Eystrahorn 1. tbl. 2016

Page 1

Eystrahorn

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Fimmtudagur 7. janúar 2016

1. tbl. 34. árgangur

Áramótaávarp bæjarstjóra Góðir Austur-Skaftfellingar.

Mynd: Einar Björn Einarsson

Árið 2015 er liðið. Áramót er tími þar sem gjarnan er staldrað við og horft yfir farinn veg og rýnt í árið sem var að líða. Ég tel að árið 2015 hafi verið okkur Austur-Skaftfellingum nokkuð gott, þó alltaf megi finna eitthvað sem hefði mátt fara til betri vegar. Mikilvægt er samt að horfa fram á við með bjartsýni og gleði til góðra verka að vopni. Þegar litið er til baka yfir árið er einn málaflokkur sem þarf aukið vægi í umræðunni í næstu framtíð en það er þróun íbúðahúsnæðis í sveitarfélaginu. Undanfarin ár hefur atvinnuleysi í sveitarfélaginu verið með því minnsta sem þekkist á Íslandi og er enn næg atvinna í boði. Það sem stendur helst í vegi fyrir því að hægt sé að fá fólk til starfa er skortur á íbúðarhúsnæði og þá helst til leigu. Þegar laus störf hafa verið auglýst hefur oftar en ekki strandað á framboði á íbúðarhúsnæði. Íbúar sveitarfélagsins voru um síðustu áramót 2.179 einstaklingar. Árið 1999, fyrir sameiningu sveitarfélaga, voru íbúar í Austur- Skaftafellssýslu 2.446. Þá kom tímabil þar sem okkur fækkaði og árið 2010 voru íbúar sýslunnar komnir niður í 2.086. Frá árinu 2010 hefur okkur heldur verið að fjölga. Miðað við mannfjöldaspár Hagstofunnar fjölgar Íslendingum um tæpt 1% á ári næstu 50 árin, sem þýðir að Austur- Skaftfellingum ætti að fjölga um 22 á ári. Til að þessi fjölgun geti gengið eftir er nauðsynlegt að aukning í framboði á íbúðarhúsnæði verði um 10 einingar á hverju ári. Raunin er sú að það hafa verið byggðar 6 íbúðir á síðustu fimm árum sem er langt undir því sem nauðsynlegt væri. Því til viðbótar hafa 22 íbúðir verið teknar til annars konar notkunar frá árinu 2000. Þetta er öfug þróun sem snúa þarf við til að mögulegt sé að íbúum sveitarfélagsins fjölgi. Það er fleiri en ein ástæða sem liggur að baki þessari þróun mála og má t.d. nefna háan byggingarkostnað og möguleika eigenda íbúðarhúsnæðis á meiri tekjum við skammtímaleigu en mögulegt er að innheimta í langtímaleigu. Varðandi hið síðarnefnda er lítið annað hægt að gera fyrir stjórnsýsluna en krefjast þess að farið sé eftir lögum og reglum um slíka atvinnustarfsemi. Hins vegar til að lækka byggingarkostnað hefur sveitarfélagið samþykkt að fella niður gatnagerðargjöld af nýju íbúðarhúsnæði. Þessar reglur tóku gildi í apríl 2015 og gilda í tvö ár. Niðurfellingin er lækkun á byggingarkostnaði meðalstórrar íbúðar um 1,5 milljón kr. Í skoðun er einnig hvort mögulegt er að hanna og byggja hagkvæmari íbúðir en gert hefur verið fram að þessu. Þá er einkum horft til þess hvort slá megi af kröfum um stærð ákveðinna hluta íbúðar og þar með byggja minni íbúðir. Það er einnig vert að skoða hvort ekki sé þörf á byggingu íbúða fyrir aldraða og með því koma af stað auknu framboði á íbúðarhúsnæði á markaði.

Nýlega var samþykkt deiliskipulag vegna byggingu nýs hjúkrunarheimilis og þar er gert ráð fyrir þremur fjögurra íbúða raðhúsum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að íbúðarbygging er langtímafjárfesting. Þá er mikilvægt að tekið sé með í reikninginn að þegar hús er hannað og byggt frá grunni er mögulegt að hafa fyrirkomulagið eftir eigin höfði og nýjungar í hitun og lýsingu húsa gera reksturinn hagkvæmari, auk þess sem nýtt hús er viðhaldsfrítt fyrstu áratugina. Þessir þættir eru oft vanmetnir og geta fyllilega réttlætt að dýrara sé að byggja nýtt en fjárfesta í eldra húsnæði. Þær aðgerðir sem hér að ofan hafa verið nefndar miða að því að ná byggingarkosnaði íbúða niður í um 250 til 270 þ.kr. á hvern fermetra. Það er mikilvægt eins og staðan er í dag að skapa umhverfi sem verður einstaklingum hvatning til að byggja íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og á ég þá við jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Frumskilyrði þess að það góða samfélag sem við byggjum vaxi og dafni á næstu árum og áratugum, er að hér verði nægilegt framboð á íbúðarhúsnæði. Sveitarfélagið á 42 íbúðir í dag, en þegar þær voru flestar töldu þær rétt yfir 60 og var það þungur rekstur. Það er ekki mögulegt að sveitarfélagið standi eitt að allri nauðsynlegri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis öðruvísi en það kæmi niður á öðrum rekstri. Ekki er hægt að hætta umfjöllun um húsnæðismál öðruvísi en nefna bæði mikilvægi byggingar nýs hjúkrunarheimilis og að málefni fatlaðra fái húsnæði sem uppfylli þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til þeirrar starfsemi. Af byggingu nýs hjúkrunarheimilis er það að frétta að ekki hefur enn tekist að fá ríkið til að koma að borðinu með fjármagn

sem nauðsynlegt er til að hægt sé að hefja framkvæmdir. Áætlaður byggingarkostnaður nýs hjúkrunarheimilis eru um 800 til 1.000 milljónir og hefur kostnaðar skipting verið þannig að ríkið greiðir 45% framkvæmdasjóður aldraðra 40% og sveitarfélagið 15%. Áfram verður unnið að þessu máli með öllum mögulegum ráðum til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst. Sveitarfélagið tók við málaflokki fatlaðs fólks frá ríkinu árið 2011 og er það sér þjónustusvæði, sem þýðir að öll ábyrgð á málaflokknum hvílir á sveitarfélaginu. Þar með sú ábyrgð að tryggja húsnæði fyrir starfsemina. Í dag eru starfstöðvar á þremur stöðum ásamt því að dagþjónusta er í of litlu húsnæði miðað við fjölda skjólstæðinga. Það er því mikilvægt að koma allri starfsseminni undir eitt þak. Hér hef ég farið nokkuð ofan í þróun húsnæðismála sveitarfélagsins og viljandi sleppti ég umfjöllun um húsnæðismál leikskóla. Það er gert til að raska ekki vinnu starfshóps sem er meðal annars að skoða kosti og galla við þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um húsnæðisfyrirkomulag leikskólans til framtíðar. Ég þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir gott samstarf á árinu sem var að líða. Einnig langar mig að þakka fyrrum fjármálastjóra sveitarfélagsins Ástu Halldóru Guðmundsdóttur fyrir vel unnin störf, en hún lét af störfum nú í haust eftir 36 ára starf. Ég óska íbúum sveitarfélagsins gleðilegs nýs árs og þakka um leið samfylgdina og samvinnuna á árinu sem er að líða. Með kærri kveðju, Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.