4.3 Heimildaskrá Mikilvægt er að gæta samræmis milli heimildatilvísana inni í texta og heimildaskrárinnar sjálfrar. Sé vísað í höfund og ártal inni í textanum verður að byggja heimildaskrána upp á sama hátt; hafa þar fyrst höfundarnafnið og síðan útgáfuár heimildarinnar, innan sviga. Skránni er raðað í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda, og fullt nafn tilgreint, ef kostur er. Íslenskum höfundum er raðað á eiginnafn en erlendum á ættarnafn, og þá komma milli þess og eiginnafns. Stundum er reyndar látið duga að nota upphafsstaf eða -stafi í eiginnafni eða -nöfnum erlendra höfunda. Ef höfundar eru færri en þrír eða færri eru allir taldir upp, en séu þeir fleiri er oft (þó ekki alltaf) látið nægja að nefna þann fyrsta og bæta síðan við „o.fl.“ („et al.“ ef verið er að skrifa á ensku). Punktur er hafður á eftir höfundarnafni og líka á eftir ártali. Sé vitnað í fleiri en eitt rit eftir sama höfund er notað langt strik í stað nafnsins í öðrum heimildum en þeirri fyrstu. Ef heimild tekur fleiri en eina línu er venja að aðrar línur en sú fyrsta séu inndregnar um 3-5 stafbil (sk. „hangandi inndráttur“ (e. hanging indent)). Stundum er haft meira línubil milli heimilda en innan þeirra, en það er þó ekki algilt. Á eftir ártalinu kemur nafn þeirrar heimildar sem vísað er í; bókar eða greinar. Ef um bók er að ræða er titillinn skáletraður, og punktur á eftir. Síðan koma oft frekari upplýsingar um bókina, s.s. um undirtitil, ritröð, útgáfu, ritstjóra o.fl., allt með venjulegu (beinu) letri, og punktur á eftir. Að lokum kemur útgáfustaður, þá tvípunktur og á eftir honum nafn forlags og að lokum punktur. •
Björn Guðfinnsson. (1958). Íslenzk málfræði handa framhaldsskólum. 6. útg. Eiríkur Hreinn Finnbogason annaðist útgáfuna. Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka.
Ef heimildin er grein í tímariti er titill hennar (næst á eftir ártalinu) með beinu letri. Þá kemur titill tímaritsins skáletraður, og að lokum árgangur og blaðsíðutal. Komma er á eftir bæði titli og árgangi. Útgefanda og útgáfustaðar er ekki getið. •
Andrews, Avery. (1971). Case Agreement of Predicate Modifiers in Ancient Greek. Linguistic Inquiry, 2, 127–151.
Sé um að ræða kafla í bók kemur kaflaheitið næst á eftir ártali. Síðan kemur „Í“ og svo nafn ritstjóra safnritsins, ef um það er að ræða, og (ritstj.), í sviga á eftir. Þá kemur titill ritsins skáletraður, komma á eftir honum, og síðan blaðsíðutal kaflans (á eftir „bls.“). Að lokum kemur útgáfustaður, tvípunktur, og nafn forlags. •
Clear, Jeremy. (1987). Computing. Í John Sinclair (ritstj.), Looking Up. An Account of the COBUILD Project in Lexical Computing (bls. 41-61). London: Collins.
Ef um er að ræða efni á vef fer skáletraður titill heimildar næst á eftir ártali. Síðan kemur dagsetning þegar heimildin var skoðuð og að lokum slóðin á síðuna.
32