3 minute read

Um samstarf Hafrannsóknastofnunar við sjómenn og fiskiðnaðinn

Frá netaralli um borð í Saxhamri SH (Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir).

Frá upphafi hafrannsókna við Ísland hafa vísindamenn og sjómenn verið í margvíslegu samstarfi, báðum til hagsbóta. Eðlilega hefur samstarfið þróast og breyst í gegnum tíðina, en hvernig er því háttað í dag? Hér er ætlunin að gera stuttlega grein fyrir helstu samstarfsflötum í dag og mikilvægi þeirra, sem og fyrirhugaðum nýjungum um samstarf.

Eitt af meginverkefnum Hafrannsóknastofnunar er að gera mat á stærð nytjastofna og veita veiðráðgjöf á þeim. Stofnunin hefur fengið gagnrýni í gegnum tíðina fyrir að taka ekki tillit til fiskifræði sjómannsins við þá vinnu. Upplýsingar og gögn frá sjómönnum fara vissulega ekki inn í stofnmatslíkönin en eru engu að síður nýtt óbeint. Þannig eru skráningar sjómanna í rafrænar afladagbækur mikilvægar í að meta afla hverrar tegundar eftir veiðarfærum og svæðum. Þá safna sjómenn meðal annars sýnum af uppsjávarfisk úr afla á tilviljanakenndan hátt og koma til stofnunarinnar til úrvinnslu. Öll þessi gögn eru notuð til að ákvarða árlegan fjölda fiska í afla sem er grunnur alls stofnmats. Veiðiskip eru einnig notuð í stofnmatsleiðangra, annað hvort leigðir, til dæmis í togara- og netaröll eða sem framlag útgerða til rannsókna, svo sem við loðnumælingar og leit. Þessu utan er margvísleg gagnkvæm upplýsingagjöf, um aflabrögð, tegundaheiti, dreifingu tegunda og stöðu vistkerfisins, sem á sér stað sem gagnast báðum aðilum. Slík upplýsingagjöf á sér gjarnan stað með óformlegum hætti með samtölum milli aðila en einnig með formlegum hætti innan samráðshópa, t.d. um þorskrannsóknir og loðnurannsóknir.

Annarsskonar samvinna felst í gagnasöfnun við endurheimtur fiskmerkja og hefur verið í gangi í marga áratugi. Formið á því er með tvennum hætti. Útvortis númeruð fiskmerki og innvortis rafeindamerki, einkum frá botnfisktegundum, er safnað af sjómönnum eða fiskvinnslum og komið til Hafrannsóknastofnunar. Þá eru lítil rafeindamerki í makríl og norsk-íslenskri síld sem hafa að geyma númer endurheimt í sjálfvirkum rafeindaskönnum sem þrjú fiskvinnslufyrirtæki hafa komið upp í verksmiðjum sínum. Gögn frá

Leiðarlínur fimm skipa sem tóku þátt í loðnumælingum í janúar 2021 ásamt dreifingu hafíss.

endurheimtingum gefa margvíslegar upplýsingar svo sem um far, atferli, aldur og eru meðal annars nýtt beint í stofnmati á makríl.

Til viðbótar þessu má vænta nýrra samvinnuverkefna á komandi árum. Nýlega hófst verkefni innan Hafrannsóknastofnunar sem snýr að því að þróa verkferla og aðferðir til að nýta gögn frá bolfiskvinnslum í stofnmatsvinnu og rannsóknir. Tæknivæddustu bolfiskvinnslur landsins safna miklu af gögnum um lengd, þyngd og fleira frá aflanum sem kemur til vinnslu. Sama er að segja um mörg veiðiskip í flotanum. Með aðgengi stofnunarinnar að þessum gögnum fást viðameiri og nákvæmari upplýsingar um aflann með tillit til stærðarsamsetningu tegunda sem gagnast m.a. við mat á fjölda eftir aldri í afla. Innan þessa verkefnis verður einnig nýtt verklaga prófað og þróað við sýnatöku úr bolfiskafla fiskiskipa. Hugmyndin er að fá áhafnir ákveðinna veiðiskipa til að gera mælingar á fiski úr afla með rafeindamælibrettum og vogum, sem og að safna kvörnum til aldurslesturs seinna á Hafrannsóknastofnuninni. Fyrirmyndin af þessu er sótt til Noregs. Vonir eru bundnar við að þetta muni skila sér í betri sýnasöfnun.

Að framansögðu má vera ljóst að ýmisskonar samvinna er í gangi milli Hafrannsóknastofnunar og sjómanna og sjávarútvegsins í heild en tækifæri til eflingar hennar eru mörg. Hafrannsóknastofnun reiðir sig á þessa samvinnu, leggur áherslu á að viðhalda henni og mun áfram taka fagnandi öllum nýjum hugmyndum að slíku. Gagnkvæm upplýsingagjöf og samvinna eflir þekkingu okkar og skilning á nytjastofnum og vistkerfi hafsins auk þess að efla traust og virðingu milli aðila.

FISKMERKINGAR

Markmið og forsendur

• Að afla þekkingar á útbreiðslu og fari fiska • Skil á merkjum er forsenda þessara rannsókna • Sjómenn og starfsfólk í fiskvinnslum eru öflugir liðsmenn • Hvert endurheimt merki skiptir máli

Skil á merkjum

• Hægt er að senda allan fiskinn ef það hentar EÐA • Senda merki ásamt kvörnum til Hafrannsóknastofnunar

Fundarlaun

• Hafrannsóknastofnun greiðir fundarlaun fyrir fiskmerki sem notuð eru við rannsóknir º 2.000 kr. fyrir hvert hefðbundið slöngumerki º 10.000 kr. fyrir rafeindamerki º 5.000 kr. fyrir hverja heila merkta grásleppu sem skilað er til stofnunarinnar

Upplýsingar um fiskinn

• Tegund fisks • Lengd, kyn og kynþroski

Aðrar upplýsingar sem óskað er eftir

• Nafn skips og skipaskrárnúmer • Veiðidagur • Staðsetning veiðistaðar • Dýpi • Gerð veiðarfæris • Nafn, símanúmer og reikningsnúmer sendanda • Ef eitthvað af þessum upplýsingum vantar er samt mikilvægt að senda merkið • Það er aldrei of seint að skila endurheimtum merkjum. Ef þú ert með gamalt endurheimt merki, endilega sendu það inn