. Hann er alveg yndislegur og hefur meðtekið mig og veit að ég er systir hans.“

„Á einum degi hafði ég eignast fjögur hálfsystkin og vissi nú allt
í einu hver faðir minn var“

leiðinni. Það vill síðan þannig til að mín taska kom nánast síðust á bandið og ég var næst síðust út. Þau sögðu mér seinna að þau voru farin að halda, ég væri bara hætt við og farin til baka. En svo kem ég loks fram og þau standa þarna og þá brutust tárin fram og við bara föðmuðumst og grétum saman.

Þetta var yndisleg helgi, mikið spjallað og mörgum spurningum svarað. Þau sýndu mér myndir af pabba, ömmu og afa og öllum í fjölskyldunni, þetta var eins og við höfðum alltaf þekkst. Þau tóku mér strax algjörlega opnum örmum.“ Hún bætir svo við: „Þegar ég kom inn í húsið sem þau höfðu leigt þá beið eftir mér gjöf og mjög fallegt kort. Þetta var hálsmen, fallegt gullhjarta og kort sem á stóð: „Elsku systir, þetta á að tákna okkur öll sameinuð.“ Þá byrjaði ég aftur að gráta,“ segir hún og hlær.

Hjartnæm stund

Þau fóru svo öll fjögur systkinin að hitta bróðurinn sem er með Downs og var þarna rétt hjá þeim í Billund. Þau voru búin að segja honum að hann væri búinn að eignast nýja systur en voru ekkert viss hvort hann hefði meðtekið það. Þau biðja Kristínu Sif að búast ekkert endilega við að hann skilji þetta. Svo hún er alveg viðbúin því og þegar þau koma

Búið að gjörbreyta lífinu

Eftir að Kristín Sif kom heim voru þau systkinin nánast í daglegum samskiptum. Hún fór svo aftur nokkrum vikum seinna til þeirra og fékk að hitta fjölskyldurnar þeirra, vini og vinkonur og hún segir að það hafi allir verið mjög forvitnir að fá að hitta þessa nýju systur. Þau hafa komið einu sinni til Íslands til hennar og þá hafi þau farið með hana til að hitta 95 ára föðurbróður þeirra og segir hún að það hafi verið mjög gott að hitta hann. Systkini hennar hafi sagt henni að þeir hefðu verið mjög líkir bræðurnir og mjög nánir. Hann hafi tekið henni vel og sagt henni að þetta geti nú allt saman staðist og hann sjái strax einhver líkindi með þeim. Hún er fædd í lok ágúst og hann segir henni að faðir hennar hefði farið nokkrum sinnum á Seyðisfjörð að vinna, meðal annars í desember 1967, til að sinna uppgjöri á bókhaldi síldarverksmiðjunnar.

Kristín Sif segir að lokum: „Ég er ótrúlega heppin hvað þau hafa tekið mér vel, því ég man að þegar ég var í þessari leit var ég vöruð við að gera mér ekki of miklar vonir, það er alls ekki sjálfgefið að fólk taki svona fréttum vel. Það er bara oft þannig að þó að því sé vel tekið í upphafi þá þróast jafnvel lítið sem ekkert samband og deyr svo bara út. Svo ég er

alveg rosalega heppin. Þetta er náttúrulega búið að gjörbreyta lífi mínu.“

Djúpar tilfinningar

Aðspurð um tilfinningarnar í þessu öllu segir Kristín Sif; „Allar þessar tilfinningar hafa verið svo djúpar alveg síðan ég var barn og að vera núna loksins búin að finna út úr þessu eftir öll þessi ár. Að vita loksins hvaðan og hverra manna ég er og finna öll þessi systkini. Það er ótrúlegur léttir og góð tilfinning. Það hefur líka m.a. komið upp reiði út í mömmu að hafa ekki sagt það miklu fyrr að hún hafi aldrei verið viss. Þá hefði þetta kannski getað farið allt öðruvísi. Ég er nokkuð viss um að skömmin yfir því að vita ekki hafi ráðið för hjá henni. En maður verður einhvern veginn bara að reyna að setja sig inn í aðstæður á þessum tíma. Þetta var tíðarandinn þá og mamma kemur frá litlu bæjarfélagi og fólk talar. Ég átti alveg erfitt með þessa tilfinningu fyrst, þessa reiði út í mömmu. Hún tók frá mér

