
5 minute read
NÁM Í SKÓLAGARÐI
sem eru myndaðar úr lifandi frumum. Eftir þeim berst næring sú sem grænu kornin vinna úr loftinu. Viðaræðarnar eru aftur á móti gerðar úr dauðum frumum sem eru vel tengdar saman og gefa trénu styrk og sveigjuþol.
Innan undir sáldæðunum er vaxtarlagið sem er eingöngu lifandi frumur. Við kynnumst starfi þess síðar. Þar fyrir innan er svo viðarvefurinn sem er myndaður af dauðum viðaræðum og viðarfrumum. Innst er loks trjámergurinn.
Kolsýrunám
Trén eru lifandi verur eins og menn og dýr og þurfa þess vegna fæðu. Næringarefnin taka þau til sín úr jarðveginum og loftinu.
Á blöðum og barri trjánna eru smáaugu sem andrúms–loftið smýgur inn um. En í loftinu er lítið eitt af koltvísýringi sem er samsettur af tveim frumefnum, kolefni og súrefni. Trén taka til sín koltvísýring úr loftinu en grænukornin vinna kolefnasambönd úr koltvísýringnum og vatni, svo sem sykur, mjölvi, tréni, olíur og fleiri lífræn efni.
Þessi mikilvæga starfsemi getur aðeins farið fram í nægilegri birtu og hita.
Allt líf á jörðunni á landi og í sjó á rætur sínar að rekja til þessara efnabreytinga og eru því plönturnar undirstaða lífsins á hnetti okkar.
Öndun
Kolsýrunámið fer aðeins fram í hinum grænu hlutum plöntunnar í birtu og hita eins og fyrr greinir, en allir hlutar hennar anda jafnt á degi sem á nóttu, bæði rætur, stöngull og blöð.
Trén anda að sér súrefni sem sameinast kolefnasamböndum en á þennan hátt losnar orka sem þau nota til efnabreytingar og vaxtar.
Öndunin er því andstæð við kolsýrunámið.
Öndun:
Súrefnið, sem plantan andar að sér, sameinast kolefnasamböndum hennar. Við það losnar orka, vatn og koltvísýringur.
Plantan léttist.
Kolsýrunám:
Úr kolefni og vetni myndar plantan lífræn efni, en súrefnið hverfur út í andrúmsloftið.
Plantan þyngist.
Öflun vatns og útgufun
Vatn er trjánum lífsnauðsynlegt við fæðuöflunina. Þau afla þess úr jarðveginum með rótunum og með því berast næringarefnin til hinna ýmsu hluta trésins.
Eins er útgufun vatns frá trjánum nauðsynleg, því að hún örvar vökvastrauminn og þar með flutning næringar um tréð. Útgufunin er mest frá laufi og barri trjánna og hún verður því örari sem heitara er í veðri. Einnig örva vindar útgufunina að mun.
Venjulegast geta trén bætt sér allt það vatn sem frá þeim fer við útgufunina. En sé hörgull á vatni í jarðveginum t.d. sakir langvarandi hita og þurranæðinga, þá er hætta á því að tréð geti ekki bætt sér missinn. Blöð þess linast og jafnvel visna og svo getur farið, að tréð deyi.
Öflun fæðu úr jarðvegi
Jurtanæringarefnin leysast upp í vatni jarðvegsins og berast gegnum ræturnar og upp eftir viðaræðunum.
Næringarefnin sem trén taka til sín úr jarðveginum eru aðallega köfnunarefni, fosfór og kalí. Af öðrum næringarefnum má nefna kalk, magníum, brennistein, járn og bór.
Fyrrgreind efni hverfa aftur til jarðar þegar grös sölna eða tré falla og fúna. Öðru máli gegnir þegar land er slegið eða beitt, tré felld og flutt brott úr skógunum. Þá fer jarðveginn að skorta sum þessara efna, einkum köfnunarefni, fosfór og kalí. En unnt er þá að bæta úr næringarskorti með áburði.
Plönturnar verða veikbyggðar og hætta að vaxa, ef jarðveginn vantar steinefni eða köfnunarefni. Þess vegna er oft nauðsynlegt að gefa ungum trjám og runnum áburðarskammt en gæta verður þess að hafa hann ekki stóran. Of mikil áburðargjöf hefur skaðleg áhrif og getur grandað smáplöntum.
Eitt hið vandasamasta við alla ræktun er því að skera úr um áburðarþörfina.
Köfnunarefni eykur vöxt blaða og sprota.
Fosfór og kalí örva rótarvöxt og flýta fyrir blómgun og aldinþroska.
Tré, sem fá næga næringu, verja henni ekki eingöngu til vaxtar, heldur safna þau líka forðanæringu.
Í sólríkum sumrum safnast mikil forðanæring í trjánum til næsta árs. Vöxtur þeirra fer því mjög eftir veðráttu undanfarins sumars.

Vöxtur trjánna
Á hverju ári bætist við hæð trjánna. Þetta sést best á furu og greni, því að krans af greinum vex út úr stofninum þar sem ársvöxturinn byrjar. Þess vegna er auðvelt að geta sér til um aldur ungra trjáa með því að telja greinakransana.
En á gömlum trjám eru neðstu greinarnar fallnar brott svo að þessi aldursákvörðun er ekki einhlít. Því er ókleift að segja til umaldur gamalla trjáa fyrr en þau hafa verið felld en þá má telja árhringana.
Ljósir og dökkir hringar skiptast á í viðnum eins og sjá má þegar tré hafa verið felld. Þetta kemur af því að frumuskiptingin í vaxtarlaginu er mjög ör á vorin og viðurinn þá laus í sér og mjúkur. En er líða tekur á sumar verður frumuskiptingin hægari og dekkri. Öll tré sem eru af tvíkímblaðaflokknum svo og barrtré, gildna með þvi að bæta við sig nýju vaxtarlagi ár hvert.
Á veturna er hvíldartími trjánna.
Gott er að kunna skil á vexti plantna en við verðum einnig að muna að þær eiga sitt ákveðna æviskeið.
Grænu plöntunun er skipt í þrjá flokka eftir lífsskeiði þeirra: einærar, tvíærar og fjölærar plöntur.
Einærar jurtir spretta upp af fræi að vori, blómgast, fella fræ og deyja að hausti. Til þessara jurta teljast mörg fegurstu sumarblómin sem ræktuð eru í görðum.
Tvíærar jurtir safna forðanæringu fyrra sumarið en hið síðara blómgast þau, bera fræ og deyja að því loknu. Margar nytjajurtir teljast til þessa flokks, t.d. gulrófan og gulrótin.
Fjölærar plöntur eru þannig úr garði gerðar að þær geta lifað langa ævi og eru trén langlífust en þau geta lifað áratugum eða jafnvel öldum saman.
Broddfuran sem margir kannast við hér á landi, getur þannig orðið allt að fjögur þúsund ára gömul. Hins vegar verður t.d. íslenska birkið aðeins um hundrað til eitt hundrað og fimmtíu ára gamalt.
Í skógunum þurfa að vaxa samtímis smáplöntur, ungur
skógur, frætré og fullvaxinn skógur í hæfilegum hlutföllum. Ef ungu trjáplönturnar ná ekki að þroskast, eyðast skógarnir smátt og smátt.

STARFAÐ AÐ SKÓGRÆKT3
Í skólagarðinum skiptist á vinna og fræðsla jöfnum höndum allt sumarið.
Komið er fram í ágúst. Reitir okkar eru vel hirtir. Skjólbelti hafa verið klippt, grasfletir slegnir í síðasta sinn og kantar skornir. Á morgun hefst nýr þáttur í náminu. Við eigum að fara í gróðursetningarferð til Austurlands, í Hallormsstaðaskóg en þangað er ferðinni heitið vegna þess að þar er skógrækt á Íslandi lengst á veg komin.
Í Hallormsstaðaskógi
Hallormsstaðaskógur er við Lagarfljót sunnanvert. Landslag er þar hæðótt og víða nokkuð brattlent. Fjöllin suð–austur af Hallormsstað rísa allt að sex hundruð metra yfir sjávarmál og setja þau allmikinn svip á landslagið einkum Hallormsstaðaskóg.
Lögurinn, eða Lagarfljót öðru nafni, sígur þarna fram á leið til sjávar. Til að sjá er vatnsfallið líkara firði eða stöðuvatni en venjulegu fljóti. Ískalt jökulvatnið er gulgrænt á litinn og víða er það hyldjúpt. Svo lygn er þessi mikla móða á kyrrum sumardögum og svo mjúkar eru boglínur hennar í víkum og vogum að landslagið allt fær mildan blæ og ljúfan. Á bökkum þessarar miklu jökulelfar og upp frá þeim hefur vaxið frægasti og mesti skógur á Íslandi.
Grös, blóm,jurtir og lynggróður einkenna jurtagróður Hallormsstaðaskógar eins og annarra íslenskra birkiskóga. Gras- og blómlendi eru þar sem jarðvegur er frjór og rakur og virðist jarðrakinn hafa meiri áhrif á gróðurfarið en hæð yfir sjó.