4 minute read

Golfklúbbur Borgarness 50 ára

Það er mikill áfangi fyrir félag eins og Golfklúbb Borgarness að hafa lifað og dafnað í hálfa öld. Þegar saga klúbbsins er skoðuð má segja að helsta gæfa okkar var að tryggja land undir golfvöll sem hafði möguleika á að stækka. Hamar var land í eigu Borgarneshrepps þegar hugmyndir kviknuðu um að stofna golfklúbb upp úr

Ingvi Árnason formaður GB.

1970. Um áratuga skeið hafði landinu verið úthlutað til hreppsbúa sem vildu halda búfénað og nýta Hamarstúnin til heyskapar. Það var loks haustið 1972 sem hreppurinn samþykkti að fyrirhugaður golfklúbbur fengi land undir golfvöll á Hamri og í kjölfarið var Golfklúbbur Borgarness formlega stofnaður af 13 félögum 21. janúar 1973.

Fyrsta sumarið var golf leikið á 3 holum og síðan var stækkað í 6 holur árið 1974. Sama ár lögð fram tillaga að 9 holu velli sem loks var tekin í notkun 1975.

Á þessum tíma var mikill áhugi og kapp í mönnum og allt unnið sjálfboðavinnu. Harðsnúinn kjarni félaga sem ekki voru nema 10-15 manns gengu í öll verk, urðu sér úti um vélar og tæki fyrir lítið til að móta völlinn. Þegar kom að því að spila golf var fyrsta verkið að slá flatirnar fyrir hádegi og svo var sett á mót eftir hádegi.

Trjárækt var snemma kappsmál á Hamarsvelli. Í tilefni af Ári trésins árið 1980 var um 6000 trjám plantað á vellinum. Framtakið var grunnurinn að áfram- haldandi trjárækt sem margir aðilar, bæði félagar GB og styrktaraðilar hafa komið að síðan. Hamarsvöllur var og er fyrir vikið einn af betri „skógarvöllum“ landsins.

Félagar í GB voru framsýnir og var golfíþróttin í vexti á Íslandi þegar leið á síðustu öld. Árið 1987 sendi stjórn GB sveitarfélaginu bréf um endurskoðun á aðalskipulagi Hamarssvæðisins til að festa land fyrir stækkun vallarins í 18 holur. Það gekk eftir og var það svæði á endanum nýtt þegar stækkun hans hófst eftir aldamót. 18 holu Hamarsvöllur var loks formlega vígður 1. júlí 2007.

Stækkun Hamarsvallar hafði einnig jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu með byggingu Hótels Hamars sem var opnað árið 2005. Hótelið er eina golfhótel landsins og hefur gríðarlegt aðdráttarafl. Hefur reynslan kennt að Hótel Hamar og Hamarsvöllur fara vel saman og styður starfsemin hvort annað.

Að lokum vil ég þakka öllum sem hafa komið að starfi klúbbsins þessi 50 ár fyrir þeirra óeigingjarna framlag til uppbyggingar og ekki síst núverandi starfsfólki sem vinnur nótt við dag við að hafa völlinn í toppstandi. Jóhannes Ármansson framkvæmdastjóri sér um og stýrir allri vinnu við vallarhirðu og rekstur klúbbsins og þá hefur Guðríður Ebba Pálsdóttir unnið þýðingarmikla vinnu við hirðingu trjáa og blóma á vellinum. Einnig má nefna Þórhall Teitsson sem sér um að verja vallarsvæðið fyrir lúpínu og skógarkerfli.

Til hamingju með afmælið GB! Ingvi Árnason

Horft yfir 6. holu (Leynir) til norðurs. Bærinn Brautarholt er handan vegar.
This article is from: