Húsfreyjan 1. tbl. 2025

Page 1


Kvenfélagasamband Íslands

1. tbl. 76. árg. 2025 | Verð 2.250 kr.

BESSASTAÐA

BJÖRN

MATARÞÁTTUR HÚSFREYJUNNAR

Á BESSASTÖÐUM

DÁSAMLEGA

LYSTILEGT

ALLT SAMAN

HEKLAÐIR

TÚLIPANAR

ÆVINTÝRI Í

TANSANÍU

Jákvæð og hvetjandi

KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS 95 ÁRA

Lágt verð alla daga

Lágt verð alla daga

EFNISYFIRLIT

4

6

12

Leiðari Húsfreyjunnar

Til hamingju með nýtt ár!

Jenný Jóakimsdóttir ritstjóri

Viðtal Kynntist samfélaginu á Álftanesi

í gegnum kvenfélagsstarfið

Sigríður Sif Sævarsdóttir

Kvenfélagið Fjallkonan Fjallkonuferð

Guðný A. Valberg

14

18

19

Kvenfélagasamband Íslands Hátíðlegur formannaráðsfundur í tilefni 95 ára afmælis

Jenný Jóakimsdóttir

ACWW - Alþjóðasamband dreifbýliskvenna

Konur ganga um heiminn

Jenný Jóakimsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna Ertu að taka til?

Jenný Jóakimsdóttir

20

22

Kvenfélagasamband Íslands 95 ára Hreyfiafl um land allt

Dagmar Elín Sigurðardóttir

Kvenfélag Hvítársíðu

Dásamlega lystilegt allt saman

Ingibjörg Daníelsdóttir

Matarþáttur Húsfreyjunnar Bessastaða Björn

Albert Eiríksson

Ferðasaga Ævintýri í Tansaníu

Kristín Linda Jónsdóttir

Hannyrðir Litadýrð náttúrunnar

Sigrún Arna Aradóttir

Myndataka Nokkur góð ráð varðandi myndatökur

Silla Páls

Hannyrðaþáttur Húsfreyjunnar Fjölbreytni er skemmtileg

Kristín Örnólfsdóttir

Smásagan Dillandi Sveinbjörg Sveinsdóttir

Kvennasamtök Kvennaráðgjöfin

Jenný Jóakimsdóttir

Kvennasögusafnið Að flétta raddir kvenna inn í þjóðarsöguna

Rakel Adolphsdóttir

Krossgátan Frístund

Samband sunnlenskra kvenna Gjafir afhentar til HSU

Sólveig Þórðardóttir

Dalvegi 30, 201 Kópavogur

Sími 517 6460 - www.belladonna.is

Flott

föt

fyrir flottar konur

gullfallegt gullfallegt

náttúruprjón

Gjafapakkar Uppskriftir Kennsluefni

www.natturuprjon.is · natturuprjon

Heillaóskir til Kvenfélagasambands Íslands

í tilefni 95 ára afmælisins

Þökkum samstarfið á liðnum árum

Bestu óskir um farsæld í framtíðinni

Kvenfélagasamband

Gullbringu- og Kjósarsýslu

Kvenfélagasamband

Norður Þingeyinga

Kvenfélagasamband

Suður Þingeyinga

Kvennasamband Eyjafjarðar

Samband austfirskra kvenna

Samband borgfirskra kvenna

Samband sunnlenskra kvenna

Samband skagfirskra kvenna

Samband vestfirskra kvenna

Samband vestur-skaftfellskra kvenna

Samband austur skaftfellskra kvenna

Kvenfélagið Glæður Hólmavík

Kvenfélagið Líkn

Hvítabandið líknarfélag

TIL HAMINGJU MEÐ NÝTT ÁR!

Þann1. febrúar síðastliðinn varð Kvenfélagasamband Íslands 95 ára. Þessi tímamót eru tilefni til að fagna því ómetanlega starfi sem kvenfélög hafa unnið í þágu kvenna og samfélagsins í nær heila öld. Í gegnum tíðina hafa kvenfélög verið vettvangur fræðslu, félagslegrar samveru og baráttu fyrir bættum hag kvenna. Þau hafa gegnt lykilhlutverki í að efla menntun kvenna, berjast fyrir jafnrétti og skapa betri framtíð fyrir komandi kynslóðir. Frá stofnun leikskóla til baráttunnar fyrir kosningarétti hafa kvenfélög staðið í fararbroddi jákvæðra samfélagsbreytinga. Stofndagur Kvenfélagasambandsins 1. febrúar hefur frá því 2010 verið

nefndur Dagur kvenfélagskonunnar. Húsfreyjan óskar Kvenfélagasambandi Íslands og öllum kvenfélögum landsins innilega til hamingju með 95 ára afmælið. Við hvetjum lesendur til að kynna sér starf kvenfélaga og styðja við þau. Með samstöðu og óbilandi krafti halda þau áfram að vinna að betra samfélagi.

Síðastliðin ár hefur það orðið hefð að febrúarblað Húsfreyjunnar er sérstaklega tileinkað kvenfélögunum, kvenfélagskonum og þeirra starfi.

Þann 24. október verða 50 ár liðin frá því að Ísland stöðvaðist þegar konur og Húsfreyjur landsins lögðu niður störf. Af því tilefni er árið 2025 sérstak-

lega tileinkað konum. Kvennaár 2025, þar sem fjöldinn allur af félagasamtökum kvenna, kvára og hinsegin fólks standa fyrir allskonar viðburðum og setja fram kröfur. Húsfreyjan mun leggja Kvennaárinu lið með ýmislegu efni sem fær okkur til að fagna sigrum og beina sjónum að því sem vel er gert og því sem betur má fara, því baráttunni fyrir fullu jafnrétti er ekki enn lokið.

Eins og alltaf er upphaf árs tími endurnýjunar og nýrra tækifæra. Ég hvet lesendur til að taka nýju ári opnum örmum og sjá hvert ævintýrið leiðir.

En umfram allt hvet ég ykkur, kæru lesendur, til að gefa ykkur tíma til að sinna áhugamálum, hlúa að samböndum við vini og ættingja, njóta lífsins og láta árið 2025 verða ykkar besta hingað til!

Jenný Jóakimsdóttir ritstjóri Húsfreyjunnar

Kvenfélagasamband Íslands þakkar velvilja og stuðning þjóðarinnar í 95 ár.

Við þökkum öllum kvenfélagskonum fyrir þeirra óþrjótandi elju, hugmyndaauðgi og fórnfýsi. Sérstakar þakkir fá þær kvenfélagskonur sem ruddu brautina og stuðluðu að framförum í íslensku samfélagi, okkur öllum til heilla.

Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 1. tölublað, 76. árgangur, febrúar 2025 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt Árgangur kostar 6.900 kr. m. vsk. í áskrift. Hvert blað kostar í lausasölu 2.250 kr. Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi, Sólveig Ólafsdóttir, Grindavík og Kristín S. Gunnarsdóttir, Kópaskeri. Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Jenný Jóakimsdóttir, jenny@husfreyjan.is.

Viltu gerast áskrifandi?

Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands. Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, auglysingar@husfreyjan.is Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík. Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430. Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.

Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is eða hringt í síma 552 7430.

Pál s

Kynntist samfélaginu á Álftanesi í gegnum kvenfélagsstarfið

Sigríður Sif Sævarsdóttir

Sigríður Sif, formaður Kvenfélags Álftaness er í viðtali í þessu febrúarblaði

Húsfreyjunnar. Ritstjóri settist niður með Siggu Sif eins og hún er alltaf kölluð og fékk hana til að deila með lesendum sínum því sem á daga hennar hefur drifið og hugleiðingum hennar um kvenfélagsstarfið.

Sigga Sif fæddist á Höfn í Hornafirði árið 1968 og ólst þar upp til sextán ára aldurs. Foreldrar Siggu eru Sigfríður Erla Ragnarsdóttir og Sævar Kristinn Jónsson, en þau eru bæði látin. Hún ólst upp í stórum systkinahópi, en þær eru sex systurnar. Kristín Hrönn fædd 1963, Elfa Björk fædd 1964, Sigríður Sif er fædd 1968, Anna Sigurbjörg er fædd 1969, Þórdís er fædd 1975 og Guðrún Freydís fædd 1976. Fjölskyldan bjó á Rauðabergi sem er um þrjátíu kílómetra fyrir utan Höfn, nánar tiltekið við rætur Fláajökuls. Á Rauðabergi var stundaður búskapur.

„Við krakkarnir tókum snemma þátt í öllum störfum á bænum. Ég byrjaði til dæmis að keyra dráttarvélar 7 ára á milli bagga og því tel ég mig alltaf mjög góðan bílstjóra“ segir hún kímin.

Á heimilinu var margt fólk. Föðuramma Siggu og systur föður hennar voru tíðir gestir. Faðir hennar átti fjögur systkini, tvær af systrum hans þroskaskertar. Önnur þeirra ólst upp með fjölskyldunni.

Hún segir að það hafi verið mjög þroskandi að alast upp við slíkar aðstæður og er þakklát fyrir það. Hún telur að frænka sín hefði getað lifað mjög sjálfstæðu lífi ef hún hefði haft þau tækifæri sem bjóðast í

dag. Það var mikill gestagangur á sumrin og segist Sigga oft hugsa til móður sinnar og velta því fyrir sér hvernig hún fór að því að halda heimili fyrir allan þennan fjölda. „Mamma var alltaf fyrst á fætur og síðust í ból. Hún saumaði líka á okkur öll föt. Það voru svo heilu sumrin sem við krakkarnir sváfum á svefnpoka á stofugólfinu því öll rúm voru upptekin fyrir gesti og það þótti bara mjög eðlilegt.“

Sveitakrakkinn Í frítíma í sveitinni segist hún hafa farið ríðandi um nærliggjandi fjöll og dali og tínt ber og steina. Hún gekk fyrst í lítinn sveitaskóla þar sem faðir hennar var bæði skólastjóri og kennari en fór á þrettánda ári í heimavistarskólann í Nesjum, þar kynntist hún krökkum frá öðrum sveitarfélögum innan Austur-Skaftafellssýslu, sem öll sóttu þennan sama heimavistarskóla, fyrir utan þau sem bjuggu á Höfn. „Þetta var mikil breyting fyrir sveitastelpuna. Það gat verið erfitt að fara svona að heiman en mótaði mig mikið og gaf mér félagsþroska. En þarna eignaðist ég marga góða vini“

Sigga Sif segist hafa alist upp við náttúrutrú þar sem álfar og huldufólk voru

hluti af daglegu lífi. „Mamma var mjög andlega þenkjandi og trúði á lífið að handan og amma spáði í bolla. Þegar nágrannarnir komu í heimsókn voru sagðar sögur af duldum vættum. Mamma kenndi okkur systrum mikilvægi þess að ganga varlega um náttúruna, rífa ekki upp mosa og biðja álfana fyrirgefningar ef það var gert. Þetta var mjög djúpt í okkur.“

„Ég var annars alveg sjúklega myrkfælin sem barn, enda með mikið og fjörugt ímyndunarafl. Ég var skelfingu lostin þegar ég var send í kjallarann á gamla bænum að sækja sultukrukku og sá forynjur hvar sem ég fór í myrkrinu. En alltaf fór ég þegar ég var beðin um það. Mamma bað mig síðar afsökunar á því að hafa ekki trúað mér hversu hrædd ég var í raun og veru. Ég var líka mjög hrædd við þrumur og eldingar, sem voru mun algengari þá en í dag. Ég bjó annars við mikið öryggi og ástríki og samfélagið var samheldið, það hjálpuðust allir að.“ Hún ólst upp við sveitasímann, sem öll sýslan hleraði. Um helgar voru haldin „símapartý“ á nóttunni, þar sem unglingarnir ákváðu fyrir fram, áður en þau fóru heim um helgar úr heimavistinni, að hitt-

ast í símanum klukkan tvö að nóttu. Þá lyftu þau einfaldlega tólinu og byrjuðu að spjalla. Sigga minnist þess hve gaman þau höfðu af því að laumast í símann og segir ákveðna í rómantík hafa verið í því.

Flutti á Höfn

Foreldrar hennar skilja árið 1984 þegar hún er 16 ára og flutti hún þá með móður sinni og systrum á Höfn. Þá varð hún meira “bæjarbarn”, eins og hún orðar það sjálf.

Sextán ára gömul hóf hún störf í Kaupfélaginu á Höfn, sem hún segir að hafi hentað sér mjög vel enda alltaf verið mjög félagslynd. Höfn í Hornafirði var vertíðarbær á þessum tíma og mikið af aðkomufólki í bænum. Sveitaböll voru um allt land og aldurstakmarkið sextán ára á þessum tíma.

Í Kaupfélaginu kynntist hún Röggu vinkonu sinni og þær sungu mikið saman. Þegar þær voru að sækja vörur í kjallarann heyrðist vel í þeim og ef það heyrðist ekki í þeim var spurt hvort stelpurnar væru ekki mættar. Þetta endaði með því að þær fóru að koma fram á árshátíðum í bænum og syngja heimatilbúið efni, sem þeim fannst afar skemmtilegt. „Þetta var svona upphafið að söngferlinum“.

Í framhaldinu gekk hún svo til liðs við Leikfélag Hornafjarðar. Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar á staðnum vantaði um þetta leyti söngkonu og söng hún með þeim í mörg ár. Hún segist hafa náð því að verða heimsfræg á Hornafirði. Á þessum tíma voru sveitaböllin í algleymingi og hún söng með hljómsveitinni nánast hverja einustu helgi. Hljómsveitin fór víða, allt frá Vík og austur á firði. Þau sváfu í samkomuhúsum, í bílnum eða hvar sem þau gátu á milli tónleikastaða. Sigga segir að Haukur Þorvaldsson hafi verið einn af hennar helstu lærifeðrum í tónlistinni, ásamt öðrum meðlimum hljómsveitarinnar. „Þetta var einstaklega skemmtilegur tími, fullur af gríni og gleði.“

Söngnámið

„Ingunn Jensdóttir, sýslumannsfrú og leikkona sem ég kynntist í leikfélaginu hvatti mig svo til að fara í Söngskólann í Reykjavík. Fyrst fannst mér þetta alveg fáránleg hugmynd enda aðeins sautján ára sveitakrakki og vissi ekki neitt um Reykjavík, ekki einu sinni hvar Hlemmur

væri. En ég lét mig hafa það og fór algjörlega blaut á bak við eyrun, hafði aðeins komið til Reykjavíkur með foreldrum mínum sem barn og unglingur.“

Hún byrjaði í Söngskóla Reykjavíkur, og þar upplifði hún það mikla frelsi sem fylgdi því að flytja að heiman, úr öruggu sveitaumhverfinu til Reykjavíkur, fyrsta árið bjó hún hjá ömmu sinni í Kópavogi. Fyrsta veturinn var hún í námi hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, eða Diddú eins og hún er oftast kölluð, og segir það hafa verið dásamlegur tími. „ Ég passaði ekki alveg inn í það formlega umhverfi sem þar var. Sem betur fer var Edda Heiðrún Backman einnig nemandi hjá Diddú þetta ár og þær tvær einstakar mannverur.“ Hún færði sig næsta vetur yfir til Snæbjargar Snæbjarnardóttur, óperusöngkonu, söngkennara og kórstjóra. Snæbjörg var henni eins og önnur móðir.

Hjá Snæbjörgu leið henni vel. Snæbjörg sagði hlutina hreint út og “tuskaði mann svolítið til, á fallegan hátt”, eins og Sigga orðar það. Snæbjörg tók hana með sér í Tónlistarskóla Garðabæjar sem átti betur við hana.

„Eftir eitt ár í söngnáminu fór ég að leigja á Grettisgötu með Möggu vinkonu minni frá Höfn. Þetta var mjög skemmtilegur tím. Ég lifði nánast á rækjusamlokum og kókómjólk. Ég var í söngnáminu og vann með því sem móttökudama hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar sem var í gömlu timburhúsi við hliðina á Fríkirkjunni. Eitt af verkefnunum var að fara um miðbæinn og greiða alls kyns kröfur fyrir Reykjavíkurborg.“ Þarna segist hún hafa lært að skrifa ávísanir upp á tugi milljóna. Tímarnir hafa mikið breyst síðan þetta var.

Barn verður til Í framhaldinu kynntist Sigríður barnsföður sínum, Victor, frá Ghana í Afríku. Hann var hér á Íslandi sem skiptinemi. „Við áttum yndislega sex mánuði saman áður en hann flutti úr landi. Nóttina áður en hann fór kom dóttirin undir. Við höfðum vakað alla nóttina og ræddum meðal annars hvað við myndum eignast fallega dóttur ef við myndum eignast barn saman. Dóttirin Telma Þöll er eina barn Siggu og því mikið kraftaverk segir hún. Sigríður er afar þakklát fyrir þennan tíma með Victori, tíma sem var fullur af gleði og hamingju. Hún ákvað að gera hlé á náminu og flytja aftur til Hornafjarðar til móður sinnar.

Hún hóf aftur störf í Kaupfélaginu og vann í öllum deildum þess. Jafnframt hélt hún áfram að syngja með hljómsveitinni og leika með leikfélaginu. „Á

Höfn var ljósmóðir af gamla skólanum, Bogga ljós, sem var afar fær. Hún átti það til að skamma mig, hár blóðþrýstingur á meðgöngunni er algengt í minni ætt. Ég fann þó aldrei neitt fyrir þessu. Bogga vissi að ég var að vinna í Kaupfélaginu og syngja með hljómsveitinni, en sem betur fer vissi hún ekki að ég var einnig í leikfélaginu. Hún nánast skipaði mér að hætta í hljómsveitinni og hótaði að segja Hauki að reka mig. Dagvinnan var til sjö á kvöldin og ég fór svo beint á hljómsveitaræfingar eða æfingar hjá leikfélaginu og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Lífið snerist um vinnu, leikfélagið og að syngja á böllum.

„HEIMSÓKNIRNAR VORU STÖÐUGAR FYRSTU DAGANA
EFTIR AÐ ÞÆR KOMU HEIM, ENDA

ALLIR BÆJARBÚAR FORVITNIR UM

ÞETTA ÓVENJULEGA BARN“

Á þessum tíma vorum við í leikfélaginu að setja upp “Sálminn um blómið” eftir Þórberg Þórðarson. Þar sem vitað var að ég myndi sennilega ekki ná að leika í öllum sýningum var fengin önnur leikkona, Svava Bjarnadóttir, til að læra hlutverkið líka og leysa mig af ef ég myndi fæða barnið áður en sýningum lyki. Ég var sett í serk til að hylja óléttuna. Svava þurfti síðan að leysa mig af í síðustu tveimur eða þremur sýningunum.

Bogga ljósmóðir vildi að ég færi til Reykjavíkur til að eiga barnið, þar sem þetta væri fyrsta barn og áætlaður fæðingardagur var í byrjun apríl. Í lok mars á miðvikudegi þurfti Bogga að fara til Reykjavíkur, hringdi í mig og sagði að ég ætti að koma með sér til vonar og vara. Á sunnudeginum áður hafði ég byrjað að finna fyrir verkjum. Bakverkurinn versnaði og á miðvikudagskvöldið varð hann ansi slæmur, Bogga hafði greinilega fundið þetta á sér.“

Fimmtudaginn 30. mars 1989 fæddist svo dóttir Sigríðar sem fékk nafnið Telma Þöll.

Allt óvenjulegt vakti mikla athygli „Stína systir var með mér á fæðingardeildinni. Við höfðum gleymt að segja lækninum að barnið væri blandað, sem olli miklu fjaðrafoki þegar barnið fæddist, enda var hún nánast blá á lit. Að lokum tókst okkur að útskýra fyrir starfsfólkinu að barnið væri blandað, en árið 1989 voru ekki mörg blönduð börn að fæðast á Íslandi. Það voru ættleidd börn en ekki mikið um börn af blönduðum uppruna, hvítum og svörtum.

Á þessum tíma vakti allt „óvenjulegt“ mikla athygli, pabbi átti aðeins erfitt með að sætta sig við að barnabarnið væri blandað, en mamma tók á móti okkur opnum örmum. Hún passaði alltaf sérstaklega vel upp á Telmu.“ Heimsóknirnar voru stöðugar fyrstu dagana

eftir að þær komu heim, enda allir bæjarbúar forvitnir um þetta óvenjulega barn. „Mamma sagðist alltaf hafa vitað að ég væri vinamörg, en hana hefði aldrei grunað að ég ætti svona marga vini.“

Sigga bjó hjá móður sinni með dóttur sína til ársins 1992 en þá ákveður hún að flytja aftur til Reykjavíkur og hefja söngnám á ný, aftur hjá Snæbjörgu. Hún segir að dóttirin hafi nánast verið alin upp undir flygli enda alltaf með í för. Snæbjörg sendi flesta sína nemendur í Digraneskirkjukórinn, þar sem Smári Ólason var organisti. Hún syngur í þeim kór í um það bil 10 til 12 ár. „Þetta var dásamlegur tími, við urðum öll svo góðir og miklir vinir og skemmtileg stemming. Við sungum við ýmis tilefni, til dæmis á aðventukvöldum, við jarðarfarir eða brúðkaup. Er svo þakklát fyrir þennan tíma.“

Þær mæðgur bjuggu í Kópavogi og Telma dóttir hennar gekk í Hjallaskóla alla sína skólagöngu. Hún mátti þola margt vegna þess að hún var öðruvísi, af blönduðum uppruna. „Sem móðir gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu erfitt þetta var fyrir hana, enda er ég hvít forréttindamanneskja og get aldrei sett mig í spor dóttur minnar.“ Því miður heyrir maður enn í fréttum sorglega staðreynd þess að við megum gera betur.

