2 minute read

Hvað ef ég má ekki elska?

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm leikkona og leikstjóri, fyrrum formaður Ungra vinstri grænna og starfsmaður aðalskrifstofu VG

Að elska, stofna fjölskyldu og búa sér heimili með þeim sem man velur sér sem lífsförunaut. Að vera til, vera man sjálft, ganga óáreitt um göturnar. Allt er þetta eitthvað sem við teljum til sjálfsagðra mannréttinda. Stór hluti fólks þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að einhver reyni að draga þessi réttindi í efa, en við búum ekki öll við þau forréttindi.

Advertisement

Það hefur verið sláandi að sjá fréttir um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Ekki síst vegna þess að fréttirnar berast okkur ekki úr öðrum heimsálfum og ólíkum menningarheimum heldur úr Evrópu. Á spáni var samkynhneigður maður barinn til dauða. Í Ungverjalandi og Póllandi eru samþykkt lög sem þrengja verulega að réttindum hinsegin fólks í landinu. Forseti Tékklands lætur hafa eftir sér óviðunandi ummæli um trans fólk. Gleðigöngu í Tyrklandi er tvístrað með táragasi. Þjálfari Liverpool þarf að biðja stuðningsmenn að hætta að syngja hómófóbíska söngva á leikjum.

Þessi dæmi, sem öll eru frá þessu ári, eru harkaleg áminning um að við megum ekki sofna á verðinum. Ástin verður að sigra gegn hatrinu. VG hefur alltaf talað fyrir réttindum hinsegin fólks, það er einn af eiginleikum hreyfingarinnar sem ég er stoltust af. Við stóðum með einum hjúskaparlögum, fyrstu löggjöfinni um trans fólk og á kjörtímabilinu sem er að ljúka var samþykkt tímamótalöggjöf um kynrænt sjálfræði. Loksins er fólki frjálst að skilgreina kyn sitt og í þjóðskrá er nú möguleiki á kynhlutlausri skráningu.

Það skiptir öllu máli að við höldum áfram á þessari braut og munum að því miður eru öfl sem vilja ekki að hinsegin fólk njóti sömu réttinda og aðrir. Uppfærð stefna VG í málefnum hinsegin fólks sýnir að VG hefur og mun standa með hinsegin fólki. Fyrir mannréttindum og jöfnuði. Þannig er það nú stefna okkar að Ísland verði efst á Regnbogakorti ILGA-Europe. Við viljum að stjórnvöld setji sér skýra stefnu í málefnum hinsegin fólks og vinni á grundvelli hennar aðgerðaráætlun til innleiðingar þess sem upp á vantar. Auka þarf vernd intersex fólks enn frekra og þá sérstaklega intersex barna. Hatursglæpir og hatursorðræða eiga ekki að líðast. Við eigum að taka á móti fleira hinsegin fólki á flótta. Við þurfum að bæta þjónustu við trans börn og blóðgjöf karlmanna sem stunda kynmök með öðrum körlum eiga að vera heimilar, enda er bannið arfleið fordóma og hræðslu.

Mikilvægast er að allar breytingar séu unnar í samvinnu við félagasamtök eins og Samtökin ‘78, Trans Ísland og Intersex Ísland. Þar er að finna okkar helstu sérfræðinga í málaflokknum.

This article is from: