
2 minute read
Framkvæmdastjóri hefur orðið
Nú heldur Sviðslistamiðstöðin brátt upp á þriggja ára afmæli sitt. Hún tók til starfa 1. febrúar 2022, þegar ég settist í stól framkvæmdastjóra. Miðstöðin var síðust í röð listgreinanna til að fá eigin miðstöð, og það tók tíma að leggja traustan grunn að starfseminni og byggja upp tengslanet innanlands sem utan.
Miðstöðin er rekin fyrir rekstrarstyrk frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en snemma varð ljóst að fjármagnið myndi aðeins duga fyrir einum starfsmanni – framkvæmdastjóranum. Þrátt fyrir þetta hefur okkur tekist, með öflugri og fjölbreyttri stjórn, að móta metnaðarfulla stefnu, setja fram skýr markmið og framkvæma aðgerðir sem styðja við sviðslistir á Íslandi.
Á þessum stutta tíma höfum við stutt yfir 50 sýningarferðir erlendis, þýtt tíu leikrit, ferðast með listafólk á hátíðir og markaði í Evrópu og Norður-Ameríku, haldið námskeið, birt viðtöl við tólf listamenn á Íslandi í bæði hlaðvarpsformi og greinaskrifum og eflt sviðslistafólk með fræðslu og þjálfun. Jafnframt höfum við unnið að því að standa vörð um hagsmuni sviðslistageirans í hvívetna – allt þetta með einum starfsmanni við stjórnvölinn.
Á nýju ári hyggjumst við halda áfram á þessari braut og bæta í. Við munum kynna nýja ferðastyrki fyrir innanlandsferðir, leggja sérstaka áherslu á að kynna íslensk leikskáld á alþjóðavettvangi og efla umræðu um sviðslistir með málþingum og öflugri útgáfu. Nýlega var undirritaður samningur um rekstur miðstöðvarinnar til næstu tveggja ára, og stefna okkar og aðgerðaáætlun verður endurskoðuð með hliðsjón af þeim áskorunum og tækifærum sem við sjáum framundan.
Sviðslistamiðstöðin er komin til að vera. Með nýja sviðslistastefnu fyrir Ísland, sem bíður þess að verða lögð fyrir þing, er ljóst að miðstöðin á eftir að vaxa og styrkjast enn frekar á komandi árum. Ég hlakka til að vinna áfram í þágu alls sviðslistafólks og sjá íslenskar sviðslistir blómstra.
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar Íslands




