2 minute read

FRÁBÆR ÁRANGUR HJÁ KEFLVÍKINGUM

7.flokkur kvenna – A riðill Stúlkurnar okkar í 7. flokki kvenna kepptu á sinni úrslitatúrneringu í Bluehöll helgina 22.-23. apríl en 7.-8. flokkur spilar á túrneringum yfir veturinn þar sem liðin vinna sig upp og niður eftir árangri á hverri túrneringu.

7. flokkur kvenna hefur vermt 1. – 2. sætið í allan vetur til skiptis við lið Stjörnunnar. Það var því ljóst að úrslitaleikur lokatörneringarinnar yrði æsispennandi þar sem bæði lið Keflavíkur og Stjörnunnar höfðu unnið alla sína leiki yfir helgina.

Advertisement

Stúlkurnar okkar voru óheppnar og hittu illa í byrjun leiks, mótherjinn náði 10 stiga forystu í fyrri hálfleik. Keflavíkurstúlkur unnu upp þann mun í seinni hálfleik með frábærri vörn og þegar þrjár mínútur voru til leiksloka munaði aðeins 4 stigum á liðunum. Þrátt fyrir mikla baráttu endaði leikurinn 31-27 mótherjanum í vil og okkar stúlkur nældu í silfrið þennan veturinn. Frábær árangur engu að síður hjá okkar stúlkum og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn.

9. flokkur drengja – 1.deild Drengirnir okkar í 9. flokki spiluðu um Íslandsmeistaratitil á úrslitahelgi yngri flokka sem haldin var í Blue-höll. Mótherjinn var gríðalega sterkt lið Stjörnunnar sem hafði unnið alla sína leiki örugglega yfir veturinn og ljóst að strákarnir okkar þyrftu að gefa allt sitt í leikinn.

Þeir mættu heldur betur til leiks og byrjuðu leikinn betur, Stjarnan náði þó forystu í lok fyrsta leikhluta. Með mikilli baráttu og trú á verkefninu náðu okkar strákar að minnka muninn og þegar einungis 30 sekúndur voru eftir af leiknum höfðu þeir minnkað muninn í 2 stig.

Eftir æsispennandi lokasekúndur þar sem bæði lið áttu möguleika á að landa sigri hafði Stjarnan betur og strákarnir okkar fengu silfrið um hálsinn. Það er þó öllum ljóst að strákarnir okkar spiluðu frábærlega og geta verið stoltir af árangri vetrarins. Innilegar hamingjuóskir.

10. flokkur stúlkna – 1.deild

Keflavíkurstúlkurnar í 10. flokki kvenna áttu fyrsta leikinn á úrslitahelgi yngri flokka sem haldin var í Blue- höllinni á móti Stjörnunni. Barátta þessara tveggja liða hefur verið erfið fyrir okkar stúlkur í gegnum tíðina og hefur okkar lið verið silfurhafar síðustu ár. Þrátt fyrir það mættu stelpurnar klárar í leikinn og ákveðnar í að gefa allt í þennan leik.

Sigur mótherjans var því miður aldrei í hættu og fengu okkar stúlkur silfrið þennan veturinn þegar leikurinn endaði 97-58 mótherjanum í vil. Það er þó alveg ljóst að stelpurnar okkar eru með frábært lið og margar mjög efnilegar, sem dæmi eru 7 landsliðstúlkur í hópnum og verður spennandi að fylgjast með þessu liði áfram næsta vetur. Innilega til hamingju með árangurinn, stelpur.

Ungmennaflokkur kvenna

Keflavík sigraði sameiginlegt lið Vals/KR í úrslitaleiknum um Íslandsmeistartitilinn 69 – 66 á heimavelli og enduðu með gullið um hálsinn og bikar í hönd.

Valur/KR byrjuðu leikinn betur með góðri vörn og öguðum sóknarleik. Staðan í hálfleik var 39 – 31 fyrir Val/KR. Keflavíkurstelpurnar létu það ekki á sig fá og mættu ákveðnar til leiks í þriðja leikhluta. Þær spiluðu frábæra vörn. Sóknin var ekki síðri en vörnin á þessum tímapunkti í leiknum og þarna lögðu Keflvíkurstúlkur grunninnn að sigrinum en þær skoruðu 22 stig gegn 11 stigum Vals/KR. Erna Ósk endaði leikinn með 21 stig og var valin kona leiksins og óskum við henni innilega til hamingju ásamt öllum stúlkunum með Íslandsmeistaratitilinn.

UNGMENNAFLOKKUR KVENNA