Sigríður gagnrýnir þá tilhneigingu að vilja halda öllu “íslensku” og forðast blöndun. Hún bendir á að ef Íslendingar hefðu ekki blandast öðrum þjóðum frá upphafi værum við ekki svona merkileg þjóð. Hún bætir við; „Ísland byggðist upp á útlögum sem flúðu Evrópu, einstaklingum sem ekki hlýddu lögum og reglum og enduðu á Íslandi. Ég man hvað ég hló dátt þegar ég heyrði Óttar Guðmundsson tala um þetta og hversu frábær samlíking þetta væri. Við erum blönduð þjóð og eigum að þakka fyrir það. Það er mér í dag svo mikilvægt að samfélagið beri meiri virðingu fyrir fjölmenningu og við

eigum að vera þakklát fyrir þá visku og allt það góða sem við getum lært af fólki sem kemur hingað frá öðrum menningarheimum. Við eigum ekki að einblína á það sem við töpum, heldur á það sem við græðum.“

Næstu árin vann hún hefðbundna vinnu með söngnum. Hún nefnir hvað hún hafi alltaf verið heppin að lenda á góðum vinnustöðum. Hún hóf störf hjá Fold fasteignasölu, sem var lítill vinnustaður þar sem ríkti góður starfsandi og hún stofnaði svo hljómsveitin LOS ANGELES með Viðari Böðvarssyni og Hálfdani Steinþórssyni og gáfu þau út hljómdisk og spiluðu víða. Hún vann á fasteignasölunni á daginn, á börum á kvöldin og söng í brúðkaupum, jarðarförum og skemmtunum. Af og til fór hún í stutt hljómsveitaverkefni, og alltaf inn á milli að spila með Hljómsveit Hauks Þorvalds á Höfn.

Draumur verður að veruleika Á meðan Sigríður vann á fasteignasölunni fæddist hjá henni draumur um að verða húsgagnabólstrari, þó hún hefði engan bakgrunn í því. Það voru engir smiðir eða handverksmenn í hennar fjölskyldu svo hún segist ekki alveg vita hvaðan sá draumur kom. Árið 2012 sagði hún upp hjá Fold fasteignasölu, langaði að breyta til og gera eitthvað allt annað. Dóttir hennar var næstum fullorðin. Hún segist hafa flakkað aðeins

um, flutti til m.a. til Ísafjarðar og vann á trésmíðaverkstæði í eitt ár, en bjó alltaf í Hafnarfirði. Eftir þetta ár kom hún aftur suður og réð sig þá í vinnu í Staðarskála, sem vinkona hennar rak, ásamt hótelinu þar. Hún vann þar í þrjú ár. Þar rak hún augun í auglýsingu um fjarnám í húsgagnasmíði við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Hún skráði sig í námið og keyrði á Sauðárkrók um helgar í “námshelgar”. Ef hún keyrði ekki heim til sín fór hún á Sauðárkrók. Sigga segir að á þessum tíma í Staðarskála hafi hún fyrst upplifað það að vera einmana, sem var mjög sérstakt og hollt fyrir hana, enda ekki þekkt þessa tilfinningu áður. Eftir dvölina í Staðarskála kom hún aftur til Reykjavíkur og hóf störf á Morgunblaðinu, þar sem hún vann í nokkur ár. Hún missti vinnuna þar árið 2020 og stóð þá frammi fyrir því að þurfa að ákveða hvað hún ætlaði að gera næst. Hvort ætti hún að fara að leita sér að nýrri vinnu eða elta drauminn um að læra húsgagnabólstrun. Hún ákvað að stökkva á drauminn og samdi við Bólstursmiðjuna að taka sig í starfsnám. Hún hóf svo nám í Tækniskólanum árið 2021. Skólinn er í samstarfi við tækniskólann í Skive í Danmörku og þurfa allir nemendur að taka tuttugu vikna staðarnám þar. Sigga fékk Erasmus-styrk til að fara til Danmerkur frá janúar 2022 til janúar 2023; tuttugu vikur í skólanum og svo vinnustaðanám á tveimur verkstæðum í framhaldinu. Hún

leigði sér bíl og keyrði um Jótland á milli verkstæða.

Hún ákvað strax í upphafi að leggja sig fram við að kynnast öðrum nemendum og tengjast þeim, og að hún yrði bara að læra dönsku strax. Enda fór hún út með sína skóladönsku og gat lítið tjáð sig til að byrja með. Hún leyfði sér að tala vitlausa dönsku og segir að það hafi oft verið mjög fyndið. Fljótlega gat hún gert sig skiljanlega og eignaðist marga vini þar.

„Sem nemi í húsgagnabólstrun fékk ég einstakt tækifæri til að nema í Danmörku. Þar fékk ég afar góða umönnun og kennslu. Heimavistin í skólanum er alveg frábær og allt starfsfólk skólans boðið og búið að aðstoða mann í hvívetna og halda utan um mann.“

„Handverksmenning Dana er einstök og haldið í heiðri. Lærði ég mikið á þessum tíma sem ég dvaldi þar, einnig lærði ég dönsku og kynnti mér danska menningu sem ég þekkti ekki svo vel. Ég kom heim með ómetanlega reynslu, bæði í húsgagnabólstrun en einnig sem víðsýnni og betri manneskja. Ég er mjög þakklát fyrir þennan tíma í Danmörku. Mér finnst við vera í þokast í þessa átt hér á Íslandi sem er mjög gleðilegt.“

Kvenfélagsstarfið

Sigga Sif flutti á Álftanes árið 2016. Hún hafi velt því fyrir sér hvernig hún ætti að tengjast samfélaginu. „Að koma nýr inn i samfélag er aðeins öðruvísi þegar maður

er ekki með börn. Með börn þá er hægt að kynnast foreldrum í gegnum skólastarf og tómstundir, en þegar maður er barnlaus þarf maður að leita annarra leiða til að kynnast fólki.“

Fyrsta augljósa leiðin var að fara í kirkjukórinn og kvenfélagið. Hún gekk í kvenfélagið 2017. Í kvenfélaginu hefur hún kynnst mörgum frábærum konum. Hluti af félagskonum þar stofnaði sjósundsfélagið Ránardætur á Álftanesi. Sá hópur hefur stækkað og tengst fólki víðar, ekki bara af Álftanesi. Margir hafa komið sem gestir og farið með þeim í sjóinn. Úr þessu hefur orðið ákveðið samfélag. Sigga varð formaður kvenfélagsins í febrúar 2023, stuttu eftir að hún kom heim frá Danmörku og segist hafa verið algjörlega blaut á bak við eyrun og vissi ekkert hvað hún var að gera, sem sé bæði kostur og galli. Félagskonur eru núna að vinna í að endurhugsa fjáröflunarleiðir kvenfélagsins.

Kvenfélagið hafði í nokkur ár verið með svokallaðan Græna markað. Hann byggðist að mestu á kleinubakstri, kökusölu og sölu á sumarblómum. En tímar hafa breyst og voru þær ekki lengur samkeppnishæfar í verðum á sumarblómum og þurftu því að finna nýjar leiðir til fjáröflunar. Þá kom Sigga með þá hugmynd að vera með flóamarkað. Á þeim tíma, í kringum 2021, var markaðurinn fyrir endursölu að opnast og þetta var að færast í tísku. Þær prófuðu og það gekk vel. Það sem hefur staðið þeim mest fyrir þrifum er að Kvenfélag Álftaness hefur ekki haft fast húsnæði. Þær hafa því alltaf þurft að leita að húsnæði fyrir viðburði. En vonandi breytist það núna með nýjum miðbæ á Álftanesi og að Garðabær veiti þeim fast húsnæði.

„Síðasta sumar fengum við lánað gamla Álftaneskaffi fyrir Græna markaðinn og gátum haft markaðinn opinn yfir sumarið. Í gegnum markaðinn kynntist ég Álftnesingum miklu betur, sérstaklega krökkunum sem voru dugleg að koma.

Kvenfélag Álftaness hefur komið að því að halda þorrablót á Álftanesi með Lionsklúbbi Álftaness. Það hefur verið eitt af fjáröflunarverkefnum kvenfélagsins. Blótið á sér langa sögu en kvenfélagskonur á Álftanesi héldu fyrsta blótið árið 1947. Hefur það verið haldið árlega síðan, ef frá eru talin þau ár sem Covid og samkomubann settu mark sitt

Húsfreyjan 1. tbl. 2025

á. Kvenfélagið hefur verið duglegt að styrkja líknarsjóðinn á Álftanesi og er einn stærsti styrktaraðili sjóðsins, sem við erum mjög stoltar af. Við höfum einnig tekið þátt í að styrkja grunnskólann og leikskólana.

Það er líka mikilvægt að huga að nágrönnunum og samfélaginu. Á tímum örra breytinga er meiri hætta á einangrun og einmanaleika. Íslenskt samfélag er frekar ungt og hefur breyst mikið á stuttum tíma. Það er ekki langt síðan við vorum sveitaþjóð, en nú er allt opið í allar áttir, við getum ferðast hvert sem er og tengst öllum heiminum með einu músarklikki. Þetta hefur gerst á stuttum tíma, innan við einni mannsævi. Það er notalegt að vita að kvenfélagið geti aðstoðað samfélagið.“

Sigga segir að kvenfélögin þurfa að vera opnari fyrir því að aðlagast. „Það þarf að markaðssetja kvenfélögin og gera

þau girnilegri í augum nýrra kvenna. Það þarf að ákveða fyrir hvað kvenfélagið á að standa, sérstaklega á þéttbýlissvæðum. Það er svo margt í boði á höfuðborgarsvæðinu og félagsleg tenging er víða. Þess vegna er áhugavert að finna út úr því hvernig kvenfélögin geta haldið áfram að skipta sköpum í samfélaginu, þó að þau séu ekki inni á sveitarstjórnarskrifstofunum eins og í gamla daga. Þá geta þau farið inn á aðrar skrifstofur, til dæmis í mannréttindamálum, og verið þrýstihópur og eins konar talsmenn í þjóðfélaginu þar sem þess þarf.“

Sigga hefur hugsað mikið um hvernig hægt sé að kynna kvenfélagið fyrir fleiri konum á Álftanesi, sérstaklega konum af erlendum uppruna. Hana langar til að opna aðgang fyrir þær inn í félagið. „ Það væri mikið ríkidæmi fyrir okkur að fá inn nýja menningu og upplifun, við myndum græða mikið á því.“

Félagskonur á ferðalag. Frá vinstri: Magðalena K. Jónsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ólöf Bárðardóttir, Lilja Sigurgeirsdóttir, Heiða B. Scheving, Anna B. Ólafsdóttir, Díana Ágústsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Guðbjörg Konráðsdóttir, Guðný A. Valberg og Vilborg Hjördís Ólafsdóttir er lengst til hægri. Mynd: Aðsend

Fjallkonuferð

Við

Engjaveginn á Selfossi stendur hús nokkurt sem kallast Selið. Eignaraðilar að því eru Héraðssambandið Skarphéðinn HSK, Samband sunnlenskra kvenna SSK, og Kvenfélag Selfoss KS. Þar hefur SSK aðstöðu fyrir sína starfsemi og hefur afnot af sal hússins til fundahalda.

Vorið 2004 var það samþykkt af félögunum að breyta fyrirkomulagi á þrifum hússins. Það hafði verið málað nýlega en þurfti árlega á upplyftingu að halda eins og gengur. SSK samþykkti á aðalfundi félagsins 2004 að kvenfélögin 24 sem starfa á sambandssvæði þess, myndu skiptast á um að gera vorhreingerningu á því ágæta húsi og að austasta kvenfélagið yrði fyrst til og síðan haldið áfram vestur, eftir því sem árin liðu.

Við félagskonur í Kvenfélaginu Fjallkonunni undir Austur-Eyjafjöllum tókum með glöðu geði að okkur þetta verkefni og fórum galvaskar, vorið 2005 í hreingerningarhópferð í Selið. Alls vorum við níu konur eða 60% félags-

kvenna, sem þá voru 15. Það má nærri geta að það hafi verið glatt á hjalla hjá okkur og góður vinnuandi, enda vanar konur. Við höfðum með okkur orkuríkt nesti og helltum á könnuna í Selinu. Við vorum auðvitað kappsamari við vinnuna af því að við áttum von á hressingu að verki loknu í veitingahúsinu ,,Við fjöruborðið“ á Stokkseyri. Þar höfðum við

pantað okkur humarsúpu. En þegar hópur kvenfélagskvenna ferðast saman slá þær oftar en ekki fleiri en eina flugu í höggi, fyrst þær eru hvort eð er komnar af stað. Þess vegna voru farnir fáeinir útúrkrókar á leið í súpuna. Við fórum til dæmis á málverkasýningu í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri og áðum góða stund í Sveitabúðinni Sóleyju sem staðsett var í Tungu í Flóahreppi. En svo vildi það til að ritnefnd SSK bað mig um að skrifa nokkur orð um þessa vinnuferð til þess að eiga á blaði. Þá voru góð ráð dýr. Hvernig er hægt að skrifa bitastæðan pistil um þrif á einu húsi? Þá hvarflaði það svona að mér að líklega væri best að redda þessu með því að semja nokkrar vísur um vinnuferlið okkar, sem gætu þá orðið þeim félögum sem á eftir kæmu til stuðnings og/eða eftirbreytni. Það að setja texta saman í bundnu máli krefst ekki óþarfa málalenginga, vísur eru oftast stuttar og gagnorðar. Þar með var það afgreitt og hér kemur þá ferðasagan.

FJALLKONURÍMUR

Í fyrstu rímu er bragarháttur ferskeyttur.

Nýjar reglur litu ljós, létt mun Sel að þrífa.

Bregst við sérhver blómarós, í bunkum þangað svífa.

Okkar hugir fóru á flug, firna verður gaman.

Fjallkonur í ferðahug, fórum níu saman.

Á hjólafákum héldum greitt harla létt þeir svífa.

Á suðurleið við sungum eitt:

,,Selið viljum þrífa.“

Klukkan eitt í Selið svo sigurhreifar mættum.

Fórum strax að þrífa og þvo, þar að mörgu gættum.

Önnur ríma, stuðlafall.

Gluggar voru gætilega þrifnir.

Glerið í þeim glansaði, af gleði sólin dansaði.

Af myndarömmum mikið ryk var dustað.

Tröppu langa taka má til að þrífa ljósin há.

Vaskur í eldhús valdist hópur kvenna.

Þangað gerði frægðarför fægði glös og hnífapör.

Skápar voru ,,skænaðir“ og þvegnir.

Leirtauið varð líka flott, ljómaði vaskur eftir þvott.

Kaffi gott og kökur voru í boði, samlokur og silfurte, sest og tekið kaffihlé.

Nudda þurfti af nokkrum veggjum dritið.

Strukum gólf af stakri ró, stolt og lagni undir bjó.

Fríður hópur forstofuna þvoði.

Annar ganginn yfirtók, ekki sleppti nokkrum krók.

Snyrtu náðhús snöggar heiðurskonur.

Önduðu léttar, ánægðar, aldrei á neinni þreytu bar.

Þriðja ríma, stikluvik.

Orðið nú var áliðið, ekki dugði að slóra og í bíl með kátum klið, keyrt var út á malbikið.

Á Stokkseyri var stefnan sett, með stans í ,,galleríi“.

Til sölu þar var silkið létt af sannri list var ofið þétt.

Að Hólmarastar húsi bar húsfreyjurnar knáu.

Margar sáum myndir þar máluðu þær snillingar.

Í svaka fínni sveitabúð svo var margt að finna: Sápur fyrir hár og húð, húsbúnað og blómaskrúð.

Í ,,Sóleyju“ við tókum törn og tíndum dót í poka.

Mörg varð frú í glysið gjörn, gleymdum okkur líkt og börn.

Við ,,Fjöruborðið“ fengum mat, feikna svangar vorum.

Lúinn hópur lengi sat, lífsgæðanna notið gat.

Hætti að lokum humargeim, hottað var á liðið.

Með sælublöndnum sjávarkeim, saddar konur fóru heim.

Að lokum ein langhenda.

Fjallkonurnar fátt nú heftir, fór í Selið hópur knár.

Taka það aftur trúi ég eftir tuttugu og fjögur ár.

Höfundur er Guðný A. Valberg, Þorvaldseyri

HÁTÍÐLEGUR FORMANNARÁÐSFUNDUR OG MÓTTAKA Á BESSASTÖÐUM

í tilefni 95 ára afmælis Kvenfélagasambandsins

Laugardaginn 1. febrúar sl. á Degi Kvenfélagskonunnar var 71. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) haldinn á Hallveigarstöðum. Fundurinn var að þessu sinni með sérstaklega hátíðlegum brag enda dagsetning fundarins valin til að fagna 95 ára afmæli sambandsins. Formannaráð skipa stjórn KÍ og formenn þeirra héraðssambanda um allt land sem eiga aðild að KÍ.

Þetta var aðalformannráðsfundur ársins og var fundurinn vel sóttur þrátt fyrir að veðrið væri ekki alveg með okkur í liði þennan dag.

Skýrsla stjórnar

Fundurinn hófst á skýrslu stjórnar KÍ sem Dagmar Elín Sigurðardóttir flutti.

Dagmar byrjaði á því að segja frá velheppnuðu landsþingi á Ísafirði sem 220 þingfulltrúar frá öllu landinu sóttu. Þakkaði hún kvenfélagskonum kærlega fyrir þátttökuna í þinginu og Sambandi vestfirskra kvenna fyrir höfðinglegar móttökur og frábært skipulag. Verkefnið í kringum Gjöf til allra kvenna er enn á borðinu og eru framundan uppsetningar á Milou kerfinu á fleiri stöðum í kringum landið. En nú er byrjað að nota kerfið á Ísafirði og á Akranesi. Sagði Dagmar frá þeirri skemmtilegu aukaverkun verkefnisins að yfirljósmæður um land allt eru farnar að hittast og funda reglulega. En þær fylgjast vel með framvindu verkefnisins. Dagmar flutti þær ánægjulegu fréttir að nokkrir styrkir hafa fengist til reksturs og verkefna fyrir árið 2025.

Stærstu styrkirnar hafa komið vegna verkefnis í kringum Einmanaleika sem rætt var á vinnustofu á landsþingi. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti styrkir það verkefni rausnarlega. Landsbankinn veitti svo 500.000 króna styrk til Kvenfélagasambandsins í tilefni 95 ára afmælis og Leiðbeiningastöð heimilanna fékk 250.000 kr. styrk frá Landsbankanum til að uppfæra heimasíðuna. Stjórnarkonur KÍ munu leggja sig fram um að vera í góðu sambandi við formenn héraðssambandanna og hvatti Dagmar formenn til að muna eftir að senda fundarboð til skrifstofu Kvenfélagasambandsins sem kemur því til stjórnar. Hér verður ekki allt talið upp úr skýrslu stjórnar en Dagmar hvatti að lokum konur til að taka virkan þátt í viðburðum Kvennaárs

Dagmar Elín Sigurðardóttir, Sjöfn Jóhannsdóttir, Ásdís Hjálmtýsdóttir og Eva Björk Harðardóttir.

2025, en Kvenfélagasambandið er eitt af aðstandendum Kvennaárs. Kvenfélögin eru hvött til að standa að viðburðum á sínum svæðum og koma þeim á framfæri í gegnum heimasíðu Kvennaárs. Að lokinni skýrslu stjórnar kynnti Magðalena K. Jónsdóttir, gjaldkeri KÍ, ársreikninga sambandsins og Húsfreyjunnar. Fjárhagur Kvenfélagasambandsins á mikið undir því að félagsgjöld skili sér og það er alltaf áskorun stjórnar að halda afkomunni réttu megin við núllið og afla fjár til rekstursins, þannig að KÍ sé unnt að sinna markmiðum sínum og þjónusta kvenfélögin á sem bestan hátt.

Húsfreyjan 1. tbl. 2025

Þorbjörg Kristjánsdóttir, Friðrika Baldvinsdóttir, Jóna Rún Gunnarsdóttir, Björg Baldursdóttir og Ragnheiður Sveinþórsdóttir.

Umræða varð um árgjöldin til Kvenfélagasambandsins. Stjórn KÍ lagði til að halda þeim óbreyttum, en óvænt tillaga um hækkun kom úr sal, tillagan var tekin til umræðu og fór svo að lokum að samþykkt var að hækka árgjaldið á hverja konu úr 1250 kr í 1400 kr. Hækkunin mun koma til árið 2026.

Nýjar konur í útgáfustjórn Húsfreyjunnar

Björg Baldursdóttir flutti svo skýrslu Húsfreyjunnar og rifjaði upp 75 ára afmæli Húsfreyjunnar sem haldið var upp á, á árinu 2024. Björg sagði af þessu til-

efni; „Við megum svo sannarlega vera stoltar af þessu fallega og efnismikla blaði okkar og það er okkar allra, ekki síst kvenfélagskvenna, að halda útgáfu þess lifandi og frjórri um ókomin ár.“ Hún hvatti félagskonur til að senda inn efni um starfsemi sinna kvenfélaga, þannig geta kvenfélagskonur um allt land lært af og gefið hver annarri góðar hugmyndir. Björg þakkaði þeim Þóru Sverrisdóttur og Evu Hilmarsdóttur fyrir gott samstarf,en þær eru nú að hætta í útgáfustjórn. Í stað þeirra hafa gefið kost á sér í útgáfustjórn: Sólveig Ólafsdóttir úr Kvenfélagi Grindavíkur og Kristín S.

Formannaráðsfundur á Hallveigarstöðum.
Eva Björk Harðardóttir var fundarstjóri.

Rósa Marinósdóttir og Kristín S. Gunnarsdóttir. Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir og Helga Magnea Steinsson.

Eva Björk Harðardóttir. Sólveig Þórðardóttir, Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir og Magðalena K. Jónsdóttir.

Gunnarsdóttir frá Kvenfélagasambandi Norður- Þingeyinga.

Vika einmanaleikans Því næst var verkefnið Vika einmanaleikans kynnt, en eins og áður hefur komið fram hefur sambandið fengið tvo styrki frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til verkefnisins. Á fundinum var skipað í verkefnastjórn og hafa eftirtaldar konur gefið kost á sér: Ása Erlingsdóttir frá Sambandi borgfirskra kvenna, Ása

Jenný Jóakimsdóttir og Dagmar Elín Sigurðardóttir.

Heiðursfélagar KÍ: Helga Guðmundsdóttir, Sigurlaug Viborg, Kristín Guðmundsdóttir og Drífa Hjartardóttir.

Steinunn Atladóttir frá Kvennasambandi Reykjavíkur, Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir frá Kvenfélagasambandi Kópavogs og Sesselja Traustadóttir frá Kvennasambandi Reykjavíkur. Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ verður fulltrúi stjórnar og Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ verður jafnframt starfsmaður verkefnisins. Fundurinn sendir frá sér eftirfarandi ályktun vegna þessa verkefnis:

Aðalformannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, sem haldinn var 1. febrúar 2025 á degi kvenfélagskonunnar og á 95 ára afmæli sambandsins, lýsir yfir áhyggjum sínum af vaxandi einmanaleika og félagslegri einangrun í íslensku samfélagi. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á alvarlegar afleiðingar einmanaleika fyrir andlega og líkamlega heilsu einstaklinga. Hefur þessi

vandi aukist verulega á undanförnum árum og snertir fólk á öllum aldri.

Kvenfélagasambandið hefur frá stofnun þess unnið að því að efla samfélagslega samheldni og skapa vettvang fyrir konur til að tengjast og styðja hver aðra. Í ljósi aukningar einmanaleika er brýnt að efla þessi störf enn frekar og grípa til markvissra aðgerða.

Formannaráðsfundurinn hefur skipað nefnd sem mun vinna að eftirfarandi verkefnum:

1. Vika einmanaleikans: Nefndin mun skipuleggja árlega «Viku einmanaleikans» til að vekja athygli á vanda einmana fólks, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar einmanaleika og hvetja til aðgerða.

2. Samfélagsleg ábyrgð: Nefndin mun vinna með kvenfélögum um land allt að því að efla félagsstarf og skapa vettvang fyrir samveru og tengslamyndun. Hvert kvenfélag er hvatt til að finna leiðir til að bjóða upp á viðburði og athafnir sem draga úr félagslegri einangrun í nærumhverfi sínu.

Kvenfélagasambandið skorar á stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga að taka höndum saman í baráttunni gegn einmanaleika. Með samstöðu og sameiginlegu átaki getum við skapað samfélag þar sem allir eiga sinn stað.

Kvenfélagasambandið 100 ára Skipað var í 100 ára afmælisnefnd KÍ til fimm ára. Forseti, varaforseti, gjaldkeri og starfsmaður KÍ sitja í nefndinni fyrir hönd KÍ. Eftirtaldar konur gáfu kost á sér í nefndina: Friðrika Baldvinsdóttir frá Kvenfélagasambandi Suður Þingeyinga, Ragnheiður Sveinþórsdóttir frá Kvenfélaginu Líkn Vestmannaeyjum, Ása Steinunn Atladóttir frá Kvennasambandi Reykjavíkur og Sigríður Garðarsdóttir frá Kvenfélagi Akrahrepps og Guðrún Þóranna Jónsdóttir frá SSK. Ragnheiður Sveinþórsdóttur formaður Kvenfélagsins Líknar í Vestmannaeyjum var með áhugaverða kynningu á hvernig félagið hefur á árangursríkan hátt fjölgað konum í sínu kvenfélagi og náð að kynna kvenfélagið fyrir erlendum konum í Vestmannaeyjum. Ákveðið var á fundinum að stjórn KÍ og Líkn muni

Dagmar færði Höllu einnig eintak af Húsfreyjunnu, skýrslu KÍ og bókina Margar hlýjar hendur. Hjá þeim stendur einnig Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ.

bjóða upp á þessa sömu kynningu á fjarfundi þar sem allar félagskonur geta kynnt sér hvaða aðferðum var beitt til að ná þessum góða árangri.

Hér hefur aðeins verið farið yfir það helsta sem fram fór á fundinum, en fundargestum var færður smá þakklætisvottur fyrir setuna á fundinum í tilefni 95 ára afmælis KÍ og boðið var upp á ljúffengan hádegisverð sem Ásdís Hjálmtýsdóttir húsmóðir Hallveigarstaða bar fram með aðstoð frá Sjöfn Jóhannesdóttir. Voru þeim færðar sérstakar þakkir fyrir góðan viðurgjörning á fundinum. Fundinum lauk með því að Dagmar, forseti KÍ, þakkaði konum fyrir góðan fund. Ákveðið var að næsti formanna-

ráðsfundur yrði tengdur við jólafund KÍ í nóvember.

Móttaka á Bessastöðum

Að loknum fundi bauð Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, formannaráði, stjórn KÍ og heiðursfélögum til móttöku á Bessastöðum. Var afar vel tekið á móti okkur. Forsetinn ræddi meðal annars um samstöðu kvenna, jafnrétti og það mikilvæga samtal sem við öll þurfum að eiga varðandi kærleikann, sem átti vel við enda eru gildi kvenfélagskvenna; Kærleikur, Samvinna og Virðing. Gott samtal sem án efa mun verða tekið lengra. KÍ konur þakka forseta góðar móttökur.

Halla Tómasdóttir tekur við KÍ svuntunni „Bökum betra samfélag“ til að færa Birni , maka forseta.

KONUR GANGA UM HEIMINN

Konur ganga um heiminn (Women walk the world) er fjáröflunarviðburður sem hófst á vegum ACWW árið 2012. Hugmyndin að göngunni varð til sem leið til að vekja athygli á ACWW deginum sem er 29. Apríl. Markmiðið var að efla starf og þátttöku kvenna í ACWW og auka fjáröflun. Ástæða þess að ganga var valin, er vegna þess að það er einfalt að ganga og kostar ekkert. Engan sérstakan búnað þarf i göngutúr og hægt að ganga hvenær sem er og hvar sem er! Meðlimir ACWW um allan heim eru hvattir til að taka þátt á ýmsa vegu, til dæmis með því að skipuleggja gönguviðburði. Hvort sem það er göngutúr um hverfið, um jarðarmörkin í sveitum, í næsta almenningsgarði, göngutúr að brunninum fyrir vatn. Eða rölta saman á næsta kaffihús.

Konur á Íslandi eru hvattar til að taka þátt með því að skipuleggja göngu með öðrum konum og taka þannig þátt með konum um allan heim sem ganga til að vekja athygli í mikilvægu starfi ACWW og afla fjár fyrir þau mikilvægu verkefni sem samtökin sinna. Tilvalið að tengja gönguna við Kvennaár 2025. Þess fjár sem er aflað er hægt að koma til skila í gegnum skrifstofu KÍ eða beint til ACWW á síðunni: https://acww.org. uk/donate-to-acww

Associated Country Women of the World - ACWW, Alþjóðasamband dreifbýliskvenna var stofnað árið 1929. Kvenfélagasamband Íslands gerðist aðili að ACWW árið 1980.

Kynjamismunun er rótgróin í öllum samfélögum heimsins. Á hverjum degi þurfa konur að þola ofbeldi og ójöfnuð, skort á atvinnutækifærum og lægri laun en karlmenn, hljóta hvorki menntun né heilbrigðisþjónustu og fá hvorki sæti við

samningaborðið né koma að ákvarðanatökum. Dreifbýliskonur eru burðarás fjölskyldna, samfélaga og þjóða, en þær verða hvað verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingum og átökum. Um 10 milljónir kvenna í um 450 félögum í 80 löndum um allan heim eru meðlimir í ACWW, hafa samtökin staðið að mörgum þörfum og merkum málefnum. Lykilhugtakið í öllu starfi ACWW er valdefling kvenna í öllum sínum fjölbreytileika hvar sem er í heiminum. ACWW var stofnað til að magna upp raddir kvenna á landsbyggðinni, safna saman staðreyndum um líf þeirra og notar síðan þær upplýsingar til að kalla stjórnvöld til ábyrgðar.

Skipta má starfi ACWW í þrjú áherslusvið: loftslagssnjallan landbúnað, heilsu kvenna í dreifbýli og menntun og samfélagsþróun. ACWW styrkir þróun-

arverkefni á þessum sviðum, sem bætir ekki aðeins sveitarfélög um allan heim, heldur stuðlar einnig að skilvirkri og upplýstri hagsmunagæslu.

ACWW heldur alþjóðaþing og svæðisþing á þriggja ára fresti. Vitandi að rödd kvenna er svo miklu sterkari þegar við tölum saman. Vinátta myndast og konur um allan heim geta lært af hvor annarri.

Næsta heimsþing ACWW verður haldið í Ottawa í Kanada 26. apríl-1. maí 2026. Stefnt er að góðri þátttöku frá Íslandi. Fylgist með auglýsingum.

Næsta Evrópuþing ACWW verður haldið í Búkarest, Rúmeníu dagana 13.17. október 2025.

Aðalskrifstofa ACWW er staðsett í London, Englandi. Á skrifstofunni starfa 7 starfsmenn í fullu starfi.

ERTU AÐ TAKA TIL?

ÞÁ SKALTU LOSA ÞIG VIÐ ÞETTA

Íupphafi árs er gott að hreinsa aðeins til á heimilinu og losa sig við hluti sem ekki nýtast lengur. Oft er talað um að gott sé að losa sig við einn til tvo hluti á dag eða nokkra hluti á mánuði. En svo má nú líka alveg ráðast á skúffur og skápa og taka rösklega á þessu. Getur verið ótrúlega frelsandi og jafngott fyrir sálina og heimilið. Mikilvægt er að huga að umhverfinu með því að flokka rétt og skila á rétta staði á næstu endurvinnslu eða kanna hvort einhver annar gæti nýtt sér það sem maður er að losa sig við. Það getur verið yfirþyrmandi að líta yfir yfirfulla skápa og skúffur á heimilinu. Hér að neðan er nokkuð góður listi sem við rákumst á sem er gott að horfa til þegar hafist er handa. Það er næsta víst að þessa hluti er að finna á hverju heimili.

1. Útrunnin lyf

2. Gamlir og slitnir skór

3. Slitin eða götótt rúmföt

4. Slitnir og stakir sokkar

5. Föt sem eru slitin eða engin notar lengur

6. Gamlir, slitnir brjóstahaldarar og nærbuxur

7. Föt sem börnin eru vaxin upp úr

8. Gamlir, slitnir koddar

9. Slitin baðhandklæði

10. Brotin eða ósamstæð herðatré

11. Gamlar, slitnar handtöskur

12. Skemmd eða ónýt eldhúsáhöld

13. Brotnir eða sprungnar diskar

14. Útrunnin krydd

15. Útrunnin matur í búri

16. Útrunnar sósur og annað í ísskápnum

17. Eldhúsáhöld sem þú notar ekki

18. Kaffibollar sem engin notar

19. Rispuð og sprungin glös

20. Tómar flöskur af hreinsiefnum

21. Útrunnar niðursuðuvörur

22. Ónotuð eða útrunnin gjafakort

23. Óþarfa pappírsdrasl

24. Óþarfa notendahandbækur

25. Ónýtar jólaseríur

26. Gamlir og ónýtir farsímar

27. Veislu- eða brúðkaupsminjagripir sem engin notar

28. Tóm eða uppþornuð naglalökk

29. Útrunnar förðunar- og húðvörur

30. Útrunnin sólarvörn og krem

31. Gömul tímarit og dagblöð

32. Borðspil og púsl sem vantar í

33. Gömul kveðjukort

34. Úreldur hugbúnaður

35. Rispaðir geisladiskar og DVD diskar

36. Ónýtar rafhlöður

37. Ónýt eða flækt heyrnartól

38. Úrelt og ónýt raftæki

39. Brotin símahulstur

40. Gamlar símaskrár

41. Kertastjakar sem þú notar ekki

42. Þurrir tússpennar og pennar

43. Ónotaðir eða skemmdir skartgripir

44. Ónotaðar gæludýravörur

45. Kvittanir og reikningar sem eru eldri en ársgamlir

46. Gömul úrelt dagatöl

47. Útrunnir afsláttarmiðar

48. Tómar ilmvatnsflöskur

49. Óþarfa ferðatöskur eða töskur

50. Úreltar kennslubækur og handbækur

51. Íþróttabúnaður sem engin notar

52. Rispuð eða brotin sólgleraugu

53. Ónotað föndurefni

54. Úreltir ferðabæklingar

55. Gömul ónýt ritföng og umslög

Náðu þér í fjóra kassa og merktu með: Geyma / Gefa / Selja / Endurvinna

Fer eftir ástandi hlutarins og hvort þú getur nýtt hann aftur, gefið hann til góðgerðarmála, selt hann eða farið með í endurvinnsluna.

Á vef Sorpu er fín leitarvél sem aðstoðar okkur við að kanna hvernig skal ganga frá hlutum sem fara í endurvinnslu og hvernig þeir flokkast. Sjá: www.sorpa.is/flokkun/

Hreyfiafl um land allt

Dagmar Elín Sigurðardóttir

Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því

95 ára afmæli um þessar mundir. Á þeim tíma þegar sambandið er stofnað var þegar búið að stofna einstök kvenfélög og héraðssambönd

víða um land þegar konur sáu að þær þyrftu að eiga sér samstarfsvettvang og málsvara en það var eitt af markmiðunum með stofnuninni.

Konur

gáfu sér nokkurn tíma í að móta starfið og voru 12 undirbúningsfundir haldnir áður en sambandið var stofnað þ. 1. febrúar 1930 eins og áður hefur komið fram. Fyrsti forseti þess var kjörin Ragnhildur Pétursdóttir og gegndi hún því starfi í 17 ár.

Fyrstu árin fengu konur m.a. inni hjá Búnaðarfélaginu þar til sérstök skrifstofa var stofnsett 1944, þegar Alþingi samþykkti í fjárlögum að veita sambandinu styrk til reksturs félagsins. Fyrst um sinn var skrifstofan í húsi Búnaðarfélags Íslands en flutti svo alfarið starfsemi sína á Hallveigarstaði árið 1967 og hefur alla tíð síðan átt þar samanstað. Í hinum fyrstu lögum sambandsins kom fram að sambandið skyldi gefa út ársrit og í því riti ætti að segja frá starfsemi þess og rita leiðbeinandi greinar. Það tók allmörg ár að hrinda þessu í framkvæmd þar til ritið kom út og hlaut það nafnið ”Húsfreyjan” og nú, 76 árum síðar, er það enn gefið út og nafn þess haldist óbreytt öll þessi ár. Það er áhugavert að bera saman fyrstu árgangana og nú þessa síðustu því á þeim sést svo greinilega hvernig tíðarandinn hefur breyst. Húsfreyjan hefur fjallað um málefni líðandi stundar og þannig hefur tímaritið náð að halda sínum sessi óslitið öll þessi ár.

Ekki er hægt að fjalla um Kvenfélagasambandið án þess að minnast á þann stórhug og myndarskap sem konur stóðu

fyrir þegar ákveðið var að reisa hús í Reykjavík sem skyldi vera miðstöð sem allar konur á Íslandi ættu aðgang að. Það tók nærri hálfa öld að safna fyrir byggingu þess en það var 19.júní 1967 sem það var vígt. Húsinu var gefið nafnið Hallveigarstaðir, nefnt í höfuðið á fyrstu landsnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur.

Kvenfélagasamband Íslands, Kvenrétindafélag Íslands og Bandalag kvenna í Reykjavík stóðu sameiginlega að verkinu og eiga húsið og reka það enn í dag. Kvennaheimilið Hallveigarstaðir er eina húsið enn í eigu kvennahreyfingarinnar á Íslandi. Í gegnum tíðina hefur Kvenfélagasambandið tekið þátt í mörgum verkefnum stórum sem smáum. Eitt þeirra er Leiðbeiningastöð heimilanna sem rekin hefur verið óslitið í yfir 60 ár. Á árum áður var sérstakur starfsmaður sem sinnti starfinu á skrifstofu sambandsins, sem fjármögnuð var með styrk frá Alþingi.

Leiðbeiningastöðin er með margvíslega fræðslu um

flest það er lítur að heimilishaldi, hefur gefið út fræðsluefni og birt greinar í blöðum og tímaritum. Leiðbeiningastöðin er nú í umsjón starfsmanns á skrifstofu sambandsins þar sem haldið er úti heimasíðu hvar ýmsan fróðleik og uppskriftir er að finna ásamt því að vera með símatíma. Þessi þjónusta er öllum opin, endurgjaldslaust.

Aðild að Kvenfélagasambandinu eiga 17 héraðssambönd um land allt, 143 kvenfélög og um 4.300 kvenfélagskonur. Formenn héraðssambandanna mynda formannaráð sem ásamt stjórn sambandsins fer með æðsta vald milli landsþinga sem haldin eru á 3ja ára fresti. Nú síðast var Landsþing haldið á Ísafirði í október 2024 þar sem um 220 konur alls staðar að af landinu mættu. Þetta er eitt af fjölmennustu þingum sem haldið hefur verið, geysilega öflugar konur sem mættu til starfa þar sem farið var yfir málefni og hlýtt á fyrirlestra sem tengjast starfi í félögum og efla og styrkja konur í þeirra störf-

um. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu til að styðja við þá sem þurfa bæði í heimabyggð sem og á landsvísu. Það er gaman og gefandi að taka þátt í starfi kvenfélaganna og konur í félögunum vinna vel en gleyma heldur ekki gleðinni og að hafa gaman saman. Gildin sem konur innan Kvenfélagasambandsins hafa valið sér og endurspeglar starfið er: Kærleikur-Samvinna-Virðing.

Þannig hafa kvenfélagskonur unnið frá fyrstu tíð, safnað fyrir gjöfum til samfélagsins og eru þessar gjafir taldar í hundruðum milljóna króna undanfarin ár.

Kvenfélögin eru sterkt hreyfiafl, sem starfa um land allt og hafa þannig skapað sér sterka stöðu, jákvæða ímynd og velvilja í sinni heimabyggð.

Kvenfélagasambandið er í dag aðili að ACWW eða Alþjóðasambandi dreifbýliskvenna og hélt t.d. Evrópuþing þess árið 2005 í Reykjavík. Einnig tekur sambandið þátt í ýmsum nefndum og ráðum innanlands.

Framundan er ár kvenna, Kvennaárið þar sem konur minnast þess að 50 ár eru liðin frá því að konur lögðu niður störf og söfnuðust saman á Kvennafrídeginum. Sambandið tekur þátt í því starfi nú eins og fyrir 50 árum enda hefur það

Þessi sambönd eiga í dag aðild að Kvenfélagasambandi Íslands:

Samband skagfirskra kvenna

Kvenfélagasamband Strandasýslu

Kvennasamband Reykjavíkur

Samband sunnlenskra kvenna

Kvenfélagasamband Suður-Þingeyinga

Samband austur-skaftfellskra kvenna

Kvenfélagasamband Kópavogs

Samband vestfirskra kvenna

Samband borgfirskra kvenna

Kvennasamband Eyjafjarðar

Samband austfirskra kvenna

Kvenfélagið Líkn

Samband vestur-skaftfellskra kvenna

Kvenfélagasamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu

Samband austur-húnvetnskra kvenna

Kvenfélagasamband Norður-Þingeyinga

Kvenfélagasamband Gullbringu og Kjós

sýnt sig að saman standa konur sterkari og því nauðsynlegt að sýna það í orði og verki. Hvetjum við konur til þátttöku ásamt því að hvetja konur til að taka þátt í kvenfélagastarfinu í kvenfélögunum.

Um leið og Kvenfélagasambandi Íslands er árnað allra heilla með 95 árin er öllum kvenfélagskonum innan sam-

bandsins þakkað fyrir þeirra fórnfúsa og óeigingjarna starf.

Megi Kvenfélagasamband Íslands vaxa og dafna um ókomin ár samfélaginu öllu til heilla.

Dagmar Elín Sigurðardóttir Forseti Kvenfélagasambands Íslands

Myndir frá 40. landsþingi Kvenfélagasambands Íslands sem haldið var á Ísafirði í október síðastliðnum

Texti: Ingibjörg Daníelsdóttir

Dásamlegalystilegt allt saman

Kvenfélag

Hvítársíðu var stofnað árið 1928 og er aðili að Sambandi borgfirskra kvenna (SBK). Nú í seinni tíð hafa félagskonur verið um 10 talsins.

Allar erum við mjög virkar í starfinu og vinnuálagið dreifist nokkuð jafnt á okkur.

Stór hluti af vinnu okkar er í þágu samfélagsins nær og fjær. Markvisst verjum við reglulega tíma fyrir okkur sjálfar, þar sem við nærumst á sál og líkama. Í því skyni förum við árlega í ferðalög saman, ýmist löng eða stutt.

Frá árinu 1965 hefur félagið haldið úti handskrifuðu blaði – Freyjunni. „Blaðið“ er reyndar fært í virðulegar innbundnar bækur og erum við nýbyrjaðar á sjöttu bókinni. Við færum þar inn stutta annála af starfi félagsins. Einnig eru ítarlegri frásagnir af sérstökum atburðum.

Það sem okkur þykir skemmtilegast að lesa frá fyrri árum eru lýsingar á veitingum sem voru á borðum við hin ýmsu tækifæri.

Þar má til dæmis finna upptalningu á krásum sem voru bornar fram á þorrablóti árið 1963, sem Jónína á Háafelli skrifar „Þarna voru steiktar sneiðar af lambalærum, hangikjöt, svið, reyktur áll, hákarl, súr eistu, síld, hvalrengi, blóðmör, lifrarpylsa, rófustappa, kartöflustappa, rúgbrauð, hveitibrauð, rúgkökur, laufabrauð og smjör og öl með. Svo var borið fram kaffi undir lok samkomunnar og það á íslenska vísu líka – með pönnukökum, kleinum og jólakökum, dásamlega lystilegt allt saman“.

Annáll yfir samkomur og veitingar

Fyrir skömmu fórum við að tala um að við þyrftum að skrifa lýsingu á því sem væri á borðum nú til dags. Úr varð eins konar annáll yfir samkomur sem kven-

Í félagsskap geirfuglsins. F.v. Þorsteinn Magnússon frá Gilsbakka sem hefur verið bílstjórinn okkar, Þuríður G., Ragnheiður Kristófersdóttir á Gilsbakka, Anna Björg, Þuríður Ketilsdóttir á Þorgautsstöðum, Elsa, Heidi, Sæunn, Jóhanna Þorvaldsdóttir á Háafelli, Ingibjörg og fyrir framan styttuna er Agnes. Eigandi myndar er ID.

Ferð um Borgarfjörð. F.v. Agnes Guðmundsdóttir á Síðumúlaveggjum, Þuríður Guðmundsdóttir á Sámsstöðum, Elsa Þorbjarnardóttir á Háafelli, Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum, Anna Björg Ketilsdóttir á Þorgautsstöðum, Sæunn Elfa Sverrisdóttir í Hlöðutúni, Heidi Laubert Andersen í Nátthaga og Dagný Vilhjálmsdóttir á Gilsbakka. Eigandi myndar er DV.

félagið hefur staðið fyrir. Var stuðst við gerðarbækur félagsins og minni félagskvenna. Þuríður Guðmundsdóttir og Sæunn Elfa Sverrisdóttir tóku verkið að sér og fer samantektin hér á eftir.

Fyrsta þorrablótið var haldið í heimahúsi hjá formanni kvenfélagsins, Unni Pálsdóttur á Fróðastöðum árið 1960, ekki er skráð meira um það í gerðarbækur. Á þessu þorrablót kom jafnvel fólk úr Þverárhlíð og frá Húsafelli. Ekkert þorrablót var 1966, vegna þess að ekki þótti hægt að leggja á heimilin að taka við þessu. Líklega var síðan fyrsta þorrablót Hvítsíðinga í Þverárrétt haldið 1967.

Kvenfélagið byrjaði um 1960 með Kaffisölu í Fljótstungurétt meðan fyrsta rétt stóð yfir. Þrjár konur voru í nefnd í hvert skipti, ekkert er gefið upp hvað var á boðstólnum.

Fyrsta kökusala sem skráð er í fundargerðarbækur er 3. júní 1962. Talað er um sumarskemmtun, þar á að selja gos og poka með kökum, að öllum líkindum er verið að tala um smákökur. Það áttu að vera 6 kökur í poka og hver kona átti að skaffa 6 poka. Einnig átti hver kona að leggja til 5 böggla í uppboð.

Þann 11. janúar 1966, var ákveðið að halda félagsvistarkvöld, spila á laugardagskvöldum þegar krakkarnir væru heima. Spila á heimilunum til skiptis, fyrst neðst í sveitinni síðan fremst. Konurnar gæfu veitingarnar, þátttökugjald væri 25 krónur.

Jólatrésskemmtanir voru lengi haldnar á Gilsbakka, sem Anna Brynjólfsdóttir sá um. Árið 1966 var ákveðið að leita eftir að Hvítsíðingar gætu komið á barnaböll í grunnskólanum á Varmalandi, einnig að leita eftir samvinnu við önnur svæði. Eftir að félagsheimilið Brúarás var tekið í notkun fóru kvenfélögin að sjá um jólatrésskemmtanirnar. Fyrirkomulagið er nú þannig að kvenfélögin gera rjómatertur en þau sem mæta á skemmtunina leggja bakkelsi á borð með sér.

Fyrsta ferð í heimsókn á Dvalarheimilið í Borgarnesi var 1973, þá var farið með meðlæti með kaffinu. Þriðjudaginn 18. febrúar 1985 var farið á Dvalarheimilið með eftirfarandi veitingar fyir tæplega 60 heimilismenn: 16 lítrar mjólk, 8 pk. (1,6 kg ) Síríus súkkulaði, 5. lítrar af rjóma, 2 pk. (0,5 kg ) kaffi, 100 rjómapönnukökkur, 150 pönnukökur með

Húsfreyjan 1. tbl. 2025

sykri, smákökur úr 1 kg hveiti, jólakökur úr 0,5 kg hveiti, hveitibrauðsbollur úr 1 kg hveiti og sýrópsterta. Upplýsingar frá starfsstúlku á dvalarheimilinu voru, að það hafi vantað um 8 manns vegna sjúkrahúsdvalar og því færra fólk en búist var við. Það dugði að hita 12 lítra af kakói og þeyta 2,5 lítra af rjóma. Gott væri að fá eitthvað ósætt fyrir þá sem ekki mega fá sykur. Annars var þetta mjög gott, rausnarlegt og vel útilátið.

Þessar heimsóknir eru enn í gangi, farið er með meðlæti með kaffinu og boðið upp á skemmtiatriði í formi upplestrar, myndasýningar og tónlistar.

Kökubasar var haldinn til styrktar Dvalarheimilinu í Borgarnesi 30. mars 1974, var það í framhaldi af því að kvenfélagskonur stóðu að byggingu dvalarheimilisins. Var óskað eftir að hver kona sendi eina köku á basarinn.

Líklega var það árið 1974 sem fyrst voru seldar kökur í Húsafelli. Var fyrirkomulagið þannig að Kristleifur á Húsafelli var látinn vita hvenær von væri á kökusölunni, svo hann gæti auglýst í sumarhúsin. Gengið var í hús og kökur boðnar til sölu. Í maí 1993 er enn verið að tala um kökusölu í Húsafelli og á kakan að kosta 3.000 krónur, ágóðinn af kökusölunni það ár var 70.500 krónur.

Erfidrykkjur

Kvenfélagið hefur í gegnum tíðina tekið að sér erfidrykkjur fyrir þá sem þess óska. Lengi vel var þetta hefðbundið veislukaffi, þá var átt við: Rjómatertur, kaldar brauðtertur sem voru þá skreyttar, flatkökur með hangikjöti, súkkulaðikökur, smákökur, lagkökur - bæði hvítar og brúnar, kleinur og stundum pönnukökur. Seinna komu svo inn heitir brauðréttir og verða þeir mjög vinsælir eftir síðustu aldamót.

Þegar jarðarfarir eru kl. 11 þá er oft boðið upp á hangikjöt, með uppstúfi, kartöflum, rauðkáli, og grænum baunum. Síðan er gos, kaffi og konfekt á eftir. Fyrst þegar þetta kom til þá keyptum við hangikjötsrúllur og síðan var spurt hvað hver og ein gæti soðið margar rúllur. Þá var flókið að reikna út hvað þurfti mikið magn þar sem kjötið rýrnaði nokkuð við suðu. Ef beðið var um hangikjötshlaðborð að sumri til, gat verið erfitt að fá hangikjöt þar sem það var yfirleitt ekki í boði nema um jól og áramót.

Árið 1996 breytist kökusalan. Ákveðið var að við bökuðum kökur og þær yrðu síðan seldar til verslunar og veitingasölu í Húsfelli, sem síðan seldu kökurnar til viðskiptavina. Sjá átti til hvernig þetta gengi, þá er talað um að hver kona skaffi kökur fyrir 4.000 krónur. Aðeins ein sending fór í Húsafell þetta árið og þar með lauk kökusölunni í Húsafelli.

Á aðalfundi Sambands borgfirskra kvenna var stundum verið að samþykkja viðmiðunarverð á mismunandi kaffiveitingum. Árið 1994 var eftirfarandi verðtillaga samþykkt:

1. Kaffi með þremur tegundum með rjóma eða brauðterta - 700 kr.

2. Erfidrykkja eða veislukaffi - 800 kr.

3. Kaffi með þremur tegundum af kökum, enginn rjómi og engar brauðtertur - 500 kr.

4. Kaffi og vöfflur með rjóma - 400 krónur.

Ein kaffipöntun vegna erfidrykkju hefur skorið sig úr, hún var í janúar 2015. Konan sem verið var að jarða var Ragnheiður Sigurðardóttir frá Kolsstöðum. Hún var búin að undirbúa allt fyrir sína brottför úr þessari jarðvist, til dæmis var hún búin að taka saman hvað ætti að hafa með kaffinu. Fyrir þessa útför var bakað: 370 stykki sykraðar pönnukökur, 200 stykki rjómapönnukökur, 40 heilar flatkökur með hangikjöti, 400 kleinur og 19 heitir brauðréttir.

Með þessu átti að drekka kaffi, mjólk eða heitt súkkulaði - ekki kakó, það var sérstaklega tekið fram.

Þarna var pantað fyrir 200 manns en endaði í 220 manns og var nóg til fyrir alla en ekki mikill afgangur.

Það hefur alltaf verið takmark kvenfélagsins að gera vel þegar við höfum verið beðnar um að taka að okkur verkefni, sama hvaða verkefni það er og höfum við oft fengið lof fyrir góðar veitingar og vel útilátnar. Vonandi helst það áfram.

Pál s

Bessastaða Björn

Forsetahjónin standa sig afar vel svo eftir því er tekið. Halla forseti leysir hvert verkefnið af öðru með brosi á vör og nýtur stuðnings eiginmannsins Björns Skúlasonar sem er þrusukokkur.

Mataráhugi Björns kviknaði þegar hann var í háskólanámi í Bandaríkjunum og hafði að sögn alltaf gaman af því að prófa sig áfram í eldhúsinu. Það var svo árið 2012 að hann reif fjölskylduna upp með rótum og þau fluttu til New York þar sem hann fór í langþráð kokkanám. Besta

BLÓMKÁLSSTEIK MEÐ CAPERS OG CHILIMAYO

Fyrir 4

1 blómkálshaus

2 tsk. ólífuolía

1 lítil krukka af capers

½ bolli chili mayo (blanda saman sriracha-sósu og majonesi) – gott að hafa í sprautu til að dreifa yfir réttinn Salt og pipar til að smakka til

Hitið ofn í 200°C.

Skerið blómkálið í fjórar jafnstórar „steikur“. Setjið blómkálið í eldfast mót og dreifið ólífu olíunni yfir og makið vel yfir.

Eldið í ofninum í 20-25 mín. eða þar til blómkálið er farið að steikjast vel. Hellið frá vökvanum úr capers krukkunni og dreifið yfir blómkálið og látið steikjast í 3-4 mínútur til viðbótar.

Takið blómkálið úr ofninum. Á diskinn sem þið framreiðið á er fyrst sett væn sprauta af chilimayo (1-2 msk.).

Svo kemur blómkálssteikin og svo sprautað chilimayo yfir. Einnig er gott að setja yfir ristaðar furuhnetur.

ákvörðun sem hann hefur tekið og Björn hvetur alla til að læra að minnsta kosti grunnþætti í matreiðslu.

Þrátt fyrir miklar annir gaf Björn sér góðan tíma til að útbúa veislurétti fyrir Matarþátt Húsfreyjunnar. Við Silla ljósmyndari fórum í betri fötin og brunuðum til Bessastaða þar sem Björn tók ljúflega á móti okkur. Björn rekur fyrirtækið Just björn sem framleiðir og markaðssetur í Bandaríkjunum náttúruleg fæðubótarefni, unnin úr fiskafurðum frá Norðurlöndum.

Albert Eiríksson

SKYRMÚS MEÐ BERJUM OG ÍSLENSKU HRAUNI

Fyrir 4

1 lítil dós bláberjaskyr

1 lítil dós jarðarberjaskyr

2 msk. sýrður rjómi

½ peli rjómi, þeyttur

1 msk. sykur eða Agave sýróp

2 stk. Hraun (súkkulaðikex) mulið niður

Jarðarber og bláber til að skreyta

Blandið saman og hrærið vel skyri, sýrðum og þeyttum rjóma og sykri. Deilið jafnt í fjögur glös. Setjið Hraunið svo ofan á skyrmúsina og loks bláber og jarðarber til skrauts.

BANANA & MANGO COLLAGEN SMOOTHIE

Smoothie fyrir 2

1 banani

1 dós vanilluskyr

1 msk. collagen

1 skeið vanillu prótein

Hnefafylli af spínati

½ bolli frosið mangó

1 bolli klakar

1 bolli kalt vatn

Blandið öllu vel saman í blandara.

STEIKTIR ÞORSKHNAKKAR MEÐ TÓMAT- OG BASILSÓSU

Fyrir 4

1 kg þorskhnakkar

1 stór tómatur, gróft saxaður

1 lúka af fersku basil

2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir

1 peli rjómi

1-2 tsk. nautakraftur

1 stór sæt kartafla, skorin í langa kubba

1 stór sellerírót, skorin í langa kubba Ristaðar furuhnetur Ólífuolía

Hitið ofninn í 200°C.

Setjið bökunarpappír í eldfast mót og raðið sætum kartöflum og sell erírót í mótið og sáldrið ólífuolíu yfir, bakið í 20 mín. eða þar til kartöflur og sellerírót er eldað í gegn.

Skerið þorskinn í fjórar jafnstórar steikur og þerrið með eldhúspappír.

Hitið pönnu að miðlungshita og

bætið við msk af ólífuolíu.

Steikið þorskinn í 2 mín. á hvorri hlið og takið af pönnunni og á eldþolinn disk.

Bætið ólífuolíu á pönnuna og steikið hvítlauk í 10-20 sek., bætið við söx uðum tómat og hrærið vel til í 1-2 mínútur.

Bætið við rjóma og nautakrafti og leyfið að malla í nokkrar mínútur, eða þar til sósan byrjar að þykkna.

Bætið við basil og leyfið að malla í stutta stund.

Hellið sósunni af pönnunni yfir í blandara og blandið sósuna vel saman.

Setjið þorskinn í 200°C heitann ofninn og klárið eldunina á honum, ætti að vera u.þ.b. 5-7 mín. Passið að ofelda hann ekki.

Takið þorskinn út og setjið saman réttinn.

Fyrst sósa, svo kubbum við saman sellerírót og sætum kartöflum, því næst þorskur og svo furuhnetur yfir.

Svo ætti að vera nóg af sósunni eftir fyrir alla, en hún verður mjög vinsæl.

ANDALÆRISSNITTUR MEÐ RUCOLA OG RIFSBERJAHLAUPI

Nóg fyrir 30-40 snittur

1 snittubrauð skorið í sneiðar

2-3 msk. ólífuolía

1 ds. anda Confit de Canard

1 krukka Habanero mango aioli frá Stonewall kitchen

Rucola

Rifsberjahlaup

Hitið ofninn í 200°C og setjið andalegg-

RISARÆKJURÍSOTTÓ

Fyrir 4

2 bollar Arborio-hrísgrjón

2 msk. ólífuolía

1 bolli hvítvín

2 lítrar af blöndu af kjúklinga og humarsoði

½ peli rjómi

½ kg risarækjur, skelflettar

2 skallottlaukar, fínsaxaðir

2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir

1/3 Habanero chili, fínt saxaður

1 bolli rifinn Parmesan ostur

Nýmalaður svartur pipar Fersk söxuð steinselja til skrauts.

Hitið 2 lítra af vatni og blandið saman 2-3 tsk. kjúklingakrafti og 2 tsk. af fljótandi humarkrafti, hrærið vel.

Hitið 1 msk. olíu á stórri pönnu, hitið á miðlungs hita og bætið við skall-

ottulauk, mýkið og passið að láta ekki brenna.

Bætið við Arborio-hrísgrjónunum og hrærið í hálfa mínútu.

Bætið við hvítvíni og hrærið þar til það hefur gufað upp.

Bætið nú við kjúklinga- og humarsoðinu þannig að það nái upp fyrir eða fljóti yfir hrísgrjónin.

Hrærið stöðugt í hrísgrjónunum og bætið við soði þegar það hefur gufað upp.

Þegar hrísgrjónin hafa sogið í sig soðið og bólgnað út (uþb. 20-30 mín.) er gott að smakka til.

Rísottóið á að vera með smá biti, þ.e. ekki mauksoðið og mjúkt.

Þegar hrísgrjónin eru u.þ.b. tilbúin er bætt við Parmesan-osti og hrært vel. Á meðan rísottóið er að klárast skal hita aðra pönnu vel.

Setjið 1 msk. ólífuolíu og bætið við rækjum og steikið í u.þ.b. 2 mínútur, takið rækjurnar af pönnunni.

Bætið við 1 msk. ólífuolíu og steikið hvítlauk og chili í 10-20 sekúndur, hrærið vel og passið að hvítlaukur brenni ekki.

Bætið við einum bolla af soðinu sem notað var í rísottóið og látið sjóða niður um helming.

Bætið við rjóma og sjóðið niður um helming.

Lækkið hitann og bætið rækjum út í sósuna og látið malla í nokkrar mínútur.

Setjið saman réttinn. Rísottóið fyrst, dreifið sósu og rækjum eftir smekk, rífið yfir Parmesan-ost og skreytið með nýmöluðum svörtum pipar og saxaðri steinselju.

Texti: Kristín Linda JónsdóttirMyndir: Kristín Linda, Anna Elísabet, Hrafnhildur og Sigríður Hulda.

Ævintýri í Tansaníu

Við eigum flest einhverja drauma sem eru stærri en svo að þeir verði

hristir fram úr erminni. Þannig var það með Afríkudrauminn minn. Frá því ég var unglingur dreymdi mig um að upplifa Afríku, alvöru Afríku sunnan Sahara. Sjá rauðu moldina, finna loftslagið, sjá fólkið og dýrin í sínu eðlilega umhverfi.

Sveitastelpunni

í Þingeyjarsýslu þótti

þetta heillandi og framandi og alltaf var það Afríka sem dró mig til sín en ekki til dæmis Asía, Kína eða Japan. Núna hefur draumurinn ræst, ég fór til Tansaníu í nóvember og ætla að taka ykkur með mér þangað í huganum um stund.

Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur, fararstjóri í kvennaferðum Skotgöngu og fyrrum ritstjóri Húsfreyjunnar í Tansaníu. Ein Women Power kvennanna sem sótti okkur heim var Leoni sem hafði fengið lán samtakanna til að kaupa fótstigna saumavél og koma sér upp atvinnu sem saumakona. Út á hlaði tók hún mál af mér og degi síðar kom kjólinn, hún valdi efnið og saumaði hann með hefðbundnu sniði heimakvenna.

Komin heim í mína huggulegu stofu veit ég að of langt mál væri að segja ykkur frá öllu, allt of langt. Því vel ég að draga huga okkar fyrst og fremst að kynnum mínum af konunum í Tansaníu, þetta er jú Húsfreyjan.

Anna Elísabet Fyrst ætla ég samt að segja ykkur nokkuð annað. Ferðin sem ég fór í var ferð 15 íslenskra kvenna leidd af Dr. Önnu Elísabetu Ólafsdóttur lýðheilsu-

Dr. Anna Elísabet gekk með okkur um landið sem hún og Viðar hafa breytt úr auðn í aldingarð með starfsfólkinu sínu.

fræðingi. Dvalið var á TanzanIce Farm sem Anna Elísabet og Viðar Viðarsson maður hennar hófu að byggja upp í útjaðri þorpsins Bashay í héraðinu Karatu í norðanverðri Tansaníu árið 2008. Þá var landið sem þau keyptu aðeins moldin rauð en nú er þar fjölbreyttur gróður, grænmetis- og ávaxtarækt, rafmagn, vatnsborhola og hús enda er þar rekin fyrsta flokks ferðaþjónusta. Sjá ef vill, TanzanIce Farm lodge heimsíðuna til nánari skoðunar. Þessi landspilda hefur því gjörbreyst í höndum þeirra hjóna og líf nokkurra einstaklinga í Tansaníu um leið. Nýverið seldu þau fyrirtækið en eru áfram í þéttum tengslum við starfsfólkið sem þau hafa þjálfað gegnum árin og gjör þekkja. Það er sjaldgæft ef ekki einstakt að íslensk kona hafi unnið allt það starf sem Anna Elísabet hefur afrekað í Afríku. Of langt mál að telja hér en bygging leikskóla, atvinnusköpun fyrir heimamenn og verkefnið Women Power er hluti af því starfi.

Í næsta nágreni við TanzanIce Farm eru heimili heimamanna allt frá afar fátæklegum kofum með moldargólfi yfir í vandaðri hús, flest byggð úr múrsteinum sem framleiddir eru í nágreninu. Á landspildunni við húsin eru víða ein til tvær kýr og geitur bundnar á sinn stað í skugganum undir tré og hænur sem vappa um hlaðið. Staðsetningin skapar nánd við íbúana og landið sjálft og gefur dvölinni aukið vægi.

Einstakar systur

Fyrstar kvennanna í Tansaníu vil ég nefna systurnar Resty og Oliva. Resty er framkvæmdarstjóri TanzanIce Farm og Oliva systir hennar starfar þar þétt með henni. Báðar hafa þær dvalið í skjóli Önnu Elísabetar og fjölskyldu á Íslandi og fengið þjálfun og tilsögn og tala töluverða íslensku. Það er sannarlega notalegt þegar komið er heim á gististaðinn síðdegis eftir kyngimagnaða upplifu í Ngorongoro þjóðgarðinum innan um gnýi, sebrahesta, hýenur og ljón að vera spurð á íslensku með geislandi hlýju brosi, elskan mín, þarftu kannski hvítvínsglas núna við sundlaugina, eða viltu frekar kaffi? Með vakandi athygli fylgjast þær systur með gestum sínum og umvefja þá hlýju og umhyggju og lífga upp á stundirnar með geislandi húmor og fjöri, sannarlega verðugir fulltrúar afrískra kvenna.

Saxað í lófanum

Það var mikil upplifun þegar konur úr Women Power hópnum sóttu okkur heim á TanzanIce Farm og elduðu með okkur úti á hlaði á afrískan hátt. Það voru um 30 konur í mat svo það þurfti nokkuð til. Kartöflum var sturtað úr poka á rauða moldina, þær svo þvegnar rækilega í vatnsfötu og flysjaðar. Ég spjallaði um það við eina konuna, þar sem

við vorum að þvo kartöflur, að heima á Íslandi borðaði ég oft flusið með kartöflunni, henni fannst það mjög ósmekklegt og trúði mér varla. Tanzanísku konurnar fóru létt með að skera nautakjötið sundur í höndunum yfir pottinn á hlóð-

Tansanísku konurnar brjóta auðveldlega niður trjágreinar til eldiviðar með því að bregða þeim fram fyrir hné sér, við reyndum að líkja eftir þeim íslensku konurnar en gekk nú illa að leika það eftir. Hér logar eldurinn undir pottunum. Aðspurðar hvort þeim fyndist ekki erfitt að bogra svona yfir matargerðinni þar sem pottarnir eru á steinum á jörðinni og þær bognar í baki við matargerðina var rétt eins og þær vissu ekki hvað ég ætti við, þeim fannst þetta svo sjálfsagt og ekkert mál.

unum, saxa kartöfur og grænmeti í bita í lófa sér, líka lauk, bara brugðu hnífnum eins og ekkert væri, engin sérstök þörf á bretti eða borði, þó það væri líka nýtt. Ég dáðist að hve mikið var lagt upp úr að þvo og þrífa bæði hendur og hráefni og vanda alla matargerðina. Gulræturnar skyldi raspa með allra fínasta raspi svo þær urðu eins og mauk. Kúrbítinn þvo vel og rækilega, síðan skrapa í hann munstur til fegurðarauka áður en hann fór í sneiðum á salatdiskinn. Þær eru sannarlega metnaðarfullar, skipulagðar og kraftmiklar Tansanísku konurnar sem við vorum með þennan dag og mikil upplifun að elda með þeim og borða, skiptast á skilaboðum og hjálpast að þrátt fyrir að við töluðum ekki sama tungumálið.

Ættbálkarnir

Í Tansaníu er lýðræði og þar búa um 56 milljónir manna, helstu tungumál eru swahili og enska og trúarbrögð kristni, islam og andatrú. Þar eru í það minnsta 100 ættbálkar.

Einn daginn héldum við í heimsóknir til fólks í mismunandi ættbálkum. Við gengum gegnum þurrt og skorpið graslendi og runna og komum að fólki í Hazabe þjóðflokknum sem hafði fallist á að taka á móti okkur. Þeir eru safnarar og veiðimenn, ekki með nein húsdýr, ræktun eða hús heldur treysta eingöngu á að geta aflað daglegs fæðis úr villtri náttúrunni, hnýði, rætur, hunang, aldin og smá dýr. Þegar við mættum voru tvær

Móðir með börnin sín, Datoga ættbálkurinn. Datoga útbúa sér hús úr jarðvegi og halda hjarðir geita og nautgripa.

Systurnar Oliva og Restituta með móður sinni Leah á heimili hennar.

mýs yfir eldi. Þetta er fámennur ættbálkur aðeins talið að þeir séu um 1200, þeir búa saman í 20-30 manna hópum. Þeir tala afar sérstætt klikk tungumál þar sem þeir mynda skelli og smelli inn í orðum. Það var í senn hrífandi og sláandi að dvelja með þeim nokkur andartök. Ég viðurkenni að mér fannst konurnar daprar og allsleysið sláandi. Bílstjórinn okkar sagði að reynt væri að bjóða þeim aðstoð en fólkið væri sannfært um að best væri að lifa eins og forfeðurnir hefðu gert. Því miður væri barnadauði mikill og fólkið oft kraftlítið og smátt vegna næringarkorts.

Maasai stúlkan

Fleiri konur urðu mér minnisstæðar. Þegar við sóttum heim African Art Galleria sem er einstakt listasafn og listmunaverslun naut ég einkafylgdar afgreiðslustúlkunnar Valeri sem sagði mér að hún væri af hinum þekkta Maasai þjóðflokki sem býr í norðurhluta Tansaníu og í Kenýa. Víða á ferðum okkar sáum við maasaimenn á ferð með hjarðir sínar, geitur, kindur og nautgripi en þeir eru hirðingjar og borða nær eingöngu kjöt og mjólk og kýrblóð við sérstakar athafnir. Hávaxinn og hraustlegur þjóðflokkur með sitt eigið tungumál og siðvenjur sveipað í sína litríku dúka. Konurnar raka á sér höfuðið og sýna stoltar sitt fagra höfuðlag og beinabyggingu en veiðimenn og stríðsmenn maasaia eru oft með sítt

Linda og Valeri, maasai kona sem hefur farið úr hirðingjalífi sléttunnar og starfar nú í listagallerýi.

Árið 2015 stofnaði Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir félagasamtökin Women Power, hér fyrir miðri mynd í hópi Women Power kvenna. Markmið samtakanna er að valdefla konur, ekki síst í efnalitlum samfélögum eins og Tanzaníu. Samtökin voru stofnuð út frá vináttu og trausti milli Önnu Elísabetar og kvenna í Bashay í Tansaníu. Haldinn hefur verið fjöldi námskeiða með áherslu á sjálfsstyrkingu, frumkvöðlastarf og stofnun fyrirtækja. Árið 2016 var, með aðstoð Alheimsauðar, settur á laggirnar lánasjóður kvenna. Anna Elísabet aðstoðaði tansanísku konurnar við að setja upp regluverk kringum sjóðinn en þær fara sjálfar alfarið með stjórn sjóðsins. Lán úr sjóðnum hafa hjálpað mörgum konum í Tansaníu. Anna Elísabet hefur áhuga á að efla starfið og leitar nú leiða til þess, ekki síst að aðstoða konur frá Íslandi til að hitta tansanískar konur. Áhugasamar konur geta haft samband við Önnu Elísabetu með tölvupósti: anna.elisabet.olafsdottir@gmail.com eða með símtali: 867 2566. Í leiðinni er að sjálfsögðu litið á fjölskrúðugt mannlíf og einstaka náttúru og dýralíf Afríku.

hár og miklar hárgreiðslur. Valeri sagði mér stolt að fjölskylda hennar væri með færanlega búsetu í nágrenninu og hún færi reglulega heim til þeirra og hluta af vinnulaununum hennar ráðstafaði móðir hennar.

Við veginn

Svo víða sáum við konur leita leiða til að ala önn fyrir sér og sínum. Konurnar við vegarkantinn sem seldu okkur banana. Þær sem voru með litlar kjörbúðir heima hjá sér, seldu matvöru og ýmislegt smálegt. Konurnar í þorpinu sem sátu við saumavél utan við kofann sinn. Sölukonur sem sátu innan um baunasekki og grænmeti á markaðnum. Konur með svita á enni að elda inn í eldhúsum matsölustaða. Konur og karlar að vinna baki brotnu á kaffi og rauðlauksökrunum, en rauðlaukur er mikilvæg útflutningsvara frá svæðinu ásamt kaffi og korni og er laukurinn fluttur í bílförmum gegnum Kenýa til Evrópu.

Karlarnir já þeir eru vissulega líka þar, þessi grein er bara ekki sérstak-

lega um þá. En ég verð þó að minnst á kokkana frábæru á TanzanIce Farm sem töfruðu fram matardiska sem fóru vel í vestræna maga og bílstjórana okkar sem óku okkur í sér útbúnum jeppum í allskonar ævintýri. Öruggir og skemmtilegir og fræddu okkur um allt milli himins og jarðar. Reyndar sáum við líka marga, mjög marga karlmenn húka á mótorhjólum sínum eða bajaj (þriggja hjóla smá bílar) í von um að fá viðskipti sem leigubílstjórar, sækja kannski, vatn eða eldivið eða skutla einhverjum á markaðinn. Við sáum líka oft karla sitja í skugga trjánna, bara sitja. En líka þá sem voru að reka hjarðir sínar og á ferð með uxakerrur og asnakerrur fullar af vatnsbrúsum, eldiviðarhríslum eða öðrum varningi.

Ævintýrið í Tansaníu var svo stórt að aðeins brot af því nær gegnum þessi orð og myndir til ykkar. Ég óska þess að þið hafið gaman af og greinin verði ykkur kveikja til að lesa ykkur til um Tansaníu og jafnvel vinna að því að komst þangað einn daginn.

Kristín

Náttúruprjón

Litadýrð náttúrunnar

Sigrún Arna

Aradóttir byrjaði að prjóna 14 ára gömul og hefur varla lagt niður prjónana síðan. Prjónaverkefnin hennar bera með sér sterk tengsl við litadýrð íslenskrar náttúru. Hún rekur núna heimasíðuna Náttúruprjón þar sem hún selur uppskriftirnar sínar.

Sigrún hefur alla sína ævi búið á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan tvö ár sem hún bjó í Danmörku. Hún segist alltaf hafa verið mjög upptekin af náttúrunni og í gönguferðum segist hún ekki fara hratt fyrir heldur skoði vel það sem á vegi hennar verður. Sigrún á þrjú börn sem koma til hennar með myndir og hugmyndir af flíkum sem þau síðan biðja hana um að töfra fram.

Í júli 2019 tók hún svo þátt í samkeppni um húfuuppskrift og fengu húfan og uppskriftin góðar móttökur.

„Mér fannst það ákaflega skemmtilegt ferli þótt uppskriftin hafi verið mikil byrjenda uppskrift. Ég er viljug að læra og hafði gott fólk í kringum mig.“

Við þessa fyrstu uppskrift segir hún að eitthvað hafi opnast fyrir sér. „Ég fór að skilja betur alla þessa þörf sem ég hef haft fyrir að skapa og leika mér með liti.

Fyrstu árin þá rúlluðu uppskriftirnar frá mér og var ég varla búin að prjóna þá síðustu þegar næsta var farin að banka upp á og vildi komast á blað og í form.“

Sigrún segist alltaf hafa haft gaman af áskorunum og alla tíð verið óhrædd við að prófa nýja hluti og finna leið til lausnar. Það sé síðan margt sem þarf að læra þegar setja á upp heimasíðu og byrja að selja. En með góðri aðstoð segir hún að það sé algjörlega þess virði.

„Fyrsta uppskriftin sem ég gerði var með sex litum og fannst mér alveg ótækt að fólk þyrfti að kaupa helling af garni fyrir 1 húfu. Þar kviknaði hugmyndin að bjóða upp á gjafapakka. Núna lita ég sjálf mest allt garn sem ég hef í gjafapökkunum.“

Sigrún hefur ferðast mikið í gegnum tíðina og finnst mjög gaman að koma ferðalögum sínum og hugmyndum í prjónaverkefnin. „Ég hef farið tvisvar á Íslendingadaginn í Gimli og hef ég búið til tvær vettlingauppskriftir sem minningu og virðingarvott við allt þetta fólk

sem heldur svona sterkt í það að vera Íslendingur. Hef ég eignast nokkra mjög góða vini eftir þau ferðalög. Núna síðast þá bjó ég til lopapeysumynstur fyrir ungan bónda í Gimli sem er að koma sér upp íslensku sauðfé og er að vinna ullina og nýta kjötið. Mér fannst eiginlega ómögulegt að þau væru með „íslenska“ ull en enga uppskrift. Þetta var ótrúlega skemmtilegt ferli og hlakka ég mikið til að fara aftur til Gimli.“

Sigrún leggur mikið upp úr því að skrifa með uppskriftunum sínum hvaðan hugmyndirnar koma og vera með ítarlegar leiðbeiningar. Síðasta nýjungin hjá henni er að gera kennslumyndbönd sem henta uppskriftunum. „Ég vil hvetja fólk til að reyna eitthvað nýtt og auka þannig prjónakunnáttuna“

Hún segist ákaflega heppin að geta sameinað sín helstu áhugamál, handavinnu og ljósmyndun í litla fyrirtækinu sínu. „Þegar ég lít til baka er ég ákaflega ánægð með það sem ég hef lært og jafnframt komið í verk og hlakka til komandi ára.

Sigrún var svo elskuleg að deila með lesendum Húsfreyjunnar einni af uppskriftunum sínum.

Þú notar QR-kóðann til að nálgast uppskriftina og afsláttarkóðann: Husfreyjan24 til að hlaða niður uppskriftinni.

Nokkur góð ráð varðandi myndatökur

Silla

Páls sem heitir reyndar fullu nafni Sigríður Sigurlína Pálsdóttir, hefur verið ljósmyndari Húsfreyjunnar frá árinu 2010. Silla rekur ljósmyndastúdíó Mirror Rose á Laugavegi 65, þar sem hún tekur á móti viðskiptavinum og myndar í huggulegu umhverfi. Allt frá passamyndatökum upp í brúðkaupsmyndatökur.

Þetta fallega rými er einnig hægt að leigja sem fundaraðstöðu, fyrir gæsa eða steggjahitting og fyrir vini og vinkonur að skella sér í Karaoke. Hún er líka oft á ferð og flugi við að mynda hina ýmsu viðburði og einstaklinga bæði inni og úti. Þeir sem hafa verið á viðburðum þar sem Silla mætir til að mynda þekkja vel hversu einstakt lag hún hefur á að ná fram því besta hjá hverjum og einum. Húsfreyjan fékk Sillu til að deila nokkrum góðum ráðum varðandi myndatökur því flest erum við daglega

með farsímann á okkur og þar með einnig myndavél. Við gefum Sillu orðið.

Mikil framþróun hefur átt sér stað varðandi myndavélar í símum og eru gæði flestra myndavéla í símum okkar orðin mikil, en athuga skal að gæðin eru oftast stillt þannig að þau eiga við útkomu myndanna á skjá en ekki til útprentunar. Myndataka einstaklinga hefur í áranna rás að langmestu leyti færst yfir á símana. Við tökum miklu meira magn af myndum í dag heldur en áður var gert meðal annars vegna þess að við erum nánast alltaf með síma við hendina og auðvelt er að nota eða senda myndir um leið og þær eru teknar, ekkert mál að eyða þeim myndum sem við erum síður ánægð með. Sjálfvirkar lagfæringar mynda eru líka vinsælar og myndataka á símana ekki kostnaðarsöm líkt og áður þegar notast var við myndavélar með filmum og framkallanir.

Mér finnst það miður hvað við erum ódugleg að prenta myndirnar okkar á ljósmyndapappír eða búa til albúm. Börn elska að skoða albúm það er staðreynd og margt eldrafólk líka. Ég held og vona að við séum að taka við okkur aftur og farin að framkalla aftur meira af myndunum okkar.

Til að taka góðar myndir þarf að huga að nokkrum grunn þáttum, því það er ekki nóg að vera með góða myndavél eða góðan síma og flott myndefni til að taka góða mynd.

Hér eru nokkur atriði af minni persónulegu reynslu og áliti sem að ég ætla að deila með ykkur.

Myndavélin

Dýr og flott myndavél er ekki endilega aðalatriðið þegar við erum að taka myndir. Þú færð kannski skarpari myndir úr betri myndavélum, en það þýðir ekki endilega að myndirnar séu fallegri. Þarna hefur það samt líka með það að gera hversu stór myndin getur verið prentuð/

stækkuð án þess að hún verði pixluð og óskýr. En svo hefur tæknin líka hjálpað til með að ná ágætis prentun úr lággæða mynd í dag.

Það sem getur skipt meira máli fyrir útkomu mynda eru linsurnar (þ.e.a.s. ef hægt er að skipta um linsur á myndavélinni) þær geta gert gæfumuninn í mynduppbyggingu eða listsköpun. Besta ráðið er að vera óhrædd við að prufa sig áfram með myndavélina, linsur og lýsingu.

Venjulega eru flestir sem hafa ekki atvinnu af því að mynda, bara að mynda fyrir sjálfan sig til að festa minningu eða skapa okkar listaverk fyrir okkur sjálf til að njóta.

Ljósmyndun heitir ljósmyndun af því að það þarf ljós svo að mynd geti orðið til. Ljósið/birtan er eitt af því mikilvægasta þegar teknar eru myndir, þannig er gott að reyna alltaf að nýta sér lýsingu ef að hún er fyrir hendi. Snúið þess vegna frekar andlitum í ljósið sem kemur frá lampa, glugga, sól eða hverju öðru sem gefur birtu, ekki taka myndina á móti ljósi.

Þegar manneskja er mynduð reynið þá að hafa ekki of mikið pláss í rammanum fyrir ofan höfuðið. Bendið viðkomandi á að horfa inn í linsuna ef viðkomandi veit af því að það er verið að mynda hann og til að fá sem náttúrlegasta bros, talið við viðkomandi, fáið viðkomandi til að treysta ykkur og slappa af, ég nota mjög oft að segja bara „hæ“ við viðkomandi og ég brosi sjálf (ef um brosmynd er að ræða) og það er líka algjörlega bannað hjá mér að segja börnum að brosa, það verður að koma eins náttúrlega og hægt er. Þá er það oft með allskonar fíflaskap eða bara þolinmæði og spjalli.

Ef verið er að mynda náttúru, eins og foss, fjöll eða eitthvað stórbrotið og mikilfenglegt er oft gott að hafa manneskju inni á myndinni til að stærðarhlutföllin sjáist betur. Ef einstaklingurinn sem myndaður

er klæðist skærum fatnaði getur það gert myndina meira spennandi. Þegar verið er að mynda náttúruna er einnig mikilvægt að líta sér nær. Því að staldra við og skoða það sem er við fætur okkar, getur verið jafn fallegt og há fjöll eða djúp gil. Mínar uppáhaldsmyndir eru oft þær sem ég tek þegar ég beygi mig niður og skoða það sem þar er, s.s. gróður á steini, börkur á tré, mynstur í sandi, lækjarspræna eða mynstur laufblaðs. Munum að njóta en ekki þjóta. Staldrið við og prófið líka að mynda viðfangsefni frá mismunandi sjónarhornum. Ef verið er að mynda t.d. blóm er betra að fara í sömu hæð og það, það sama gildir um t.d. sitjandi fólk, börnin og gæludýr.

Ef að landslagsmynd er ekki með sjóndeildar- eða sjónarröndina beina, virkar hún oftast ekki eins vel.

Að mynda náttúru, himinn, sjó, fjöll eða veg í algjörri heiðríkju, gerir myndina líklega ekki eins spennandi eins og ef einhverjir skýjahnoðrar eru á ferð eða jafnvel brjálað veður.

Tíminn rétt fyrir, um eða eftir sólsetur er sagður gullni tíminn til að mynda. Ljós og skuggar geta skapað einstaka stemningu og fallegar náttúrumyndir.

En aðalatriðið við að mynda er að hafa gaman af því, njóta þess að gera tilraunir, tengjast, virða og njóta náttúrunnar.

Síminn

Það getur verið mikill munur á myndavélum í símum og þar komum við aftur að því að það eru linsurnar sem skipta mestu máli, sumir símar eru með eina linsu á meðan aðrir eru með 5 eða fleiri og þar af leiðandi eru þeir símar betri í að taka fjölbreyttari myndir eins og micro, portrett eða panorama landslag svo eitthvað sé nefnt. Síminn er svo dásamlega tæknilegur og fljótur að lesa í umhverfið og þá lýsingu sem er til staðar og gera úr því skýrar og góðar myndir allavega fyrir

skjái, en kannski ekki fyrir stærri prentun, hann getur meira að segja oftast numið norðurljósin auðveldlega þó svo að augu okkar varla sjái þau.

Það þarf alltaf að passa vel upp á að linsurnar á símanum séu hreinar. Farsíminn okkar fer svo víða að við þurfum reglulega að hreinsa linsuna á honum til að fá skýrar og skarpar myndir.

Þegar við tökum myndir þurfum við að halda símanum stöðugum, láta hann jafnvel sitja eða styðjast við eitthvað.

Það er gaman að prófa sig áfram með þær stillingar sem í boði eru á símum eins og HDR mode til að fá t.d. fleiri litatóna eða PORTRETT til að hafa aðeins aðalatriðið í fókus.

Það er einnig til hellingur af skemmtilegum öppum, sem hægt er að sækja í símana til að lagfæra eða vinna myndir eins og að lýsa, dekkja, skerpa, kroppa eða rétta af myndir og þar hef ég oft notað t.d. appið Snapseed eða Photoshop til þess.

Það þýðir lítið að taka myndir með flassi í stórum sal hvað þá ef að hann er dimmur eins og t.d. á tónleikum, þá er betra að hafa flassið slökkt og hafa símann stöðugan á meðan þú tekur mynd.

Myndin er vanalega skýrari og betri ef að þú tekur myndina þannig að þú beinir þeirri hlið sem að linsurnar eru á, að myndefninu (ekki nota sjálfu eða skjá megin).

Þegar þú sérð það sem að þú ætlar að taka mynd af á skjánum er gott að setja fingurinn létt á viðfangsefnið svo síminn fatti að það er það sem á að vera fókus á. Þannig les hann þá líka birtuna þar og metur hvaða stillingar hann þarf að nota til að útkoman verði sem best.

Munum að æfingin skapar meistarann og gerir okkur betri í að taka góðar myndir og gerum tilraunir með mismunandi stillingar og sjónarhorn til að finna okkar eigin stíl í ljósmyndun.

Að fara í sömu hæð og viðfangsefnið. Mynda í ljósaskiptunum.

FJÖLBREYTNI ER SKEMMTILEG

Kristín Örnólfsdóttir

Handavinnukonur leynast víða. Margar þeirra gera miklu meira en að fara eingöngu eftir uppskriftum. Þær hanna líka en láta þar við sitja. Ég hafði samband við tvær slíkar og bauð þeim að vera með uppskrift í þessu blaði. Önnur þeirra er frænka mín og heitir Anna Málfríður Jónsdóttir. Hún er handavinnusnillingur

og heklar meðal annars afskaplega fallega blómvendi. Hér býður hún upp á uppskrift af hekluðum túlípönum sem gaman væri að eiga til að skreyta um páska eða jafnvel allan ársins hring.

Hin er vinkona mín og heitir Ragnheiður María Adólfsdóttir. Hún er líka handavinnusnillingur og er með upp-

skrift af virkilega fallegri og klæðilegri barnapeysu. Fyrirsætan sem ber sig svo vel í barnapeysunni heitir Katla María.

Að lokum er ég með mjúka og hlýja dömupeysu sem hentar vel inni á köldum vetrardögum og úti í íslenska sumrinu.

Prjónið, heklið og njótið.

HÚFA

Ein stærð. Auðvelt er að stækka eða minnka húfuna með því að fitja upp 4 L til viðbótar eða fækka um 4 L.

Garn

Nordic frá Icewear Garn: 100 g

Mohair Mix frá Icewear Garn: 25 g

Tveir þræðir prjónaðir saman.

Prjónar

Hringprjónar nr 5 og 5.5, 40 cm langir

Sokkaprjónar nr 5.5

Prjónfesta: 10x10 cm = 15 L og 23 umferðir

Notið 40 cm langan hringprjón nr 5 og fitjið upp 70 L.

Prjónið stroff þar til það mælist 5 cm.

Skiptið yfir í 40 cm langan hringprjón nr 5.5 og prjónið munsturbekk (sjá lýsingu í peysuuppskrift á bls. 42).

Prjónið nú sl þar til húfan mælist 18 cm frá uppfitjun.

Úrtaka: *Prjónið 2 L sl, prjónið 2 L sl saman, endurtakið frá *-* þar til 2 L eru eftir af umferðinni, prjónið 2 L sl.

Nú ættu að vera 53 L á prjóninum.

Prjónið 3 umferðir sl.

*Prjónið 1 L sl, prjónið 2 L sl saman. Endurtakið frá *-* þar til 2 L eru eftir af umferðinni, prjónið 2 L sl.

Nú ættu að vera 36 L á prjóninum.

Prjónið 2 umferðir sl.

Prjónið 2 L sl saman út umferðina. Nú ættu að vera 18 L eftir á prjónunum.

Prjónið 1 umferð sl.

Slítið bandið og þræðið það í gegnum lykkjurnar sem eftir eru og gangið frá endanum á röngunni.

Útbúið dúsk úr sama garni og festið á toppinn. Einnig er hægt að kaupa dúsk eða sleppa því að hafa dúsk.

Frágangur

Gangið frá lausum endum. Skolið húfuna samkvæmt þvottaleiðbeiningum á garninu eða pressið hana með straujárni og blautum klút.

Ekki henda mér,

LEIKSKÓLAPEYSA

Peysan er prjónuð í hring, að ofan og niður. Mjúk og hlý peysa með einföldu mynstri sem samanstendur af stökum brugðnum lykkjum. Peysan er fljótprjónuð, víð og þægileg. Byrjað er á hálsmáli og ef óskað er eftir hærri kraga eða jafnvel kraga sem hægt er að brjóta niður er um að gera að prjóna fleiri umferðir, allt eftir smekk og óskum. Svo má auðvitað sleppa mynstrinu alveg ef þess er óskað

Stærðir: 1-2 ára 3-4 ára 5-6 ára

Yfirvídd: 60-70-80 cm

Ermar frá handvegi: 21-24-30 cm

Búkur frá hálsmáli: 30-37-42 cm

Garn: Super 250 - 350 - 400 gr

Prjónar: 40 og 60 cm langir hringprjónar nr 4.5 og 5.

Sokkaprjónar nr. 4.5 og 5.

Prjónafesta: 20 lykkjur og 30 umferðir í sléttprjóni á prjóna nr. 5.

Peysan er rúm og því er prjónafestan ekki heilög á meðan ekki munar mörgum lykkjum. Uppgefið garn er Super frá Icewear en benda má á að á markaðnum eru margar tegundir af garni sem henta uppgefinni prjónastærð.

Skammstafanir:

L - lykkja

Sl - slétt lykkja

Br - brugðin lykkja

Pm - prjónamerki

Ll (ll) - laskalykkja

Út-v (út-v) - útaukning hallar til vinstri; aukið út um 1 L með því að fara framan í og taka upp bandið á milli lykkja. Prjónið síðan aftan í lykkjuna. Það myndast snúningur.

Út-h (úth) - Útaukning hallar til hægri; aukið út um 1 L með því að fara aftan í og taka upp bandið á milli lykkja. Prjónið síðan framan í lykkjuna. Það myndast snúningur.

Hálsmál

Fitjið upp (56) (64) (64) á prjóna nr. 4.5.

Prjónið 2 L sl og 2 L br, alls (10) (12) (14) umferðir. Að sjálfsögðu má bæta við umferðum eftir smekk.

Laski settur upp

Skiptið yfir á prjóna nr. 5, prjónið 1 umferð sl, setjið laskann niður og aukið út um 4 lykkjur á sama tíma á eftirfarandi hátt:

(Útaukningin er gerð til að laskalykkjurnar, sem alltaf

eru sléttar, komi í beinu framhaldi af sléttum lykkjum í kraganum).

1. Prjónið (1) (1) (1) L sl, setjið pm. Framvegis verður þetta upphaf umferðar. Prjónið (1) (1) (1) L sl (laskalykkja) setjið pm.

2. Prjónið (3) (5) (5) L sl, aukið út um 1 L, prjónið (3) (5) (5) L sl, setjið pm (hægri ermi).

3. Prjónið 2 L sl, setjið pm (laskalykkjur).

4. Prjónið (9) (9) (9) L sl, aukið út um eina lykkju, prjónið (9) (9) (9) L sl, setjið pm (framstykki).

5. Prjónið 2 L sl, setjið pm (laskalykkjur).

6. Prjónið (3) (5) (5) L sl, aukið út um eina L, prjónið (3) (5) (5) L sl, setjið pm (vinstri ermi).

7. Prjónið 2 L sl, setjið pm (laskalykkjur).

Munstur

Byrjið hér á ermum í stærð 1-2 ára (lykkja 2).

Byrjið hér á ermum í stærðum 3-4 og 5-6 ára og á fram- og bakstykkjum í öllum stærðum (lykkja 3).

8. Prjónið (9) (9) (9) L sl, aukið út um 1 L, prjónið (9) (9) (9) L sl, setjið pm, prjónið 1 L sl. Umferð lýkur.

Nú eiga að vera (60) (68) (68) L á prjóninum.

Berustykki

1. umferð:

Hægri ermi: Prjónið 1 L sl (laskalykkja), færið pm, út-v. Prjónið samkvæmt munstri að næsta pm, út-h, færið pm. Prjónið 2 L sl (2 laskalykkjur).

Framstykki: Færið pm, út-v. Prjónið samkvæmt munstri að næsta pm, út-h, færið pm, prjónið 2 L sl (2 laskalykkjur).

Vinstri ermi: Færið pm, út-v, prjónið samkvæmt munstri að næsta pm, út-h, færið pm, prjónið 2 L sl (2 laskalykkjur)

Bakstykki: Færið pm, út-v, prjónið samkvæmt munstri að næsta pm, út-h, færið pm, Prjónið 1 L sl (1 laskalykkja). Umferð lýkur.

2. umferð: Prjónið samkvæmt mynstri.

Aukið út á þennan hátt í annarri hverri umferð, alls (15) (20) (24) og prjónið samkvæmt munstri þar til (180) (228) (260) L eru á prjóninum.

Bolur

Nú er komið að því að skipta yfir í bol og ermar, það er gert á eftirfarandi hátt:

1. Setjið (39 (53) (61) L á band eða snúru og geymið (ermalykkjur).

2. Fitjið upp (9) (7) (7) L (handvegur).

3. Prjónið (51) (61) (69) L (framstykki).

4. Setjið (39) (53) (61) L á band eða snúru og geymið (ermalykkjur).

5. Fitjið upp (9) (7) (7) L (handvegur).

6. Prjónið (51) (61) (69) L (bakstykki).

Nú eiga að vera (120) (136) (152) L á prjóninum. Prjónið nú áfram og passið að mynstrið passi. Prjónið þar til bolur frá handvegi mælist um (18) (23) (26) cm. Endið á sléttri umferð.

Skiptið yfir á hringprjón nr. 5 og prjónið stroff 2 L sl og 2 L br samtals (10) (12) (14) umferðir. Fellið af í síðustu umferð. Fjöldi umferða er ekki heilagur og hver prjónari getur fækkað eða fjölgað umferðum eftir smekk.

Ermar:

Ermarnar eru prjónaðar í hring og mynstrið heldur áfram í beinu framhaldi af bol.

Byrjið undir miðjum handvegi þar sem lykkjum var bætt við (fitjað upp) í fyrstu umferð bols. Prjónið upp frá miðjum handvegi (5) (4) (4 ) L, prjónið lykkjurnar sem geymdar voru fyrir ermar (39) (53) (61) L og endið á að prjóna upp (4) (3) (3) L frá handvegi. Upphaf umferðar er nú undir miðjum handvegi og á prjóninum eiga að

Prjónið 3-4 umferðir áður en úrtaka hefst, passið

Góð þumalputtaregla er að taka alltaf úr í þeirri umferð þar sem mynstur (brugðnar lykkjur) er prjónað.

Prjónið tvær L sl saman, prjónið svo þar til 2 L eru eftir í umferð og takið þá eina L óprjónaða, prjónið síðustu L umferðar sl, steypið óprjónuðu L yfir þá prjónuðu.

Takið úr á þennan hátt í 6. hverri umferð þar til (32) (40) (44) L eru á prjóninum.

Skiptið nú yfir á prjóna nr. 4.5 og prjónið stroff 2 L sl og 2 L br, samtals (10) (12) (14) umferðir eða eftir smekk.

Fellið af í síðustu umferð.

Felið alla lausa enda, þvoið peysuna samkvæmt þvottaleiðbeiningum á garninu og leggið til þerris í rétt mál.

Hönnuður: Ragnheiður María Adólfsdóttir

HEKLAÐIR TÚLIPANAR

Efni og áhöld:

- Bómullagarn, grænt fyrir blað og stöngul og litað fyrir blómhnapp. Það er upplagt að nota afganga í þetta verkefni.

- Heklunál af þeirri stærð sem hentar grófleika garnsins, gott er að nota 1⁄2 númeri minni heklunál en gefið er upp fyrir garnið svo blómið verði þétt.

- Blómavír, 2-3 mm þykkur, 40 cm langur,

- Blómavír 5-6 mm þykkur, 25 cm langur.

- Lítil töng til að beygja vírinn og klippa, skæri, stoppunál og smá föndurlím.

Skýringar:

TL - tengilykkja

KL - keðjulykkja

FL - fastalykkja/fastahekl

HST - hálfur stuðull

ST - stuðull

PM - prjónamerki umf - umferð

(xx)x6 - endurtakið sex sinnum það sem er innan svigans

Blómhnappur:

1. umferð: Gerið töfralykkju og svo 1 LL + 6 ST í hana. Endið á 1 TL í LL og dragið aðeins saman gatið. Setjið PM í TL (= 6 L)

2. umferð: 1 LL, 2 FL í hverja L, 1 TL (= 12 L)

3. umferð: 1 LL, (1 FL, 2 FL í næstu L) x6, 1 TL (= 18 L)

4. umferð: 1 LL, (2 FL, 2 FL í næstu L) x6, 1 TL (= 24 L).

5. umferð: 1 LL, (3 FL, 2 FL í næstu L) x6, 1 TL (= 30 L)

6. umferð: 1 LL, (4 FL, 2 FL í næstu L) x6, 1 TL (= 36 L).

7. -17. Umferð: 36 FL. Setjið PM í byrjun umferðar og heklið svo í spíral. Endið með 1 TL í næstu lykkju.

Klippið frá og dragið endann í gegnum lykkjuna. Hafið nokkuð langan enda (a.m.k. 15 cm).

Laufblað: Hér er gott að nota vír til þess að gera laufblaðið stífara. Notið grennri vírinn og beygið hann lauslega til helminga.

1. umferð: Heklið 31 LL með grænu. Byrjið svo í 2. L frá nálinni og bætið vírnum við, gerið 1 TL. Farið er í fremra bandið á LL (það sem snýr að þér).

2. umferð: Heklið 2 FL, 3 HST, 18

ST, 3 HST, 2 FL. Í endalykkjuna koma svo 1 ST, 1 LL, 1 ST. Gott er að klípa saman beygjuna á vírnum núna svo það myndist skarpari beygja.

3. umferð: Heklið nú til baka hinum megin alveg eins nema tekið er í það sem áður var aftari lykkjan á LL. Heklið 2 FL, 3 HST, 18 ST, 3 HST, 2 FL. Sjá myndir.

Endið með 1 TL í fyrstu byrjunarlykkjuna hinu megin og farið með bandið í kringum báða enda vírsins. Klippið frá með löngum spotta og dragið fast saman. Vefjið bandið þétt utan um báða enda vírsins saman alveg til enda og notið 1 dropa af föndurlími til að festa endann neðst.

Frágangur:

Takið þykkari vírinn og beygið tvisvar upp á endann, ca. 1 cm í hvort skipti.

Stingið endanum í gegnum blómhnappinn og fyllið þétt upp með troði. Gott er að þrýsta troðinu þétt í kringum vírinn til þess að blómhnappurinn drjúpi síður höfði. Þræðið endann efst á blómhnappnum í nál, brjótið saman til helminga og saumið saman. Sjá myndir.

Takið nú græna garnið og byrjið efst á stönglinum og vefjið því fast og þétt utan um stöngulinn alla leið niður. Staðsetjið laufblaðið á stönglinum eins og ykkur finnst fallegast, mitt er ca 10 cm fyrir neðan blómhnappinn, og vefjið stönglinum á laufblaðinu saman við stöngul blómsins. Þetta þarf að gera mjög þétt. Þegar komið er niður á enda stöngulsins er settur 1 dropi af föndurlími til þess að festa endann.

Hönnuður: Anna Málfríður Jónsdóttir

FULLORÐINSPEYSA

Mjúk og hlý peysa sem prjónuð er ofan frá og niður. Hún er skreytt með skemmtilegu gatamunstri við hálsmál, neðan á ermum og bol. 8 cm langt stroff er neðan á bol og á ermum en önnur hver umferð í stroffi er prjónuð slétt. Affelling neðan á ermum og bol er snúruaffelling (I-cord) en að sjálfsögðu er hægt að fella af á hinn gamalkunna hátt.

Stærð

Garn

Nordic frá Icewear Garn: 400-450-500 g

Mohair Mix frá Icewear Garn: 125-150-175 g

Tveir þræðir prjónaðir saman.

Prjónar

Hringprjónar nr 5 og 5.5, 40 og 80 cm langir

Sokkaprjónar nr 5

Prjónfesta:

10x10 cm = 15 L og 23 umferðir

Skammstafanir og skýringar

L - lykkja/ lykkjur

Sl - slétt lykkja

Br - brugðin lykkja

PM - prjónamerki

Snúin sl L - farið er aftan í lykkjuna þegar prjónað er slétt

Munsturbekkur

1. umferð: *Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br*, endurtakið frá *-* út umferðina.

2. umferð: *Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br*, endurtakið frá *-* út umferðina.

3. umferð: *Farið með hægri prjón framan í lykkju 3 á vinstri prjóni og dragið hana yfir lykkjur 1 og 2 á vinstri prjóni, prjónið 1 L snúið sl í lykkju 1, sláið upp á prjóninn, prjónið 1 L snúið sl í lykkju 2 á vinstri prjóni, prjónið 1 L br* (sjá myndir) endurtakið frá *-* þar til 2 L eru eftir af umferðinni, prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br.

4. umferð: *Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br*, endurtakið frá *-* út umferðina.

5. umferð: Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br. *Farið með hægri prjón framan í lykkju 3 á vinstri prjóni og dragið hana yfir lykkjur 1 og 2 á vinstri prjóni, prjónið 1 L snúið sl í lykkju 1, sláið upp á prjóninn, prjónið 1 L snúið sl í lykkju

2 á vinstri prjóni, prjónið 1 L br* (sjá myndir) endurtakið frá *-* út umferðina.

5. umferð: *Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L br*, endurtakið frá *-* út umferðina.

6. umferð: *Prjónið 1 L snúið sl, prjónið 1 L sl*, endurtakið frá *-* út umferðina.

Upphaf

Notið 40 cm langan hingprjón nr 5. Fitjið upp 64-68-72 L.

Prjónið stroff í hring á eftirfarandi hátt:

Umferð 1: Prjónið 1 L sl, 1 L br til skiptis

Umferð 2: Prjónið sl.

Endurtakið umferðir 1 og 2 þar til kraginn mælist 5-5-5 cm.

Endið á því að prjóna umferð 1.

Berustykki

Skiptið yfir í hringprjón nr 5.5, prjónið 1 umf sl og aukið út um 30-34-36 L. Nú ættu að vera 94-102-106 L á prjóninum.

Prjónið munsturbekk (sjá lýsingu á bls. 42

Prjónið 1 umferð sl.

Aukið út um 30-34-36 L jafnt yfir næstu umferð (124-136142 L).

Prjónið 3-4-5 cm sl.

Aukið út um 30-34-36 L jafnt yfir umferðina. (154-170-178 L).

Prjónið 4-4-5 cm sl.

Aukið út um 30-34-36 L jafnt yfir umferðina (184-204-214 L).

Prjónið 9-9-10 cm sl.

Aukið út um 22-25-36 L jafnt yfir umferðina (206-230-250 L).

Prjónið sl þar til berustykkið mælist 27-29-31 cm, mælt frá munstri.

Skiptið yfir í bol og ermar á eftirfarandi hátt:

1. Setjið næstu 39-45-49 L á auka þráð (hægri ermi).

2. Fitjið upp 7-7-7 L (hægri handvegur).

3. Prjónið 64-70-76 L (framstykki).

4. Setjið næstu 39-45-49 L á auka þráð (vinstri ermi).

5. Fitjið upp 7-7-7 L (vinstri handvegur).

6. Prjónið 64-70-76 L (bakstykki).

Nú er komið að upphafi umferðar, þar sem bakstykki og hægri ermi mætast. Gott er að setja PM til að merkja upphaf umferðar.

Bolur

Nú ættu að vera 142-154-166 L á prjóninum. Prjónið sl þar til bolurinn mælist 21-23-25 cm, mælt frá handvegi. Prjónið munsturbekk (sjá lýsingu á bls. 42).

Skiptið yfir í hringprjón nr 5 og prjónið stroff á eftirfarandi hátt:

Umferð 1: Prjónið 1 L sl, 1 L br til skiptis. Umferð 2: Prjónið sl.

Endurtakið umferðir 1 og 2 þar til stroffið mælist 8 cm. Endið á því að prjóna umferð 1.

Fellið af með I-cord affellingu. Einnig er hægt að nota affellingu að eigin ósk.

I-cord affelling: Fitjið upp 3 L á hægri prjón. Færið þessar 3 L yfir á vinstri prjón. *Prjónið 2 L sl, prjónið 2 L sl saman með því að fara aftan í lykkjurnar (þriðju lykkjuna af nýju lykkjunum og næstu lykkju af vinstri prjóni), færið 3 síðustu L yfir á vinstri prjón*. Endurtakið frá *-* þar til aðeins 3 L eru eftir á prjóninum. Fellið af síðustu 3 lykkjurnar þegar búið er að prjóna I-cord allan hringinn.

Ermar

Notið 40 cm hringprjón eða sokkaprjóna nr 5.5. Byrjið undir miðjum handvegi og takið upp 3 L, setjið erma lykkjurnar (39-45-49 L) á prjóninn og takið upp 4 L undir handvegi. Nú ættu að vera 46-52-56 L á prjóninum.

Upphaf umferðar er undir miðjum handvegi, gott er að setja PM til að merkja upphaf umferðar.

Prjónið 4-5-5 cm sl.

Næsta umferð er úrtökuumferð þar sem fækkið er um 2 L á eftirfarandi hátt:

Prjónið 1 L sl, prjónið 2 L sl saman, prjónið þar til 3 L eru eftir af umferðinni, takið 1 L óprjónaða, prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, prjónið 1 L sl (úrtökuumferð).

Prjónið 8-8-8 cm sl.

Prjónið úrtökuumferð.

Prjónið 8-8-8 cm.

Prjónið úrtökuumferð.

Prjónið sl þar til ermin mælist 28-29-30 cm, mælt frá handvegi.

Prjónið munsturbekk (sjá lýsingu á bls 42 og takið úr 2-0-0 L í fyrstu umferðinni Nú ættu að vera 38-4650 L á prjóninum.

Skiptið yfir í prjóna nr 5 og prjónið stroff þar til það mælist 8-8-8 cm. Fellið af með I-cord affellingu (sjá lýsingu). Einnig er hægt að nota affellingu að eigin ósk.

Prjónið seinni ermina eins.

Frágangur

Gangið frá lausum endum.

Skolið peysuna samkvæmt þvottaleiðbeiningum á garninu eða pressið hana með straujárni og blautum klút.

Smásagnasamkeppnin

Smásagan Dillandi er ein af þeim sögum sem valin var af dómnefnd til birtingar í Smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar vorið 2024. Höfundur sögunnar er Sveinbjörg Sveinsdóttir sem er menntuð sem verkfræðingur frá Háskóla Íslands og Technische Hochschule Darmstadt í Þýskalandi síðan árið 1994 auk þess sem hún er vottaður verkefnastjóri og hefur lagt stund á nám í opinberri stjórnsýslu. Eftir útskrift í Þýskalandi starfaði hún í Bandaríkjunum um hríð en sneri aftur til heimalandsins um aldamótin. Þar starfaði hún í fyrstu við hugbúnaðargerð og verkefnastjórnun en hefur frá árinu 2006 verið framkvæmda-

Dillandi

Myndirnar komu til hennar í sviphendingu. Um leið og hún kynnti erlendu ferðalöngunum íslenskt sjávarfang. Túristunum sem hún var að leiðsegja á för á milli náttúruundra og baðlóna. Leiftur úr gamla tímanum. Hún mundi fiskbúðina sem var staðsett í sama húsi og fiskvinnslan, haltrandi eldri mann sem afgreiddi viðskiptavini og pakkaði fiskmetinu inn í dagblaðapappir. Og sá sjálfa sig brokkandi heim á leið með böggulinn. Sjómennirnir sem drógu fiskinn úr sjó voru henni í fersku minni rétt eins og konurnar sem héldu heimi barnanna saman.

stjóri Landskerfis bókasafna hf., sem sér um rekstur bókasafnakerfanna Gegnir og Leitir.is auk menningarsögulega gagnasafnsins Sarpur og sarpur.is.

Í miðjum kórónafaraldri að hausti 2020 sótti Sveinbjörg námskeið í skapandi skrifum hjá Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi í fylgd fleiri kvenna. Námskeiðinu er löngu lokið en lærimeyjar Vigdísar hafa haldið áfram skrifæfingum undir formerkjum Kápanna sem er heiti hópsins. Smásagan Dillandi varð til í sumarbústaðaferð Kápanna á vordögum 2024.

Hafið seiddi hana til sín. Stundum lét það illa, bægslaðist um og kastaði sér upp á ströndina áður en það gusaðist í burtu aftur, þá lét hátt í því. Alloft var það í mildu skapi, gáraði mjúklega við ströndina og hossaði sjófuglunum, þá yfirgnæfði það ekki söng fuglanna, vélarhljóð bátanna eða önnur hljóð í nærumhverfinu.

Þegar hún var á barnsaldri stillti hún stól upp við glugga sem vissi út að sænum og höfninni, prílaði upp á hann og horfði á tilburði sjávaraflanna og undraðist stórum þegar særinn var í vondu skapi. Hvað hafði reitt hann svo mjög til reiði?

Eitt andartak fylltist hún ótta, myndu bátarnir rata aftur heim í höfnina? Svo fann hún innra með sér að þetta yrði allt í lagi.

Fólkið sem byggði þorpið var alls

Höfnin var staðurinn þar sem allir strengir þorpsins mættust. Bátarnir héldu út á sæinn, köstuðu út veiðarfærum og biðu áður en þau voru hífð inn aftur, héldu heim til hafnar og lönduðu aflanum. Góðar gæftir þýddu mikinn handagang í vinnslunni. Störf fólksins hverfðust um sjósókn og fiskvinnslu, þetta var lifibrauðið og börnin hlökkuðu til að fá hlutdeild í þessu lífi. Allt hlaut að fylgja þessari hringrás. Fólkið vaggaði taktfast og jörðin gerði það líka. Það var bara eðlilegt. Hún kom í heiminn í tvílyftu húsi sem stóð út við hafið í sjávarbyggðinni. Það var útsynningur, sjórinn gusaðist upp á land og seltan sat eftir á gluggarúðunum. Húsið skókst til í vindhviðunum, gólfið gekk í bylgjum, það hringlaði í innanstokksmunum. Fyrst heyrðist öskur og í kjölfarið kröftugur barnsgrátur. Um leið buldi regnið á bárujárnsklæðningunni. Stemming náttúruaflanna þessa fyrstu stund mótaði skynjun hennar allar götur síðan.

konar. Það var bókelski sjóarinn sem notaði hverja lausa stund til lesturs. Það var hann sem aumkaði sig yfir stelpuna þegar bókasafnið var lokað yfir sumartímann, kynnti hana fyrir Jack London og lánaði henni Óbyggðirnar kalla. Brjálaða konan sem sagt var að væri í Kananum. Hún vissi ekki alveg hvað það þýddi en tengdi það við bílana sem oft biðu fyrir utan hús konunnar þegar bátar voru á sjó. Hrekkjusvínin sem börnum stóð stuggur af. Gjaldkerinn sem var eins og klipptur út úr tískublaði. Fólkið á jaðrinum. Forstjórinn í Fiskimjölinu sem keypti fisk af börnunum sem þau höfðu veitt í höfninni og þóttist ekki sjá marhnútana sem fylgdu með í kaupunum. Farandverkafólkið sem kom á vertíð og bjó á verbúðinni eða hjá ættingjum. Heimavinnandi húsmæður sem heimsóttu hver aðra og spjölluðu saman yfir kaffibolla. Mömmurnar sem biðu með heitan mat þegar börnin komu heim úr skóla og ristuðu brauð í ofni fyrir vini þeirra sem komu til að leika. Öll áttu sínar væntingar og draumarnir lágu í loftinu rétt eins og gúanólyktin.

Sjósóknin var heimur karla. Þeir urðu að vera karlar í krapinu. Raunar var lífið í þorpinu ekki fyrir veimiltítur. Kynin

skiptu með sér störfum. Engin kona var skipstjóri, stýrimaður eða vélstjóri. Útgerðarmaðurinn var karlkyns. Aldrei sá hún konur sitja undir stýri á vörubílum eða lyfturum. Hún hélt að konur gætu ekki keyrt stóra bíla. Samt var enginn sem sagði það. Konur voru sjaldan verkstjórar í frystihúsum eða fiskvinnslum, þær komu ekki nálægt tækjasalnum. Í staðinn stóðu þær við fiskverkunarborðið með net á höfði, plastsvuntur um sig miðjar, íklæddar gúmmístígvélum og -hönskum og snyrtu fisk í akkorði. Konur útgerðarmanna höfðu oft þann starfa að sjá um reksturinn í landi, greiða út laun og reikninga. En að jafnaði var aðalstarfi kvenna að vera húsmæður, uppalendur og fara fyrir heimilunum. Sjómannskonan réði öllu í fjarveru eiginmannsins. Í landlegum snérist þetta við, þá vildu þeir ráða og konurnar leyfðu þeim að halda að þeir gerðu það. Þetta var hið eðlilega fyrirkomulag hlutanna. Henni sýndist vera meira gaman að vera karlmaður en kona í lífinu, það var eins og þeir mættu meira. Samt vorkenndi hún pöbbunum að þurfa að vakna snemma á nóttunni og vera á sjó í vondum veðrum.

Guðað var á glugga og kallað „ræs“. Þá var ekki í boði að kúra lengur undir hlýrri sænginni. Pabbi var úti á sjó þegar hún vaknaði til að fara í skólann. Á línuveiðum var farið út uppúr miðnætti í kolniðamyrkri. Þegar lengra leið fram á árið færðist brottfarartíminn nær morgni.

Miklu skipti að vera á sjó með glúrnum skipstjóra sem þefaði uppi fiskinn. Ekki var verra að karlinn væri veðurglöggur. Lífið um borð réðst líka af öðrum skipsfélögum. Alla dreymdi um gott pláss og góðan hlut. Að veiðiferð lokinni þurfti að sæta lagi við innsiglinguna inn í plássið. Tekin voru mið, fylgst með brotum og siglt inn í rennuna þegar rétta lagið kom. Ekki mátti mikið út af bera til að fleyið færi upp í grjótið. Háskinn var víða. Stundum var siglt með aflann. Siglingin til meginlandsins á litlum bátunum tók marga daga. Hún velti fyrir sér hvernig lífið væri í útlöndum og lét sig dreyma um að kynnast því. Bátarnir höfðu viðdvöl í erlendum höfnum á meðan landað var og í brælum varð dvölin lengri. Áhöfnin notaði gjaldeyrinn til að skemmta sér og versla inn fyrir heimilið. Margt var til í útlöndum sem ekki var til heima, auk

þess sem það kostaði minna. Stúlkan fékk föt og reiðhjól þegar pabbi kom í land. Keyptur var búnaður til heimilisins. Ef jólin voru framundan var Macintosh ómissandi. Svo var það tollurinn, áfengi og tóbak. Verðandi feður áttu það til að versla barnavagna. Löngu áður en karlmenn og barnavagnar fóru að eiga samleið úti á götu.

Daglegt líf barnanna fólst í að sækja skólann og leika sér. Kennarinn sagði að þau væru spegill heimilisins.

Það var föst regla að fyrsta bekk skólans var boðið í ævintýralegt jólaboð á aðventunni. Prúðbúin börnin voru sótt í skólann og ekið með þau og kennarana á áfangastað rétt út fyrir bæinn. Þau voru leidd inn í skreyttan sal þar sem var töluð útlenska. Börnin urðu í fyrstu feimin yfir framandleikanum en svo varð forvitnin varkárninni yfirsterkari. Allt var óraunverulegt. Hátt var til lofts í rýminu sem var skreytt með litríkum borðum, slaufum og glimmeri. Í því miðju gat að að líta mikilfenglegt jólatré. Litfögur ljós tindruðu og það sindraði af skreytingunum. Stúlkan fékk gríðarstóran nammipoka og gosdrykk. Sætindin voru öðruvísi en þau sem hún þekkti. Svo var slegið upp jólaballi og þangað mætti alvöru jólasveinn á rauðum fötum og með mikið hvítt skegg. Tónlist og söngur dunaði svo undir tók í salnum. Eitt andartak lék gólfið á reiðiskjálfi, gestgjafarnir litu hver á annan en hún hélt taktinum í dansinum. Fögnuðurinn náði hámarki þegar jólasveinninn útdeildi jólagjöfum. Hún fékk stóran fallega skreyttan pakka. Um leið og út var komið varð allt eins og það átti vanda til.

Þegar hún síðar leit tilbaka átti hún erfitt með að gera sér grein fyrir því hvort atburðurinn hefði raunverulega átt sér stað eða ekki. Hvergi í nágrenni þorpsins var neitt að sjá sem gaf slíka hliðarveröld til kynna.

Löngu seinna risu einbýlishús, raðhús og bílskúrar í grennd við ævintýrastaðinn. Bílarnir óku um á malbikuðum götum og gangandi og hjólandi fóru ferða sinna á gangstéttum. Þegar rigndi streymdi vatnið niður af fólki og fararskjótum og safnaðist í polla sem umhverfið speglaðist í. Húsin voru á hvolfi rétt eins og kollur hjólandi barns með blágræna húfu. Vindur og úrkoma gáruðu vatnið og skýin voru á fokstri. Þegar pollarnir urðu stórir runnu þeir út af malbikuðu undirlaginu niður í altumlykjandi gljúpt hraunið.

Reglulega varð vart við belging í jörðinni sem fæstir kipptu sér upp við. Hún þurfti jú stundum að fá að bylta sér eins og annað í náttúrunni. Þá hringlaði í skáphurðum og innréttingum. Vatnið gusaðist upp úr handlaugum. Þögn sló á malandi ketti. Börn héldu áfram boltaleikjunum. Kyrrstæðir bílar á vegamótum stukku útundan sér við undrun ökumannanna. Á kvöldin vaggaði hún íbúunum í svefn. Vakti þá stundum aftur með helst til harkalegum blíðuhótum. Samt var lífið á góðu blússi. Hún myndi ná sér niður eins og alltaf, konan sem bjó í iðrum jarðar og skvetti sér þegar vel lá á henni.

Einn daginn gekk konan af göflunum. Hún kom aldeilis óforvarendis upp á yfirborðið íklædd bosmamiklum rauðum síðkjól og bauð ófúsum upp í dans. Stytti pilsin og skellti sér í villtan dansinn. Hún hringsnérist svo rauður kjólinn og sítt hárið slengdist í kringum hana. Logandi gusurnar gengu af henni í allar áttir. Eitt andartak hægði hún á sér en svo ólmaðist hún aftur. Þungar spýjurnar féllu á jörðu niður og byltust þar um eins og úfið haf. Hvissandi hraunelfur rann sína leið í átt að staðnum þar sem jólaballið var um árið. Nú yrði erfitt að halda takti. Konan á roðagyllta kjólum hafði tekið yfir sviðið.

LYKKJAN

Hannyrðavöru verslun. S: 7852525

Hannyrðavöru verslun. S: 7852525 LYKKJAN

Hannyrðavöru verslun. S: 7852525 LYKKJAN

Hannyrðavöru verslun. S: 7852525

Kvennaráðgjöfin

Kvennaráðgjöfin var stofnuð af konum árið 1984 til að bæta aðgang

kvenna að endurgjaldslausri sérfræðiaðstoð og hefur starfað óslitið síðan. Kvennaráðgjöfin hefur í mörg ár verið með aðstöðu í

Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum.

Húsfreyjunni fannst tilvalið í upphafi Kvennaárs 2025 að vekja athygli á þeirri mikilvægu þjónustu sem Kvennaráðgjöfin veitir og ræddi að því tilefni við Þorbjörgu I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmann sem verið hefur sjálfboðaliði í Kvennaráðgjöfinni allt frá 1996, fyrst í almennri ráðgjöf. Hún hefur svo haldið utan um starfið þar í um 25 ár ásamt Margréti Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands og fleiri góðum konum.

Vatnsdælingur með brennandi áhuga á mannréttindum, lögfræði og hálendi Íslands.

Húsfreyjan byrjaði á því að forvitnast aðeins um Þorbjörgu.

Þorbjörg er Vatnsdælingur, fædd og uppalin á Snæringsstöðum í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu þar sem foreldrar hennar voru bændur og unnu auk þess í ýmsum aukastörfum eins og bændur þurftu að gera og þurfa enn. Hún segist því vera hreinræktuð sveitakona í grunninn. Þorbjörg lauk lögfræðinámi 1993 frá Háskóla Íslands, auk þess að taka hluta námsins í Háskólanum í Kaupmannahöfn. Hún lauk síðar námi í viðskipta- og rekstrarfræði. Þorbjörg er um þessar mundir í framhaldsnámi og rannsóknum í mannréttindum og lýðræði í Feneyjum. Hún segir að nám og lestur séu stór hluti af sér. „Ég hef verið með lögmannsstofu allt frá 1996, fyrst í Mosfellsbæ og síðan á Túngötunni, í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Störf mín hafa snúist um lögfræði í um 33 ár þar sem ég var byrjuð að vinna við hana fyrir útskrift svo það má segja að lögfræðin sé ekki síður áhugamál mitt. Þar fyrir utan hef ég helst áhuga á að

ferðast um landið okkar, ekki síst með að ganga á fjöll og fara í ferðir um hálendið.“

Stofnun Kvennaráðgjafarinnar Þorbjörg segir stofnun Kvennaráðgjafarinnar vera nátengda stofnun Kvennaathvarfsins og Stígamóta. „Fyrst þeirra var Kvennaathvarfið og á fyrstu árum þess kom í ljós mikil þörf þeirra kvenna sem þangað leituðu til að fá endurgjaldslausa lögfræði- og félagsráðgjöf. Þannig að frumkvæðið að stofnun Kvennaráðgjafarinnar kom í raun úr sama hópi og stóð að Kvennaathvarfinu. Síðar kom fram þessi mikla þörf á sérhæfðu úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og þá urðu Stígamót til þannig að þessi 3 félagasamtök hafa verið nátengd allt frá upphafi, áttu fyrst fulltrúa í stjórnum hvors annars og þó það sé ekki lengur þá eru tengslin á milli enn fyrir hendi og mikið samstarf á milli þessara félaga og annarra samtaka sem vinna að málefnum kvenna, ekki síst brotaþola“

„Kvennaráðgjöfin var lengi vel í Hlað-

varpanum, húsi á Vesturgötu 3 sem var í eigu kvennasamtakanna Hlaðvarpans og naut Kvennaráðgjöfin stuðnings frá þeim samtökum lengi vel. En vegna breytinga þar og vegna þess að þörf var á betra aðgengi fyrir konur sem komu til okkar var Kvennaráðgjöfin færð á Túngötu 14, í Kvennaheimilið Hallveigarstaði á árinu 1999. Kvennaráðgjöfin hefur síðan notið stuðnings Hallveigarstaða, eigenda hússins, í formi mjög sanngjarnra leigugreiðslna og var það ákvörðun hússtjórnar um leið og Kvennaráðgjöfin flutti þar inn. Enda var Kvennaráðgjöfin talin eiga vel heima þar í Kvennaheimilinu hjá þeim félagasamtökum sem eiga húsið, Kvenfélagasambandinu, Kvenréttindafélaginu og Bandalagi kvenna í Reykjavík, allt félög sem vinna líka að málefnum kvenna með einum og öðrum hætti.“

Megintilgangur Kvennaráðgjafarinnar er að veita konum og öðrum sem standa höllum fæti ráðgjöf sem þau geta ekki greitt fyrir. Kvennaráðgjöfin opin öllum konum (og körlum). Þjónustan er endurgjaldlaus og þurfa þeir sem þangað leita ráðgjafar ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar.

Þorbjörg segir aðalverkefni Kvennaráðgjafarinnar vera ráðgjöf á staðnum, í símtölum og með rafrænum samskiptum og segir að sumar konur hafi verið að koma til þeirra í áratugi. „En Kvennaráðgjöfin er ekki síður með ráðgjöf fyrir karla, þar er engum vísað frá og eru allir velkomnir þó stærsti hlutinn sé konur. Kvennaráðgjöfin kom líka að stofnun móttökumiðstöðva fyrir þolendur ofbeldis, það er Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri, Sigurhæðir á

Selfossi og Suðurhlíð í Reykjanesbæ og hef ég verið í stjórnum miðstöðvanna bæði fyrir norðan og hér í Reykjavík fyrir Kvennaráðgjöfina. Þá tekur Kvennaráðgjöfin þátt í samstarfi á vegum kvennahreyfingarinnar, eins og kvennafrídeginum sem er mjög mikilvægt í okkar starfi.“

Kvennaráðgjöfin tekur við mörgun tilvísunum frá Kvennaathvarfi og Stígamótum. „Þá er gjarnan vísað til okkar konum frá móttökumiðstöðvum fyrir brotaþola, einkum Bjarkarhlíð, prestum og félagsþjónustum sveitarfélaga þar sem það er þekkt að ráðgjöfin hjá okkur er endurgjaldslaus.“

Helstu málaflokkar

Þorbjörg segir að oftast leiti konur til þeirra vegna hjónaskilnaða, slita á óvígðri sambúð, sambúðarerfiðleika, meðlagsmála, umgengnisréttarmála, forsjárdeilna, barnaverndarmála, fjárhagserfiðleika, erfðamála, vanlíðunar og ofbeldis.

