2 minute read

Af hverju er ristilskimun ítrekað frestað?

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands: Af hverju er ristilskimun ítrekað frestað?

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins, 6. júní 2020, var skorað á heilbrigðisráðherra að setja þegar í stað fram tímasetta og fjármagnaða áætlun um að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi síðar á þessu ári.

Advertisement

Á ári hverju greinast að meðaltali um 185 einstaklingar með krabbamein í ristli og endaþarmi og um 70 manns látast af völdum sjúkdómsins, fleiri en einn í hverri viku.

Nýgengi fer vaxandi en þessi tegund krabbameina og forstig þeirra eru meðal fárra sem hægt er að greina með skimun. Ef hægt er að greina og meðhöndla forstig má koma í veg fyrir krabbameinin og ef þau greinast snemma eru mun meiri líkur á lækningu og meðferð við þeim minna íþyngjandi. Þrátt fyrir endurtekna umræðu, fyrirheit og áralangan undirbúning hafa heilbrigðisyfirvöld ekki hrundið skimuninni af stað.

Allt frá aldamótum hefur ristilskimun reglulega verið til umræðu á Alþingi, ályktað hefur verið um hana og veitt til hennar fjármagni. Sem dæmi má nefna að Alþingi fól heilbrigðisráðherra undirbúning sem skyldi leiða til

þess að skimunin hæfist árið 2008. Af því varð ekki og heldur ekki árið 2009 sem heilbrigðisráðherra lýsti þó yfir að stæði til. Með samkomulagi Krabbameinsfélagsins og velferðarráðuneytisins fór fram undirbúningur sem skyldi leiða til þess að skimunin hæfist haustið 2017 en stjórnvöld frestuðu því. Á fjárlögum síðustu þriggja ára hefur verið veitt fjármagni til verkefnisins en skimunin ekki hafin þrátt fyrir það.

Með samkomulagi velferðarráðuneytis og Krabbameinsfélagsins var unnið að undirbúningi ristilskimunar árið 2016, hannað kerfi til innköllunar, keypt greiningartæki, forritaðir gagnagrunnar og fleira.

Embætti landlæknis var falið að skilgreina markhópinn og aðferðir. Mælt var með skimun fyrir blóði í hægðum annað hvert ár hjá 60-69 ára. Greindist blóð yrði ristilspeglun framkvæmd í framhaldinu.

Halla Þorvaldsdóttir

Lagt var til að stækka markhópinn í 50-74 ára ef vel gengi.

Með samkomulaginu voru lagðar 45 milljónir í verkefnið, þar af 20 milljónir frá Krabbameinsfélaginu. „Það er ótrúlegt að ekki skuli hafa verið aðhafst í heil þrjú ár frá því fyrirhugað var að hefja skimunina. Ef skimunin hefði hafist upp úr 2008 eins og upphaflega var ráðgert hefði verið hægt að bjarga hluta þeirra sem létust á tímabilinu með því að grípa fyrr inn í framgang sjúkdómsins. Það má ekki leggja árar í bát því afar brýnt er að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi sem allra, allra fyrst. Málið hefur haft mjög víðtækan stuðning á Alþingi og engin leið að átta sig á hvar eða hvers vegna málið steytir sífellt á skeri. Það verður að hefja þessa skimun og þar verða stjórnvöld að láta verkin tala,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

This article is from: