+35 á Þorláksvelli
– markmiðið að gera Íslandsmótið það glæsilegasta sem um getur Undirbúningur er hafinn vegna Íslandsmóts 35 ára og eldri sem fram fer í Þorlákshöfn dagana 16., 17. og 18. júlí. Verið er að lagfæra eitt og annað á vellinum og gera hann þannig að hann verði sem allra bestur þegar mótið fer fram. Völlurinn kemur ágætlega undan vetri og flatirnar virðast ætla að verða eins góðar og undanfarin ár.
Guðmundur Karl Baldursson, formaður Golfklúbbs Þorlákshafnar segir fjölda félags manna þurfa að koma bæði að skipulagningu og eins að mótinu sjálfu. Stefnt verður að því að gera mótið eitt það glæsilegasta sem um getur í þessum aldursflokki. Mót undanfarinna ára hafi verið misvel sótt og vissulega spili veðrið talsverða rullu í þessu sambandi. Það væri gott ef veðurguðirnir yrðu í góðu skapi þessa daga. Aðspurður sagði Guðmundur Karl vonast til að mótið verði vel sótt, en keppt er í fimm flokkum karla og tveimur flokkum kvenna. „Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum og við vonumst til að fá til okkar stóran hóp í hverjum flokki og að
152
GOLF.IS - Golf á Íslandi +35 á Þorláksvelli
keppni verði jöfn. Mót sem þetta er tilvalið fyrir hjón og pör og barnafólk velkomið þar sem ætlunin er að bjóða börnunum upp á einhverja afþreyingu á meðan foreldrarnir eru í golfi.“ „Golfklúbbur Þorlákshafnar er ekki stór klúbbur og því töluverð vinna að halda úti góðum 18 holna golfvelli á landsbyggðinni með fáa félagsmenn, en það sem bjargar okkur helst er mikill fjöldi aðþrengdra höfuðborgarbúa sem kemur hingað austur til að spila. Margir höfuðborgarbúar eru meðlimir í klúbbnum og sérstaklega höfum við fengið góð viðbrögð við nýliðagjaldinu okkar sem er samtals 45 þúsund krónur fyrir tvö sumur, þ.e.a.s. fyrra árið greiða nýliðar
21 þúsund krónur og seinna árið 25 þúsund krónur. Árgjald í golfklúbbi gerist ekki lægra en þetta,“ segir Guðmundur Karl. „Við erum í viðræðum við nokkra aðila sem við vonumst til að verði með okkur í þessu móti. Þetta eru fyrirtæki og stofnanir sem mögulega hafa hag af að tengjast þessu golfmóti. Það kemur allt í ljós von bráðar, en á meðan höldum við ótrauð áfram við skipulagninguna,“ segir Guðmundur Karl að lokum. Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR og Tryggvi Valtýr Traustason úr GSE fögnuðu sigri á mótinu í fyrra sem fram fór í Vestmannaeyjum. Í Eyjum var veðrið í aðalhlutverki alla þrjá keppnisdagana en mikil þoka og úrkoma setti mótshaldið úr skorðum. Upphaflega átti mótið 2014 að vera sameiginlegt verkefni hjá Golfklúbbi Ísafjarðar og Golfklúbbi Bolungarvíkur en vegna vallaraðstæðna var ákveðið að færa mótið með frekar skömmum fyrirvara. Alls hófu 96 kylfingar keppni í Eyjum sem er töluvert meiri aðsókn en árið 2013 þegar mótið fór fram á Hellishólum og 64 kylfingar tóku þátt. Þetta er í fjórða sinn sem Tryggvi fagnar þessum titli svo best sé vitað, (2001, 2005, 2011 og 2014). Ragnhildur fagnaði sigri í fyrsta skipti á þessu móti en Þórdís Geirsdóttir hefur sigrað sjö sinnum á +35 í kvennaflokki – oftast allra.