
3 minute read
Hamarsvöllur er einstakt svæði með mikil tækifæri
„Margt stendur upp úr þegar ég lít til baka. Stærsta er kannski hvernig starfsemin hefur umbreyst. Þegar ég byrjaði var klúbburinn í reynd eins og hefðbundinn sveitaklúbbur. Nú eru félagar yfir 300 og allt umfang í rekstri er eftir því,“ segir Jóhannes Ármannsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness. Jóhannes hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin 16 ár en hann tók við stöðunni sama ár og völlurinn varð 18 holur.
Fjölskylduvænn völlur
„Ég verð líka að segja að það hefur skipt máli að samheldnin í klúbbnum hefur verið góð. Félagar vilja klúbbnum vel og margir eru tilbúnir að starfa og leggja uppbyggingunni lið. Mér finnst það dýrmætt og er ekki sjálfgefið í dag,“ bætir Jóhannes við. „Öflugt starf einkennir félagið, hjá báðum kynjum. Dæmi um þetta er að innanfélagsmót eru afar vel sótt. Klúbburinn hefur einnig þróað samstarf sitt við aðra hópa, t.d. eldri borgara í Borgarbyggð, en Hamarsvöllur er orðinn þeirra heimasvæði í púttinu.“
Jóhannes segir Hamarsvöll dýrmætt svæði fyrir héraðið og sveitarfélagið, er vel í sveit sett við þjóðveg eitt með fyrsta flokks aðstöðu. „Félagar unnu grettistak við að búa til golfvöll á Hamri á upphafsárum klúbbsins. Þá var grunnurinn lagður fyrir uppbygginguna á þessari öld. Hamarsvöllur er í reynd fjölskylduvænn völlur sem hæfir öllum getustigum, er bæði keppnisvöllur og vettvangur fyrir fjölskylduna að eiga gæðastund saman. Sérstaðan er líka í því að völlurinn er í raun eini skógarvöllurinn á Íslandi, með vötnum og tjörnum í bland,“ segir Jóhannes og nefnir að mótun vallarins hefur fylgt svokölluðu „Parkland“ skipulagi. „Þess utan skiptir miklu farsælt samstarf klúbbsins við Hótel Hamar. Aðstaðan og þjónustan sem þar eru boðið upp á er fyrsta flokks og þannig vilja gestir vallarins hafa það.“
Viljum að gestum líði vel „Sterk áhersla er á snyrtimennsku á vellinum og skiptir máli að öll svæði séu vel hirt. Við viljum að trén og stígar séu snyrt og falleg blómabeð lyfti andanum. Allt þetta miðar að því að gestum vallarins líði vel á Hamarsvelli og fari heim með góðar minningar,“ segir Jóhannes og bætir við að metnaður í hirðingu vallarins smitar út frá sér. „Samstarfsaðilar okkar sjá mikil tækifæri í því að vinna með okkur og tengja vörumerki sín við GB og Hamarsvöll vegna þessa. Því er lykill að við sínum vellinum alúð og virðingu í hirðingu hans og rekstri.“
Gefandi að sjá fólk njóta sín
Á þeim sextán árum sem Jóhannes hefur stýrt klúbbnum hafa fjölmargir starfsmenn starfað fyrir hann við hirðingu vallarins og ýmis önnur störf. „Þetta hefði ekki verið hægt án þessa fólks sem hefur unnið mikla vinnu. Mér finnst gaman að rifja upp hverjir hafa verið með okkur í vegferðinni og það er ánægjulegt að hitta fyrrum starfsmenn aftur á síðari árum. Það gefur líka mikið að sjá fólk blómstra hér í starfi á vellinum sem hefur kannski ekki náð að njóta sín annars staðar. Þetta skiptir mig og klúbbinn mjög miklu máli,“ segir Jóhannes.
Spennandi þróun framundan
Hann segir framtíð klúbbsins og Hamarsvallar bjarta og séu fjölmörg tækifæri til uppbyggingar. „Hamarsvöllur er einstakt svæði sem býr yfir miklum tækifærum hvort sem horft er til lýðheilsu, heilsuræktar, umhverfismála og ferðaþjónustu, svo ekki sé minnst á sjálfa golfíþróttina. Það eru margir tilbúnir að taka þátt í þeirri uppbyggingu og verður spennandi að sjá þróunina á næstu misserum,“ segir Jóhannes. „Persónulega er ég þó mjög stoltur af mínu starfi á vellinum og stöðu hans í dag,“ segir hann að lokum.