það sem hefði getað farið öðruvísi, það er sárt. En ég er alveg komin yfir þær tilfinningar. Ég skil hana að nokkru leyti. Það er líka sárt að hafa ekki getað sagt mömmu frá því hver faðir minn var og frá systkinum mínum. En mamma lést í byrjun árs 2023. Ég er viss um að þetta var þung byrði fyrir hana að bera og henni hefði verið mikið létt að fá að vita sannleikann. Ég vildi að ég hefði getað gefið henni það. Það kom líka upp hjá mér mikill söknuður að fá ekki að kynnast pabba og systkinum mínum fyrr. Síðan var það tómleiki, því að líf mitt var búið að snúast mikið um þetta í svo mörg ár og hanga yfir mér miklu lengur en ég gerði mér grein fyrir. Allt í einu var þessi óvissa farin. Ég þarf ekkert að hugsa um þetta meir. Stóra púslið sem vantaði er komið og ég er heil.“

Mér var aldrei hafnað „Ég ólst upp við þessa vondu höfnunartilfinningu, að faðir minn hefði hafnað mér. Líka skömm vegna þess að það

mátti aldrei ræða þetta mál á heimilinu. En staðreyndin er sú að faðir minn hafnaði mér ekki. Hann vissi aldrei að ég var til. Ég þurfti ekki að bera þessa tilfinningu sem er búin að hafa heilmikil áhrif á líf mitt. Það var afar sárt að uppgötva það en það þýðir ekkert að dvelja við það. Svo er það náttúrulega bara þessi mikla gleði og hamingja. Ég er ofboðslega heppin með systkini mín og datt algjörlega í lukkupottinn með þau.“

Saman á jólum

Kristín Sif endar á að segja frá að hún og öll systkini hennar ætli að verja saman jólum og áramótum í Danmörku. Öll fjölskyldan með öll sín börn og barnabörn, um 25 manns. Eftirvæntingin sé mikil að fá að njóta jólanna með nýju fjölskyldunni og nýta tímann til að kynnast enn betur og hún segir að þau séu með alls konar plön fram undan.

Dalvegi 30, 201 Kópavogur

Sími 517 6460 - www.belladonna.is

Kvennaárið 2025

Þann 24. október 2025 verða 50 ár liðin frá því konur hér á landi boðuðu fyrst Kvennafrí. Talið er að um 90% kvenna hafi lagt niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi framlags þeirra til samfélagsins sem stöðvaðist þennan dag.

Aðdragandann að Kvennafríinu má rekja til þess að Sameinuðu þjóðirnar höfðu lýst því yfir að árið 1975 yrði alþjóðlegt kvennaár. Hér á landi voru konur búnar að fá nóg af því misrétti sem þær bjuggu við frá vöggu til grafar og nýttu því árið til hins ítrasta í þágu kvennabaráttunnar. Meðal annars voru haldnar ráðstefnur um lág laun og dagvistunarmál, kröfur voru sendar til Alþingismanna um frelsi til þungunarrofs, haldinn var hátíðarfundur um sögu kvenna í 1100 ár, fyrsta jafnréttisnefnd sveitarfélags var stofnuð í Kópavogi að frumkvæði Rauðsokka, og hljómplatan Áfram stelpur var gefin út. Listakonur létu ekki sitt eftir liggja og buðu upp á leik- og myndlistarsýningar, auk þess sem Kvennasögusafn var stofnað. Þá voru fyrstu heildstæðu jafnréttislögin sett árið 1976 í kjölfar kvennaársins.

Á afmælisárinu 2025 höldum við ekki bara upp á 50 ára afmæli Kvennafrís og Kvennaárs heldur eru einnig 55 ár frá upphafi Rauðsokkuhreyfingarinnar og fyrsta viðburði þeirra þegar þær tóku þátt í kröfugöngu verkalýðsins og báru þar Venusarstyttu þann 1. maí. Kvenfélagasamband Íslands verður 95 ára, Stígamót verða 35 ára, tíu ár eru liðin frá því að ungar konur risu upp gegn ofbeldi í brjóstabyltingunni, auk fjölda annarra áfanga, sem hægt er að tengja við kvennabaráttuna.

Þessi magnaða kvennasamstaða skilaði smátt og smátt stórum áföngum í átt að auknu kynjajafnrétti og ruddi brautina að auknum tækifærum og frelsi kvenna. Þótt mikið hafi áunnist með

þrotlausri baráttu kvenna eru verkefnin ærin sem við er að glíma á 50 ára afmæli Kvennaárs.

Metþátttaka í Kvennaverkfallinu fyrir ári síðan, á 21 stað um land allt og stærsta útifundi Íslandssögunnar í Reykjavík, sýndi svo ekki verður um villst að við erum tilbúin til að taka við keflinu frá baráttukonunum sem á undan okkur komu. Valdefling, baráttugleði, og skýrt ákall um breytingar einkenndu þessa gríðarlegu sam stöðu rétt eins og árið 1975. Samfélag sem rís svo sterkt upp gegn ójafn rétti hefur alla burði til að verða raunveruleg jafnrétt isparadís.

Til að fylgja eftir Kvenna verkfallinu hafa fjölmörg samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman og lagt verkefninu lið. Þar með talið Kvenfélagasamband Íslands. Stjórnvöldum er gefið eitt ár eða til 24. október 2025 til að breyta lögum og grípa til aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna.

Kvennaárs 2025 verður kynnt í upphafi ársins.

Þann 24. október síðastliðinn kynnti Framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 kröfurnar á sérstökum viðburði í Bíó Paradís, nákvæmlega ári eftir Kvennaverkfallið. Kröfurnar voru afhentar formönnum stjórnmálaflokka sem fjölmenntu á viðburðinn.

Að kynningu lokinni fjölmenntu baráttukonur á heimildarmyndina um hið sögulega Kvennafrí 1975; „The Day Iceland Stood still“ eða Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, eftir Pamelu Hogan og Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Algjörlega frábær mynd sem við, sem mættum, mælum eindregið með að

Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ sem situr í stjórn Kvennaárs fyrir hönd Kvenfélagasambands Íslands, Helga Magnúsdóttir ritari í stjórn KÍ og Þórunn Drífa Oddsdóttir úr Kvenfélagi Grímsneshrepps mættu í baráttuhug á viðburðinn og frumsýninguna. (sjá mynd)

Við ætlum ekki að bíða lengur! Til að fylgja kröfunum eftir og halda byltingunni áfram er boðað Kvennaár 2025 þar sem fléttað verður saman kröfum fyrir samfélagi þar sem öll búa við jöfn tækifæri og möguleika. Frekari dagskrá

Það er svo sannarlega verk að vinna á nýju Kvennaári! Kvenfélagasambandið hvetur konur í kvenfélögum nú, eins og þær gerðu 1975, til að standa að fjölbreyttum viðburðum tengdum Kvennaári um land allt. Kvenfélög eru hvött til að vera í sambandi við Jenný á skrifstofu Kvenfélagasambands Íslands og koma

sínum viðburði á framfæri. Þið, konur sem eru tilbúnar að vera í sérstökum landsbyggðarhóp, hafið endilega samband.

Meginkröfur Kvennaárs 2025 Á Íslandi er langt í land þar til fullu jafnrétti er náð. Konur og kvár búa enn við margvíslega mismunun, launamisrétti og hér geisar enn faraldur kynbundins ofbeldis. Ákveðnir hópar eru verst settir, konur af erlendum uppruna, hinsegin konur, konur með fötlun, láglaunakonur og heimilislausar konur. Kynjamisrétti gengur á heilsu og velferð kvenna, en konum hefur fjölgað meðal örorkulífeyrisþega.

Í hálfa öld hafa konur, og nú kvár, komið saman 24. október til að krefjast aðgerða í þágu jafnréttis í íslensku samfélagi. Í fyrra lögðu yfir 100.000 konur og kvár niður störf til þess að krefjast breytinga. En lítið hefur breyst og nú verður að grípa til aðgerða. Aðgerða gegn ofbeldi, aðgerða gegn launamun kynjanna, aðgerða til að bæta stöðu mæðra og aðgerða gegn mismunun á vinnumarkaði.

Vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti

Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi og laun þeirra eru lægri. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi. Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda þess að tryggja öryggi og frelsi kvenna og kvára. Stjórnvöld þurfa að standa með konum og kvárum og grípa til aðgerða:

• Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum

• Tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði

• Klára vinnu við heildstætt virðismatskerfi og endurskoða starfsmat sveitarfélaga. Tryggja sambærilegt kerfi fyrir viðbótarlaun.

• Koma á samningaleið sem auðveldar einstaklingum að reisa jafnlaunakröfur.

• Setja reglur um launagagnsæi byggða

á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.

Ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð

Konur þurfa oftar að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins. Yfir helmingur barna fær ekki leikskólapláss fyrr en eftir 18 mánaða aldur. Umönnunarbilið bitnar verr á tekjum, tækifærum og lífeyrisréttindum mæðra en feðra. Tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og á þriðja ári eru þær enn umtalsvert lægri en áður. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu en eftir ár eru þær orðnar þær sömu og áður. Einstæðar mæður eiga mjög erfitt með að ná endum saman.

• Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi

• Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun

Kynbundið ofbeldi

Um 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár og annað kynsegin fólk, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna, eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrir samfélagshópar. 15% stúlkna í 10. bekk og 6% drengja hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi annars unglings. Ofbeldi í netheimum getur verið jafn alvarlegt og ofbeldi í raunheimum, en 58% stúlkna og 35% drengja hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Þau sem sinna ungum brotaþolum kynferðisofbeldis sjá í vaxandi mæli sterk tengsl á milli kláms og lýsinga þolenda á ofbeldinu. Neysla kláms meðal barna og unglinga er orðin svo almenn að sú upplýsingagjöf er margföld á við raunverulega kynfræðslu. Fólk sem vinnur með börnum og unglingum sér áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra – markaleysi, virðingarleysi, óvelkomnar snertingar og gróft klámtal. Auk þess þarf að bregðast við hatursorðræðu og fordómum gagnvart hinsegin ungmennum með viðeigandi fræðslu í skólum.

Stjórnvöld þurfa að:

• Gera dómurum, ákærendum, lögreglunni og öðrum sem koma að málum er varða kynbundið ofbeldi skylt, að fá fræðslu um kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess. Sérstaklega skal tryggja þekkingu á stöðu jaðarsettra í samfélaginu.

• Tryggja að brotaþolar fái fullnægjandi þjónustu eins og túlkaþjónustu og aðgengi í samskiptum við opinberar stofnanir.

• Endurskoða lög um nauðganir og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars brot í netheimum og á samskiptamiðlum.

• Hefta aðgengi ungmenna að klámi með aðgangsstýringu.

• Kynjafræði, hinseginfræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni verði færð inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.

• Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.

Töluvert vantar uppá að nálgunarbann

hafi tilætluð áhrif þar sem brot gegn því hefur ekki afleiðingar umsvifalaust. Nær væri að brot varðaði sektum sem lagðar væru á þegar brot er framið. Algengt er að þegar konur og kvár afhjúpa ofbeldi sem þau verða fyrir og krefjast þess að gerendur verði gerðir ábyrgir með einhverjum hætti, sé slegið harkalega til baka, meðal annars með meiðyrðarmáli sem stefni fjárhagslegri framtíð í hættu, ekki síður en andlegri líðan uppljóstrara. Hatursorðræða á grundvelli kyns og kynferðis er orðin áberandi og útbreidd. Í nýjustu skýrslu alþjóðlegrar eftirlitsnefndar um afnám mismununar gagnvart konum er brýnt að á Íslandi sé þörf á löggjöf sem geri hatursorðræðu þessa refsiverða.

Við krefjumst þess að:

• Brot á nálgunarbanni hafi afleiðingar þannig að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni.

• Sett verði lög um vernd uppljóstrara í kynferðismálum sem nái til brotaþola sem greina frá ofbeldi.

• Hatursorðræða á grundvelli kynjamisréttis, kvenhaturs og aðrar tegundir hatursorðræðu á grundvelli kyns, verði gerð refsiverð.

Ástæður þess að fólk, aðallega konur og kvár, leiðist út í vændi eru að stærstum hluta vegna fjárskorts og því er efnahagslegt sjálfstæði, ekki síður en yfirráð yfir eigin líkama, lykilþáttur í að koma í veg fyrir þetta ofbeldi. Hvernig svo sem fólk skilgreinir vændi þá telja flest það mikilvægt að vera með útgönguleið á félagslegum forsendum.

Stjórnvöld þurfa að:

• Tryggja afkomu, húsnæði og vernd til að auðvelda fólki að komast úr vændi og/eða mansali.

Ný vefsíða Kvennaárs hefur verið sett í loftið á slóðinni www.kvennaar.is

Texti um Kvennaárið kemur frá framkvæmdastjórn Kvennaárs

Skipulag og lykt í ísskáp

Eitt af skipulagsráðunum sem allir geta nýtt sér fyrir jólin er skipulagið í ísskápnum.

Áður en við fyllum hann af jólagóðgæti er gott að kíkja á hvað er til í ísskápnum og hverju mætti henda. Þrífa svo vel áður en við fyllum á hann. Passið vel að yfirfylla hann ekki, betra að fara fleiri ferðir í búðina til að forðast matarsóun.

Góð ráð:

• Þrífið ísskápinn vel allavega einu sinni í mánuði.

• Geymið opna glerkrukku með matarsóda í ísskápnum. Matarsódinn dregur í sig auka raka og lykt. Athugið að nota glerkrukku en ekki plast.

• Farið í gegnum ísskápinn einu sinni í viku til að tæma, nýta og henda úr ísskápnum því sem er orðið ónýtt. Notið nefið, treystið á skynfærin áður en þið hendið góðum mat. Það er munur á Síðasta notkunardegi og Best fyrir merkingum. Ef varan er komin á síðasta merkta notkunardag, skal henda vörunni strax. Best fyrir dagsetning: varan er hæf til neyslu ef hún lyktar og bragðast eðlilega.

• Skipuleggið ísskápinn svo auðveldara sé að finna það sem þú leitar að. Setjið mjólk, safa og aðra drykki í eina hillu, og dressingar, sósur og svipaðar vörur í aðra hillu.

• Geymið sósur og marineringar og þannig vörur saman í plastkörfum í ísskápnum, Þannig er auðvelt að taka vörurnar úr ísskápnum og auðvelt að þrífa ef hellist niður eða ef eitthvað brotnar eða lekur. Þá er einfalt að taka körfuna úr ísskápnum og þrífa eina og sér í stað þess að þrífa allan ísskápinn.

• Athugið að yfirfylla ekki ísskápinn, yfirfullur ísskápur eyðir meiri orku við að kæla sig niður og meiri líkur á að hann nái ekki að kæla nógu vel það sem í honum er.

• Geymið allan mat í ísskápnum í lokuðum umbúðum, hyljið matarafganga með plastfilmu eða setjið í plast ílát fyrir matvæli. Gætið þess vel að gleyma ekki að bera fram afgangana svo þeir endi ekki í ruslatunnunni.

Hafið í huga frískápa sem eru víða ef þið sjáið ekki fram á að nýta afganga.

• Þegar ísskápurinn er hreinn er einfalt að halda honum við með því að þrífa eina til tvær hillur og/eða skúffur í einu. Með því að gera það verða þrifin einfaldari og taka ekki eins langan tíma í senn. Vertu bara viss um að fara þannig reglulega í gegnum allar hillur og skúffur.

• Festið hillur og skúffur þannig að þær brotni ekki eða detti úr fölsunum

Lykt í ísskápnum

Notið heimagerðan lyktareyði til að halda góðri lykt í ísskápnum og til að draga í sig vonda lykt. Áður en matur sem er farin að skemmast og fer að fylla ísskápinn af vondri lykt er tími til að ganga í málið.

Hér eru nokkur atriði sem þú getur notað til að ráðast gegn og forðast vonda lykt í ísskápnum:

• Kattarsandur án ilmefna er líka frábær við að draga í sig vonda lykt. Setjið í grunna skál og staðsetjið aftarlega í ísskápnum.

• Viltu góða lykt í ísskápinn? Þetta er kannski ekki fyrir alla, en sumir gætu notið þess að finna smá lykt af t.d. vanillu þegar þeir opna ísskápinn. Athugið að við erum hér að tala um smá lykt, ekki er gott að finna of mikla lykt af einhverjum sterkum ilmefnum þegar ísskápurinn er opnaður. Best er að finna lykt sem er tengd matvælum. Settu smá vanillu extract, tea tree olíu, lavenderolíu eða sítrónudropa í bómullarhnoðra á lítinn disk aftarlega í ísskápinn. Skiptið um á tveggja vikna fresti. • Krumpið saman brúnum bréfpoka í kúlu og setjið í grænmetisskúffuna. Bréfpokinn virkar vel við að fjarlægja lykt úr skúffunni.

• Fyllið hreinan sokk af kolum sem notuð eru í fiskabúr og fást í gæludýraverslunum. Ath. Ekki er hægt að nota kol sem notuð eru á grillið. Kolin draga í sig vonda lykt í allt að þrjá mánuði

• Opið ílát með matarsóda. Matarsódi er einstaklega góður til að draga í sig lykt. Skiptið um á ca 30 – 90 daga fresti.

• Ferskt malað kaffi sem sett er á lítinn disk og staðsett aftarlega í ísskápnum virkar einnig vel við að draga í sig vonda lykt.

Athugið! Innst í ísskápnum er lítið gat fyrir vökva sem safnast saman og rennur út að aftan. Þar vill oft vond lykt hlaðast upp ef gleymist að þrífa þetta reglulega. Þetta gat vill fyllast af óhreinindum og er best að nota eyrnapinna eða pípuhreinsir til að ná að bursta úr því. Vatnið rennur út að aftan og ætti að gufa upp, en stundum þarf að þrífa að aftan líka. Ein leið er að hella nokkrum dropum af rodaloni niður í gegnum gatið til að ná öllum óhreinindum.

Gangi ykkur vel.

Texti: Jenný Jóakimsdóttir

Óvæntarfyrirlestrarperlur jólin

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar

Núnálgast óðum besti tíminn á bókasöfnunum, þegar jólabókaflóðið fer af stað og fólk er að lesa bækur og ræða bækur, bíða eftir bókum, velja bækur í pakkana, þau okkar sem enn höldum í gamlar hefðir. Jafnframt dynja á okkur umfjallanir, þáttaraðir og niðurstöður úr könnunum um að allir séu að verða ólæsir, skólakerfið ráði ekki neitt við neitt og börn harðneiti að horfa í átt til bóka og séu svo léleg í íslensku að það verði að tala ensku til að þau skilji en í því tungumáli séu þau einhverra hluta vegna fæddir snillingar.

