
3 minute read
Starfsmannafélag Hitaveitu Suðurnesja hf
from Ársskýrsla 2008
STARFSMANNAFÉLAG HITAVEITU SUÐURNESJA
Á síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var 11 . apríl 2008 voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins og skiptu með sér verkum á eftirfarandi hátt:
Formaður: Víðir S . Jónsson Varaformaður: Guðmundur Þórðarson
Gjaldkeri: Sigrún Guðmundsdóttir Ritari: Þórhildur Eva Jónsdóttir Meðstjórnandi: Sjöfn Olgeirsdóttir
Varamenn sem jafnframt sitja alla stjórnarfundi: Margrét Guðleifsdóttir Viðar Ben Teitsson
Starf félagsins á síðasta ári var með hefðbundnu sniði . Félagið á og rekur sumarhús í Húsafelli og var það í stöðugri útleigu yfir orlofstímann og er vel notað yfir haust og vetrarmánuði . Ekki var farið í neinar stórkostlegar framkvæmdir né viðhald á húsinu á síðasta ári . Sjónvarpsmál voru lagfærð með nýju loftneti og magnara, lítillega málað og dyttað að húsinu innan sem utan . Eins og sagt var frá í síðustu ársskýrslu var íbúð, sem félagið hafði til afnota á Akureyri seld og sumarhús í Kjarnabyggð pantað í staðinn, nýtt hús um 80 m2 með heitum potti og öllum þægindum . Það verður leigt út frá 5 . júní nk .
Árshátíð var haldin á Grand Hóteli Reykjavík laugardaginn 1 . mars . Þátttaka var mjög góð og var hátíðin með hefðbundnu sniði, góður matur borinn á borð, heimatilbúin skemmtiatriði og dansað fram eftir nóttu . Þemað var „Mafían - bannárin“ og mættu langflestir árshátíðargestir í einhverju tengdu þessu tímabili sem setti skemmtilegan svip á hátíðina .
Félagið stóð fyrir þrifdögum innan fyrirtækisins þrjá laugardaga sl . vor . Var það hluti af því að fá fullan styrk vegna sumarferðarinnar . Tiltekt og þrif voru á öllum starfsstöðvum og voru ferðalangar duglegir við að mæta og taka til hendinni . Félagið grillaði ofan í mannskapinn í hádeginu á vinnudögum . Góð stemmning var og má segja að þetta sé upphafið af ferðalaginu, starfsmenn og makar koma saman með vatn í fötu og tusku, kynnast og allir hafa gaman af .
Sumarferðin var svo farin í tveimur hópum í september og áfangastaðurinn var Salou á Spáni . Fyrri ferðin var farin vikuna 5 . til 12 . september og sú síðari frá 19 . til 26 . september . Hægt var að framlengja um viku í báðum ferðum og voru nokkrir sem gerðu það . Ferðirnar gengu mjög vel og óhætt er að segja að fólk hafi verið ánægt og notað hana til afslöppunar og skemmtunar . Síðari hópurinn fékk þó að kynnast spánskri rigningu, þrumum og eldingum og var það lífsreynsla út af fyrir sig .
Fjölskyldudagur var haldinn laugardaginn 8 . nóvember og var vel mætt . Byrjað var á baði í Bláa Lóninu, þaðan haldið í Eldborg Svartsengi þar sem boðið var upp á létta hressingu . Síðan lá leiðin í Orkuverið Jörð í Reykjanesvirkjun þar sem forstjóri fyrirtækisins tók á móti fólki . Eftir skoðunarferð um sýninguna og virkjunina var haldið á Vallarheiði í leiktækja- og hjólaskautahús og skemmtu krakkarnir sérstaklega sér vel . Þar var boðið upp á pizzur og tilheyrandi og allir fóru glaðir heim síðla dags .
Farið var í leikhús í nóvember, að sjá Janis 27 í Íslensku Óperunni . Ekki var fjölmennt á þessa sýningu en þeir sem mættu nutu góðs söngs og leiks .
Jólahlaðborð var haldið í golfskálanum Leiru laugardaginn 6 . desember . Vel var mætt og þéttsetinn golfskálinn . Góður matur, smá skemmtun, happdrætti og fleira var nóg til að félagsmenn og makar fóru sáttir heim tilbúnir að halda áfram undirbúningi jólanna .
Heimasíða félagsins hefur verið til staðar og er nauðsynlegur liður í að tengja félagsmenn saman þar sem við erum nokkuð dreifð . Stjórn félagsins hefur verið í vandræðum með að finna aðila til að sjá um heimasíðuna og því hafa engar nýjungar komið þar inn í langan tíma, aðeins fréttir og myndir frá viðburðum félagsins .
Ég vil að lokum þakka félagsmönnum fyrir þátttöku þeirra í starfi félagsins . Ég er búinn að segja það oft og ætla bara að halda því áfram, starf félagins væri lítils virði ef enginn tæki þátt í því . Þá vil ég þakka stjórn og stjórnendum fyrir ómetanlegan skilning og stuðning við starf félagsins . Það er von mín, og okkar sem störfum að málefnum félagsins, að svo verði áfram þó svo að umhverfið hafi breyst .
Víðir S. Jónsson formaður.