3 minute read

Hamarsvöllur er orðinn að golfparadís

Hamarsvöllur er orðinn að golfparadís

Starfsemin hefur þróast í takt við breyttar áherslur á nýrri öld

Starfsemi GB frá aldamótum hefur einkennst af áframhaldandi vexti. Án vafa var eftirminnilegasta framkvæmdin stækkun Hamarsvallar í 18 holur. Framkvæmdir stóðu yfir að mestu á árunum 2003-2006 en 18 holu Hamarsvöllur var loks formlega vígður 1. júlí 2007. Nánar er hægt að lesa um gang framkvæmda í viðtali við Símon Pál Aðalsteinsson fyrrverandi framkvæmdastjóra GB á bls. 12-13, en Símon var allt í öllu í þeim.

Við breytinguna breyttist mjög mikið í rekstri klúbbsins. Með stærri velli þurfti meira af öllu sem þurfti til að reka völlinn: starfsfólk, vélar og búnað og allan efnivið til að gera völlinn eins glæsilegan og hægt er, svo ekki sé minnst á aukna aðsókn og svo fleiri klúbbfélaga.

Árið 2007 tók Jóhannes K. Ármansson við framkvæmdastjórastöðu klúbbsins og hefur sinnt því starfi síðan. Á herðum Jóhannesar (Jóa) hefur hvílt vallarstjórn, þróun vallarins og viðhald auk daglegs rekstrar í umboði stjórnar. Hamarsvöllur var vitanlega hrár fyrstu árin eftir stækkun en óhætt er að fullyrða að undir stjórn Jóa framkvæmdastjóra hafi Hamarsvöllur dafnað vel og unnið sér sérstakan sess meðal kylfinga á Íslandi.

Hamarsvöllur þykir afar vinsæll völlur. Horft frá 12. holu eða Karlshóli í átt Hamarsbænum.

Árið 2018 tók klúbburinn ákvörðun að ganga til samninga við Hótel Hamar um að flytja afgreiðslu og veitingasölu Hamarsvallar á hótelið. Nánar má lesa um hótelið á bls. 26 en það var opnað árið 2005 og var dýrmæt viðbót við Hamarsvöll. Í kjölfar samninga var röðun brauta breytt þannig að upphaf og endir golfspils yrði við hótelið. Meðal annarra markmiða var að einfalda aðgengi að vellinum og nýta aðstöðuna á hótelinu í takt við auknar kröfur gesta. Hamarsbærinn lauk því hlutverki sínu í reynd sem golfskáli og hafði þjónað þá í rúma fjóra áratugi. Breytingin hefur reynst happaskref fyrir alla golfstarfsemi á Hamarsvelli, bæði fyrir klúbbinn og hótelið, og mætt kröfum kylfinga um alla aðstöðu.

Á 50 ára afmælisárinu eru félagar í GB á fjórða hundrað talsins og hundruð kylfinga sækjast eftir því að spila völlinn á hverju ári. Hamarsvöllur er orðin sannkölluð golfparadís!

Veturinn 2013-2014 kom klúbburinn upp inniæfingaaðstöðu í gamla sláturhúsi KB í Brákarey í Borgarnesi. Aðstaðan fékk nafnið „Eyjan“ en þar voru nokkrir æfingabásar, golfhermir og innipútflött. Aðstaðan reyndist lyftistöng fyrir vetrarstarf klúbbsins. Hér má sjá keppendur í Áramótinu á Gamlársdag 2014.

Verðlaunahafar í Meistaramóti GB 2018 á veröndinni á Hótel Hamri, því fyrsta sem fram fór eftir að hótelið tók við hlutverki golfskála og röðun brauta var breytt.

Ingvi Árnason formaður GB og Sigurður Ólafsson eigandi Hótels Hamars undirrita samninga vegna breytinganna 2018.

This article is from: