Eystrahorn
Fimmtudagur 28. nóvember 2013
Landsmót hestamanna Á skrifstofu Landssambands hestamannafélaga er mikið um að vera um þessar mundir en miðasala á Landsmót hestamanna á Hellu í júlí á næsta ári, er komin á fullan skrið. Landsmótin eru haldin á tveggja ára fresti en síðasta mót var haldið í Reykjavík sumarið 2012. Landssamband hestamannafélaga er þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ og telur ríflega 11 þúsund iðkendur. Landsmót er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi og endurspegla ágætlega fjölda iðkenda en gestir mótanna eru jafnan á bilinu 8-12 þúsund og þar af er fjöldi erlendra gesta á bilinu 2-3 þúsund frá um það bil 20 löndum. Anna Lilja Pétursdóttir framkvæmdastjóri stýrir verkefnum Landsmóts og var miðasalan á vefnum opnuð í ágúst. „Miðasalan fer vel af stað, enda forsöluverð í gangi til áramóta. Það þýðir að félagar í Bændasamtökunum og Landssambandi hestamannafélaga geta keypt vikupassa á Landsmótið á Hellu á 12.000 kr. á vefnum www.landsmot. is allt til loka árs 2013. Hagsýnt fólk er nú þegar farið að nýta sér þetta, kaupir miða fyrir sig og sína. Einnig er hægt að kaupa hjá okkur fallegt gjafabréf ef menn vilja setja miða í jólapakka hestamannsins.“ Anna Lilja nefnir einnig að enn séu til DVD diskar frá mótunum 2011 og 2012 sem hægt sé að panta í gegnum vefsíðuna og séu nú á lækkuðu verði. Sunnlendingar eru sömuleiðis að undirbúa Landsmótið næsta sumar, enda gestir þegar farnir að panta sér gistingu og skoða þá möguleika sem Hella og nágrenni hafa upp á að bjóða. Þá hefur verið mynduð framkvæmdanefnd með fulltrúum úr hestamannafélögum á Suðurlandi, ásamt fulltrúum frá Landsmóti. Anna Lilja segir slíka nefnd hafa verið starfrækta fyrir mótið í Reykjavík og það hafi gefið góða raun, mikil og góð hugmyndavinna sem þar átti sér stað og því sé vonast eftir álíka árangri í vetur. „Það skiptir okkur líka máli að geta leyft heimamönnum að taka þátt í undirbúningi og hugmyndavinnu fyrir mótið. Landsmót er eign allra hestamanna og margir sem vilja hafa eitthvað um það að segja. Við eigum öll að vilja koma að mótinu með einum eða öðrum hætti.“
Jólahlaðborð með villibráðarívafi á Hótel Smyrlabjörgum 7. og 14. desember
Verð kr. 7.200,- á mann Verð með gistingu kr. 11.700 á mann Borðhald hefst kl. 20:00
Hvernig verður “piparkökuhúsið” í ár? Miðapantanir í síma 478-1074 eða á smyrlabjorg@smyrlabjorg.is
7
Góðu ári fagnað
Á dögunum var góðu ári í ferðaþjónustunni fagnað á Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands sem haldin var á Hótel Örk í Hveragerði. Dagskrá hátíðarinnar var glæsileg þar sem fram komu Ari Eldjárn, Sigmundur G. Einarsson og kona hans Unnur Ólafsdóttir, auk þess heiðraði ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir gesti með nærveru sinni og ávarpaði hún gesti hátíðarinnar. Þetta var fjórða Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands og verður hún stærri og veglegri ár hvert. Dagskráin hófst með því að gestum hátíðarinnar var boðið í kynningarferð um Hveragerði sem Ferðamálasamtök Hveragerðis skipulögðu. Á meðal þess sem gert var í kynningarferðinni var komið við í Hamarshöllinni, bragðað á hveraglöggi og sjávarréttasúpu hjá Frost og Funa, smakkað hverabakað rúgbrauð í Hveragarðinum, litið inn hjá Gistiheimilinu Frumskógum og komið við á Listasafni Árnesinga þar sem gestir gæddu sér á kræsingum frá Kjöt og Kúnst. Að lokinni kynningarferð var svo sjálf Uppskeruhátíðin í Hótel Örk. Markaðsstofa Suðurlands bauð gestum í fordrykk og svo var haldið til borðhalds. Létt var yfir gestum og stjórnaði Sigurður Sólmundarson hátíðinni í bland við glæsilega dagskrá kvöldsins. Uppskeruhátíðin heppnaðist mjög vel og skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi við undirleik Hljómsveitarinnar PASS áður en hátíðinni lauk. Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands er mikilvægur vettavangur þess að efla samstarf ferðaþjónustunnar á Suðurland sem er hluti af innra markaðsstarfi Markaðsstofunnar. Markaðssfotu Suðurlands vill koma fram þakklæti til þeirra sem mættu á Uppskeruhátíðina og þakka fyrir góða kvöldstund og nærveru og vonast til að sjá sem flesta að ári.
Allt upp á borðið
Í bókinni Allt upp á borðið rifjar sagnameistarinn Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku upp bernsku sína og gerir upp þingmannsog ráðherraferil sinn í stuttu máli. Þá fjallar hann um Seyðisfjörð og Seyðfirðinga og ekki síst það góða og göfuga starf sem unnið er á heilbrigðisstofnuninni þar í þágu þeirra sem glíma við minnistap. Þann hugljúfa kafla ættu allir að lesa.