
4 minute read
Stjórnmálafræðingar í atvinnulífinu
LILJA KRISTJÁNSDÓTTIR HAFÐI SAMBAND VIÐ STJÓRNMÁLAFRÆÐINGA
GÍSLI MARTEINN BALDURSSON
Advertisement
Borgarfulltrúi í Reykjavík
Hvenær útskrifaðist þú úr stjórnmálafræði? 2008, eftir langt hlé. Ég var „næstum því” búinn þegar ég fékk vinnu hjá Sjónvarpinu 1997, og hið stutta hlé sem ég ætlaði að taka mér varð að 10 árum.
Hvernig hefur stjórnmálafræðimenntun hjálpað þér á þínum starfsvettvangi? Ég man eftir nokkrum mjög praktískum kúrsum, t.d. um Evrópumál, stjórnmálahagfræði og ýmislegt annað sem oft nýtist enn þann dag í dag. Svo eru það kúrsarnir sem koma í veg fyrir að maður geri sig að fífli í almennri þekkingu á stjórnmálasögu landsins. Þá varð ég fyrir miklum áhrifum af þeirri stjórnmálaheimspeki sem Hannes Hólmsteinn kenndi og var þá einn vinsælasti kúrsinn í náminu. Maður sér alltaf betur og betur hvað kenningar Platós og gömlu meistaranna eru stórkostlegar og geta ennþá kennt manni margt.
Hvað fannst þér eftirminnilegast úr náminu? Ætli ég segi ekki bara kennararnir, skemmtilegustu kennslubækurnar, stemmningin í Odda og vísindaferðirnar! Annars fór ég fljótlega í Vöku og megnið af tímanum fór í það sem kalla má praktíska stjórnmálafræði á vettvangi stúdentaráðs. Hver er uppáhalds pólitíkusinn þinn og hvers vegna? Ég sé það alltaf betur og betur hvað fólk fer í stjórnmál af ólíkum ástæðum. Ég kann mjög að meta stjórnmálamenn úr öllum flokkum sem hafa eitthvað greinilegt erindi, eða hugmyndir um það hvernig þjóðfélagið eða borgin gæti verið betra. Slíkir stjórnmálamenn eru í uppáhaldi hjá mér, jafnvel þótt ég sé ekkert endilega sammála stefnu þeirra. Allt of margir eru í stjórnmálum valdanna vegna. Slíkir menn eru stundum kallaðir “sleipir” eða “pólitískir refir” og stundum er jafnvel talað um þessa eiginleika af nokkurri virðingu (þeir sem hafa séð House of Cards vita hvers konar stjórnmálamenn ég er að meina). Ég ber enga virðingu fyrir slíku. Ég ætla nú ekkert að nefna nein nöfn hérna heima, því þetta eru vinnufélagar mínir.
En af útlendum stjórnmálamönnum sem mér finnst standa sig vel, get ég nefnt Boris Johnson borgarstjóra Lundúna. Hann er að gera Lundúni að betri borg með því að minnka bílaumferð, stækka svæðin fyrir gangandi, hjólandi, standandi, sitjandi, talandi eða syngjandi og með því gerir hann borgina skemmtilegri og öruggari. Allt hlutir sem við viljum gera hér í Reykjavík líka.
Hvað er draumastarfið þitt? Borgarfulltrúi í Reykjavík. Ég er ekki að djóka. Besta starf í heimi ef maður hefur áhuga á borgarmálum.
Hefurðu einhver ráð fyrir núverandi stjórnmálafræðinema? Ég veit nú ekki hvað Ólafi Þ. Harðarsyni finndist um það að ég væri að gefa ykkur ráð! Jæja, ætli ég segi ekki bara að best sé að lesa góðu kennslubækurnar, hlusta vel á góðu kennarana því þeir hafa margt gott að segja. En umfram allt að njóta vel þeirra forréttinda sem okkur eru veitt með því að hafa hér (næstum) ókeypis háskóla á háu plani. Ekki taka því sem sjálfsögðum hlut.
ERLA ÓSK ÁSGEIRSDÓTTIR
Markaðsstjóri Handpoint Hvenær útskrifaðist þú úr Stjórnmálafræði? Ég útskrifaðist með BA gráðu árið 2004 og MPA gráðu í stjórnsýslufræðum 2012.
Hvernig hefur stjórnmálafræðimenntun hjálpað þér á þínum starfsvettvangi? Stjórnmálafræðin hefur nýst mér mjög vel í mínum störfum, bæði aðferðarfræðin sem mikil áhersla var lögð á þegar ég var í námi hefur reynst mikilvæg í starfi mínu sem markaðsstjóri og þekkingin á stjórnkerfinu hefur komið sér vel þegar ég hef setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Hvað fannst þér eftirminnilegast úr náminu? Þetta var svo frábær tími að það er erfitt að gera upp á milli en það var alltaf gaman að fara í tíma þar sem að kennararnir voru algerlega frábærir. Starf mitt sem formaður Politica var dýrmæt og skemmtileg reynsla og það er mér minnisstætt þegar við stofnuðum Forum Politica og Íslenska leiðin var gefin út í fyrsta skipti og það er virkilega gaman að sjá að þetta tvennt lifir enn góðu lífi.
Hver er uppáhalds pólitíkusinn þinn og hvers vegna? Einu sinni var það Davíð Oddsson, hann var frábær leiðtogi á sínum tíma, skemmtilegur og útsjónasamur. Nú eru það hins vegar konurnar sem eiga sviðið að mínu mati Hillary Clinton, Angela Merkel og Hanna Birna Kristjánsdóttir (stjórnmálafræðingur). Þær hafa allar látið taka til sín á vettvangi stjórnmálanna og eiga það sammerkt að vera ástríðufullar, hugrakkar, staðfastar og samkvæmar sjálfum sér. Ég fíla það!
Hvað er draumastarfið þitt? Ég er alltaf í draumastarfinu mínu hverju sinni. Ég markaðsstjóri hugbúnaðarfyrirtækis og það starf hefur reynst virkilega skemmtilegt og krefjandi. Við erum á kafi í nýsköpun og það er mjög gaman að vera þátttakandi í að breyta því hvernig fólk tekur við kortagreiðslum.
Hefurðu einhver ráð fyrir núverandi stjórnmálafræðinema? Njóta þess að læra stjórnmálafræði því þetta skemmtilega tímabil tekur enda. Ég myndi leggja áherslu á að kynnast samnemendum og kennurum vel því það eru ekki síður tengslin og fólkið sem maður kynnist sem er dýrmætt að námi loknu. Já og mig langar til að hvetja stjórnmálafræðinema til að taka þátt í félagslífinu það var dýrmæt reynsla fyrir mig sé ég bý enn að.
BENEDIKT VALSSON
Hraðfréttamaður í Kastljósi Rúv Hvenær útskrifaðist þú úr stjórnmálafræði? Ég er enn óútskrifaður. Tók mér ársleyfi vegna vinnu en á smotterí eftir.
Hvernig hefur stjórnmálafræðimenntun hjálpað þér á þínum starfsvettvangi? Innan fjölmiðlageirans þarf maður að vera vakandi fyrir því sem er í gangi í samfélaginu. Það er því afar mikilvægt að vita hvernig stjórnkerfið fúnkerar. Þó ég starfi við annars konar fréttaöflun en gengur og gerist þá þarf maður alltaf vera á tánum.
Hvað fannst þér eftirminnilegast úr náminu? Tímarnir hjá Hannesi Hólmsteini, þar var engin lognmolla.
Hver er uppáhalds pólitíkusinn þinn og hvers vegna? Álfheiður Ingadóttir er í sérstöku uppáhaldi, þá aðallega vegna þess að hún auglýsti Hraðfréttir í ræðustól Alþingis. Annars hef ég mjög gaman af Kötu Jak, hún er svo létt í lund eitthvað.
Hvað er draumastarfið þitt? Að vinna í sjónvarpi hefur alltaf verið draumur og þar er ég.
Hefurðu einhver ráð fyrir núverandi stjórnmálafræðinema? Ég mæli ekkert með því að fara í svona leyfi, nema rík ástæða sé til.