Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku

Page 119

Hér er nú ýmislegt að athuga. Eða vissuð þið að í mold væri rótin mol- og viðskeytið -d; og í elska væri rótin el- og viðskeytið -sk-? Og hvaða hluta af heildarmerkingu orðsins ber hvor orðhluti? Er -l í afl og -l í karl sama myndanið; og ef svo er, hvað merkir það; hvaða merkingarþáttur er sameiginlegur í afl og karl? Ástæðan fyrir því hve okkur kemur þessi myndangreining spánskt fyrir sjónir er sú að hún er algerlega söguleg (e. diachronic). Til að geta greint svona niður þurfum við að leita á náðir málsögu og orðsifjafræði. Í nútímamáli eru rót og viðskeyti nefnilega runnin svo rækilega saman í eitt í þessum orðum, að þar sér engin skil. Við skynjum orð eins og mold, afl, karl sem eina ósundurgreinanlega heild hvert. Og ef við ætlum málfræðinni að lýsa málkunnáttu okkar, þá táknar þetta jafnframt að við greinum þessi orð sem eitt myndan hvert – það eitt samræmist málkunnáttunni. Nú gæti einhver komið og sagt sem svo: Já, en ef við höfum nú lært málsögu, og vitum að mold er samsett úr mol+d o.s.frv. Er það þá ekki orðið hluti af málkunnáttu okkar, og ber okkur þá ekki að myndangreina samkvæmt því? Því er til að svara, að sú kunnátta sem miðað er við er sú ein sem fæst með því að kunna málið eins og það er talað og skrifað í dag; m.ö.o., sú kunnátta sem við öðlumst með því að nota málið, ekki með því að læra um það. Það er auðvelt fyrir þann sem er að læra málið að gera sér grein fyrir því að no. eins og skipun er samsett úr tveimur myndönum. Það er vegna þess að báðir hlutarnir koma fyrir annars staðar, með u.þ.b. sömu merkingu; skip- í so. skipa, og -un í fjölmörgum orðum, sem eru e.k. verknaðarheiti af sögnum. Þarna ber hvor hluti um sig afmarkaðan hluta af heildarmerkingu orðsins. En líklega myndu fáir treysta sér til – án málsögulærdóms – að segja hvað af- merkti eitt sér í orðinu afl, og hverju -l bætti við þá merkingu; eða nefna sameiginlegan merkingarþátt í afl og karl. Sem sé: Eina gilda myndangreining nútímamáls er sú sem málnotendur beita ósjálfrátt þegar þeir læra málið. Gallinn er bara sá, að við vitum ekki alltaf hver hún er, vegna þess að við höfum engan beinan aðgang að málkunnáttunni. Í dæmum eins og mold og skipun er þetta að vísu nokkuð augljóst; en því miður er svo ekki alltaf. Við þetta bætist svo það að alls ekki er víst – og raunar ótrúlegt – að allir málnotendur séu jafn skarpskyggnir. Það getur því vel verið að sumir sjái greinilegan skyldleika tveggja orða þar sem aðrir sjá engin tengsl; og þetta getur leitt til mismunandi myndangreiningar. Hugsanlegt er t.d. að einhverjum finnist tengsl milli mol- í mold og so. mylja liggja í augum uppi, og greini því mol- og myl- sem myndbrigði sama myndans, þótt flestir myndu líklega líta á þetta sem tvö myndön. Og þá vaknar spurningin: Er hægt að setja fram eina rétta myndangreiningu; eða verður hver að hafa sína eigin greiningu? 11.3.2 Tengsl myndana og merkingar Ýmis vandamál koma upp þegar litið er á orð, þar sem við þykjumst greina einhverja afmarkaða hluta, en eigum erfitt með að tengja ákveðna merkingu við hvern um sig.

117


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.