
2 minute read
,,Einu sinni smakkað þá getur þú ekki hætt”
- Ingibergur J. Sigurðsson og Ingibjörg Magnúsdóttir tekin við Árbæjarbakaríi
Nýir aðilar hafa tekið við rekstrinum í Árbæjarbakaríi. Það eru þau Ingibergur Jón Sigurðsson bakari og kona hans Ingibjörg Magnúsdóttir.
Advertisement
Ingibergur hefur langa reynslu af bakstri og vann síðast á Grand Hótel Reykjavík og sá um allan bakstur á stærsta ráðstefnuhóteli landsins til 9 ára. Ingibjörg kona hans er reynslubolti þegar kemur að mannauðsstjórnun og utanumhaldi.
Ingibergur er bjartsýnn varðandi framtíðina í Árbæjarbakaríi: ,,Við tókum við rekstrinum 1. ágúst 2021 og höfum lagt mikla vinnu í að breyta mörgum hlutum í bakaríinu og ,,flikka” vel upp á bakaríið að flestu leyti.
Við höfum sett inn nýja vöruliði og lagað til vörurnar en eigum þó enn mikið inni og vonandi getum við aukið úrvalið enn frekar í náinni framtíð. Við kappkostum við að bjóða Árbæingum og öðrum viðskiptavinum okkar upp á frábærar vörur í bakaríinu.”
Fagleg vinnubrögð og snyrtilegheit
- Hverjar eru helstu áherslur ykkar hvað varðar reksturinn?
,,Við leggjum mikið upp úr faglegum vinnubrögðum, snyrtilegheitum og góðri þjónustu. Við búum til allar okkar vörur sjálf nema einn vörulið. Handverk er okkar aðalsmerki og erum við bakarinn á horninu og hverfisbakaríið ykkar.”
- Hvernig hefur ykkur verið tekið af Árbæingum?
,,Árbæingar hafa tekið okkur mjög vel en það er ekkert sjálfgefið þegar nýir aðilar taka við rekstri. Við viljum nota tækifærið hér og þakka öllum þeim sem hafa verslað hjá okkur. Það væri gaman að sjá fleiri Árbæinga bætast í hóp okkar frábæru viðskiptavina á komandi misserum,” segir Ingibergur.
Heimabakaðir kleinuhringir, súrdeigsbrauð, kaffi og kakó




- Bjóðið þið uppá gott úrval fyrir ykkar viðskiptavini?
,,Já við erum mjög ánægð með úrvalið okkar. Núna er til dæmis "Kaka ársins" komin í sölu hjá okkur og bolludagurinn er framundan á mánudaginn og við verðum með gott úrval af bollum.
Og svo eru það brauðin. Við bjóðum upp á súrdeigsbrauð, gróf brauð, milligróf brauð og fín. Mikið úrval er af sætu bakkelsi eins og til dæmis heimabökuðu kleinuhringirnir okkar sem hafa vakið mikla lukku. það er ekkert sparað í hráefnum inn í skinkuhornin okkar og ostaslaufurnar, einu sinni smakkað getur ekki hætt. Við erum með gott úrval af smurðu brauði sem er vel útilátið og ávallt ferskt. Og ekki má gleyma drykkjunum. Við bjóðum að sjálfsögðu upp á kaffi og kakó, gos og fleira. Það er góð aðstaða hjá okkur að setjast niður og slaka á í salnum okkar og fá sér nýbakað bakkelsi. Sjón er sögu ríkari kæru Árbæingar, verið velkomin til okkar og við tökum mjög vel á móti ykkur,” segir Ingibergur Jón Sigurðsson.

Árbæjarbakarí er opið alla daga vikunnar. Opið er mánudaga til föstudaga klukkan 7:00 til 17:00, á laugardögum frá klukkan 7:40 til 16:00 og á sunnudögum er opið frá klukkan 8:10 til 16:00.
Árbæjarbakarí er með elstu verslunum í Árbæ og hefur í gegnum árin verið mjög vinsælt bakarí. Árbæingar hafa verið mjög ánægðir með nýja eigendur og allir íbúar hverfisins eiga að nýta sér það þegar úrvals fagfólk nemur land í hverfinu og versla í heimbyggð sem aldrei fyrr.