
2 minute read
Öflugt kvennastarf í GB
Sterk hefð hefur verið fyrir kvennastarfi í GB sem leitt hefur verið af kvennanefnd sem kosin er á aðalfundi. Hlutverk nefndarinnar hefur verið að styrkja tengslanet kvenna innan klúbbsins með því að skipuleggja viðburði yfir sumartímann. Hlutur kvenna hefur aukist nokkuð á síðustu árum og voru 117 konur félagar í klúbbnum árið 2022 svo dæmi sé tekið.
Kvennanefndin hefur farið ýmsar leiðir í starfi sínu en þó hafa verið nokkrir fastapunktar. Dæmi um slíkt er 19. júní mótið sem hefur farið fram á Kvenréttindadaginn í áratugi og ætíð notið vinsælda. Nefndin hefur einnig staðið fyrir föstum rástímum fyrir konur í viku hverri sem oftar en ekki hafa byrjað með hópkennslu hjá golfkennara. Í sumarlok hafa GB konur tekið þátt í Vesturlandsmóti kvenna og keppt þar við kynsystur sína í öðrum klúbbum landshlutans. Nýjasti viðburðurinn er loks Dömumótaröðin sem hóf göngu sína 2018. Loks hafa GB konur sent keppnissveit á Íslandsmót golfklúbba og skipulagt dagsferðir á golfvelli á suðvesturhorninu.




F.v. Anna Ólafsdóttir, Annabella Albertsdóttir, Ása H. Halldórsdóttir, Steinunn Á. Guðmundsdóttir, Sveinbjörg Stefánsdóttir, Fjóla Pétursdóttir, Guðrún R. Kristjánsdóttir og Júlíana Jónsdóttir.