3 minute read

Menntun óháð búsetu

Einar Gauti Helgason matreiðslumeistari, 10. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Menntun er grunnmannréttindi og ein af þeim grunnstoðum sem stuðlar að auknu lýðræði, jafnræði og réttlátara samfélagi. Framboð og aðgengi til menntunar er breytilegt eftir landssvæðum. Í ákveðnum landshlutum þurfa nemendur eftir grunnskólanám að sækja sér menntun í framhaldsskóla utan heimabyggðar. Mikill kostnaður og ójafnræði sem fylgir þessu getur hindrað ungt fólk að sækja sér menntun. Hið opinbera þarf að fjármagna og niðurgreiða kostnað til opinberra menntastofnana til að gæta jafnræðis til menntunar og ekki síst til að fjárfesta í sérhæfðu fagfólki framtíðarinnar. Fjarnám er eitt af þeim úrræðum sem gefur nemendum kost á að búa í heimabyggð eða hvar sem er á landinu. Mikilvægt er að efla og hvetja hinar ýmsu menntastofnanir til þess að bjóða upp á fjarnám. Auka þarf framboð á heimavistum og öðrum búsetuúrræðum fyrir námsmenn sem koma úr dreifðari byggðum landsins.

Advertisement

Iðnmenntun á landsbyggðinni

Verkgreinar eru námsgreinar sem yfirleitt þarfnast staðarkennslu. Kerfið byggist á því að nægjanlegur nemendafjöldi þarf ávallt að vera til staðar til að ákveðnar verkgreinar séu kenndar. Bekkjastærðir eru reiknaðar út eftir stuðlum sem henta yfirleitt ekki minni skólum/bekkjum á landsbyggðinni. Verklagið kemur í veg fyrir að ákveðnar verkgreinar eru ekki kenndar á landsbyggðinni árum saman. Mikil hætta er á að nemendur sem mennta sig utan heimabyggðar skili sér ekki á heimaslóðir að námi loknu sem hefur neikvæða þróun fyrir samfélagið. Í skólum sem sömu iðngreinar eru kenndar þarf að vera miðlægt og gott samstarf milli skóla til þess að viðhalda fullnægjandi stöðlum.

Sí- og endurmenntun

Við lifum á tímum þar sem starfshættir í hinum ýmsu greinum breytast ört og stöðug starfsþróun verður að vera til staðar. Mikilvægt er að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni með gjaldfrjálsri sí- og endurmenntun um allt land. Nauðsynlegt er að vinnumarkaðurinn í heild sinni viðhaldi faglegri þróun með stöðugri þekkingarmiðlun til að lágmarka stöðnun.

Unglingurinn Hófí

Hvað varstu kölluð? Ég var kölluð Fríða fram undir fermingu en þá flutti ég til Húsavíkur og styttingin breyttist í Hófí og það hefur fylgt mér síðan.

Hvað er stærsta prakkarastrik sem þú framkvæmdir? Þegar ég tók þátt í að lyfta bíl og fela bak við bílskúr á unglingsárum, bíllinn fannst eftir mikið fum og fát og hlátur og allir eru sáttir í dag!

Hver var uppáhalds hljómsveitin? Wham! Nema hvað!

Hvaða lag spilaðir þú aftur og aftur og aftur? Careless Whisper...

Hvernig týpa varstu? Ég var frekar venjuleg, fannst allt skemmtilegt og var alltaf til í fíflagang en samt óþolandi bezzerwisser inn á milli enda algjör bókaormur og með óþolandi límheila.

Hvert var þitt frægðarskot? Ralph Macchio sá sem lék Karate Kid. Hann er ennþá geðveikt sætur þó hann verði sextugur í vetur.

Varstu vandræðagemsi? Já um tíma var ég það því miður og ber fyrir mig þeirri fimmtu hvað varðar nánari upplýsingar.

Hvernig eyddir þú sumrunum? Ég byrjaði að vinna á sumrin þegar ég var 13 ára, vann þá í kaupfélaginu á Húsavík. Næstu sumur vann ég í frystihúsinu á Grenivík og svo á Norðfirði. Þarna var málið að vinna sem mest og skemmta sér þess á milli. Man ekki til þess að unglingar hafi sofið mikið á þeim árum... Hvert var helsta áhugamálið þitt? Ég las alltaf mikið og geri enn, þarna hlustaði ég líka á tónlist og svo var bara tjillað og horft á vhs með vinunum.

Varstu farin að gefa pólitík gaum? Já ein sterk bernskuminning er þegar Steingrímur J. kom í heimsókn heim til mín á Grenivík, sjálfsagt í einhverri kosningabaráttunni, ég tók því sem svo að hann væri frændi minn og hann var líka næs. Hef síðan þá fylgst með honum í pólitík. Ég reyndar horfði mikið á sjónvarp og hef já alltaf fylgst með og haft skoðanir á pólitík þó ég hafi ekki gengið í VG fyrr en 2009.

Eitthvað sem þú vilt sértaklega segja frá? Já mér finnst nauðsynlegt að unga fólkið viti að ég féll í MA, lenti á Siberíu fyrir skróp og skipti yfir í VMA en kláraði aldrei stúdentinn… lífið er ekki búið þó manni mistakist. Þá er að standa upp og halda áfram, skólarnir eru þarna og verða. Þó finnst mér mikilvægt að skólakerfið taki á móti fólki á öllum aldri og að námsumhverfi og lengd sé sveigjanlegt. Ég fór seinna af stað í meira nám, einstæð með tvö börn og það var mín lífsins lukka.

This article is from: