4 minute read

Ekki eru allar fréttir slæmar - Hjálplegir miðlar við loftslagskvíða

Stundum er eins og það sé kviknað í öllum heiminum og eins og við getum lítið gert til að breyta því. Margar af greinunum í þessu tölublaði fjalla um alvarleg, og oft á tíðum niðurdrepandi og jafnvel ógnvekjandi málefni. Loftslagskvíði er algengur, og það er allt of auðvelt að líða illa yfir því hvernig fyrir okkur er komið í loftslagsmálum nútímans.

Advertisement

En í fullri hreinskilni, þá eru ekki allar fréttir slæmar, og það eru margar frábærar fréttaveitur og miðlar sem bjóða upp á andrými frá allri neikvæðninni. Mínir uppáhalds miðlar eru samfélagsmiðlar og fréttaveitur sagnasafna umhverfis heiminn

(aðallega því ég elska risaeðlur og sæt dýr á náttúruminjasöfnum) - Náttúruminjasafn London birtir mikið af upplífgandi efni sem er í senn fræðandi og gagn- virkt. Ég hef lagt dálitla vinnu í að sérsníða Instagramið mitt þannig að ég læri allavega eitthvað nýtt þegar ég enda á hugsunarlausu skrolli í gegnum reels. Hér að neðan eru umhverfistengdir miðlar sem hafa verið í uppáhaldi hjá mér undanfarið, alveg frá vönduðum fréttaveitum til sjálfbærnitengdra lífstílsblogga. Margir þessara miðla bjóða upp á nýtt sjónarhorn (hvað varðar umhverfisvernd, hinsegin málefni, kynþætti og femínisma, eða allt ofantalið).

Það er nóg til af fleiri slíkum miðlum og það væri svo gaman að heyra hvað er í uppáhaldi hjá ykkur - endilega sendið okkur ábendingu á Instagram (@studentabladid).

@brightly.eco Tilvalið ef þig vantar ráð varðandi hversdagslega sjálfbærni, eða langar að sjá jákvæðar fréttir (eins og sú staðreynd að Fender’s Blue fiðrildategundin er ekki lengur í útrýmingarhættu). Fullkominn vettvangur til að læra skemmtilegar umhverfisstaðreyndir!

@gittemary Þessi áhrifavaldur greinir frá daglegu lífi sínu með áherslu á sjálfbærni. Hún lifir vegan og ruslfríum lífsstíl, og birtir meðal annars gagnlegar upplýsingar um hvaða tískufyrirtæki eru umhverfisvæn.

happyeconews.com Frábært blogg sem birtir víðtækt efni og fréttir um breytingar til hins betra í umhverfismálum. Hér birtast fréttir um alls konar umhverfistengd mál, allt frá sólarorku til sjaldgæfra páfagaukategunda. Þetta blogg heldur einnig úti Instagramsíðu.

@climategoodnews Þessi miðill er nákvæmlega eins og hann hljómar (góðar fréttir í loftslagsmálum) - ef til vill í minni kantinum með um 5500 fylgjendur, en frábær staður til að byrja á auk þess sem hann bendir á fleiri sambærilega miðla ef þú hefur áhuga!

@rainforestalliance Regnskógasambandið er alþjóðlegt hugsjónafélag, og Instagramið þeirra er sambland af góðum fréttum auk áskorana sem heimurinn stendur frammi fyrir hvað vernd regnskóga varðar. Yfirleitt er lögð áhersla á jákvæð sjónarmið, og það er nóg af skemmtilegu (og fræðandi) efni til staðar, eins og könnun um hvers konar tré þú ert (ég er til dæmis Kapok tré!).

@sealegacy Þessi bandaríska stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni leggur áherslu á fréttir og fræðsluefni um hafið. Þó að hér finnirðu vissulega raunsæjar upplýsingar um núverandi ástand, er lögð áhersla á hvað við getum gert til að leggja okkar af mörkum, auk þess sem feedið þeirra er fullt af sætum ísbjörnum, selum og hvölum!

@intersectionalenvironmentalist Þessi síða snýst ekki beint um að færa góðar fréttir, en býður upp á annað sjónarhorn miðað við stærri miðla - jörm, fréttir og gagnlegar upplýsingar – ég mæli með þessu ef þú ert að leita að róttækum og inngildandi sjónarmiðum.

@pattiegonia Frábær uppspretta umhverfisfrétta –þessi dragdrottning nýtir sinn eigin vettvang til að safna fé til styrktar náttúrustofnana. Hér er áhersla lögð á inngildingu og hægt að finna frábæra linka og miðla tengda umhverfismálum.

@verdensbestenyheter og @goodnewsmagazin Þessar síður bjóða báðar upp á upplífgandi umhverfisfréttir, á norsku annars vegar og þýsku hins vegar. news.mongabay.com/list/conservation-solutions Þessi heimasíða býður upp á vandað fræðsluefni fyrir börn, og heila síðu tileinkaða lausnum.

euronews.com/green/eco-innovation Önnur fréttasíða. Til að nálgast jákvæðu fréttirnar, mæli ég að skoða undirsíðu þeirra um nýsköpun, og þáttaraðirnar sem þar er boðið upp á (til dæmis þættir um low impact living, að haga lífi sínu þannig að man hafi sem minnst slæm áhrif á náttúruna).