
1 minute read
Formáli
Á tímum örra loftslagsbreytinga eru norðurslóðir enn mikilvægari en áður fyrir alla heimsbyggðina. Íshella norðurskautsins, hitastig og sjávarstraumar í Norður-Íshafinu hafa mikil áhrif á bæði loftslag og veðurfar á suðlægari slóðum. Ísland tilheyrir norðurslóðum en á því landsvæði búa um 4 milljónir íbúa. Fyrir íbúa á norðurslóðum eru norðurslóðarannsóknir mikilvægt forgangsmál til að greina þær breytingar sem eiga sér stað og hvers vænta megi í framtíðinni. Að stunda norðurslóðarannsóknir er umfangsmikið verk sem mikilvægt er að framkvæma í öflugu alþjóðlegu samstarfi. Kortlagning norðurslóðarannsókna á Íslandi var unnin í samstarfi á milli Rannsóknamiðstöðvar Íslands – Rannís, Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðanets Íslands. Verkefnið var unnið með fulltingi styrks frá Vinnumálastofnun. Í tengslum við átak vegna sumarstarfa námsmanna voru þrír sumarstarfsmenn ráðnir til að vinna verkefnið, tveir hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og einn hjá Rannís. Tilgangur kortlagningarinnar er að kynna umhverfi og umfang norðurslóðarannsókna á Íslandi og stuðla með því að frekara alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi á þessu sviði. Skýrslan er jafnframt hugsuð sem innlegg í undirbúning Íslands, sem meðstjórnanda, fyrir þriðja fund vísindaráðherra sem hafa með málefni norðurslóða að gera (ASM3) og formennsku Íslands í nýju framtaki ASM, Arctic Funders Forum.
Skýrslan gefur yfirlit yfir þá aðila sem þjóna lykilhlutverki í stefnumótun á sviði norðurslóðarannsókna og í alþjóðlegu samstarfi. Þar að auki kynnir hún helstu aðila sem stunda norðurslóðarannsóknir á Íslandi, þ.á m. háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki, auk þess sem fjallað er um rannsóknarinnviði. Enn fremur er birt greining á innlendum og alþjóðlegum samkeppnissjóðum sem styðja við norðurslóðarannsóknir. Að lokum er fjallað um valin alþjóðleg norðurslóðaverkefni með íslenskri þátttöku og ýmsa aðila sem þjóna norðurslóðarannsóknum. Það er mín ósk að þessi skýrsla nýtist sem upplýsingamiðill fyrir upprennandi rannsakendur sem hafa hug á að stunda rannsóknir á málefnum norðurslóða.
Þessi skýrsla hefði ekki orðið að veruleika ef ekki væri fyrir framlag fjölda aðila og stofnana. Ég vil þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem leitað var til um upplýsingar um einstaka háskóla og aðrar rannsóknastofnanir sem fjallað er um. Sérstakar þakkir fá samstarfsaðilar verkefnisins, Níels Einarsson hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Embla Eir Oddsdóttir hjá Norðurslóðaneti Íslands, Gunnar Már Gunnarsson hjá Rannsóknaþingi norðursins í Háskólanum á Akureyri, auk Ásgerðar Kjartansdóttur og Lindsay Elizabeth Arthur hjá Mennta- og menningamálaráðuneytinu.
Að lokum vil ég þakka starfsmönnum verkefnisins, þeim Emil Ísleifi Sumarliðasyni, Santiago Villalobos og Sóleyju Ólafsdóttur, ásamt ritstjórum skýrslunnar, Agli Þór Níelssyni og Þorsteini Gunnarssyni.
Hallgrímur Jónasson, Forstöðumaður Rannís