Ég reyni að láta sem ekkert sé, deyja ekki hægum dauða af kvíða yfir þessum ólestri og hugsa bara um eigin lestur og nú eru helgarnar sannarlega orðnar dásemdin ein, ég get vaknað eldsnemma og farið að lesa og haldið því áfram fram eftir degi. Og ég finn við þvílík forréttindi ég bý. Með allt innan seilingar, gleraugun, bókina og kaffibollann og lífið er dásamlegt.

En með þá í huga sem eiga erfitt með að finna lestraráhugann þá langar mig til að fjalla hér um bækur sem hugsanlega má flokka sem jaðarbókmenntir en eru sannarlega áhugaverðar.

Vonarmjólk

Fyrst vil ég nefna bók sem kom út í síðasta mánuði og heitir Vonarmjólk, þetta er teiknimyndabók eftir Bjarna Hinriksson. Hún er nk. yfirlit yfir feril Bjarna sl. 40 ár. Hann heillaðist snemma af form-

inu, las, eins og við flest, Andrés Önd, Tinna og fleiri teiknimyndasögur. Í bóksölu stúdenta komst hann svo í franskar teiknimyndasögur og þó hann skildi ekkert í tungumálinu þá skildi hann söguþráðinn af teikningunum. Eitt leiddi af öðru og hann hélt til Frakklands þar sem teiknimyndabækur fyrir fullorðið fólk eru viðurkenndar bókmenntir. Þar lærði hann á þetta form, aðferðir og framsetningu og nú er komin út þessi yfirlitsbók yfir verk hans. Mér finnst hún satt best að segja stórmerkileg og fyrir þá sem henni tekst að finna merkingarbærar hliðstæður við tarot spilin í goðsögunum og setja merkingar spilanna þannig fram að þeim svipar mjög til klassískra tarot spila en jafnframt er svo augljóst samhengið við gömlu sögurnar okkar. Spilin eru samt þannig gerð að fólk þarf hvorki að kunna á tarot eða goðsagnir til að geta skemmt sér við að spá, en svo er líka hægt að fara á dýptina og lesa um hvað það var sem gerðist hjá guðunum og hvers vegna Höður táknar Fíflið, sakleysið og áhættuna o.s.frv. Læra þannig alveg óvart og skemmta sér um leið. Er það ekki alltaf best þegar gaman er að læra?

eiga erfitt með orð þá er þetta kimi sem hægt er að koma sér fyrir í því það er sannarlega líka list að segja sögur með teikningum og það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig myndrammar virka, hvað þarf til að maður fletti eða fylgist með næsta þætti.

Norræn tarot spil

Ekki síður merkileg útgáfa fyrir þessi jól eru Norræn tarot spil sem eru nýkomin út. Þar býr Kristín Ragna Gunnarsdóttir til samhverfur úr tarot og íslenska eða norræna sagnaarfinum okkar. Ég verð að segja að ég fell ekki oft í stafi – en þarna alveg í tunnustafi! Það er svo þakkarvert þegar hreyft er við sagnaarfinum okkar því annars liggur hann óbættur hjá garði. Og þekking Kristínar nær sannarlega alla leið, hún hefur unnið með Þórarni Eldjárn bæði að Völuspá og Hávamálum og Ingunni Ásdísardóttur að Örlögum guðanna. Hún teiknaði Njálurefilinn og vann myndir með nemendum LHÍ í Vatnsdælu-refilinn.

Þessi spil eru vel og skemmtilega gerð og myndirnar eru einstaklega fallegar og sérstakar. En það sem er svo mikið undur og kemur mjög á óvart er hvernig

Kúkur, piss og prump

Sævar Helgi Bragason vísindamaður hefur nú um langt skeið unnið afrek sem vísindamiðlari. Hann hefur verið óþreytandi við að skrifa greinar, búa til erindi og þætti, mæta með upplestra á bókasöfnin og skrifa bækur til að miðla af þekkingu sinni og leggja inn vísindalæsi hjá börnum. Nú var að koma út bók sem heitir því skemmtilega nafni, “Kúkur, piss og prump” sem fjallar um hringrás fæðunnar inn í okkur hvað verður um úrganginn frá okkur og hvernig hann

skilar sér aftur til okkar. Þessi dásamlega hringrás og hvernig allt skiptir máli og helst í hendur í veröldinni. Í bókinni er líka umfjöllun um klósett hvernig þau hafa breyst og hvernig klósettferðum er háttað út í geimnum. En Sævar er einmitt þekktastur fyrir umfjallanir sínar um himinhvolfið og stjörnurnar. Og það er óborganlegt að sjá spennuna og gleðina í augum áhugasamra barna þegar þau hlusta á hann segja frá.

Ferðalok

Það er sannarlega ekki hægt að segja að Arnaldur Indriðason sé á jaðrinum. Hann hefur verið aðalrithöfundur allra undanfarinna jólabókaflóða. En hann er á nýjum slóðum í ár. Bókin hans heitir Ferðalok og fjallar um síðustu dagana í lífi þjóðskáldsins okkar, Jónasar Hallgrímssonar. Bókin er sögð á tveimur tímaskeiðum, annars vegar þegar lífi hans er að ljúka í Kaupmannahöfn og hins vegar frá sumrinu sem líf hans var merkt ástinni sem ljóðið Ferðalok

fjallar um. Það sumar varð líka undarlegt mannshvarf í sveitinni hans þegar ungur piltur, vinur hans, hvarf sporlaust og ekkert spurðist síðan til. Fimmtán árum síðar virðist það mál vera að leysast og lífi Jónasar að ljúka og með sama bátnum kemur heim andlátsfregnin af Jónasi og eintakið af Fjölni sem geymir Ferðalok.

Og ég verð að segja að ég vona innilega að Ferðalok verði metsölubók.

Góðar bækur gæða líf manns nýjum litum og það er nánast að þessi bók hafi svipuð áhrif á mig og bækur Gyrðis Elíasarsonar, hún hreinsar til, hlýjar og raðar merkingunni uppá nýtt.

Góð og gleðileg bókajól.

Verðlaunakrossgáta

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan BEINBROTIN ÓTTALAUS NÆRRI KJAFTATÖRN

FUGLUM 1

STJÓRNMÁLASTEFNU

RÓMV. TALA

GISIN

NAUÐBEYGÐ ÞVAÐRA 2

AFTURHLUTINN FENGUR

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan VIT ÁLITNA ÞRUMULJÓSA ÞUNNMETI DUGÐI

KARLKYNS REF

HRÓPA LÍTILL LOGI

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan BYLJUM LOFTTEGUNDAR AMBÁTT SMÁLÖND

BOTNFALL

AFFERMAST

HELGIMYNDIR 3

ÆTLAR

BLÁSA MANNSNAFN

VATN ÚR JÖKLI SÖGUPERSÓNA ALFAÐIR SKYNSEMI 7

STRÍPALINGUR FJÁRHIRÐISINS

BLAÐLEGGI Í ÆSKU LJÓSHLÍF ÚLNLIÐASKJÓLUM SÆLGÆTI

LÚRA Á EKKI REYNDAN DANI SNÁÐI

BEIÐNA FRÁ VARSJÁ HREINSA 4

ÞYNGDARTÁKN ÝKIR

SÁÐLANDI

YFIRHEYRSLU

ÓMÚSÍKALSKUR SVEIFLAÐU 5

SOÐINN LÖGUR EMBÆTTI GROBB

HÖFNUN EYDD

LANDSTJÓRA Í BIBLÍUNNI 6

KÁMUGAR TRYMBILL

SKIPAÐI NIÐUR

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan HALARÓFAN

TEXTAFORMIÐ

BERÐU BLAK AF

TVENND SANDEYRI

SÓSÍALISTI PIKKS

ATYRÐA BÓKSTAF MANNSNAFN

GETA AF SÉR SKJÖGUR SVELG

Lausnarorð berist útgefanda fyrir 17. janúar nk. merkt KROSSGÁTA. Verðlaun: Átthagafræði frá Sæmundi. Höfundur horfir til átthaganna og þess hvernig þeir hafa mótað viðhorf hennar og viðbrögð í lífinu. Ljóðabók – Kristín Þóra Harðardóttir. Súkkulaðileikur frá Sæmundi. Hér segir frá manni sem kerfið hefur hafnað, tekið í fóstur eða jafnvel í gíslingu, allt eftir því hvernig á það er litið. Hann segir sögu sína, hún er ófögur. Í sögunni keppast um athyglina systurnar gleði og sorg. Höfundur: Hlynur Níels Grímsson. Guðrún – ættarsaga frá Vestfjörðum frá Sæmundi. Skáldsagan Guðrún er söguleg skáldsaga um fjölskyldu og samferðamenn hennar á 18. öld á norðanverðum Vestfjörðum. Höfundur: Brynja Svane. Lausnarorð í 3. tbl: Saltfiskur. Vinningshafar: Guðný María Sigurðardóttir, Reykjavík fær; Katrín, málsvari mæðra frá Sæmundi. Þórunn Erla Sighvatsdóttir, Akranesi fær; Að verða að manni frá Sæmundi. Jóna Ólafía Jónsdóttir, Varmahlíð fær; Draumur Jórsalafarans frá Sæmundi. Verðlaun hafa verið send til vinningshafa.

Hugvekja á jólum

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir Sóknarprestur Grafarvogskirkju

Hversmyndirðu helst sakna ef jólin væru tekin frá þér? Væru það gjafirnar? Jólamaturinn? Jólalögin eða jólaskreytingarnar? Ef við stæðum allt í einu frammi fyrir því að desember færi í hönd og myrkrið yrði sífellt svartara, og ekkert væri til að hlakka til. Engin ástæða til að setja jólalög á fóninn, ekkert jólaskraut sem þyrfti að gramsa eftir í geymslunni, enginn bökunarilmur eða hangikjötslykt. Hvers myndirðu þá sakna mest?

Líklega á hver og einn ólíkt svar við þessari spurningu, en sennilega fyndist mörgum erfitt að benda á eitthvað eitt. Því að einhvern veginn samanstendur ,,jólastemningin” svokallaða af þessu öllu saman, í ólíkum mæli og samsetningum eftir fjölskyldum og einstaklingum. Og svo eru sumir sem myndu kannski ekki sakna svo mikils. Allt þetta sem ég hef nefnt er kannski bara íþyngjandi og til þess fallið að auka á kvíða og vanlíðan sem fyrir er.

Á aðventunni og jólum óskum við hvert öðru gleðilegra jóla. Við leggjum sennilega ólíkan skilning í hvað eru gleðileg jól, en það að njóta gleði virðist tilheyra jólahaldinu. Á ensku segir fólk ,,Merry Christmas!” og jólahald í Englandi gengur mikið út á að skemmta sér, hafa gaman, segja brandara og hlæja. Ég held að við leggjum aðra merkingu í orðið ,,gleðileg”. Á Íslandi er jólahaldið hátíðlegt, og mikil áhersla lögð á samveru fjölskyldunnar. Það að njóta gleðilegra jóla á Íslandi snýst því mikið um samveru við þau sem við elskum og njótum þess að eyða tíma með. Í Skandinavíu segir fólk síðan við hvert annað: ,,God Jul!” Þar er áherslan ekki á gleðina, heldur að jólin verði fólki góð. Það er kannski ágætt að þurfa ekki alltaf að uppfylla kröfuna um gleðileg jól. Þessi hugsun um að jólin geti verið góð, þótt þau séu ekki gleðileg, getur kannski hjálpað þeim sem ekki treysta sér til að finna til mikillar gleði um jólin.

Því að ég held að jólin snúist ekki um gleði. Eða gjafir. Eða mat, skreytingar og tónlist. Við notum bara þessa hluti til þess að tjá þann sameiginlega skilning okkar að eitthvað stórkostlegt hafi gerst á jólunum. Og að eitthvað stórkostlegt gerist á hverjum einustu jólum. Það er ekki endilega eitthvað svo gleðilegt eða gott. Það er eitthvað allt annað, svo mikið að allar okkar tilraunir til að tjá það verða hálfgert hjóm.

Á jólunum mætast himinn og jörð. Á jólunum fögnum við atburði sem er svo hversdagslegur í einfaldleika sínum. Atburði sem endurtekur sig stöðugt um allan heim en er samt svo heilagur og stórkostlegur í hvert sinn, að við upplifum að himininn vitji okkar. Að Guð vitji okkar. Og á jólunum fögnum við ein-

mitt því. Guð vitjaði okkar. Í fæðingu Jesúbarnsins felst sjálft leyndarmál lífsins, Guð gerðist manneskja og deilir þar með kjörum með öllum manneskjum á öllum tímum.

Þess vegna þurfum við ekki að kvíða myrkrinu í desember. Ekki vegna þess að allar jólaseríurnar skreyta myrkrið, ekki vegna þess að jólasöngvarnir hljóma til að kæta okkur og við berum á borð það besta sem við eigum. Heldur vegna þess að þessir hlutir hjálpa okkur að tjá þann dýrmæta veruleika að lífið brýst inn í myrkrið og ekkert fær stöðvað það. Og yfir því getum við öll glaðst, hvert á sinn hátt. Hvort sem við hlökkum til að borða góðan jólamat, opna jólapakkana, njóta samveru með fjölskyldu og vinum, eða kvíðum jafnvel fyrir því að jólin verði erfið, sársaukafull og þrungin sorg. Jólin snúast um lífskraftinn, þann lífskraft sem er Guð sjálfur. Lífskraftinn sem birtist okkur í fæðingu Jesúbarnsins, og minnir okkur á að Guð er með okkur.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól!

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.