„Stærstu málaflokkarnir hjá okkur eru skilnaðarmál, bæði hvað varðar eignaskipti og forsjá barna og svo líka sakamál, en í þeim málaflokki leita til okkar bæði brotaþolar og aðilar sem sæta rannsókn og jafnvel ákæru til að fá upplýsingar.

En það eru í raun allar tegundir mála sem koma til okkar ef við lítum fyrst til lögfræðiráðgjafarinnar hjá okkur, auk þessara þá fáum mikið af fyrirspurnum um fasteignamál, skaðabótamál og svo síðustu 5 árin eða svo dvalarleyfismál og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ég hef sjálf fengið á þessum áratugum, sem ég hef verið hjá Kvennaráðgjöfinni, mál í raun um allt sem mögulegt er að nefna á sviði lögfræðinnar og líka meira að segja fyrirspurn um uppskrift að kransaköku, en þar gat ég lítið hjálpað. Hvað varðar félagsráðgjafarhlutann hjá okkur þá eru þetta í mörgun tilvikum stuðningsviðtöl hjá okkur, að styrkja þau sem leita til okkar til að standa á eigin kröfum, að trúa á sjálfan sig og eigin vilja og svo að leiðbeina fólki innan kerfisins svokallaða, bæði hjá sveitarfélögunum og ríkisstofnunum.“

Þorbjörg bætir við að helst sé verið að óska eftir upplýsingum um hvert eigi að leita, hvaða stofnun eða aðili geti komið til aðstoðar eða málið heyrir undir sem verið er að takast á við. Líka beinar

2025

spurningar um rétt viðkomandi, hvernig lögin eru og hversu líklegt er að ná því fram sem fólk vill gera kröfu um og þá ekki síst kostnað af málaferlum, sem skiptir miklu máli i ákvarðanatöku um hvort fara eigi af stað með mál eða ekki. „Okkar leiðbeiningar eru einkum tvenns konar, annars vegar að fara yfir viðkomandi löggjöf eða reglur sem geta gefið vísbendingu um lagalega stöðu viðkomandi og hins vegar að gefa leiðbeiningar um hvert er hægt að leita, hvaða bið geti verið eftir aðstoð í þeim úrræðum sem eru fyrir hendi og annað slíkt. Oft hefur fólk þegar þessar upplýsingar en er að leita eftir staðfestingu á að mál þeirra séu í réttum farvegi eða vill bara koma og ræða málin, enda er alltaf erfitt að standa í því að sækja rétt sinn eða leitast eftir aðstoð.“

Er eitthvað í þessum málum sem er sérstaklega óskýrt í kerfinu og þyrfti jafnvel að einfalda í löggjöf eða í ferli í gegnum kerfið?

„Það sem hefur helst komið fram í okkar vinnu í Kvennaráðgjöfinni núna í áratug eða svo er hvað erfitt er fyrir fólk að fá úrlausn í ágreiningi um forsjá og annað sem varðar börnin þeirra. Ef fólk slítur sambandi eða skilur, eða jafnvel lendir í ágreiningi um daglegt líf barna sinna seinna meir, þá er regluverkið um þau mál allt of flókið og óaðgengilegt auk þess sem aðgangur fólks að dómstólum er svo hindraður í þessum málaflokki að það er á mörkum þess að fela í sér brot gegn 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um aðgang allra að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Staðan í þessum málaflokki er þannig í dag að ef fólk nær ekki samkomulagi um forsjá eða lögheimili barna sinna þá þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómi en foreldrar mega ekki fara með málið beint þangað heldur þurfa fyrst að leita til sýslumanns, sem reynir að jafna ágreininginn og vísar svo málinu í sáttameðferð. Sáttameðferðin er lögbundin og foreldrum er bannað að leita til dómstóla, sem eru eini aðilinn sem getur skorið úr um deilu af þessu tagi.Bið eftir sáttameðferð á höfuðborgarsvæðinu er núna um hálft ár og sáttameðferðin sem slík getur tekið nokkra mánuði til viðbótar. Þannig að frá því að foreldrar leita til sýslumanns og þar til sáttameðferðinni er lokið þá líður alla jafna eitt

ár, en það getur verið eitthvað styttra utan höfuðborgarsvæðisins. Eftir það er fyrst hægt að fara með málið fyrir dóm og fá niðurstöðu um þessa deilu. Meðferð málanna fyrir dómi tekur alla jafna styttri tíma en í sáttameðferð, en samt almennt 6-12 mánuði. Hluti af þeirri málsmeðferð er, að nauðsynlegt er að fá matsgerð frá dómkvöddum matsmanni, sem er mjög kostnaðarsamt þar sem þær kosta alla jafna 1,5-3 milljónir. Allan þann tíma sem þessi mál eru til meðferðar þá heldur deila foreldra áfram, átök geta verið sem varða umgengni og aðra mikilvæga hagsmuni barnsins, sem koma ávallt mest niður á barninu sjálfu, þannig að ljóst er að þessi málsmeðferð þjónar hvorki hagsmunum barna né foreldra. Við fáum miklar kvartanir vegna þessa enda er erfitt fyrir fólk að vera í lausu lofti um svona mikilvæga hagsmuni oft í nærfellt tvö ár, t.d. frá 7 til 9 ára aldurs viðkomandi barns.“

Þorbjörg segir að Kvennaráðgjöfin fái oft kvartanir vegna málsmeðferðartíma í sakamálum þar sem hvorki þau, sem hafa orðið fyrir brotum né þau sem sæta rannsókn eða hafa stöðu grunaðs eru sátt við hvað þessi mál taka langan tíma, oft 2-3 ár frá því að rannsókn er hafin og þangað til gefin er út ákæra eða mál fellt niður. Biðin og óvissan hefur mjög slæm áhrif á þessa einstaklinga. Meðferð þessara mála tekur þó almennt ekki langan tíma fyrir dómi, a.m.k. ekki hjá héraðsdómstólunum en það er mun lengra fyrir Landsrétti.

Hún segir einnig að það sé stígandi og samfelld aukning á því síðustu ár að fólk kvarti undan bið og löngum málsmeðferðartíma innan opinbera þjónustukerfisins, svo sem eftir úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, afgreiðslu félagslegrar framfærslu og atvinnuleysisbóta, bið eftir plássi eða læknismeðferð á sjúkrastofnunum og jafnvel í afplánun refsinga.

Undanfarið hefur það aukist að karlmenn leiti einnig eftir ráðgjöf og þrátt fyrir að Kvennaráðgjöfin sé ætluð konum þá er engum vísað frá sem þangað leitar. Þorbjörg segir að karlmenn leiti til þeirra að mestu vegna sömu málaflokka og konur.

Sjálfboðaliðar sinna ráðgjöfinni Í Kvennaráðgjöfinni eru í sjálfboðaliðavinnu um 25 félagsráðgjafar og lögfræð-

ingar, þ. á m. nemar á lokaárum í þessum greinum. „Kvennaráðgjöfin er opin sjálfboðaliðum í þeim fögum sem við vinnum með þ.e. lögfræði og félagsráðgjöf. Það er mögulegt að bjóða sig fram í það á heimasíðu Kvennaráðgjafarinnar en annars með að hafa samand beint við okkur. Sjálfboðaliðar byrja yfirleitt á því að hitta einhverja sem er vön úr starfinu og gefur helstu upplýsingar og svo eru vanar konur í öllum hópum hjá okkur sem sjálfboðaliðar bætast inn í.“

Aðsóknin að Kvennaráðgjöfinni hefur frá upphafi verið mikil, hægt er að mæta beint, þarf ekki að panta tíma. Opn-

KVENNASÖGUSAFN

unartímar eru þriðjudaga frá kl. 20-22 og fimmtudaga frá kl. 14-16 og utan þess tíma er líka hægt að senda fyrirspurnir í tölvupósti eða á facebook.

Þorbjörg segir að síðustu ár hafi aðsóknin minnkað aðeins en ástæður þess megi þó ekki rekja til minnkandi þarfar heldur þess að síðustu ár hefur Kvennaráðgjöfin ekki haft neina fjármuni aflögu til að auglýsa þjónustuna. Því er hætta á að margar konur sem þurfa á ráðgjöf að halda viti hreinlega ekki af tilvist Kvennaráðgjafarinnar.

Þorbjörg segir ánægjulegt að minnast þess hvað starf Kvennaráðgjafarinnar

hefur allt frá upphafi verið stutt af öðrum kvennasamtökum, eins og fyrst af Kvennaathvarfinu og síðan Stígamótum og síðan Hlaðvarpanum og Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum vegna húsnæðis fyrir starfsemina. Auk þess hafa bæði einstaka kvenfélög, Soroptimistasamband Íslands og aðildarfélög sambandsins styrkt starf Kvennaráðgjafarinnar og ítrekað leyst bráðan fjárhagsvanda ráðgjafarinnar.

Þeir sem vilja styðja við starf Kvennaráðgjafarinnar geta lagt inn á reikning þeirra nr. 0526-26-481689, kennitala: 471085-0499.

Kvennasögusafnið fagnar hálfrar aldar

afmæli

Að flétta raddir kvenna

inn í þjóðarsöguna

Kvennasögusafn Íslands var stofnað fyrir 50 árum, þann 1. janúar 1975, á fyrsta degi kvennaárs Sameinuðu þjóðanna. Við það spratt árið af stað hér á landi, sem átti eftir að vera afdrifaríkt með kvennaráðstefnum og verkfallsaðgerðum. Safnið var stofnað af þremur konum í heimahúsi, á fjórðu hæð í blokk í Vesturbænum.

Þarátti Anna Sigurðardóttir (1908–1996) heima en hún hafði í áratugi safnað heimildum um sögu íslenskra kvenna þar sem hún skrifaði eina og eina setningu sem hún fann um konur í sögubókum, safnaði saman og geymdi í hinum ýmsu kössum, þar á meðal konfektkössum. Þá hafði hún safnað kvennablöðum og -bókmenntum. Þessi söfnun Önnu varð grunnurinn að stofni Kvennasögusafns. Hinar tvær konurnar

sem settu safnið á fót með henni voru bókasafnsfræðingarnir Else Mia Einarsdóttir (1927-2016) og Svanlaug Baldursdóttur (f. 1940).

Hugmyndin að stofnun sérstaks kvennasögusafns hafði blundað í íslenskum konum í einhvern tíma. Árið 1968 hélt Karen Westmann Berg, dósent við háskólann í Uppsölum fyrirlestur á Þingvöllum, á 12. fundi Samtaka norrænna kvenréttindafélaga og sagði

meðal annars frá Kvennasögusafninu í Gautaborg sem hafði verið stofnað árið 1958. Anna hlýddi á fyrirlesturinn sem hafði djúpstæð áhrif á hana og þegar framkvæmdastjóri alþjóða kvennaárs Sameinuðu þjóðanna, hin finnska Helvi Sipilä lagði til, á ráðstefnu í Gautaborg um kvennasögusöfn á Norðurlöndunum árið 1974, að slíkum söfnum yrði komið upp í aðildarríkjum þess, þurftu þær ekki frekari hvatningu. Þær þrjár, Anna, Else

Björg Einarsdóttir afhendir Önnu Sigurðardóttur gögn Framkvæmdanefndar um kvennafrí á Hótel Sögu í mars 1976.

Mia og Svanlaug, lögðu á ráðin og fóru að safna stuðningi. Meðal þeirra sem studdu uppátækið var Kvenfélagasamband Íslands sem fjallaði um kvennaárið sem var í vændum í Húsfreyjunni árið 1974.

Anna Sigurðardóttir veitti safninu forstöðu í 20 ár á heimili sínu á Hjarðarhaga 26. Litlu munaði að frá glugganum hennar mætti sjá á melana þar sem verið var að undirbúa byggingu Þjóðarbókhlöðunnar sem átti að hýsa sameinað Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Það var markmið forsprakka Kvennasögusafns að safnið þeirra kæmist þangað til húsa í öruggt skjól og í 5. grein reglugerðar þess sagði „Kvennasögusafn Íslands sem slíkt má aldrei leggja niður. Verði safninu, að mati stofnenda eða arftaka þeirra í starfi, tryggð framtíðarvist og starfsskilyrði á vegum Þjóðarbókhlöðu eða annars ríkisbókasafns eða skjalasafns, má fella safnið inn í það safn sem sérdeild með sínu sérheiti.“

Það var ekki hlaupið að því að fá inni í nýju Þjóðarbókhlöðunni. Það sýna þau fjölmörgu bréf sem Anna sendi til fjárveitinganefndar Alþingis, ráðherra, landsbókavarðar og fleiri valdaaðila. Í einu bréfinu sem Anna skrifaði til þáverandi menntamálaráðherra þann 20. mars 1987 skrifaði Anna: „Þjóðarbókhlaðan er fyrir alla íslensku þjóðina. Konur eru helmingur íslensku þjóðarinnar. Saga íslenskra kvenna hefur verið

Vigdís Finnbogadóttir í heimsókn á Kvennasögusafni 2. júní 1981. Með henni á myndinni eru Gerður Steinþórsdóttir og Sigríður H. Jónsdóttir sem afhentu úrklippubækur um framboð Vigdísar, sem var tilefni heimsóknarinnar.

Vigdís Finnbogadóttir og Anna Sigurðardóttir, á Kvennasögusafni 2. júní 1981.

vanrækt og falin með furðulegum hætti.“ Á sama tíma var Áhugahópur um varðveislu og framgang Kvennasögusafns Íslands stofnaður. Í honum voru fulltrúar frá Áhugahópi um íslenskar kvennarannsóknir, Bókavarðafélagi Íslands, Félagi bókasafnsfræðinga, Félagi bókavarða í rannsóknabókasöfnum, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og svo fulltrúi Önnu Sigurðardóttur. Samtaka varð sannfæringarkrafturinn nógu mikill og árið 1991 var ljóst að Kvennasögusafn fengi inni í Þjóðarbókhlöðu. Þegar bókhlaðan opnaði loks dyr sínar í lok árs 1994 lágu

samningar fyrir og herbergi var frátekið á 4. hæð þess.

Kvennasögusafn opnaði þar formlega á afmælisdegi Önnu þann 5. desember 1996, sem þá var nýlátin. Þar starfar safnið enn, undir sama heiti. Þar er safnað skjölum einstaklinga og félagasamtaka kvenna og, ekki síður, upplýsingum miðlað um þátt kvenna í Íslandssögunni. Það er nauðsynlegt að söfnun á skjölum kvenna haldi áfram þar sem þau eru mun færri en skjöl karla á skjalasöfnum landsins og því erfiðara að flétta raddir kvenna við þjóðarsöguna. Ákall Kvennasögusafns til þjóðarinnar er því að þau ykkar sem eigið sendibréf, dagbækur, handskrifaðar matreiðslubækur, ræður, útvarpserindi, heimilisbókhald eða hvers konar skjöl frá konum komið með þau til framtíðarvarðveislu á safnið.

Eins og Anna sagði í ræðu sem hún hélt í aðdraganda stofnunar safnsins: „Framtíð safnsins byggist að verulegu leyti á skilningi kvenna á því hversu mikilvægt það er að vernda frá glötun ýmis konar heimildir um líf kvenna og störf þeirra á liðnum tíma. Margir eiga í fórum sínum bréf, handrit og önnur gögn, sem mikil saga getur falist í, saga um starf ömmu og jafnvel langömmu. Og svo verður maður að vera einnig minnugur þess, að það sem er að gerast á líðandi stund, verður saga fyrr en varir.“

Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri - Kvennasögusafns

Verðlaunakrossgáta

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan URÐA BORÐBÚNAÐ FLJÓTIN KVAÐ UMBOÐSSVÆÐI

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan TÓNLISTARSTEFNA EIGINLEIKA UNGHROSSIN DURTINNBYLTA

SKEMMD Á SJÓNU NAFNI KONU SIGLDUM BREYTTUM SUNDURLEITT 1 STÖK MÚSÍK

SKRIÐGAT Á GEYMI ÁLEIÐIS 2 DEILDU KOMIST

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan ANDVIRÐITARFANA SJÓMERKI OTA FRAM LAGA TIL NAUMUR GEFA HÖGG

NÖLDRINU BRJÓSTNÆLANNA MANNSNAFN GRUNAÐI

ESKJU FAG 6 ELGUR SNJÁÐRA PÍPUKERFI DREIFIR 5

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan LEIFARNAR TAUGAERTINGAR

FYRIRMYND SKUGGSJÁ

SEINNI SLÁTTUR GILDRA SKRIFAST 7 ÞÝTT VÖSK SÚÐARÞAK

BRÁÐLYNDRI TRUFLI ANGAR SÝNISHORN

VEISLA ALDIN NAFN KONU BIK KIRTILL

FYRSTA TÓNVERK 8 Á LITINN LEM MANNSNAFN NÁMU STAÐAR

UMFANGI 9

FARNAR Á FÆTUR

SPENNUMÆLI EKKI

LAND AÐ LÁNI

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan MÆNA DVERGHÖGU 10

Lausnarorð berist útgefanda fyrir 10. apríl nk. merkt KROSSGÁTA Verðlaun: Í umsjá Guðs frá Sæmundi. Markmið bókarinnar er að vera til leiðsagnar öllum þeim sem leita andlegs þroska og vilja bæta vitundarsamband sitt við æðri mátt í daglegu lífi. Höfundar: Karen Casey og Homer Pyle. Þýðandi: Ingi Þór Kormáksson. Brimurð frá Sæmundi. Ljóðabók. Ástvinamissir er ávallt sár, hvort heldur sá sem hverfur til annarrar víddar hefur tvo fætur eða fjóra. En ástin deyr ekki, hún nær yfir allar víddir, því að elska er að lifa. Höfundur: Draumey Aradóttir. Spegill íslenskrar fyndni frá Sæmundi. Fræðileg úttekt Þórunnar á ritinu Íslensk fyndni er heilt yfir drepfyndin greining á meintum gamanmálum og stórmerkileg rannsókn á íslenskri menningu. Höfundur: Þórunn Valdimarsdóttir. Lausnarorð í 4. tbl: Óskalag. Vinningshafar: G. Lilja Hannibalsdóttir, Reykjavík fær; Átthagafræði frá Sæmundi. Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, Akureyri fær; Súkkulaðileikur frá Sæmundi. Kristbjörg Álfhildar Sigurðardóttir, Akureyri fær; Guðrún - Ættarsaga frá Vestfjörðum frá Sæmundi. Verðlaun hafa verið send til vinningshafa.

Gjafir afhentar til HSU

Íjanúar síðastliðnum fór fram formleg afhending á tveimur gjöfum sem Samband sunnlenskra kvenna gaf til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Árnes- og Rangárvallasýslum á árinu 2024. Annars vegar var þetta gjöf til heilsugæslunnar á Selfossi, lífsstílsmótttöku, en þangað var gefið tækið Tanita Body Composition Analyzer sem mælir líkamssamsetningu. Verð þessa tækis var 1.206.465 krónur. Tækið nýtist til meðferðar þeirra sem eru yfir kjörþyngd, t.d. barna og ungmenna, fólks með sykursýki og fyrir fullorðið fólk á heilsugæslunni sem nýtir sér heilsueflandi móttöku vegna offitu og ýmissa tengdra sjúkdóma. Samskonar tæki var svo gefið til heilsugæslnanna í Rangárþingi á haustmánuðum og kostaði það 1.281.870 krónur. Alls gaf því Sambands sunnlenskra kvenna Heilbrigðisstofnun Suðurlands gjafir fyrir 2.488.335 krónur á árinu 2024. Það að tækin séu komin á heilsugæslurnar í báðum sýslum, þýðir að þjónustan er komin til fólksins sem þarf þá ekki að ferðast um langan veg.

Samband sunnlenskra kvenna fjármagnar styrki sína með sölu fallegra gjafakorta. Kortin eru til sölu á heilsugæslustöðvunum í Árnes- og Rangárvallasýslum auk þess sem félagskonur í kvenfélögunum 25 sem eru í SSK hjálpast að við að selja kortin. Kortin eru seld 4 saman á 2.500 krónur.

Sjúkrahússjóður Sambands sunnlenskra kvenna var stofnaður árið 1952, þegar byrjað var að safna fyrir sjúkrahúsi með framlögum frá kvenfélögunum. Frá 1968 hefur fjár verið aflað með fjáröflunum og var byrjað að selja jólakort það ár sem hafa svo þróast yfir í gjafakort á síðustu árum. Gjafirnar nú eru framlag þeirra 870 félagskvenna í kvenfélögunum í Árnes- og Rangárvallasýslum til heilbrigðismála í umdæminu þeirra og vonast þær til að þessar gjafir nýtist vel og þakka þær af alhug öllum sem hafa veitt þessu verkefni stuðning.

Þau sem vilja aðstoða við sölu á kortunum geta haft samband við stjórnarkonur í SSK eða við Sólveigu Þórðardóttur formann SSK í síma 869 6534 eða á email ssk@kvenfelag.is.

(F.v.) Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir ritari SSK, Sólveig Þórðardóttir formaður SSK, Arndís Fannberg hjúkrunarfræðingur hjá heilsugæslunum í Rangárþingi og Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunarstjóri á Selfossi. Ljósmynd: Aðsend.

Texti:
Gjafakort SSK. Ljósmynd: Silla Páls.

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.